Fjárlög 2012

Þriðjudaginn 06. desember 2011, kl. 14:37:19 (2555)


140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er mikið mál að fara í framkvæmdir við verkefni sem kostar þær fjárhæðir sem liggja undir í byggingu þessa fangelsis. Ég þekki ekkert fyrri sögu þess máls og er heldur ekki inni í einhverjum faglegum þáttum sem allsherjarnefnd þingsins hefur verið með í vinnslu varðandi fangelsisbyggingar. Ég hef einbeitt mér að því að horfa á þetta út frá sjónarhóli fjárlaganefndar sem á að horfa til fjármögnunar og tryggja hana með einhverjum hætti fyrir þetta dæmi. Þess vegna eru athugasemdir mínar við verkefnið þær sem greindi í ræðu minni.

Af því að hv. þingmaður spyr hver sé afstaða einstakra þingmanna til þess hvaða leið eigi að fara við framkvæmd sem þessa er afstaða mín mjög afdráttarlaus, ég hef alla tíð þegar ég hef verið í forsvari fyrir opinbera sjóði, sérstaklega þegar ég var í sveitarstjórnarmálum og sem bæjarstjóri, verið á móti og aldrei viljað fara þá leið sem kölluð hefur verið einkaframkvæmd. Ég var afdráttarlaust þeirrar skoðunar og af einni ástæðu, að hinn sameiginlegi sjóður sveitarfélagsins, þá í þessu tilfelli ríkisins, mundi alltaf hafa betri vaxtakjör en einkaaðili á markaði. Það þýðir bara lægri kostnað fyrir íbúana sem greiða í þennan sameiginlega sjóð.

Ef við ætlum hins vegar að fara einkaframkvæmdaleiðina getum við náð fram lægri kostnaði í gegnum hönnunina á byggingunni sem einkaaðilinn ætlar að reka því að það vill oft vera þannig að ef einkaaðili byggir verður byggingarkostnaðurinn lægri en hjá opinberum aðilum. En í grunninn er ég þeirrar skoðunar að það muni enginn keppa (Forseti hringir.) hvorki við ríkissjóð né sveitarsjóð um fjármögnun einstakra framkvæmda varðandi vaxtastig.