Fjárlög 2012

Þriðjudaginn 06. desember 2011, kl. 21:41:16 (2633)


140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins áfram um tekjuhliðina, fyrir afgreiðslu fjárlaga fáum við nýjar þjóðhagsforsendur frá þeim sérfræðingum sem við höfum sett til þeirra verka, sem er Hagstofa Íslands. Sérfræðingar hennar koma fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og fara í gegnum mat sitt á þeim breytingum sem orðið hafa í efnahagsstarfsemi frá því í sumar og hvaða áhrif þær hafi á spár þeirra um hagþróun á komandi ári og síðan hvaða áhrif það hefur aftur á tekjuhlið fjárlaganna. Tekið er tillit til þess í þeim breytingum sem gerðar eru á frumvarpinu á milli umræðna. Það varð einfaldlega niðurstaða þeirrar umfjöllunar að sú spá sem þar liggur fyrir og þau gögn sem menn hafa við að styðjast á þessum tímapunkti séu trúverðug um horfurnar fyrir næstu árin. Auðvitað ganga spár um hagþróun eðli málsins samkvæmt ekki nauðsynlega eftir og þess vegna er alltaf ákveðin óvissa þegar menn afgreiða fjárlagafrumvarp.

Hitt, að hér eru óafgreidd þrjú frumvörp sem lúta að tekjuhliðinni, er með sama hætti og verið hefur, a.m.k. undanfarin ár. Ráðstafanir í ríkisfjármálum hafa eftir langri venju hygg ég verið afgreiddar í kjölfar afgreiðslu fjárlaga. Þar geta auðvitað orðið breytingar á en þær eru ekki þess eðlis að þær muni hafa áhrif á þær tekjur sem þessi frumvörp skila, það treysti ég mér til að fullyrða. Tekjunum munu þau skila (Forseti hringir.) þó að þær kunni að taka breytingum innbyrðis eða að formi til eða útfærslu. Efnahags- og viðskiptanefnd hefði auðvitað gert viðvart (Forseti hringir.) um það áður en til lokaafgreiðslu fjárlaga kæmi ef til stæði að draga úr tekjunum (Forseti hringir.) þannig að verulega næmi.