Fjárlög 2012

Þriðjudaginn 06. desember 2011, kl. 22:20:05 (2638)


140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessum tíðindum um landshlutaskógræktina og finnst það gott, það er þó alla vega viðleitni þó að eftir standi eftir sem áður 40% niðurskurður.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um bírókratana sem væru sendir til Grikklands og Ítalíu hef ég líka orðið var við það að ístöðulitlir þingmenn í stjórnarliðinu — og á ég ekki við neinn þeirra sem hér er inni, svo ég taki það bara strax fram — hafa stundum skotið sér á bak við bírókrata. Þeir koma að vísu ekki frá ESB, þeir koma frá Washington og heita Alþjóðagjaldeyrissjóður. Ég veit ekki hversu marga fundi ég hef setið þar sem þingmenn stjórnarliðsins hafa verið og sagt okkur frá því að ekki sé hægt að gera þetta og ekki hitt vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn slái alltaf á puttana á mönnum.

Ég tek alveg undir það að auðvitað stóðum við frammi fyrir því eftir hrunið 2008 að þurfa að skera niður, vitaskuld var það þannig. Við stóðum frammi fyrir því, sem þá vorum í ríkisstjórn, árið 2008, um haustið, að gera tillögur um niðurskurð, gerðum þær tillögur. Því var að vísu mjög harðlega mótmælt, m.a. af núverandi hæstv. fjármálaráðherra. En það er bara þannig að auðvitað standa menn frammi fyrir þessu. En þá skiptir líka mjög miklu máli að menn reyni að vanda sig. Það getur vel verið að hægt sé að horfa í gegnum fingur sér með fyrstu tilraunina haustið 2009 en ekki þegar það endurtekur sig 2010 og aftur þegar það endurtekur sig árið 2011 að menn komi með hugmyndir að niðurskurði í til að mynda velferðarmálunum — þá er ég að vísa til heilbrigðismálanna sem ég gerði að umtalsefni — sem greinilega standast ekki, ganga ekki upp. Og þegar við fáum hér í hendurnar plagg sem kemur fram tveimur mánuðum eftir að fjárlagafrumvarpið er lagt fram sem segir okkur að 1/3 af tillögunum í viðkomandi heilbrigðisstofnun séu ófærar tillögur, 1/3 hæpnar tillögur, þá get ég ómögulega hælt slíkum vinnubrögðum.