Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 08. desember 2011, kl. 11:24:22 (2842)


140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[11:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Við fengum kynningu á þessu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og gott ef það var ekki sent til umsagnar líka, sem mér fannst sjálfsagt til að vinna hlutina eins vel og skipulega og mögulegt er. Ég man þó eftir því þegar þetta var einu sinni gert. Þá vissi ég ekki hvert þáverandi hv. stjórnarandstaða ætlaði undir forustu núverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Þetta þótti fullkomin hneisa. Ég man ekki hin stóru orð sem voru nefnd í því sambandi en hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fór mikinn í því máli. Það er ágætt þegar menn skipta um skoðun og að við séum tilbúin að vinna málin skynsamlega.

Það kom hins vegar strax upp álitaefni í stuttri umfjöllun nefndarinnar, þegar menn töluðu um listaverkin, um hvað ætti að vera þar og hvað ekki. Menn veltu fyrir sér hvort hljóðlistaverk og annað slíkt ætti heima þarna, gjörningar ýmsir og allra handa listaverk sem nefndarmenn veltu upp. Menn fengu í sjálfu sér engin svör og það er kannski vandinn við undanþáguákvæði að endalaust er hægt að prjóna við þau og erfitt að sjá fyrir alla hluti.

Ég hef verið að velta fyrir mér, því að manni finnst alltaf verið að vinna að málum á síðustu stundu og bjarga hlutum fyrir horn, en það sjónarmið kom fram frá fulltrúum ráðuneytisins, hvort það væri ekki í mörgum tilfellum mun hagstæðara fyrir listamenn að vera virðisaukaskattsskyldir vegna þess að mörg listaverka þeirra útheimta mikil efniskaup sem listamenn þurfa að greiða virðisaukaskatt af en fá ekki innskattinn af. Ég þekki ekki í hörgul hvernig það er, en það sem ég velti fyrir mér og er kannski ágætt að fá svör hæstv. ráðherra við er hvort farið hafi verið í einhverja vinnu við að skoða þessa hluti í heild sinni.

Ég held að það geti ekki verið markmiðið að vera með margar undanþágur og flækja mikið skattkerfið, sama hvort það er virðisaukaskattskerfið eða annað. Ég hef að vísu orðið var við að hæstv. ríkisstjórn finnst það í besta falli í lagi og kannski markmið að hafa flókið skattkerfi. Við höfum séð hvernig breytingarnar á skattkerfinu hafa verið frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Ég held að skattalagabreytingarnar séu 140 talsins. Þá er ég ekki að tala um að þetta snúist bara um að hækka skatta heldur að breyta líka skattkerfinu. Ég mundi ætla að það væri mjög gott, virðulegur forseti, ef við gætum komist að þeirri niðurstöðu að við værum sammála um að vera ósammála um það hversu háir skattar eiga að vera en sammála um að hafa einfalt skattkerfi.

Í efnahags- og viðskiptanefnd fann ég loksins þá aðila sem hafa fengið meira að gera, ef þannig má að orði komast. Í starfsemi viðkomandi starfsgreinar hefur komist enn meiri kraftur. Ég fann eina starfsgrein sem þannig er fyrirkomið. Í henni starfa endurskoðendur sem sjá um bókhald og annað slíkt. Skattalögunum hefur verið breytt ótt og títt og núna til dæmis eru nokkrir dagar til þinghlés og við höfum ekki hugmynd um hvaða skattar verða lagðir hér á um áramótin og hvernig þeir verða framkvæmdir. Ég fullyrði það vegna þess að ég sit í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þar erum við að fara yfir öll þau vandamál sem hafa komið fram þegar rýnt er í skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar sem komu seint inn og augljóslega ekki vel ígrunduð.

Ég mælist til þess sama hvar menn eru í stjórnmálum og hvet hv. stjórnarliða einnig til að velta því að minnsta kosti fyrir sér hvort það sé ekki markmið í sjálfu sér að hafa skattkerfið einfalt. Það getur ekki verið markmiðið, sama hve góðir einstaklingar eru í endurskoðunarstétt og það sem þeir vinna, (Gripið fram í: Þeir eru í vinnu.) að auka starfsemina hjá þessum ágætu aðilum. Það getur ekki verið markmiðið að sá sem fer í rekstur eða rekur eigið heimili þurfi að fá sérfræðiaðstoð til að fylla út skattframtalið sitt. Það getur ekki verið markmiðið, en það er það sem hefur gerst.

Við þekkjum það líka að ein af ástæðum undanskota frá skatti er flókið skattkerfi. Ég efast ekkert um að oft hefur fólk hreinlega gert mistök, það hefur ekki ætlað að vera með undanskot frá skatti en út af flóknum reglum hefur niðurstaðan orðið sú. Þegar upp er staðið græðir nefnilega enginn á flóknu skattkerfi, nema kannski þeir sem vilja ekki fá þessi störf því að það kom alveg skýrt fram hjá endurskoðendum og öðrum að þeir hefðu ekki áhuga á að fá verkefni sem þessi þar sem menn hafa áhyggjur af því að þeir fylgi ekki réttum reglum út af flækjustiginu og skilja illa nýja skatta sem lagðir eru á. Ég held að þetta sé bara eitt afsprengi af því. Þetta frumvarp er að minnsta kosti ekki til einföldunar.

Ég held að vísu að 7. gr. frumvarpsins hafi virkað vel, að endurgreiða virðisaukaskatt af endurbótavinnu við húsnæði. Það eitt og sér hefur frekar hjálpað til, en í það heila væri óskandi að við værum sammála um að vera ósammála um hversu háir skattar eiga að vera á Íslandi en gætum orðið sammála um að hafa einfalt skattkerfi. Það væri til mikilla hagsbóta fyrir þjóðina og efnahagslífið.