Niðurstöður loftslagsráðstefnu í Durban

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 13:51:39 (2974)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

niðurstöður loftslagsráðstefnu í Durban.

[13:51]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Lokið er 17. loftslagsráðstefnunni í Durban í Suður-Afríku og niðurstöðurnar eru bæði vondar og góðar. Þær eru vondar því að ekkert gerðist nema að stigið var eitt hænufet eins og hæstv. umhverfisráðherra sagði ágætlega í útvarpinu í gær, en góðar vegna þess að enginn bjóst við neinu. Þetta er svona eins og í kosningum sem við þekkjum, að menn hafa að vísu tapað í atkvæðagreiðslunni en unnið skoðanakannanirnar.

Það hænufet sem þó var stigið fólst í því að menn einsettu sér að komast að samkomulagi síðar, árið 2015. Nú er spurning hvort það verður of seint, sumir segja það, að við getum í raun og veru ekki lengur staðið við fyrirheitið um 2° hækkun sem veldur feikilegum breytingum og hörmungum og verðum nú að — þegar ég segi við á ég við mannkynið — reyna að hemja okkur við 3°. Hins vegar tókst það að flest þau ríki sem staðið hafa að Kyoto-bókuninni ætla sér að framlengja hana. Ekki hafði það fyrr verið sagt en sjálfstæðisflokkurinn í Kanada ákvað að draga það land út úr því samstarfi.

Spurningin sem blasir við okkur á þinginu og við ættum að ræða [Kliður í þingsal.] — ja, sjálfstæðisflokkarnir í ýmsum löndum gera ýmislegt. Sjálfstæðisflokkurinn í Kanada dregur sig út úr samstarfinu um loftslagsmál og sjálfstæðisflokkurinn í Bretlandi dregur sig út úr sjálfsagðri samvinnu um efnahagsmál, nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi að segja okkur hvað hann ætlar að gera í þessu. En augljósu spurningar eru þessar: Hvernig blasir þetta við Íslandi? Hver eru næstu skref okkar í Kyoto-bókuninni og hvernig gengur sú loftslagsáætlun sem við (Forseti hringir.) samþykktum hér í fyrra?