Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 20:17:16 (3165)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Fyrst aðeins varðandi skattana. Mér finnst mjög mikilvægt að koma því til skila hér að málflutningur okkar í Sjálfstæðisflokknum hefur frá upphafi þessa kjörtímabils verið sá að það væri stórhættulegt að hækka skattana. Það er oft sagt að við höfum talað fyrir því alveg frá 2008 að brýnt væri að lækka alla skatta í landinu. Við höfum fyrst og fremst talað fyrir því að viðhalda því skattkerfi sem var við lýði og hækka ekki öll gjöld og skatta með þeim hætti sem gert hefur verið, það væri hættulegt.

Hv. þingmaður rekur hér að það sé álit margra sérfræðinga að það dragi ekki svo mjög úr efnahagsumsvifunum að hækka þá eitthvað eftir krísu eða kreppu eins og þá sem við erum að ganga í gengum, en það er alveg öruggt að skattahækkanir örva ekki hagkerfið. Ef við horfum til þess sem örvar hagkerfið mest af öllu, meira en skattalækkanir, þá er það fjárfesting, ný fjárfesting. Þar höfum við verið í alveg sérstökum vandræðum og augljóst að ríkisstjórninni hefur gjörsamlega mistekist á þessu kjörtímabili. Tillögur okkar miða að því að stórauka fjárfestinguna og það er ekki hægt að taka einhverja einstaka þætti út úr heildarsamhenginu í efnahagstillögum okkar í þeim efnum.

Ég vil aðeins koma inn á iðgjaldagreiðslurnar. Ég veit ekki hvort ég skildi hv. þingmann rétt en mér fannst birtast þar sú hugsun að ríkið ætti kannski að taka yfir lífeyrisskuldbindingarnar í auknum mæli. Með því að við draga úr iðgjaldagreiðslunum mundu raunlaunin aukast og það mundi skila sér í skatttekjum sem gerði ríkinu betur kleift að takast á við öldrun þjóðarinnar. Það væri þá einhvers konar brotthvarf frá sjóðamynduninni sem við höfum verið að vinna að. Ég hef verið talsmaður þess að (Forseti hringir.) byggja upp lífeyrissjóði, en ég veit samt ekki hvort ég skildi hv. þingmann rétt.