Almannatryggingar o.fl.

Laugardaginn 17. desember 2011, kl. 12:06:51 (3613)


140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[12:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er undarlegt að standa í þeim sporum að þurfa að fylgja eftir þeim loforðum sem ríkisstjórnin hefur veitt aðilum vinnumarkaðarins, öldruðum og öryrkjum um hækkun á bótum þeirra. Þess vegna er ansi sérkennilegt að sjá, þegar hv. þm. Eygló Harðardóttir leggur fram breytingartillögu þess efnis að ríkisstjórnin standi nú við loforð sín í þeim efnum, hversu margir greiða atkvæði gegn þeirri breytingartillögu um að bæta kjör þeirra sem hvað lægstar tekjurnar hafa í samfélaginu.

Þar erum við að ræða um alla ríkisstjórnina og líka hluta stjórnarandstöðunnar sem veldur mér miklum áhyggjum. Það er alveg ljóst að kjör aldraðra og öryrkja munu samkvæmt þessu frumvarpi ekki batna á næsta ári heldur skerðast. Það er ótrúlegt að sjá hvernig Alþingi Íslendinga greiðir atkvæði í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)