Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 203. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 208  —  203. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á varnarmálalögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ásbjörn Óttarsson,
Kristján Þór Júlíusson, Jón Gunnarsson, Björgvin G. Sigurðsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Róbert Marshall.


Breyting á varnarmálalögum, nr. 34/2008, með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 21. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal greiða fasteignaskatt af mannvirkjum við ratsjárstöðvar á Miðnesheiði, á Stokksnesi, á Gunnólfsvíkurfjalli og á Bolafjalli.

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við c-lið 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skulu mannvirki við ratsjárstöðvar á Miðnesheiði, á Stokksnesi, á Gunnólfsvíkurfjalli og á Bolafjalli ekki vera undanþegin fasteignaskatti.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 139. löggjafarþingi (þskj. 633, 398. mál).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða ratsjárstöðvar þær sem utanríkisráðherra annast umsjón með skv. 12. gr. varnarmálalaga, nr. 34/2008, og eru staðsettar á Miðnesheiði, á Stokksnesi, á Gunnólfsvíkurfjalli og á Bolafjalli.
    Á grundvelli 21. gr. varnarmálalaga eru öryggis- og varnarsvæði, ásamt mannvirkjum íslenska ríkisins, Atlantshafsbandalagsins eða Bandaríkjanna þar, og starfsemi þeim tengd, undanþegin öllum opinberum gjöldum, þ.m.t. fasteignasköttum. Með frumvarpinu er lagt til að þrátt fyrir hina almennu undantekningu verði greiddur fasteignaskattur af mannvirkjum við ratsjárstöðvarnar. Er gert ráð fyrir breytingu hvað þetta varðar bæði á varnarmálalögum og á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem kveðið er á um fasteignaskatta.
    Talsverðar breytingar hafa orðið á starfsemi ratsjárstöðvanna í landinu. Uppbygging þeirra út um landið var á sínum tíma fjármögnuð af Mannvirkjasjóði NATO og störfuðu við þær til skamms tíma um 10–12 menn jafnt á Bolafjalli, Stokksnesi og Gunnólfsvíkurfjalli. Í árslok 2004 var tekin ákvörðun um gjörbreytingu á rekstri stöðvanna. Nú er starfseminni að mestu stýrt frá Keflavíkurflugvelli en örfáir starfsmenn annast daglegt eftirlit á hverri stöð.
    Við brottför varnarliðsins í september árið 2006 tóku bandarísk stjórnvöld að sér að kosta rekstur ratsjárstöðvanna um eins árs skeið. En frá og með 1. september 2007 hefur reksturinn verið á hendi íslenskra stjórnvalda, fyrst Ratsjárstofnunar og síðar Varnarmálastofnunar. Landhelgisgæsla Íslands hefur nú tekið við rekstri ratsjárstöðvanna.
    Með því að íslensk stjórnvöld annast nú rekstur ratstjárstöðvanna hníga engin rök lengur að því að undanþiggja þær greiðslu fasteignaskatta. Hér er því lagt til að um þau gildi sams konar reglur að þessu leyti eins og aðra atvinnustarfsemi.