Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 229. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 235  —  229. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009.

Flm.: Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari, Lilja Mósesdóttir.


1. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnarmenn og forstjóri skulu hafa menntun á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu og starfsreynslu á fjármagnsmarkaði. Þeir skulu hafa trausta þekkingu og reynslu af starfsemi fjármálafyrirtækja sem og þekkingu á góðum stjórnarháttum fyrirtækja. Gæta skal þess við skipun stjórnar að starfsreynsla og menntun stjórnarmanna sé sem fjölbreyttust.
    Stjórnarmenn og forstjóri skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Stjórnarmenn og forstjóri skulu ekki vera stjórnendur, starfsmenn, endurskoðendur, lögmenn eða tryggingastærðfræðingar aðila sem eru eftirlitsskyldir skv. 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Stjórnarmenn og forstjóri skulu ekki taka þátt í meðferð máls sem varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hluti í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku í meðferð máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Þá skulu þeir ekki sinna öðrum störfum á fjármálamarkaði í þrjú ár eftir að þeir láta af störfum fyrir Bankasýsluna.
    Stjórnarmenn og forstjóri mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að sinna þeim verkefnum sem felast í starfsemi Bankasýslu ríkisins. Við mat á hæfni þeirra skal horft til orðspors þeirra úr atvinnulífi og/eða stjórnsýslu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 6. gr. laga um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009. Lögin voru samþykkt á Alþingi 11. ágúst 2009. Flutningsmenn telja að styrkja megi þær kröfur sem gerðar eru til stjórnarmanna og forstjóra í lögunum og miðar þetta frumvarp að því. Benda má á að þegar lögin voru samþykkt hafði skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis ekki komið út og lögum um fjármálafyrirtæki hafði enn ekki verið breytt, sbr. lög nr. 75/2010, þar sem gerðar voru margþættar breytingar, m.a. á hæfisskilyrðum í 52. gr. sem og á ákvæðum sem lúta að orðspori þeirra sem hyggjast auka við eignarhlut sinn eða eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki.
    Þær breytingar sem frumvarp þetta felur í sér miða að því að ákvæðið, sem mælir fyrir um hæfnisskilyrði forstjóra og stjórnarmanna stofnunarinnar, verði gert ítarlegra. Breytingarnar sem lagðar eru til eru eftirfarandi: Lagt er til að stjórnarmenn og forstjóri skuli hafa menntun á háskólastigi en í gildandi ákvæði er kveðið á um að þeir hafi haldgóða menntun. Þá er lagt til að þeir skuli búa yfir víðtækri þekkingu og starfsreynslu á fjármagnsmarkaði auk þekkingar og reynslu af starfsemi fjármálafyrirtækja. Áfram verði miðað við að þekking og reynsla stjórnarmanna og forstjóra sé sem fjölbreyttust og að þeir hafi þekkingu á góðum stjórnarháttum fyrirtækja. Ekki er í frumvarpinu hróflað við ákvæði 2. mgr. um lögræði og gjaldþrot eða dóm vegna brota gegn ákveðinni löggjöf sem snertir atvinnurekstur.
    Lagt er til að við greinina bætist tvær nýjar málsgreinar auk þess sem nokkrar breytingar eru lagðar til á 3. mgr. Lagt er til að við bætist ákvæði þess efnis að stjórnarmenn og forstjóri skuli ekki vera stjórnendur, starfsmenn, endurskoðendur, lögmenn eða tryggingastærðfræðingar aðila sem eru eftirlitsskyldir skv. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þá er lagt til að við bætist ákvæði þess efnis að stjórnarmenn megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem veldur efa um hæfni þeirra til að sinna þeim verkefnum sem felast í starfsemi Bankasýslu ríkisins. Þá skuli horfa til orðspors þeirra úr atvinnulífi og/eða stjórnsýslu. Hér er um matskennd viðmið að ræða en flutningsmönnum finnst afar mikilvægt að tekið sé tillit til orðspors enda er það mikilvægur þáttur í uppbyggingu trausts á fjármálamarkaði á nýjan leik.
    Lagðar eru til breytingar á 3. mgr. 6. gr. um hagsmunaárekstra sem miða að því að gera ákvæðið ítarlegra. Lagt er til að stjórnarmenn og forstjóri skuli ekki taka þátt í meðferð máls sem varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hluti í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku í meðferð máls sem varðar aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Þá er lagt til að forstjóri og stjórnarmenn Bankasýslunnar geti ekki starfað á fjármálamarkaði í þrjú ár eftir að þeir láti af störfum fyrir Bankasýsluna enda búi þeir yfir upplýsingum sem geta verið afar viðkvæmar fyrir önnur fjármálafyrirtæki út frá markaðslegum sjónarmiðum. Þetta er lagt til svo að vitneskja sem forstjóri eða stjórnarmenn búa yfir vegna starfa sinna hjá Bankasýslu ríkisins verði ekki nýtt á fjármálamarkaði fyrir aðra aðila en stofnunina.
    Þær breytingar sem felast í frumvarpinu byggjast m.a. á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um fjármálafyrirtæki.