Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 375. máls.

Þingskjal 451  —  375. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn
mengun hafs og stranda, með síðari breytingum
(mengunarvarnaráð hafna og bráðamengun).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    5. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Hafnarsvæði: Umráðasvæði á sjó og landi sem hafnaryfirvöld á hverjum stað annast og skilgreint er í hafnalögum og hafnarreglugerðum og sá hluti strandar sem skilgreindur er sem hafnarsvæði samkvæmt aðalskipulagi á hverjum stað.

2. gr.

    T-liður 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: varnir og viðbrögð við bráðamengun, flokkun hafna og nauðsynlegan mengunarvarnabúnað í hverri höfn eða flokki hafna sem og rekstur og notkun hans, upplýsingaskyldu, skyldu eftirlitsaðila til samvinnu, viðbragðsáætlanir, stjórn á vettvangi, samkomulag stofnana, sbr. 14. gr., verkefni og verksvið mengunarvarnaráðs.

3. gr.

    13. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, orðast svo:

Mengunarvarnaráð hafna.


    Að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum skal ráðherra skipa sex fulltrúa í mengunarvarnaráð hafna til fjögurra ára í senn. Umhverfisstofnun tilnefnir tvo fulltrúa og er annar þeirra formaður ráðsins. Hafnasamband Íslands skal tilnefna þrjá fulltrúa og Samband íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa sem skal vera heilbrigðisfulltrúi. Þeir sem tilnefna fulltrúa í mengunarvarnaráð skulu bera kostnað vegna fulltrúa sinna í ráðinu.
    Hlutverk mengunarvarnaráðs hafna er:
     a.      að vera formlegur samstarfsvettvangur Umhverfisstofnunar og hafna um málefni sem varða viðbúnað og viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða,
     b.      að stuðla að samstarfi og samhæfingu milli hafna um viðbúnað, samræmingu viðbragðsáætlana og viðbragða við bráðamengun,
     c.      að gera tillögu til Umhverfisstofnunar um uppbyggingu og endurnýjun á mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins og
     d.      að koma með ábendingar og tillögur um innihald viðbragðsáætlana.

4. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tilkynningar um bráðamengun.

    Tilkynna skal um bráðamengun innan hafnarsvæðis til viðkomandi hafnarstjóra sem grípur til viðeigandi ráðstafana.
    Tilkynna skal um óhöpp á sjó utan hafnarsvæða til Landhelgisgæslu Íslands. Landhelgisgæslan kallar til vakthafandi aðila innan Umhverfisstofnunar sem gerir viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir.
    Mengunaróhöpp á landi skal tilkynna til viðkomandi slökkviliðs í samræmi við lög um brunavarnir.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      A-liður 1. mgr. orðast svo: Bráðamengun innan hafnarsvæða: Hafnarstjóri ber ábyrgð á að gripið sé til viðeigandi bráðaaðgerða til að hefta útbreiðslu og koma í veg fyrir frekara tjón vegna mengunarinnar. Hafnarstjóri tilnefnir vettvangsstjóra sem fer með stjórn á vettvangi. Hafnarstjóra ber að tilkynna Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd um bráðamengun strax og vart verður við hana. Eftir að bráðaaðgerðum lýkur getur hafnarstjóri óskað eftir því að heilbrigðisnefnd hafi umsjón með frekari hreinsun umhverfis. Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með bráðaaðgerðum og ákveður hvenær árangur af hreinsun er nægur. Hafnarstjóri getur kallað eftir aðstoð Umhverfisstofnunar telji hann ástæðu til. Telji Umhverfisstofnun nauðsyn á frekari aðgerðum er stofnuninni heimilt að hlutast til um þær.
     b.      B-liður 1. mgr. orðast svo: Bráðamengun utan hafnarsvæða: Við óhapp sem leiðir til eða getur leitt til bráðamengunar hafs og stranda utan hafnarsvæða skal Umhverfisstofnun gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist og annast stjórn á vettvangi. Umhverfisstofnun getur farið fram á að heilbrigðisnefnd fari á vettvang og meti umfang bráðamengunar og nauðsynlegar aðgerðir og tilkynni Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd eða öðrum aðilum í umboði stofnunarinnar umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar. Umhverfisstofnun, Siglingastofnun Íslands og Landhelgisgæsla Íslands skulu gera skriflega aðgerðaáætlun um aðkomu stofnananna og um framkvæmd einstakra verkþátta.
     c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ef umfang eða eðli mengunar er slíkt að ætla megi að almenningi stafi hætta af skal nota neyðarskipulag almannavarna.
     d.      5. mgr. orðast svo:
                  Heimilt er að fela slökkviliðsstjóra umsjón með mengunarvarnabúnaði og stjórn á vettvangi við bráðamengunaróhöpp með sérstökum samningi eða í einstökum tilvikum þegar við á.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Umhverfisstofnun skal sjá um gerð viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun Íslands og að höfðu samráði við ráðgjafaraðila, sbr. 5. gr.
     b.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Viðbragðsáætlanir skulu gerðar fyrir hverja höfn og skulu þær taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Hafnir skulu gera viðbragðsáætlun og senda Umhverfisstofnun til samþykktar.
                  Fyrir 1. mars ár hvert skulu hafnir skila til Umhverfisstofnunar uppfærðri viðbragðsáætlun.

7. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Hver höfn skal að lágmarki eiga og reka mengunarvarnabúnað í samræmi við flokkun hafnar og áhættumat hennar og eins og nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur.
Þó er heimilt að hafnir á tilteknu svæði eigi og reki slíkan mengunarvarnabúnað saman. Leita skal samþykkis Umhverfisstofnunar fyrir slíkri tilhögun áður en hafnir gera samning sín á milli.
    Umhverfisstofnun skal hafa yfir að ráða flytjanlegum mengunarvarnabúnaði til að takast á við bráðamengunaróhöpp utan sem innan hafnarsvæða eftir því sem þörf er á. Stofnunin sér um rekstur, endurnýjun og uppbyggingu mengunarvarnabúnaðarins. Umhverfisstofnun ákveður í samráði við mengunarvarnaráð hafna uppbyggingu og endurnýjun á nauðsynlegum mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins.
    Fyrir 1. mars ár hvert skulu hafnir skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um mengunarvarnaæfingar árið á undan, notkun mengunarvarnabúnaðar, mat á ástandi hans og þörf á endurnýjun, ásamt upplýsingum um bráðamengunaróhöpp sem orðið hafa í höfninni og hvernig við þeim var brugðist.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Orðin „og svæðisráðum“ og „og við starfsemi svæðisráða vegna mengunar“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „svæðisráðs og“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Að frumkvæði Hafnasambands Íslands hefur verið unnið að endurskoðun á skipulagi viðbragða vegna bráðamengunaróhappa innan hafnarsvæða. Í framhaldi af fundi umhverfisráðuneytisins með fulltrúum Hafnasambands Íslands og Umhverfisstofnunar í byrjun árs 2007 þar sem þessi mál voru til umræðu fól ráðuneytið Umhverfisstofnun með bréfi hinn 30. apríl 2007 að stýra undirbúningsvinnu vegna framkominna tillagna hafnasambandsins um breytta skipan mála um aðgerðir og viðbrögð í höfnum vegna bráðamengunar. Niðurstaða samráðs Umhverfisstofnunar og fulltrúa hafnasambandsins var að styrkja bæri framkvæmdina og gera hana markvissari með því að leggja niður kerfi svæðisráða og skilgreina nánar ábyrgð og hlutverk einstakra hafna og hafnarstjóra og er gerð tillaga um það í lagafrumvarpi þessu.
    Mengunarvarnaráð hafna mun leysa af hólmi núverandi svæðisráð sem lögð verða niður. Svæðisráðin eru í dag fimm talsins og sitja þrír til fimm menn í hverju svæðisráði. Því er ljóst að ekki verður um aukinn kostnað sveitarfélaga að ræða vegna skipunar fulltrúa í mengunarvarnaráð hafna heldur verður kostnaður minni þegar til lengri tíma er litið vegna eins ráðs þar sem sitja sex fulltrúar í stað 15 til 25 í svæðisráðum eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Þannig má gera ráð fyrir að kostnaður sveitarfélaga af mengunarvarnaráði hafna verði lægri en kostnaður þeirra vegna svæðisráða samkvæmt núgildandi lögum. Einnig má gera ráð fyrir að vinnubrögð og viðbrögð við óhöppum verði markvissari þar sem Umhverfisstofnun getur stuðlað að samræmingu milli hafna í samráði við mengunarvarnaráð hafna.
    Þá eru lagðar til breytingar til samræmis við breytt viðhorf og þróun mála undanfarin ár, svo sem varðandi upplýsingagjöf og samstarf við slökkvilið á hverjum stað. Ákvæði í frumvarpinu þar um eru samhljóða niðurstöðu vinnuhópsins. Samhliða tillögum að lagabreytingar hefur verið unnið að drögum um endurnýjun á reglugerð um viðbrögð við bráðamengun sem stefnt er að setja verði frumvarp þetta að lögum.
    Frumvarpið felur fyrst og fremst í sér skipulagslega hagræðingu. Ástæðan fyrir því að lagt er til að kerfi svæðisráða verði aflagt er að það þykir veikt í framkvæmd og í ákveðnum tilfellum hefur skort á að haldnar séu nauðsynlegar æfingar, búnaður sé yfirfarinn og endurnýjaður. Þá hefur kerfið þótt frekar hafa hamlað notkun búnaðar en styrkt nauðsynlega notkun. Með frumvarpinu er betur tryggt að viðbrögð við óhöppum verði markvissari þar sem viðbragðsáætlanir skulu gerðar fyrir hverja höfn og Umhverfisstofnun skal samræma þær og samþykkja. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um lágmarksmengunarvarnabúnað sem skal vera tiltækur í hverri höfn og það verði skylda hverrar hafnar að eiga slíkan búnað og sjá til þess að honum sé viðhaldið og tilbúinn til notkunar þegar á reynir.
    Ráðuneytið hefur haft samráð við Hafnasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun við gerð þessa frumvarps og verið í sambandi við innanríkisráðuneytið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til í 5. tölul. 3. gr. að hafnarsvæði verði skilgreint sem umráðasvæði á sjó og landi sem hafnaryfirvöld á hverjum stað annast og skilgreint er í hafnalögum og hafnarreglugerðum og sá hluti strandar verði skilgreindur sem hafnarsvæði samkvæmt aðalskipulagi á hverjum stað. Tilgangurinn með þessari tillögu er að afmarka betur það svæði þar sem hafnarstjórar bera ábyrgð á viðbrögðum við bráðamengun, þ.e. mengun á sjó en ekki mengun á landi utan hafnarsvæðis sem tilgreint er á aðalskipulagi.

Um 2. gr.

    Gerð er tillaga um að settar verði ítarlegri heimildir í reglugerð, m.a. hvað varðar flokkun hafna, tiltækan mengunarvarnabúnað í hverri höfn eða flokki hafna, rekstur og notkun búnaðarins, upplýsingaskyldu, samvinnu eftirlitsaðila, viðbragðsáætlanir, stjórn á vettvangi og samkomulag stofnana um framkvæmd og stjórn á vettvangi. Því er lagt til að þessum atriðum verði bætt við t-lið 1. mgr. 6. gr., sem og ákvæði um að ráðherra geti kveðið nánar á í reglugerð um verkefni og verksvið mengunarvarnaráðs og flokkun hafna með hliðsjón af mengunarvarnabúnaði. Hafa skal samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um setningu reglugerðar.

Um 3. gr.

    Lögð er til breyting á 13. gr. laganna um mengunarvarnaráð hafna.
    Gerð er tillaga um að að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum skuli ráðherra skipa fulltrúa í mengunarvarnaráð hafna til fjögurra ára í senn. Lagt er til að tveir verði skipaðir samkvæmt tilnefningu Umhverfisstofnunar og að annar þeirra verði formaður ráðsins. Þá er lagt til að þrír fulltrúar verði skipaðir samkvæmt tilnefningu Hafnasambands Íslands og einn heilbrigðisfulltrúi skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að þeir sem skipa fulltrúa í mengunarvarnaráð beri kostnað vegna fulltrúa sinna í ráðinu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hlutverk mengunarvarnaráðs hafna, en það er fjórþætt. Í fyrsta lagi að vera formlegur samstarfsvettvangur Umhverfisstofnunar og hafna um þau málefni sem varða viðbúnað og viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða. Í öðru lagi að stuðla að samstarfi og samhæfingu milli hafna um viðbúnað, samræmingu viðbragðsáætlana og viðbragða við bráðamengun. Í þriðja lagi að gera tillögu til Umhverfisstofnunar um uppbyggingu og endurnýjun á bráðamengunarbúnaði í höfnum landsins og í fjórða lagi að koma með ábendingar og tillögur um innihald viðbragðsáætlana. Þannig getur Umhverfisstofnun stuðlað að samræmingu milli hafna í samráði við mengunarvarnaráð hafna.

Um 4. gr.

    Mikilvægt er að tilkynnt sé um bráðamengun til að hægt sé að bregðast við á viðeigandi hátt. Því er lagt til að á eftir 13. gr. komi ný grein, 13. gr. a, sem kveði á um tilkynningar um bráðamengun. Viðtakandi tilkynninga verði mismunandi eftir því hvar bráðamengun hefur orðið. Tilkynna skal um bráðamengun innan hafnarsvæðis til viðkomandi hafnarstjóra og skal hann grípa til viðeigandi ráðstafana. Tilkynna skal um óhöpp á sjó utan hafnarsvæða til Landhelgisgæslunnar sem kallar síðan til vakthafandi aðila innan Umhverfisstofnunar sem gerir viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir. Loks er tiltekið til skýrleika að tilkynna skuli mengunaróhöpp á landi til viðkomandi slökkviliðs í samræmi við ákvæði laga um brunavarnir. Skv. 16. gr. laga nr. 75/2000, um brunavarnir, fer slökkviliðsstjóri með stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi. Við þessi störf er löggæslulið og opinberir eftirlitsaðilar undir yfirstjórn slökkviliðsstjóra. Slökkviliðsstjóri skal tilkynna mengunaróhöpp til heilbrigðiseftirlits. Þá ber honum einnig að sjá um fræðslu slökkviliðsmanna og þjálfun þeirra í viðbrögðum við mengunaróhöppum

Um 5. gr.

    Í 5. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 14. gr. laganna.
    Lagt er til að í a-lið 1. mgr. verði kveðið á um bráðamengun innan hafnarsvæða og að ábyrgðarsvið og verkefni mismunandi aðila verði tiltekin með skýrum hætti. Lagt er til að hafnarstjóri beri ábyrgð á að gripið sé til viðeigandi bráðaaðgerða til að hefta útbreiðslu og koma í veg fyrir frekara tjón vegna mengunar sem verður innan hafna. Lagt er til að hafnarstjóri tilnefni vettvangsstjóra sem fari með stjórn á vettvangi. Hafnarstjóra ber að tilkynna Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd um bráðamengun strax og hennar verður vart. Heilbrigðisnefnd skal hafa eftirlit með bráðaaðgerðum og ákveða hvenær árangur af hreinsun er nægur. Gert er ráð fyrir því að eftir að bráðaaðgerðum lýkur geti hafnarstjóri óskað eftir því að heilbrigðisnefnd hafi umsjón með frekari hreinsun umhverfis enda ákveður nefndin hvenær hreinsun skuli lokið og eftir að bráðaatburðum er lokið er talið eðlilegra að viðbragðsaðilar bráðamengunar snúi aftur til sinna starfa. Lagt er til að hafnarstjóri geti kallað eftir aðstoð Umhverfisstofnunar telji hann ástæðu til. Að lokum er tilgreindur sá varnagli til verndar umhverfinu að telji Umhverfisstofnun nauðsyn á frekari aðgerðum sé stofnuninni heimilt að hlutast til um þær.
    Í b- lið 1. mgr. greinarinnar er fjallað um bráðamengun utan hafnarsvæða. Markmið með þeim ákvæðum er að skýra og afmarka nánar hlutverk og verkefni viðbragðsaðila. Við óhapp sem leiðir til eða getur leitt til bráðamengunar hafs og stranda utan hafnarsvæða er lagt til að Umhverfisstofnun geri viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir. Umhverfisstofnun beri ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist og annist stjórn á vettvangi. Lagt er til að breyta b-lið málsgreinarinnar þannig að þegar tilkynning berst um bráðamengun við strendur geti Umhverfisstofnun farið fram á að heilbrigðisnefnd fari á vettvang og meti umfang bráðamengunar og nauðsynlegar aðgerðir og tilkynni Umhverfisstofnun. Einnig er lagt til að Umhverfisstofnun verði heimilt að fela heilbrigðisnefnd eða öðrum aðilum í umboði stofnunarinnar umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar. Þá er lagt til að Umhverfisstofnun, Siglingastofnun Íslands og Landhelgisgæsla Íslands geri skriflega aðgerðaáætlun um aðkomu stofnananna og um framkvæmd einstakra verkþátta.
    Lagt er til að við 4. mgr. greinarinnar bætist nýr málsliður þar sem kveðið er á um að sé umfang eða eðli mengunar slíkt að ætla megi að almenningi stafi hætta af skuli nota neyðarskipulag almannavarna.
    Loks er lagt til að breyta 5. mgr. greinarinnar og kveða á um að heimilt sé að fela slökkviliðsstjóra umsjón með mengunarvarnabúnaði og stjórn á vettvangi við bráðamengunaróhöpp með sérstökum samningi eða í einstökum tilvikum þegar við á.

Um 6. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 18. gr. laganna sem fjallar um viðbragðsáætlanir.
    Lagt er til að í 2. mgr. verði kveðið á um að Umhverfisstofnun sjái um gerð viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun Íslands og að höfðu samráði við ráðgjafaraðila sem tilgreindir eru í 5. gr. laganna.
    Þá er lagt til að við greinina bætist tvær nýjar málsgreinar þar sem kveðið er á um að viðbragðsáætlun skuli gerð fyrir hverja höfn og skuli hún taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Hafnir skulu gera viðbragðsáætlanir og senda Umhverfisstofnun til samþykktar. Gerð er tillaga um að fyrir 1. mars ár hvert skuli hafnir skila til Umhverfisstofnunar viðbragðsáætlun sem hefur verið uppfærð.
    Í 13. gr. laga nr. 75/2000, um brunavarnir, er kveðið á um brunavarnaáætlun. Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir samþykkt brunavarnaráætlun. Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin með brunavarnalögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, en það eru m.a. verkefni á sviði mengunaróhappa á landi. Ljóst er að við gerð brunavarnaáætlana mun verða tekið mið af viðbragðsáætlunum skv. 18. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Um 7. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 19. gr. laganna. Lagt er til að í stað þess að svæðisráð reki búnað í eigu hafna innan marka þess verði viðeigandi búnaður rekinn af hverri höfn, þ.e. viðkomandi hafnarsjóði, og staðsettur þannig að hann sé tiltækur og fljótlegt verði að koma búnaðinum í notkun þegar þörf er á. Það er nærtækara að sérhver höfn eigi tiltekin lágmarksbúnað og sjái um viðhald og rekstur hans heldur en svæðisráð. Í núgildandi lögum er hlutverk svæðisráða m.a. umsjón, rekstur og viðhald búnaðar í eigu hafnanna innan marka þess. Með frumvarpinu er ekki verið að breyta þeirri meginreglu í núgildandi lögum að til staðar skuli vera mengunarvarnabúnaður í höfnum landsins heldur er verið að færa skyldu á umsjón og rekstri búnaðar frá svæðisráðum til hverrar hafnar fyrir sig. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji kröfur um lágmarksbúnað í hverri höfn eða flokki hafna. Gert er ráð fyrir að búnaðurinn í minni höfnum verði aðallega ísogsefni sem afmarkar og sígur í sig olíu en hefðbundnar olíugirðingar og tæki til upptöku olíu verði í stærri höfnum. Jafnframt geri hver höfn fyrir sig viðbragðsáætlun og skipuleggi viðbrögð út frá áhættuþáttum, aðstæðum og aðgengi að búnaði. Það er ljóst að frumvarpið hefur í för með sér kostnað fyrir sveitarfélög þar sem hafnir þurfa að koma sér upp mengunarvarnabúnaði í samræmi við reglugerðina, einkum þar sem samsvarandi búnaður er ekki til staðar í dag þó svo að hann ætti að vera það samkvæmt núgildandi lögum.
    Því er lagt til í 1. mgr. að kveðið verði á um að hver höfn skuli eiga og reka mengunarvarnabúnað í samræmi við flokkun hafnar og áhættumat hennar og eins og nánar verður kveðið á um í reglugerð. Lagt er til að heimilt verði að hafnir á tilteknu svæði eigi og reki slíkan mengunarvarnabúnað saman, enda getur slíkt fyrirkomulag dregið úr kostnaði hverrar hafnar fyrir sig. Leita skal samþykki Umhverfisstofnunar fyrir slíkri tilhögun áður en hafnir gera samning sín á milli.
    Í 2. mgr. er lagt til að Umhverfisstofnun skuli hafa yfir að ráða flytjanlegum mengunarvarnabúnaði til að takast á við bráðamengunaróhöpp utan sem innan hafnarsvæða eftir því sem þörf er á. Stofnunin skuli sjá um rekstur, endurnýjun og uppbyggingu mengunarvarnabúnaðarins í samræmi við fjárveitingar á fjárlögum. Þá er lagt til að Umhverfisstofnun geti í samráði við mengunarvarnaráð hafna, eftir því sem fé fæst til í fjárlögum, ákveðið uppbyggingu og endurnýjun á nauðsynlegum mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins.
    Loks er lagt til í 3. mgr. að fyrir 1. mars ár hvert skulu hafnir skila til Umhverfisstofnunar skýrslum um mengunarvarnaæfingar árið á undan, notkun mengunarvarnabúnaðar, mat á ástandi hans og þörf á endurnýjun, ásamt upplýsingum um bráðamengunaróhöpp sem orðið hafa í höfninni og hvernig við þeim var brugðist. Tilgangurinn er að gera Umhverfisstofnun kleift annars vegar að birta árlega skýrslu um umfang bráðamengunaróhappa við landið, jafnt innan hafnarsvæða sem utan, og hins vegar í þeim tilgangi að bæta samræmi milli hafna og auðvelda umsjón með málaflokknum.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að felldar verði brott tilvísanir til svæðisráða í 21. gr. í samræmi við almenna umfjöllun um frumvarpið og umfjöllun um 5. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.



Fylgiskjal.    

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2004,
um varnir gegn mengun hafs og stranda, með síðari breytingum
(mengunarvarnaráð hafna og bráðamengun).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögunum með það að markmiði að styrkja framkvæmd aðgerða gegn bráðamengun innan hafnarsvæða. Gert er ráð fyrir að núverandi kerfi svæðisráða sem sveitarstjórnir hafa kosið í verði lagt niður og að þess í stað skipi ráðherra sex fulltrúa í mengunarvarnaráð hafna að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Lagt er til að tveir fulltrúar verði skipaðir samkvæmt tilnefningu Umhverfisstofnunar, þrír samkvæmt tilnefningu Hafnasambands Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni einn fulltrúa sem skal vera heilbrigðisfulltrúi. Gert er ráð fyrir að kostnaður við setu fulltrúa í ráðinu verði greiddur af tilnefningaraðilum. Hlutverk mengunarvarnaráðsins verður í fyrsta lagi að vera formlegur samstarfsvettvangur Umhverfisstofnunar og hafna um málefni sem varða viðbúnað og viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða. Í öðru lagi að stuðla að samhæfingu milli hafna á viðbúnaði, viðbragðsáætlunum og viðbrögðum við bráðamengun. Í þriðja lagi að gera tillögu til Umhverfisstofnunar um uppbyggingu og endurnýjun á bráðamengunarbúnaði í höfnum landsins og loks í fjórða lagi að koma með ábendingar og tillögur um innihald viðbragðsáætlana. Ýmsar aðrar breytingar eru lagðar til í frumvarpinu sem m.a. skýra og afmarka nánar hlutverk og verkefni viðbragðsaðila við bráðamengun.
    Samkvæmt gildandi lögum skal Umhverfisstofnun annast samræmingu milli svæða og ber ríkissjóður kostnað af samræmingunni. Gera má ráð fyrir að með tilkomu mengunarvarnaráðs muni sá kostnaður lækka og vega fyllilega upp kostnað ríkissjóðs af setu fulltrúa Umhverfisstofnunar í ráðinu. Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.