Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 470  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er kveðið á um að í ríkisstjórnarsamstarfi flokkanna verði áhættumat ávallt lagt til grundvallar ákvörðunum um niðurskurð og sameiningu stofnana og þess freistað að leggja mat á hættu á auknum kostnaði til lengri tíma litið. Jafnframt verði lögð áhersla á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar.
    Þessar áherslur í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar hafa því miður aldrei komist til framkvæmda heldur hefur vinna við fjárlagagerð hvers árs gengið þvert á þessi fyrirheit.
    Við 2. umræðu fjárlaga ársins 2012 gáfu stjórnarliðar fyrirheit um að tilteknir þættir yrðu skoðaðir sérstaklega áður en fjárlögin kæmu til lokaafgreiðslu. Þau mál sem hæst bar og beint var til fjárlaganefndar að skoða sérstaklega lutu að heilbrigðis- og öldrunarmálum, fangelsismálum, fjárhag sveitarfélaga, umboðsmanni skuldara og Fjármálaeftirlitinu. Auk þess var ítrekað bent á nauðsyn þess að rýna betur tekjuhlið fjárlaganna en gert hefur verið.
    Tveir fundir voru haldnir í nefndinni á milli 2. og 3. umræðu. Á fyrri fundinum var rætt við fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin tók erindi þeirra ekki til umfjöllunar að lokinni kynningu sem telja verður ámælisvert miðað við þau gögn sem fjárlaganefnd voru kynnt. Síðari fundurinn var boðaður til úttektar málsins og þar lagði meiri hlutinn fram tillögur sínar að breytingum á fjárlagafrumvarpinu og tók þær út úr nefndinni. Ekki hafa verið lögð fram erindi fyrir öllum þessum tillögum í fjárlaganefnd.
    Ljóst má vera að undirbúningi málsins er mjög ábótavant og gagnrýnir 1. minni hluti málsmeðferð meiri hlutans. Verulegum upphæðum var bætt við útgjaldahlið frumvarpsins án þess að nauðsynleg umræða og skoðun færi fram. 1. minni hluti vekur athygli á nokkrum málum sem ekki voru nægjanlega rædd á vettvangi nefndarinnar á milli umræðna.
    Útgjöld vegna embættis umboðsmanns skuldara voru hækkuð um 455 millj. kr. við 2. umræðu fjárlaga án þess að umboðsmaður væri kallaður á fund nefndarinnar og ekki voru lögð fram sérstök gögn sem rökstuddu þessa hækkun. Óskað var eftir því að embætti umboðsmanns mætti til fundar við nefndina milli umræðna. Við því var ekki orðið.
    Fyrsti minni hluti telur að þær tillögur sem meiri hlutinn lagði fram um aukin útgjöld til heilbrigðismála greiði ekki úr þeim augljósa vanda sem fjölmargar heilbrigðisstofnanir og byggðarlög eiga við að etja.
    Meiri hluti nefndarinnar hefur lagt til að fram fari rannsókn á rekstri og fjárveitingum til Fjármálaeftirlitsins. 1. minni hluti telur fullt tilefni til þeirrar úttektar en telur eðlilegan framgangsmáta þann að fjárframlag til stofnunarinnar verði ekki aukið fyrr en slík úttekt hefur verið unnin.
    Fyrsti minni hluti gagnrýnir þau vinnubrögð sem liggja til grundvallar tillögu meiri hlutans um fjárveitingu til hönnunar nýs fangelsis. Meðal annars liggur ekki enn fyrir ákvörðun um með hvaða hætti framkvæmdin verður fjármögnuð. Ekki liggur heldur fyrir rökstutt kostnaðarmat eða mat á áhrifum framkvæmdarinnar á fjárhag ríkisins.
    Fyrsti minni hluti ítrekar þá ábendingu sína að verulega skortir á að tekjuhluti frumvarps til fjárlaga hafi hlotið nægjanlega umfjöllun. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki lokið yfirferð sinni yfir frumvarpið áður en lokaumræða hefst.
    Fyrsti minni hluti lýsir yfir miklum áhyggjum af þeim deilum sem risið hafa milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda um skerðingar á hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga. Það er með ólíkindum að enn og aftur skuli stjórnvöld hafa gengið frá samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins með þeim hætti að deilur rísi um hvað í því felist.
    Fyrsti minni hluti leggur fram breytingartillögur við frumvarpið er snúa að heilbrigðis- og öldrunarmálum. Tillögurnar byggjast á breyttri forgangsröðun í ríkisfjármálum, lagt er til að útgjöld til þessara málaflokka verði aukin um 1.170 millj. kr. en á móti verði lækkuð útgjöld að sömu fjárhæð, einkum í stjórnsýslu ríkisins.

Alþingi, 5. desember 2011.



Kristján Þór Júlíusson,


frsm.


Ásbjörn Óttarsson.


Illugi Gunnarsson.