Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.

Þingskjal 498  —  385. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um stefnu um beina erlenda fjárfestingu.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




    Alþingi ályktar að mikilvægt sé að efla fjárfestingu í íslensku atvinnulífi.
    Alþingi ályktar að bætt samkeppnishæfni Íslands gagnvart erlendri fjárfestingu og markaðssetning byggð á skýrum markmiðum sé sérstakt viðfangsefni sem leggja beri aukna áherslu á.
    Alþingi ályktar að íslensk stjórnvöld skuli í því skyni tryggja gagnsæja meðferð mála er varða erlenda fjárfestingu og að gildandi reglur séu jafnan skýrar og ótvíræðar.
    Alþingi áréttar að enginn vafi leiki á að stjórnarskrá, lög og reglur verji eignarréttindi erlendra fjárfesta á Íslandi með sama hætti og eignir íslenskra ríkisborgara.
    Alþingi felur stjórnvöldum að sækjast sérstaklega eftir fjárfestingu sem:
     1.      stuðlar að fjölbreytni atvinnulífs,
     2.      styður við verndun og nýtingu umhverfis á sjálfbærum grunni,
     3.      nýtir nýjustu tækni,
     4.      skapar í gegnum framleiðsluferli sem mestan virðisauka innan lands,
     5.      skapar hlutfallslega mörg störf og hátt hlutfall verðmætra starfa,
     6.      stuðlar að eflingu rannsókna og þróunar og öflun nýrrar þekkingar,
     7.      er arðsöm og skilar hlutfallslega miklum skatttekjum,
     8.      skapar ný tækifæri eða tækifæri sem talin eru æskileg til að styrkja innlenda starfsemi sem fyrir er.
    Efnahags- og viðskiptaráðherra og iðnaðarráðherra leggi fyrir vorþing 2012 tímasetta áætlun um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands og efla markaðs- og kynningarstarf í því skyni. Þá verði mótaðar tillögur um samhæfða stjórnsýslu til að styðja við framangreind markmið.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Um árabil hefur erlend fjárfesting verið lítil hér á landi og umhverfi erlendrar fjárfestingar verið gagnrýnt fyrir að vera flókið og óaðgengilegt. Fjárfesting er lykilatriði fyrir efnahagsþróun hér á landi eftir hrun. Reynsla undanfarinna áratuga sýnir hversu varhugavert það er að reisa efnahagslíf alfarið á erlendu lánsfé. Efnahagslegur ávinningur af erlendri fjárfestingu er mun meiri en af innlendri fjárfestingu, byggðri á erlendri lántöku. Þess vegna þarf sókn eftir erlendri fjárfestingu að vera lykilþáttur í efnahagsþróun Íslands eins og annarra norrænna velferðarsamfélaga. Nágrannalönd okkar leggja því áherslu á að lagaumhverfi beinnar erlendrar fjárfestingar sé fyrirsjáanlegt og traust og sterkir innviðir styðji við erlenda nýfjárfestingu. Bein erlend fjárfesting skapar ekki einungis störf og verðmæti heldur eykur fjölbreytni í atvinnulífi og í útflutningsgreinum ef vel er á málum haldið. Aukin fjölbreytni í útflutningsgreinum er mikilvægt markmið í ljósi reynslu undanfarinna áratuga.
    Tillaga til þingsályktunar um stefnumótun varðandi beinar erlendar fjárfestingar á Íslandi er undirbúin af iðnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra í sameiningu. Grundvöllur hennar er greiningar- og undirbúningsvinna sem iðnaðarráðuneytið og stofnanir þess hófu þegar árið 2009 og greining efnahags- og viðskiptaráðuneytis á mikilvægi beinnar erlendrar fjárfestingar. Efnahags- og viðskiptaráðherra mælir fyrir þingsályktunartillögunni en þar sem efni hennar snertir málaflokka beggja ráðuneyta og tengist bæði atvinnustefnu og efnahagsáætlun næstu ára er mikilvægt er að hún komi til umfjöllunar í bæði atvinnuveganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
    Rétt er í þessu sambandi að hafa í huga að í gildi eru ýmsar takmarkanir á erlendri fjárfestingu sem byggjast á löggjöf eða stefnumörkun stjórnvalda. Þannig eru t.d. í lögum takmarkanir á erlendu eignarhaldi í sjávarútvegi. Þá er það stefna núverandi stjórnvalda að orkufyrirtæki séu í almannaeigu. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á slíkum sérstökum takmörkunum á erlendri fjárfestingu né á fyrirkomulagi opinberrar þjónustu og engin stefnumörkun um slíkt felst í þeirri tillögu sem hér er lögð fram.

Aðdragandi þingsályktunartillögunnar.
    Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 2009 segir að lögð verði „áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum“ og til að ná góðum og jöfnum hagvexti, sem sé forsenda fyrir nýjum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi, þurfi að „stuðla að beinum erlendum fjárfestingum“.
    Í stefnumörkuninni Ísland 2020 er sett fram það markmið að „stuðla að fjölbreyttri erlendri fjárfestingu“ og svo segir: „Marka þarf skýra stefnu um erlenda fjárfestingu og vinna markvisst að því að greiða fyrir fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Sérstaklega þarf að huga að möguleikum til að afla þolinmóðs fjármagns fyrir innviði og áhættufjárfestingar á þekkingar- og nýsköpunarsviðinu.“
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengdri kjarasamningum frá 5. maí 2011 segir m.a.: „Mikilvægt er að kynna erlendum fjárfestum Ísland sem fjárfestingarkost með markvissum aðferðum og er stefnt að því að veita auknum fjármunum til markaðssóknar. Stjórnvöld telja nauðsynlegt að auka beina erlenda fjárfestingu hér á landi og ryðja burt hindrunum sem helst standa í vegi hennar og taka mið af niðurstöðum nefndar iðnaðarráðherra um stefnumótun fyrir beinar erlendar fjárfestingar.“
    Róttækt skref í þá átt að laða beinar erlendar fjárfestingar til Íslands með virkum hætti var stigið þegar Alþingi samþykkti lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Í athugasemdum við frumvarpið sagði m.a.: „Markmið frumvarpsins er að örva og efla fjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi með því að tilgreina með gegnsæjum hætti í lögum hvaða heimildir stjórnvöld og sveitarfélög hafa til að veita skilgreindar ívilnanir til fjárfestingarverkefna.“
    Til að fylgja þessari stefnumótun eftir og ákveða næstu skref fékk Fjárfestingarstofa, í samráði við iðnaðarráðuneyti, ráðgjafarfyrirtækið PriceWaterhouseCoopers í Belgíu til að vinna úttekt á því hvernig staðið hefur verið að því að laða hingað til lands beinar erlendar fjárfestingar og gera tillögur um úrbætur. Meðal þess sem fram kemur í úttekt PWC er að hér á landi hefur aldrei verið sett fram stefna varðandi beinar erlendar fjárfestingar. Mótun slíkrar stefnu er þó ein af mikilvægum forsendum markvissrar vinnu á þessu sviði. Úttekt PWC má finna á heimasíðu iðnaðarráðuneytisins.
    Í október 2010 skipaði iðnaðarráðherra starfshóp til að gera tillögur um stefnu stjórnvalda varðandi erlenda fjárfestingu. Skýrsla starfshópsins er birt sem fylgiskjal með þessari þingsályktunartillögu. Starfshópinn skipuðu Aðalsteinn Leifsson (formaður), Geir A. Gunnlaugsson, Kristín Pétursdóttir og Vilborg Einarsdóttir. Upplýsingar og greining í skýrslunni, m.a. á sögu erlendra fjárfestinga á síðustu árum, eru gott innlegg í þá umræðu sem þarf að eiga sér stað við mótun heildstæðrar stefnu um beinar erlendar fjárfestingar.
    Efnahags- og viðskiptaráðuneytið fer með málefni varðandi löggjöf um erlenda fjárfestingu. Í lok árs 2010 greindi efnahags- og viðskiptaráðherra frá þeirri fyrirætlan að endurskoða lög um erlenda fjárfestingu með það að markmiði að einfalda regluverkið, draga úr óvissu og greiða fyrir erlendri fjárfestingu. Í tengslum við það endurmat er hafin vinna við greiningu löggjafar um erlenda fjárfestingu í öðrum ríkjum Norður-Evrópu. Þá óskaði efnahags- og viðskiptaráðherra eftir greinargerð frá dr. Ásgeiri Jónssyni, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands, um mikilvægi erlendrar fjárfestingar fyrir íslenskt efnahagslíf og er hún birt sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.

Markmið með beinni erlendri fjárfestingu.
    Bein erlend fjárfesting er almennt skilgreind sem stofnun og uppbygging nýs fyrirtækis frá grunni fyrir tilstuðlan erlendra fjárfesta, eða í formi samruna eða yfirtöku erlends fyrirtækis, með langtímastarfrækslu að markmiði. Með beinni erlendri fjárfestingu er einnig almennt átt við að erlendur fjárfestir hafi stjórnunarleg áhrif á atvinnurekstur viðkomandi fyrirtækis. Algeng viðmiðunarregla er að um beina erlenda fjárfestingu sé að ræða ef erlendur aðili á meira en 10% í félagi.
    Oft hefur gætt tvíátta viðbragða gagnvart erlendri fjárfestingu í opinberri umræðu. Þannig hefur oft verið lýst almennum skilningi á mikilvægi erlendrar fjárfestingar, en jafnframt andstöðu við þau fjárfestingaráform sem uppi eru hverju sinni. Mikilvægt er að Alþingi ræði með opnum hætti mikilvægi erlendrar fjárfestingar og veiti skýra leiðsögn um þau grundvallarviðmið sem liggja eigi að baki afstöðu íslenskra stjórnvalda til erlendrar fjárfestingar. Stefnumörkun sú sem felst í skýrri afstöðu Alþingis skapar nauðsynlegan grunn fyrir endurmat á löggjöf um erlenda fjárfestingu.
    Í þeim sérfræðigreiningum sem unnar hafa verið á undanförnum missirum fyrir iðnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og Fjárfestingarstofu er mikill samhljómur. Af þeim má ráða sammæli um mikilvægi erlendrar fjárfestingar fyrir íslenskt efnahagslíf og atvinnuþróun. Jafnframt sé mikilvægt að skýrt regluverk gildi um erlenda fjárfestingu og varast sé að skapa þá tilfinningu að beiting ómálefnalegra sjónarmiða, svo sem mismununar á grundvelli þjóðernis, sé möguleg við meðferð mála er varða fjárfestingaráform erlendra aðila í íslensku stjórnkerfi.
    Til að bein erlend fjárfesting geti gegnt hlutverki sínu í uppbyggingu atvinnulífs og endurreisn efnahagslífsins þarf að vera ljóst hvers konar atvinnurekstri sækjast eigi eftir, hvar styrkur Íslands liggur til framtíðar og hvers konar verkefni henta síður fyrir íslenskt samfélag. Starfshópur sá sem skilaði iðnaðarráðherra skýrslu fjallaði m.a. um mat og val á atvinnugreinum eða geirum sem leggja ber áherslu á við kynningu á Íslandi, hvernig ýta má undir frumkvæði til að nálgast mögulega fjárfesta, bætt samstarf stjórnsýslu, stofnana, sveitarfélaga og hagsmunaðila á borð við orkufyrirtæki og mat á styrkleikum eða tækifærum sem leggja ber áherslu á.
    Niðurstaða starfshópsins var að leggja beri áherslu á nýsköpunargildi erlendrar fjárfestingar og sækjast eftir verkefnum sem styðja við framtíðarsýn um öflugt, fjölbreytt atvinnulíf og bætt lífsgæði.

Stefnur og straumar í beinni erlendri fjárfestingu.
    Dagana 5.–6. september 2011 fór fram í Genf ársfundur og fjárfestingarráðstefna WAIPA, heimssamtaka fjárfestingarstofa (World Association of Investment Promotion Agencies) sem bar yfirskriftina „Shifting priorities for FDI: Sustained Growth and Technological Innovation“. Fjárfestingarsvið Íslandsstofu gerðist nýlega aðili að WAIPA og sótti ráðstefnuna sem var afar upplýsandi um það sem er að gerast í beinni erlendri fjárfestingu í heiminum og hvaða kraftar hafa þar mest áhrif.
    Greinilegt er að Vesturlönd eru að breyta áherslum sínum í sambandi við beina erlenda fjárfestingu. Þau leita í auknum mæli eftir fjárfestingu sem er í samræmi við markmið þeirra um hagþróun og þjóðfélagsmynd. Fjárfesting sem skapar raunverulegan hagvöxt, verðmæt störf og auknar skatttekjur fyrir land og þjóð eru í forgangi auk vaxandi áherslu á umhverfisþáttinn.
    Þau lönd sem hafa staðið sig best við uppbyggingu atvinnulífs eiga það sameiginlegt að hafa skýra stefnu og aðgerðaáætlun til næstu ára sem grundvallast á skýrri framtíðarsýn til lengri tíma (e. short term goals with a long term view). Fram kom á ráðstefnu WAIPA að fyrir smáríki er sérstaklega mikilvægt að hafa skýra atvinnustefnu, þ.m.t. um beinar erlendar fjárfestingar, þar sem ella er hætta á einhæfni í atvinnulífinu með tiltölulega fáum og einhæfum erlendum fjárfestingum. Fjölbreytni er aðeins hægt að skapa með meðvitaðri stefnu sem löndin fylgja síðan eftir með frumkvæði í lagaumgjörð, markaðssetningu og kynningu.
    Virkasta og skilvirkasta leiðin til að byggja upp orðspor lands fyrir beinar erlendar fjárfestingar er að hafa frumkvæði í markaðssetningu og kynningu byggt á skýrri stefnu. Þeir sem aðeins taka á móti fjárfestingu þegar hún birtist byggja ekki upp orðspor því það verður alltaf tilviljunum háð hvers eðlis sú fjárfesting er sem til landsins kemur.
    Mikill samhljómur er með því sem fram kom á heimsráðstefnu WAIPA 2011 og í skýrslu starfshóps iðnaðarráðherra um stefnumótun gagnvart beinni erlendri fjárfestingu. Sömu áherslur eru í úttekt PWC í Belgíu. Mikil áhersla er lögð á að bæta skipulag og virkni markaðsstarfs, skilgreina betur stöðu og umboð þess aðila sem því sinnir og auka samhæfingu í stjórnsýslunni.

Markvissar markaðsaðgerðir til eflingar beinni erlendri fjárfestingu.
    Í skýrslu starfshóps iðnaðarráðherra kemur fram að til undirbúnings markvissum markaðsaðgerðum sé mikilvægt að vinna vandaðar greiningar á samkeppnisstöðu Íslands gagnvart þeim geirum sem líklegastir eru til að styðja við framangreind markmið með beinni erlendri fjárfestingu og byggja á þeim sviðum þar sem Ísland getur boðið ákveðna sérstöðu. Að mati starfshópsins tengist sérstaða Íslands ekki síst hreinu umhverfi og afurðum, hreinni orku, menntuðu og skapandi starfsfólki, landrými og góðu skipulagi samskiptakerfa. Í samræmi við þetta er bent á starfsemi sem uppfyllir eftirfarandi:
          er þekkingarmiðuð og beitir nýjustu tækni,
          er umhverfisvæn í þeim skilningi að ekki sé um að ræða loftmengun, jarðvegsmengun eða vatnsmengun,
          er orkuháð og greiðir hlutfallslega hátt verð fyrir orku,
          þarf hlutfallslega mikið landrými,
          byggist á styrkleikum lands og þjóðar, svo sem viðskiptasamningum, umhverfi, legu landsins, auðlindum og menntun.
    Undir þessar áherslur fellur m.a. margs konar iðnaður sem er orkuháður og byggist á nýrri tækni, hugbúnaðariðnaður, gagnaver, skapandi greinar, þjónustuiðnaður, heilsutengd ferðamennska og líftækniiðnaður. Samnefnarar fyrir þessi svið eru orka, náttúra og þekking.
    Beiting ívilnana til að laða að verðmæta erlenda fjárfestingu er ítarlega rökstudd í skýrslu starfshóps sem ríkisstjórnin skipaði í janúar 2008 til að meta heildarávinning þess fyrir ríki og sveitarfélög ef fjárfestum í atvinnurekstri yrðu boðnar ívilnanir á landsvæðum sem standa höllum fæti og skilað var til iðnaðarráðuneytisins í apríl 2009. Sú skýrsla varð svo grundvöllur laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.
    Beiting sérstakra ívilnana og markaðssetningar sem beinist að því að laða hingað beina erlenda fjárfestingu á tilteknu nýju sviði eða sem uppfyllir tilteknar væntingar getur verið afar mikilvæg. Í því sambandi skiptir mestu að um leið og fyrirtæki á einhverju sviði tekur ákvörðun um uppbyggingu starfsemi í nýju landi er það um leið merki til allra keppinauta að kanna hvað viðkomandi land hafi upp á að bjóða. Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hefur sannreynt þessi áhrif, m.a. í kjölfar fjárfestingarsamninga um uppbyggingu gagnavers og kísilvers. Áhugi erlendra álfyrirtækja á undanförnum árum staðfestir að í þeim geira er Ísland þegar komið á kortið sem staðsetningarkostur. Þessi mikilvægu hliðaráhrif þess að ná hingað nýrri starfsemi réttlætir að beina bæði ívilnunum og sérstökum markaðsverkefnum að skilgreindum geirum og mörkuðum.
    Aukið frumkvæði við að nálgast mögulega erlenda fjárfesta til að vekja áhuga þeirra á styrkleikum og kostum Íslands sem staðsetningar er forsenda árangurs. Slíkt markaðsstarf grundvallast á vönduðum samkeppnisgreiningum, skýru umboði og stefnumótun íslenskra stjórnvalda og tryggri fjármögnun átaksins.
    Mikilvægur þáttur þess að auka samkeppnishæfni Íslands á sviði beinna erlendra fjárfestinga og ryðja úr vegi hindrunum er að gera stjórnsýslu og upplýsingamiðlun skilvirkari og bæta samhæfingu.

Áhætta og hindranir í vegi beinnar erlendrar fjárfestingar.
    Í skýrslu starfshóps iðnaðarráðherra um stefnumótun varðandi beinar erlendar fjárfestingar kemur fram að takmarkað umfang og einhæfni beinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi sé tilefni til að ræða sérstaklega þær hindranir sem standa í vegi hennar og þá áhættu sem fjárfestar tengja Íslandi.
    Hindranirnar sem starfshópurinn rekur eru bæði áþreifanlegar og óáþreifanlegar. Meðal óáþreifanlegra hindrana sem fram koma í skýrslu starfshópsins er neikvætt viðhorf til erlendra fjárfestinga sem viðmælendur hópsins úr atvinnulífinu telja að stafi af þeirri ranghugmynd að hagnaður erlendra fjárfesta hljóti að vera tilkominn fyrir tap íslenskra aðila.
    Þá nefndu margir viðmælendur landsáhættu tengda Íslandi vegna óstöðugs efnhagslífs og pólitískra óvissuþátta. Í því sambandi er bent á að áhættumat alþjóðlega tryggingafélagsins Aon hvað varðar landsáhættu fyrir beina erlenda fjárfestingu á Íslandi er í þriðja flokki af sex, eða í meðalflokki. Ísland er eina vestræna landið sem stendur svo neðarlega í flokkun. Í skýrslunni er tekið fram að þótt deila megi um forsendur þessa áhættumats þar sem það byggist að nokkru leyti á skynjun matsaðila þá hafi það engu síður neikvæð áhrif.
    Mikið starf hefur verið unnið í því frá falli íslensku bankanna haustið 2008 að draga úr áhættu sem tengja má efnahagslegum óstöðugleika. Til að draga úr því sem flokka má sem pólitíska óvissuþætti er mikilvægast að lagarammi um beina erlenda fjárfestingu sé skýr þannig að fyrir liggi hvað sé heimilt og hvað ekki og draga úr matskenndum ákvörðunum. Óvissa um lagalega stöðu og vernd fjárfestinga og ákvarðanir sem byggjast á pólitísku mati einstakra ráðherra fremur en skýrum lagaramma eru allt þættir sem draga úr trausti fjárfesta. Í þessu samhengi skiptir miklu máli að jákvætt umhverfi og stöðugleiki er ekki síður mikilvægt fyrir innlendar fjárfestingar. Á framangreindri ársráðstefnu WAIPA kom einmitt fram að leggja eigi að jöfnu vinnu við að efla innlendar og erlendar fjárfestingar. Vilji til innlendra fjárfestinga er eitt af því sem eykur traust erlendra fjárfesta.
    Um leið og Alþingi samþykkir stefnumótandi þingsályktunartillögu um eflingu beinna erlendra fjárfestinga er óhjákvæmilegt að taka sérstaklega á þessum áhættuþáttum og kveða m.a. skýrt að orði um vernd erlendra fjárfestinga til jafns við innlenda fjárfestingu auk þess að hefja vinnu við að bæta samkeppnishæfni Íslands með því að endurskoða lagaramma beinna erlendra fjárfestinga. Þá þarf að gera alla stjórnsýslu sem lýtur að beinni fjárfestingu skilvirka og samhæfða.
    Í umfjöllun um áþreifanlegar hindranir er m.a. vísað í reglulegar skýrslur OECD um hömlur á beinni erlendri fjárfestingu. Þar hefur Ísland lengi fengi laka einkunn fyrir miklar hömlur. Samkvæmt skýrslu OECD frá árinu 2003 var Ísland í botnsætinu. Í tengslum við kynningu á niðurstöðum skýrslu IMD, viðskiptaháskólans í Lausanne, um samkeppnishæfni þjóða árið 2004 lagði þáverandi Verslunarráð áherslu á fjórar aðgerðir til að bæta stöðu Íslands. Í umfjöllun VÍ sagði m.a. „Hvergi eru meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu innan OECD en hér á landi. Takmarkanir á möguleikum útlendinga til fjárfestinga hérlendis draga verulega úr möguleikum á að laða erlent fjármagn og þekkingu inn í íslenskt atvinnulíf. Mikilvægt er að gera breytingar hér á í samræmi við það sem þekkist erlendis.“ (http://www.vi. is/um-vi/frettir/nr/313/.)
    Þrátt fyrir þessa stöðu hefur engin heildarendurskoðun farið fram á lagaramma um beinar erlendar fjárfestingar en ljóst er að brýnt er að ráðast í hana ef takast á að bæta samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði. Ábyrgð á mismunandi þáttum beinnar erlendrar fjárfestingar er hjá fleiri en einu ráðuneyti. Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri eru þannig á ábyrgðarsviði efnahags- og viðskiptaráðuneytis, iðnaðarráðuneytið fer með löggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga og jafnframt hafa íslensk stjórnvöld tekist á hendur þjóðréttarlegar skuldbindingar með gerð gagnkvæmra fjárfestingarsamninga en framkvæmd þeirra heyrir undir utanríkisráðuneytið. Þá fer innanríkisráðuneytið með ábyrgð á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.



Fylgiskjal I.


Ásgeir Jónsson:

Þýðing beinnar erlendrar fjárfestingar fyrir Ísland.


    Við aðild Íslands að EES árið 1993 var efnahagslíf landsins opnað fyrir fjárfestum frá Evrópu á jafnræðisgrundvelli samkvæmt viðmiði um fjórfrelsi. Tryggja skyldi frjálst flæði vinnuafls, fjármagns, vöru og þjónustu. Næstu 15 ár á eftir rann gríðarlegt erlent fjármagn inn í landið. Það var að mestu leyti lánsfé en ekki eiginfjárframlög, og á því er töluverður munur. Á þeim tíma sem nú gjarnan er kenndur við alþjóðavæðingu og útrás kom því nær engin bein erlend fjárfesting inn í landið ef undan eru skildar fjárfestingar í stóriðju. Íslendingar sjálfir sóttust eftir að kaupa hluti í fyrirtækjum ytra og byggðu upp hátimbrað atvinnulíf með erlendri skuldsetningu. Hinn íslenski hlutabréfamarkaður varð alþjóðlegur í þeim skilningi að 75% af tekjum fyrirtækja sem voru á hinni gömlu ICEX-15 úrvalsvísitölu voru erlendar en eignarhaldið var samt sem áður íslenskt að nær öllu leyti þar sem erlendir aðilar keyptu ekki íslensk hlutabréf í neinum mæli.
    Það eigið fé sem íslensk fyrirtæki þurftu til vaxtar og útrásar kom þess í stað frá skuldsettum eignarhaldsfélögum sem stóðu að baki nær öllum veigameiri fyrirtækjum hérlendis. Eignarhaldsfélögin stóðu í raun fyrir því að breyta erlendu lánsfé í íslenskt eigið fé og voru sá sandur sem Íslendingar byggðu útrásina á. Þessi mikla erlenda skuldsetning varð síðan til þess að fjármálakerfið féll undan eigin þunga, sem kunnugt er, þegar á reyndi. Beinar erlendar fjárfestingar hafa að vísu tekið kipp eftir efnahagshrunið, en þær hafa stafað af því að kröfuhafar hafa neyðst til þess að breyta skuldum í eigið fé samfara fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja sem skulduðu þeim fé.
    Sá lærdómur sem vert er að draga af hruninu er ekki sá að alþjóðavæðing og erlent fjármagn sé eitthvað sem Ísland ætti að forðast. Hvorutveggja er forsenda þess að Íslendingar geti búið við svipuð lífskjör og þekkjast í nágrannalöndunum, aukið útflutning og afnumið fjármagnshöft. Það sem landsmenn þurfa að huga gaumgæfilega að er með hvaða forsendum erlent fjármagn kemur í landið og leggja áherslu á beina erlenda fjárfestingu en ekki lántökur.
    Mikilvægt er að meta sögu beinnar erlendrar fjárfestingar hérlendis og þýðingu hennar fyrir hagvöxt og lífskjör. Ísland hefur sjaldan haft meiri not fyrir beina erlenda fjárfestingu en nú þegar kallað er eftir nýrri lífskjarasókn. Það er þörf á því að fá nýtt erlent fjármagnsstreymi inn í landið til þess að losa íslenska myntsvæðið úr núverandi sjálfheldu fjármagnshafta. Það liggur fyrir að töluvert af íslensku fjármagni bíður bak við höftin þess að komast úr landi, enda vilja eigendur dreifa áhættu með því að setja egg sín í fleiri körfur. Þetta á til að mynda við um lífeyrissjóðina sem þurfa nauðsynlega að koma hluta af fjármagni sínu í vinnu utan landsteina, ef þeir eiga að standa undir kröfum til góðrar eignastýringar og áhættudreifingar. Sama á við um ótal aðra íslenska fjárfesta sem eru nú bundnir niður á Íslandi en vilja nýta sér tækifæri á alþjóðavettvangi. Til þess að mæta þessu útflæði þarf innflæði á móti eigi krónan ekki að taka kollsteypu við afnám haftanna. Staða Íslands í gjaldeyrismálum er einfaldlega sú að íslenskir fjárfestar komast ekki út nema þeir mæti erlendum fjárfestum á leið inn í landið.
    Svipuð staða er uppi í útflutningi landsins. Þrátt fyrir að raungengi krónunnar hafi nú verið í sögulegu lágmarki í þrjú ár hefur útflutningur frá landinu ekki vaxið að magni svo miklu nemur. Mikill viðskiptaafgangur nú um stundir stafar miklu fremur af hruni innflutnings vegna lítillar einkaneyslu og fjárfestingar í landinu. Sá afgangur mun hverfa um leið og þjóðarútgjöld fara að aukast á nýjan leik án þess að útflutningur nái að vaxa verulega.
    Það kemur kannski ekki á óvart að útflutningur hafi ekki aukist meira þar sem helstu útflutningsatvinnuvegir landsinis búa við ytri takmarkanir á framleiðslu sinni. Afli íslenskra skipa takmarkast af veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar og framleiðsla stóriðjunnar takmarkast af þeirri orku sem er til reiðu til nýtingar. Nokkur aukning hefur orðið í ferðaþjónustu en hún ein og sér megnar ekki að auka útflutning svo miklu nemi. Það þarf því gríðarlega uppbyggingu í útflutningsframleiðslu landsins og hraðvirkasta og skilvirkasta leiðin til þess er með beinni erlendri fjárfestingu. Ástæðan er einföld: Það þarf annað og meira en framleiðslutækin ein til þess að hefja framleiðslu fyrir erlenda markaði. Það þarf bæði þekkingu á þörfum kaupenda ytra, sölunet til þess að koma vörunni á rétta staði og markaðsnet til þess að selja hana. Allt þetta fylgir með í kaupunum þegar erlent fyrirtæki byggir verksmiðju á Íslandi til útflutningsframleiðslu. Sama á við ef erlend hótelkeðja byggir hótel á Íslandi.
    Erlend fjárfesting er því lykillinn að því að hægt verði að afnema núverandi fjármagnshöft og auka útflutning. Að öðrum kosti er eina leiðin sú að viðhalda viðskiptaafganginum með áframhaldandi lágu raungengi, rýrum kaupmætti og lítilli einkaneyslu.

Söguleg þýðing erlendrar fjárfestingar á Íslandi.
    Í frægri grein frá árinu 1943 lýstu hagfræðingarnir Rosenstein og Rodan því hvernig smár heimamarkaður gæti komið í veg fyrir að lönd iðnvæddust. Takmarkaður fjöldi kaupenda og lítill kaupmáttur komi í veg fyrir að stærðarhagkvæmni gæti notið sín í framleiðslu og sölu, því eftirspurnin sé einfaldlega of lítil. Þannig sé ómögulegt fyrir eina atvinnugrein að brjótast út úr viðjum gamalla búskaparhátta og fátæktar upp á eigin spýtur vegna þess að markaði skorti fyrir framleiðsluvörurnar. Aukinheldur vanti margvíslegan stuðning frá öðrum atvinnugreinum, aðgang að einstökum framleiðsluþáttum, sérhæfða þjónustu og svo framvegis. Þess vegna væri iðnvæðing aðeins möguleg ef margar greinar færu af stað á sama tíma, stækkuðu markaðinn og ryddu brautina í sameiningu til sérhæfingar og iðnvæðingar, eða að ein stór útflutningsgrein færi í fararbroddi með iðnvæðingu og stórvirka starfsemi. Rosenstein og Rodin nefndu þetta „stóra sparkið“ (e. the big push).
    Þessi hugsun þeirra Rosenstein og Rodan gæti skýrt að verulega leyti af hverju Íslendingar voru svo seinir að brjótast til bjargálna miðað við nágrannaþjóðirnar, þar sem þeir sátu fastir í fátæktargildru í vanþróuðu hagkerfi. Leiðin út varð síðan með því að veita erlendu fjármagni til iðnvæðingar sjávarútvegarins – það var hið „stóra spark“ sem þrýsti Íslandi inn í nútímann. Það gerðist með beinni fjárfestingu í útgerðarfyrirtækjum sem komið var á fót með erlendu hlutafé og með stofnun nýs banka í erlendri eigu, Íslandsbanka, er tók til starfa 1904 og lánaði einkum til útgerðar. Iðnvæðing íslensks sjávarútvegs var svo hröð á fyrsta áratug tuttugustu aldar að segja má að landsmenn hafi farið beint úr árabátunum í fjármagnsfreka togaraútgerð. Skútuöldin hófst þannig bæði seint og endaði snemma á Íslandi.
    Þetta framfarastökk var aðeins mögulegt vegna mikillar erlendrar fjárfestingar sem rann inn í landið á þessum tíma, þegar danskir fjárfestar hófu að leggja fjármagn í útgerð hérlendis. Líklega má rekja þá töf sem varð á iðnvæðingu Íslands til þess hve Danir sjálfir voru seinir til að iðnvæðast en þeir voru að upplagi bændaþjóð, sem líkt og Íslendingar, fluttu út mat til stórþjóða í kringum þá. Danska útflutningsleiðin var að flytja út flesk og smjör. Það var ekki fyrr en undir lok nítjándu aldar sem danskt fjármála- og efnahagslíf var orðið nægjanlega þroskað til þess að færa út kvíarnar til Íslands. Sjávarútvegurinn er vitaskuld sú grein sem stærst er í sniðum en hið sama á við flestar aðrar atvinnugreinar hérlendis. Nútíminn barst til Íslands með erlendu hæfileikafólki í viðskiptum, faggreinum og listum sem færði með sér þá þekkingu og fjármagn sem þurfti til þess að innleiða nýja atvinnuhætti og menningarstrauma. Árið 1880 var 77% af vinnuafli landsins bundið í landbúnaði en hingað kom fólk frá ríkjum Danakonungs til þess að kenna landsmönnum að versla, brugga öl, baka brauð, búa til lyf eða smíða úr gulli. Enn þann dag í dag bera gömul hús í bæjum landsins dönsk og þýsk nöfn til minnis um þá frumkvöðla sem reistu þau á sínum tíma.
    Íslendingar sigldu inn í sjálfstæði og efnalega velsæld með beggja skauta byr frá frjálsum heimsviðskiptum og danskri fjárfestingu. Tímabilið frá 1860-1914 er yfirleitt nefnt alþjóðavæðing hin fyrri, þegar viðskipti með vörur og fjármagn voru frjáls um nær allan heim og um 90% heimsbúa tóku þátt í myntsamstarfi sem byggt var á gulltryggingu. Samhliða viðskiptafrelsi uxu utanríkisviðskipti hröðum skrefum í kjölfar framfara í samgöngum (járnbrautum og gufuskipum) og fjarskiptum (ritsíma og samræmdum póstsendingum). Á þessum tíma var viðskiptaumhverfið á Íslandi algerlega opið fyrir erlendum viðskiptum og fjárfestingum sem hluti af danska ríkinu. Frá 1875 var landið í Norræna myntbandalaginu þar sem seðlar allra landanna voru gulltryggðir og jafngildir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
    Það eru fá lönd sem hafa tekið inn svo mikið erlent fjármagn inn á jafn skömmum tíma og Ísland gerði í byrjun tuttugustu aldar. Ísland uppskar gríðarlegar framfarir í kjölfarið. Mikilvægt er að hafa í huga að fjármagnið kom til landsins að mestu leyti sem eigið fé, en ekki lánsfé. Þar skilur á milli upphafs tuttugustu aldarinnar hérlendis og þeirrar tuttugustu og fyrstu. Staðreyndin er því sú að grunnurinn að íslensku atvinnulífi var lagður með erlendu áhættufjármagni og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var stór hluti íslenskra fyrirtækja í hinum aðskiljanlegustu greinum í eigu erlendra aðila. Að vísu getur leikið á tvennu hver teljist vera útlendingur og hver ekki. Danskir fjárfestar gátu með nokkrum rétti talist innlendir fjárfestar og aukinheldur settust margir útlendingar hér að og urðu þegar fram í sótti, ásamt afkomendum sínum, Íslendingar með fullum rétti.
    Aðskilnaður Íslands og Danmerkur 1918 varð sjálfkrafa til þess að minnka beina erlenda fjárfestingu hérlendis. Danskir fjárfestar hættu þá að vera hér á heimavelli og íslenska krónan varð sérstakur gjaldmiðill samhliða því að norræna myntbandalagið liðaðist í sundur. Upphaflega átti íslenska krónan að hafa jafngildi við þá dönsku. Fyrsta gjaldeyriskrísan var líka skammt undan eða árið 1920 og árangur Íslendinga í gjaldeyrismálum frá þeim tíma sést best á því að ein dönsk króna hefur nú virði á við 2000 íslenskar (ef gjaldmiðlaskiptin 1980 er tekin með í reikninginn).

Um lokun Íslands 1930.
    Straumhvörf urðu með íslenska bankahruninu 1930 sem sneri allri erlendri fjárfestingu frá landinu um áratugaskeið. Þessir atburðir voru á þeim tíma kallaðir „bankahrun“ og fólust í því að Alþingi neitaði að ábyrgjast innlán Íslandsbanka og veita honum þrautavaralán á næturfundi sunnudagsins 2. febrúar 1930. Þá hafði hafist áhlaup á bankann og íslenskir innlánahafar höfðu vikuna áður staðið í röðum fyrir utan dyr hans til þess að taka peningana sína og reiðufé hans var uppurið. Bankinn var því lokaður mánudagsmorguninn 3. febrúar.
    Íslandsbanki var í erlendri eigu, skráður í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn, og var einnig með töluvert af erlendum lánum og skuldabréfum frá norrænum og breskum aðilum. Bankinn hafði upphaflega verið Seðlabanki landsins. Alþingi skipaði stjórn hans og sjálfur forsætisráðherra landsins var stjórnarformaður bankans. Erlendir fjárfestar höfðu því alltaf álitið að Íslandsbanki hefði íslenska ríkið sem bakhjarl. Það kom því verulega á óvart þegar ríkisstjórnin neitaði stuðningi við bankann og vildi setja hann í þrot. Þá lá fyrir að bæði Landsbanki Íslands og íslenska ríkið höfðu farið fram fyrir kröfuröðina með því að heimta sérstök veð fyrir öllum sínum lánum til bankans. Á fjármálamörkuðum ytra var litið á það sem grófa þjóðernismismunun. Framganga Íslands var því með þeim hætti að olli trúnaðarbresti erlendis.
    Forsvarsmenn gjaldþrotaleiðarinnar, í þeim hópi var sjálfur fjármálaráðherra landsins, héldu því aftur á móti fram að þær erlendu skuldaafskriftir sem fylgdu þroti Íslandsbanka myndu þvert á móti leiða til betra lánshæfis í útlöndum þar sem skuldakennitölur landsins litu betur út. En þegar til átti að taka heyktust íslensk stjórnvöld á því að setja bankann í þrot eftir að mikil mótmæli höfðu borist að utan, sérstaklega vakti það ugg þegar hinn breski Hambros banki sendi landsmönnum aðvörun að Ísland myndi missa allt lánstraust erlendis. En Hambros bankinn var í lykilhlutverki í lánveitingum Breskra aðila til Norðurlanda á þessum tíma.
    Eftir þriggja vikna pólitískar þreifingar var stofnaður nýr banki, Útvegsbankinn, er yfirtók eignir og skuldir gamla bankans en erlendir lánadrottnar bankans voru látnir breyta kröfum sínum í hlutafé, án þess þó að fá eitthvert vægi við stjórnun hans. Þessir erlendu kröfur voru síðan greiddar út áratug síðar þegar gjaldeyristekjur landsins jukust stórum í heimstyrjöldinni síðari. En skaðinn var skeður. Lánstraust landsins hafði beðið mikinn hnekki og íslensk stjórnvöld höfðu einnig fengið orð á sig fyrir mismunun á grundvelli þjóðernis og pólitískt gerræði. Í bók Ólafs Björnssonar, prófessors „Saga Íslandsbanka hf og Útvegsbanka Íslands 1904-1980“ metur höfundur það svo að gjaldþrot Íslandsbanka 1930 hafi valdið því að Ísland hafi lokast frá alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum það hafi gert Kreppuárin mun erfiðari hérlendis en nauðsyn bar og í raun kæft fjárfestingu í landinu.
    Í kjölfar bankakreppunnar kom gjaldeyriskreppa. Landsbankinn var þá seðlabanki landsins og hafði hvorki gjaldeyrisforða né lánstraust erlendis til þess að geta stutt krónuna á gjaldeyrismarkaði. Haustið 1931 bar bankinn upp þá beiðni við Alþingi að taka upp gjaldeyrishöft sem var veitt. Þau höft veittu þó aðeins tímabundið skjól því gjaldeyrisskortur varð áfram vandamál. Brátt voru tekin upp innflutningshöft, til að draga úr útstreymi gjaldeyris. Innflutningshöftin reyrðust þéttar og þéttar að íslensku efnahagslífi með hverju árinu sem leið, í því augnmiði að spara gjaldeyri. Við lok seinni heimsstyrjaldar var Ísland ein ríkasta þjóð Evrópu en gat þó ekki flutt inn í ávexti nema aðeins fyrir jólin!
    Gjaldþrot Íslandsbanka 1930 og gjaldeyrishöftin árið 1931 voru stærstu áfangarnir í að einangra íslenskt viðskiptaumhverfi, eftir að peningalegt sjálfstæði var fengið 1920. Eftir þann tíma má segja að bein erlend fjárfesting hafi vart verið til staðar, ef undan eru skilin umsvif breskra og bandarískra herja hérlendis, allt þar til framkvæmdir hófust við álver í Hafnarfirði undir lok sjöunda áratugarins.
    Fáar þjóðir í hinum vestræna heimi hafa snúið svo hratt baki við umheiminum með höftum og bönnum eftir að sjálfstæði var fengið, líkt og Íslendingar. Þannig hófst saga gjaldeyrisvandræða og verðbólgu sem hefur raunar staðið óslitin fram á okkar daga. Íslendingar voru aldeilis óviðbúnir að reka eigin mynt og stunda sjálfstæða efnahagsstjórn þegar til átti að taka. Þeir brugðist því við með því draga sig úr alþjóðasamfélaginu.
    Því verður vart á móti mælt að brotthvarf erlendra fjárfesta frá Íslandi ásamt fjármagnshöftum skapaði gríðarlegt loftleysi í íslensku atvinnulífi með hringamyndun og pólitískum krossböndum á milli banka og fyrirtækja. Ættu flestir sem eru af bernsku komnir að muna eftir Kolkrabbanum, SÍS og þeim tíma þegar stjórnmálaskoðanir réðu því hvar fólk keypti eldsneyti eða tryggði bílinn sinn. Slíkt lokað vistkerfi í fyrirtækjarekstri getur aðeins gengið upp fyrir litlar þjóðir ef þær hafa auðlindir sem skapa þeim samkeppnishæfa stöðu í útflutningsgreinum þrátt fyrir almenna óhagkvæmni og heimóttarskap í atvinnulífi. Og lengi vel tryggði sífellt vaxandi afli og útflutningstekjur í sjávarútvegi að íslenska hagkerfið gæti haldið áfram að vaxa. Það breyttist hins vegar árið 1989 þegar þorskstofninn hrundi á Íslandsmiðum og ljóst var að vaxandi sjávarafli gæti ekki haldið uppi íslenskum hagvexti í hinu lokaða og ósamkeppnishæfa atvinnulífi sem þá var stundað á landinu. Eftir 4–5 ára kreppu var gripið til þess ráðs að opna landið á ný með því að ganga inn á evrópskt efnahagssvæði árið 1993 og þá voru jafnframt allar gáttir opnaðar fyrir erlent fjármagnsstreymi til landsins.

Þörf Íslands fyrir erlent fjármagn.
    Það eru margar ástæður fyrir því af hverju Ísland hefur þörf fyrir að flytja inn erlendan sparnað til fjárfestinga hér innanlands. Fyrir það fyrsta er þjóðin ung þar sem helmingur landsmanna er yngri en 34 ára. Það er þekkt lögmál að ungt fólk hefur neikvæðan sparnað. Það þarf lánsfjármagn til þess að koma sér fyrir í lífinu og koma upp börnum. Venjulegt fólk fer yfirleitt ekki að skila sparnaði inn í þjóðarbúið fyrr en með eignamyndun eftir miðjan aldur. Það liggur því í hlutarins eðli að ört vaxandi þjóð hlýtur að þurfa að veita töluverðum hluta síns sparnaðar til byggingariðnaðarins svo ungt fólk fái þak yfir höfuðið. Það nægir í þessu sambandi að minna á að höfuðborgarsvæðið hefur vaxið um 20% á hverjum áratug á síðustu hálfu öld og svo mun áfram samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar. Þá skiptir það einnig máli að þjóðin er fámenn en hefur þurft að leggja í gríðarlegar fjárfestingar í innviðum, til dæmis með uppbyggingu samgangna í stóru ógreiðfæru landi. Nýting auðlinda landsins í orkuframleiðslu og sjávarútvegi krefst einnig mikillar fjárbindingar, sem hlýtur að kalla á fjármagn að utan. Það er því ekki að undra að langtíma raunvextir hafi verið verulega hærri hér á landi en erlendis áður en opnað á fjármagnsflutninga við útlönd árið 1994. Hið háa verð á fjármagni endurspeglaði þann skort sem var til staðar miðað við kerfiseinkenni landsins.
    Landsmenn héldu áfram að nýta erlent fjármagn við uppbyggingu atvinnuvega landsins eftir kreppuna miklu enda hafa allar fjármagnsfrekar fjárfestingar, s.s. í sjávarútvegi og orkuframleiðslu, hafa verið fjármagnaðar með erlendu fé. Eftir stríð tók erlent fjármagn aftur að streyma til Íslands með ýmsum leiðum, svo sem með Marshall-aðstoð og lánum frá Bandaríkjastjórn og lánum frá ýmsum alþjóðlegum stofnunum. Eftir miklar efnahagsumbætur og afnám innflutningshafta árið 1960 tók aftur að opnast fyrir aðgang landsins að fjármagni frá einkageiranum ytra. En það hefur ávallt verið lánsfé. Sum stærstu íslensku fyrirtækin höfðu beinan aðgang að erlendum bönkum en annars var að mestu um að ræða erlend lán sem voru endurlánuð til íslenskra fyrirtækja í gegnum opinbera fjárfestingasjóði. Þessar lánalindir urðu síðan að stórum ám og enn síðar fljótum eftir þátttöku landsins í Evrópska efnahagssvæðinu, þegar íslenskir bankar hófu að endurlána erlent fjármagn í stórum stíl til íslenskra fyrirtækja, einkum eftir 1998.
    Upphaflega sóttu bankarnir fjármagnið með beinum lántökum frá erlendum bönkum en undir lok tuttugustu aldar öfluðu þeir sér lánshæfiseinkunnar og hófu sjálfir að gefa út skuldabréf á fjármagnsmörkuðum ytra. Árið 2003 var íslenska fjármálakerfið komið með þau kerfiseinkenni sem áttu síðar eftir að leið til hruns - þ.e. fjármögnun á heildsölumörkuðum og erlend endurlán til innlendra aðila sem margir hverjir áttu hvorki erlendar eignir né höfðu erlendar rekstrartekjur. Á þeim tíma var um 50% af útlánum bankana til íslenskra fyrirtækja gengistryggð. Þetta hlutfall átti síðan eftir að hækka í 75% á næstu 5 árum. Gengisáhætta og erlend lánsfjármögnun var þá þegar farin að teygja sig í nær hvert einasta horn í íslensku atvinnulífi.

Erfðasynd íslands.
    Í grein frá árinu 2003 lýsa þeir Barry Eichengreen, Ricardo Hausmann og Ugo Panizza því sem þeir kalla erfðasynd margra landa að geta ekki tekið lán í sínum eigin gjaldmiðli. Staðreyndin er sú að 98% af allri skuldabréfaútgáfu heimsins á alþjóðavettvangi er í fimm gjaldmiðlum, evrum, pundum, dollurum, jenum og svissneskum frönkum. Þau lönd sem standa utan við þessi myntsvæði en þurfa samt sem áður að sækja erlent lánsfjármagn verða því að gefa út skuldabréf í þessum fimm myntum og þar með taka gengisáhættu. Hafa þeir þremenningar síðan í mörgum greinum lýst þeim vandræðum sem hljótast af þessari gengisáhættu á þann veg að efnahagsreikningur fyrirtækja í löndum erfðasyndarinnar verða skakkir með þeim hætti að eignir eru í innlendri mynt en skuldir í erlendri. Þannig geta gengissveiflur rýrt eiginfjárstöðuna með hrapallegum afleiðingum.
    Almennt séð lýsir hagfræðikenningin um erfðasyndina hve mikil þjóðhagsleg áhætta fylgir því að taka við erlendu lánsfjármagni fyrir lítil lönd. Þannig skapast ákveðin valkvöl fyrir ung, hraðvaxta lönd sem þurfa erlent fjármagn fyrir hagvöxt og bætt lífskjör en verða þá jafnframt viðkvæmt fyrir fjármagnsflótta og gengisáhættu.
    Það er töluverður eðlismunur á lánum og hlutafé. Lán er leiga á fjármagni sem síðan skal skilað aftur á ákveðnum tíma með áföllnum vöxtum. Það sem skiptir máli er að lántaki geti komið með veð eða tryggingar um að geta borgað aftur en öðru leyti er meðferð fjármunanna á hans eigin ábyrgð. Það virðast margir líta með tortryggni til beinnar erlendrar fjárfestingar vegna þess að sá arður sem hún skapar verði fluttur úr landi. Á hitt ber þó að líta að kaup á hlutafé fela í sér að fjárfestir kaup hlut í framtíðarhagnaði fyrirtækis og ber áhættuna með því. Fjármögnun með eigin fé er mun öruggari en með lánsfé þar sem aðeins hagnaður er greiddur út með ákvörðun stjórnar og ef illa fer dregst skaðinn frá eigin fé. Erlendur eigandi hlutafjár ber áhættu sem erlendur lánveitandi ber aldrei.
    Það er því grundvallarmunur á þeirri þjóðhagslegu áhættu sem fylgir því fyrir lítil opin hagkerfi að taka við erlendu fjármagni sem beinni erlendri fjárfestingu eða sem lánum. Ef hinir erlendu aðilar leggja fram eigið fé til innlendra fyrirtækja eru þeir jafnframt orðnir hluthafar í samfélaginu og hljóta að hugsa til lengri tíma. Þeir deila því áhættu landsins og geta ekki hlaupist á brott þegar skammtímaáföll ríða yfir. Af þeim sökum er bein erlend fjárfesting með raun og rétti þjóðhagsleg áhættudreifing fyrir viðkomandi land. Ef fjármagnið rennur á móti inn sem lánsfé eru fjármagnsflótti og gjaldeyriskreppa sífelldir áhættuþættir, þar sem reynslan sýnir að styggð getur mjög auðveldlega komið að hinum erlendum fjármagnseigendum og þeir reyna að hlaupa á brott í einum hnapp. Skuldbinding þeirra er einfaldlega ekki til staðar. Notkun erlends lánsfjár leiðir þannig sjálfkrafa til aukinnar þjóðhagslegrar áhættu fyrir viðkomandi land, einkum ef það hefur sinn eigin gjaldmiðil og lánaskilmálar eru til skemmri tíma.
    Eftir ótal gjaldeyris- og skuldakreppur í nýmarkaðs- og þróunarlöndum hefur athyglin einkum beinst að því hvernig að lönd geta tekið inn erlent fjármagn til hagvaxtar, án þess að ógna þjóðhagslegum stöðugleika. Vert er að hafa hugfast í þessu sambandi að núverandi fjármálakreppa er, enn sem komið er, bundin við hinn vestræna heim. Lönd í Asíu og Suður- Ameríku hafa gengið í gegnum ýmsar tegundir af gjaldeyris- og bankakreppum á síðustu áratugum. Sú reynsla hefur aukið mjög skilning á því með hvaða hætti erlent fjármagn kemur inn í landið og afleiðingum ólíkra valkosta í því efni. Íslendingar þurfa erlent fjármagn til vaxtar og bættra lífskjara. Hins vegar skiptir ákaflega miklu hvernig það fjármagn er sótt og hve vel heppnast að binda það inni í landinu en svo lengi sem landið er sjálfstætt myntsvæði og hætta stafar af fjármagnsflótta á gjaldeyrismarkaði.

Erlend fjárfesting og þekkingarflakk.
    Samkvæmt almennri skilgreiningu felst bein erlend fjárfesting (e. „Foreign Direct Investment“) í kaupum fjárfestis á 10% eða meira af atkvæðisbæru eiginfé í fyrirtæki sem er í öðru landi en hans eigin. Þannig er bein erlend fjárfesting ekki aðeins færsla á fjármagni á milli landa heldur fylgir einnig með í kaupunum þekking og viðskiptatengsl þeirra sem leggja fram féð og vilja að það ávaxtist í nýju landi. Hægt er því að líta á eiginfjárkaup sem lestarvagna nýsköpunar á milli landa. Ótal rannsóknir hafa einnig sýnt fram á það hvernig að tækni og þekking berast á milli landa með stofnun nýrra fyrirtækja með erlendu eigin fé eða kaupum á starfandi fyrirtækjum. Fyrirtæki í eigu erlendra fjárfesta greiða oftast hærri laun en þekkist annars meðal annarra fyrirtækja á hverju atvinnusvæði en almennt séð njóta þau lönd sem eru opin fyrir beinni erlendri fjárfestingu hraðari hagvaxtar.
    Ábati beinnar erlendrar fjárfestingar er álíka og ábati utanríksviðskipta. Hún skiptir höfuðmáli fyrir fátæk ríki til að komast til bjargálna, eins og fjölmörg dæmi sanna um hinn víða heim. Af fjölmiðlaumræðu að dæma mætti draga þá ályktun að bein fjárfesting í heiminum sé fyrst og fremst rekin áfram af sókn fyrirtækja í ríkari löndum til þess að nýta sér ódýrt vinnuafl eða náttúruauðlindir í hinum fátækari. Það er mjög rangt. Helftin af beinni erlendri fjárfestingu í heiminum er á milli ríkra landa sem liggja nálægt hverju öðru með sama hætti og bróðurparturinn af utanríkisviðskiptum heimsins er á milli auðugra landa. Allur útflutningur Afríku fyrir neðan Sahara er til að mynda mun minni en útflutningur Hollands. Staðreyndin er einfaldlega að erlend fjárfesting milli ríkra landa er hluti af breytingum í tækni, smekk og almennum rekstarforsendum sem sífellt eru að eiga sér stað í hinum ólíku atvinnugreinum. Eiginfjárfærslur eru því ómissandi hluti af útbreiðslu nýjunga, framfara og aðlögunar og þau lönd sem loka sig frá þessum síkviku straumum bjóða jafnframt hættunni heim á stöðnun. Það á við jafnt um rík lönd sem fátæk.
    Sú beina erlenda fjárfesting sem hefur átt sér stað á Íslandi á síðustu 20-30 árin er nær öll af sama toga; fjárfestingar í orkufrekum iðnaði til útflutnings. Slík fjárfesting er vitaskuld jákvæð og skýrist af náttúruauðlindum landsins. Það er hins vegar umhugsunarefni af hverju önnur fjárfesting hefur ekki látið á sér kræla frá því að landið varð hluti af Evrópsku efnahagssvæði árið 1993 og fjárfestingartækifæri galopnuðust evrópskum ríkisborgurum. Hægt er að benda á sex skýringar:
    Fyrir það fyrsta hafa Íslendingar sjálfir ákveðið að loka ákveðnum atvinnugreinum, líkt og sjávarútvegi, fyrir erlendum fjárfestum.
    Í öðru lagi hefur íslenska krónan gríðarlegan mikinn fælingarmátt þar sem gengisáhættan er liður sem flækist fyrir öllum áætlunum og rekstrarforsendum. Snöggar gengishreyfingar geta hæglega rýrt verulega ábata erlendra aðila af fjárfestingum þeirra hér innanlands. Setning fjármagnshafta árið 2008 hefur einnig sýnt erlendum fjárfestum svart á hvítu að þeir geta einfaldlega lokast inni með fjármuni sína hérlendis.
    Í þriðja lagi er smæð landsins hindrun. Fyrirtæki standa til að mynda oft fyrir þeirri spurningu að flytja inn vörur inn á erlendan markað eða stofna verksmiðjur inn á viðkomandi markaðssvæði og framleiða vöruna þar. Þannig hafa helstu bílaframleiðslufyrirtæki heims stofnað verksmiðjur í Bandaríkjunum í stað þess að flytja bíla þangað frá sínum heimalöndum. Íslenski markaðurinn er einfaldlega of lítill til þess að kalla fram slíka fjárfestingu. Flest erlend framleiðslufyrirtæki munu ávallt kjósa að flytja vörur sínar til landsins fremur en framleiða þær hérlendis þar sem stærðarhagkvæmni skortir.
    Í fjórða lagi er fjarlægð frá öðrum markaðssvæðum vandamál þar sem mikill flutningskostnaður gerir það að verkum að fjárfesting sem byggir á því að flytja inn hálf-kláraðar vörur (e.: „half-finished goods“) er ekki beinlínis samkeppnishæf. Slík fjárfesting hefur til dæmis verið aflvaki hagvaxtar Írlandi.
    Í fimmta lagi eru ýmsir hlutir sem erfitt er að festa hendur á en tengjast því hversu lokað og ógagnsætt íslenskt efnahagslíf er. Ef marka má það sem ritað hefur verið um Ísland á síðustu 10 árum þá settu erlendir fjárfestar mjög fyrir sig hve erfitt var að átta sig á og skilja hin margþættu tengsl sem eru á milli aðila hérlendis í atvinnulífi, stjórnmálum og hagsmunafélögum – sem virtust jafnan skipta öllu fyrir lyktir mála. Að sumu leyti var hér hreinn upplýsingavandi á ferð þar sem mjög mikið af þeim upplýsingum sem erlendir aðilar sóttu eftir voru aðeins til á íslensku eða voru hreinlega ekki opinberar eða aðgengilegar.
    Í sjötta lagi virðist pólitísk áhætta (e.: „political risk“) vera mjög ofarlega í huga erlendra fjárfesta, einkum eftir árið 2008. Það er, erlendir aðilar óttast mjög að aðgerðir og stefnumörkun stjórnvalda sé ekki aðeins hvikul og ófyrirsjáanleg, heldur einnig þjóðernissinnuð og mismuni gegn þeim.
    Eins og sagt er frá í inngangi kom nær engin bein erlend fjárfesting til landsins eftir að Ísland varð hluti af evrópsku efnahagssvæði árið 1993 og flestar tæknilegar hindranir hefðu átt að hverfa. Og fyrst fjallið kom ekki til Múhammeðs varð Múhammeð að koma til fjallsins. Íslenskt atvinnulíf þurfti á álíka eiginfjártengingu við útlönd að halda líkt og önnur lönd sem njóta beinnar erlendrar fjárfestingar. Engir erlendir fjárfestar létu sjá á Íslandi en þegar kom fram á tuttugustu og fyrstu öldina lögðust íslenskir fjárfestar í víking með því að leggja sjálfir í kaup á fyrirtækjum erlendis. Upphaflega var þetta skynsamleg og árangursrík leið til þess að grípa alþjóðavæðinguna til Íslands enda voru skilyrði til fjárfestinga mjög hagstæð eftir mikið verðfall á hlutabréfamörkuðum ytra 2000–2001. Það heppnaðist með þessu að byggja upp nokkur góð alþjóðleg fyrirtæki sem munu verða máttarstoðir hagvaxtar hérlendis. Hér nægir að nefna Össur, Marel og Actavis. Hins vegar var útrásin keyrð út í algerar öfgar, sem flestum er kunnugt, þegar hver einasti sótraftur var á sjó dreginn til landvinninga í útlöndum. Er óþarfi að rekja þá sögu frekar hér. Helsti veikleiki íslensku útrásarinnar var ávallt mikil skuldsetning og skortur á eigin fé – eða kannski öllu heldur hvernig eigið fé var búið til í skuldsettum eignarhaldsfélögum er síðan urðu kjölfestufjárfestar í alþjóðlegum fyrirtækjum. Þannig voru Íslendingar að sveigja þjóðbrautina til Íslands og gera landið fjármálaveldi en færðust of mikið í fang og þegar veðrabrigði urðu á erlendum fjármagnsmörkuðum var enginn bakstuðningur til staðar hérlendis. Fjármálakerfið hrundi undan sinni eigin stærð og skuldsetningu.

Niðurstaða.
    Það er erfitt að skýra nákvæmlega af hverju erlendir fjárfestar voru ekki tilbúnir að leggja eigið fé til íslenskra fjárfestingaverkefna á árunum 1994–2008. Hins vegar virðist tvennt einkum standa í vegi fyrir beinni erlendri fjárfestingu í dag; annars vegar íslenska krónan og hins vegar pólitísk áhætta. Það eru ekki til neinar skyndilausnir í gjaldmiðlamálum landsins og ekki farið nánar út í þá sálma hér. Hins vegar ættu íslensk stjórnvöld að gera það að forgangsverkefni að draga úr þeirri skynjun á pólitískri áhættu sem erlendir fjárfestar hafa hérlendis. Yfirleitt hefur hinn erlendi fjármálaheimur skilning, og jafnvel samúð, fyrir þeim neyðarráðstöfunum sem gripið var til í bankahruninu í október 2008. Margt af því sem hefur verið gert og sagt frá þeim hefur aftur á móti orkað mun meira tvímælis. Það á til að mynda við um yfirlýsingar um ríkisvæðingu orkufyrirtækja og ýmislegt annað sem hefur gefið til kynna mismunun gagnvart erlendum ríkisborgurum. Stjórnvöld verða því að gæta sérstaklega að því hvaða skilaboð þau senda með ákvörðunum sínum og yfirlýsingum er snerta erlenda fjárfestingu í landinu.
    Erlendum fjárfestum er best líkt við æðarfugla sem sækja í öryggi og ákjósanlega hreiðurstaði. Kunni þeir við sig munu þeir reyta af sér dúninn til hagsbóta fyrir landeigendur. Það er ekki hægt að ná æðardúni með valdi eða með því að reyta dauða fugla. Fuglinn verður sjálfur af fúsum og frjálsum vilja að tína af sér mýkstu fjaðrirnar til þess að fóðra hreiður sitt með eigin eggjum. Sama á við með erlenda fjárfesta sem munu reyta af sér sinn dún til að hlúa að sínum fjárfestingum hérlendis finni þeir til öryggis hér á landi. Það er því mjög mikilvægt að landsmenn einsetji sér að skapa hér fjárfestaumhverfi með sanngjörnum og fyrirsjáanlegum leikreglum. Þeir þurfa svo sannarlega á dúninum að halda.
    Sá lærdómur sem vert er draga af sögu landsins frá fullveldi er hve hættulegt það er að lokast frá umheiminum og því sköpunarflæði á milli landa sem bein erlend fjárfesting getur verið. Þeir sem ekki geta lært af sögunni er dæmdir til þess að endurtaka hana.

Fylgiskjal II.


Tillögur um stefnu stjórnvalda varðandi erlenda fjárfestingu.



Starfshópur skipaður af iðnaðarráðherra.

    Iðnaðarráðherra skipaði starfshóp um tillögugerð í tengslum við stefnu stjórnvalda varðandi erlenda fjárfestingu þann 13. október 2010. Starfshópinn skipuðu Aðalsteinn Leifsson (formaður), Geir A. Gunnlaugsson, Kristín Pétursdóttir og Vilborg Einarsdóttir.
Helga Kristinsdóttir, hagfræðingur, Phd, las yfir og veitti faglega ráðgjöf.
     Í erindisbréfi (viðauki II) beinir ráðherra því sérstaklega til starfshópsins að fjalla um eftirfarandi fjóra þætti:
          Mat og val á atvinnugreinum eða geirum sem leggja ber áherslu á við kynningar- og markaðsstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu.
          Aukið frumkvæði við að nálgast mögulega fjárfesta og fyrirtæki.
          Samstarf stjórnsýslu, stofnana, sveitarfélaga og hagsmunaaðila á borð við orkufyrirtæki
          Mat og val á styrkleikum eða tækifærum sem leggja ber áherslu á.
    Niðurstöður hópsins byggja að nokkru leyti á ítarlegri úttekt sem sérfræðingar PricewaterhouseCoopers (PwC) í Belgíu gerðu árið 2010 á starfsramma fyrir kynningar og markaðsstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu á Íslandi í samanburði við nágrannalönd. Að auki taka niðurstöður og tilmæli starfshópsins mið af sjónarmiðum og athugasemdum sem upp hafa komið í starfinu og viðtölum við einstaka hagsmuna- og þekkingaraðila sem hópurinn átti til að fá sem gleggsta mynd af málaflokknum. Viðmælendur hópsins voru:
         Guðni Jóhannesson orkumálastjóri
         Vilhjálmur Þorsteinsson, formaður stýrihóps um mótun heildstæðrar orkustefnu
         Dagur B. Eggertsson, formaður 20/20 hópsins
         Þorsteinn I. Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands
         Kristján L. Möller alþingismaður og formaður iðnaðarnefndar Alþingis
         Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu
         Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samáls ehf.
         Björn L. Örvar, framkvæmdastjóri Orf Líftækni hf.
         Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare ehf.
         Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika hf.
         Skúli Helgason, formaður nefndar Alþingis um græna hagkerfið
    Í skýrslu starfshóps er farið yfir stöðu beinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi, litið til þess hvað stendur í vegi hennar, fjallað um spurningar ráðherra og settar fram ábendingar um aðgerðir. Umfjölluninni er skipt í fimm kafla þar sem farið er yfir skilgreiningar á beinni erlendri fjárfestingu og stöðuna hér á landi, mikilvægi langtímastefnumótunar, mat og val á sóknarfærum og geirum sem leggja ætti áherslu á við kynningu og markaðssetningu, leiðir til virkari öflunar erlendra fjárfestingar og samspil við stjórnsýslu, stoðkefi atvinnulífs og orkugeirann. Í lok hvers kafla eru ábendingar um leiðir til úrbóta. Helstu tillögur starfshópsins og niðurstöður eru svo dregnar saman í inngangskafla.

Samantekt og tillögur starfs hópsins.


    Ríki alls staðar í heiminum keppast við að draga til sín beina erlenda fjárfestingu og færa má sannfærandi rök fyrir því að slík fjárfesting sé hvergi jafn mikilvæg og í litlum og opnum hagkerfum eins og því íslenska. Jafnframt blasir við að hún er sérstaklega eftirsóknarverð nú í kjölfar efnahagsþrenginga þar sem fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki.
    Bein erlend fjárfesting er lítil á Íslandi og hefur einkum verið í orkufrekum iðnaði. Lítil stefnumótun hefur átt sér stað á Íslandi um beina erlenda fjárfestingu.
    Í viðtölum starfshópsins við aðila í atvinnulífinu kom fram að margar hindranir virðast vera í vegi erlendrar fjárfestingar. Auk þekktra hindrana á borð við gjaldeyrisáhættu og sveiflur í hagkerfinu þá er talað um landsáhættu vegna skyndilegrar og ógagnsærrar ákvarðanatöku stjórnvalda og seinagangs og ófaglegra vinnubragða í stjórnsýslu. Mat OECD á hindrunum í vegi beinnar erlendrar fjárfestingar og nýleg áhættugreining Aon styður þessi ummæli.
    Því er það mat starfshópsins að til þess að hægt sé að draga erlenda fjárfestingu til landsins verði fyrst að ryðja ákveðnum hindrunum úr vegi. Meðal þess sem hægt er að gera til að lagfæra þessa stöðu er eftirfarandi:
     *      Alþingi og ríkisstjórn setji fram skýra stefnu um beina erlenda fjárfestingu.
     *      Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri verði numin úr gildi, enda er fjallað um hömlur á fjárfestingum í einstaka atvinnugreinum í sérlögum.
     *      Nefnd um erlenda fjárfestingu verði lögð niður.
     *      Setja þarf skýrari vinnureglur fyrir stjórnsýsluna um að henni beri að gefa bindandi álit og að bindandi álit verði gefin innan skuldbindandi tímamarka, svo sem vegna skipulags- og skattamála.
     *      Skilgreina þarf svæði fyrir mismunandi atvinnustarfsemi / klasa þar sem umhverfismat og önnur skipulagsmál, öll þjónusta við svæðið og aðrir þættir sem snúa að aðkomu opinberra aðila að mótun rekstrarumhverfis eru ákveðin og afgreidd fyrirfram. Þannig geta erlendir aðilar sem vilja setja á stofn nýja atvinnustarfsemi í Íslandi á því sviði, gengið að skipulagi og rekstrarumhverfi vísu.
     *      Sjálfsagt og eðlilegt er að sveitarfélög gegni mikilvægu hlutverki við ákvarðanatöku sem snertir atvinnuuppbyggingu og skipulagsmál, eins og lög gera ráð fyrir. Hins vegar kann að koma upp sú staða að sérhagsmunir einstakra byggðarlaga stangist á við hagsmuni þjóðarinnar, þar sem sveitarfélög setja t.a.m. skilyrði um að orka nýtist í byggðarlaginu eða að óeðlileg samkeppni milli sveitarfélaga leiði til lakari arðsemi og færri starfa. Þessa stöðu þarf að leysa með íhlutunarrétti ríkisins eða langvarandi samningi milli ríkis og landeigenda.

Mat og val á atvinnugreinum og geirum


sem leggja ber áherslu á.

    Starfshópurinn telur að samkeppnishæfni Íslands sé helst á sviðum sem tengjast hreinu umhverfi, hreinni orku, menntuðu og skapandi starfsfólki, landrými og góðu skipulagi samskiptakerfa. Auk þess býður Ísland öruggt, heilnæmt og fjölskylduvænt umhverfi sem kann að vera eftirsóknarvert, að öðru jöfnu, fyrir sérfræðinga sem æskilegt er að laða til landsins.
    Í ljósi þeirrar langtímastefnumótunar sem unnin hefur verið í atvinnu-, orku- og menntamálum og þeirrar greiningar sem unnin hefur verið á samkeppnishæfni Íslands, leggur starfshópurinn til að sóst verði sérstaklega eftir erlendri fjárfestingu sem styður eftirfarandi:
          býður upp á sem mestan virðisauka innanlands í gegnum framleiðsluferlið,
          hefur hlutfallslega mikla atvinnusköpun í för með sér og hátt hlutfall verðmætra starfa,
          getur leitt af sér nýja þekkingu og eflir rannsóknir og þróun,
          felur í sér ný tækifæri eða tækifæri sem talin eru æskileg til styrkingar á innlendri starfsemi sem fyrir er,
          er arðsöm og talin geta skilað hlutfallslega miklum skatttekjum,
          er umhverfisvæn og í tengslum við starfsemina sé beitt nýjustu tækni,
          ýtir undir fjölbreytni atvinnulífsins,
          fellur vel að ímynd Íslands.
    Í þessu felst meðal annars að ekki verði sóst sérstaklega eftir frekari beinni erlendri fjárfestingu til nýrra álvera, meðal annars vegna þess að frekari fjárfestingar á því sviði eru ekki ákjósanlegar fyrir íslenskt efnahagslíf í ljósi einhæfni í atvinnulífinu. Að auki byggir arðsemi álvera að verulegu marki á stærðarhagkvæmni og því er skynsamlegra að stækka þær einingar sem fyrir eru en að bæta við nýjum.
    Í kynningar- og markaðsstarfi fyrir beina erlenda fjárfestingu leggur starfshópurinn til að áhersla verði lögð á starfsemi sem:
          er þekkingarmiðuð og beitir nýjustu tækni,
          er umhverfisvæn í þeim skilningi að ekki sé um að ræða loftmengun, jarðvegsmengun eða vatnsmengun,
          er orkuháð og greiðir hlutfallslega hátt verð fyrir orku,
          þarf hlutfallslega mikið landrými,
          byggir á styrkleikum lands og þjóðar svo sem viðskiptasamningum, umhverfi, legu landsins, auðlindum og menntun.
    Undir þessar áherslur fellur meðal annars margskonar iðnaður sem er orkuháður og byggir á nýrri tækni, hugbúnaðariðnaður, gagnaver, skapandi greinar, þjónustuiðnaður, heilsutengd
ferðmennska og líftækniiðnaður.
    Samnefnarar fyrir þessi svið er orka, nátttúra og þekking.

Aukið frumkvæði við að nálgast mögulega fjárfesta og fyrirtæki

    Kynningar- og markaðsstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu á Íslandi er lítið og líður fyrir skort á stefnumörkun, skort á fjármagni, skort á formlegri stöðu í stjórnkerfinu og skort á samstarfi þeirra aðila sem starfa á þessum vettvangi. Í skýrslu PricewaterhouseCoopers á stöðu kynningar- og markaðsmála fyrir beina erlenda fjárfestingu á Íslandi frá árinu 2010 kemur skýrt fram, að mun betur þarf að huga að málaflokknum ef árangur á að nást. Á grunni skýrslunnar, annarra gagna og viðtala við fólk úr stjórnkerfi og atvinnurekstri, leggur starfshópurinn fram eftirfarandi tillögur um úrbætur:

Mikilvægi beinnar erlendrar fjárfestingar endurspeglist í öflun og miðlun upplýsinga sem nýst geta við stefnumótun, umbætur, markaðs- og kynningarstarf.
    Starfshópurinn leggur til að áhersla verði lögð á nýfjárfestingar, þ.e. erlenda fjárfestingu sem skapar ný störf, nýja þekkingu og ný verðmæti (Green Field). Jafnframt leggur starfshópurinn til að horft verði til þess að þeir opinberir aðilar sem halda utan um upplýsingar um beina erlenda fjárfestingu, svo sem Seðlabanki Íslands, Hagstofa og Ríkisskattstjóri geri þær sem aðgengilegastar ásamt því að flokkun upplýsinganna verði til þess fallin að unnt sé að meta árangur og eftir atvikum bæta lagaumgjörð.

Stjórnvöld móti langtímasýn og stefnu fyrir beina erlenda fjárfestingu í samhengi við aðra stefnumörkun.
    Til þess að árangur náist þarf að móta markmið og árangursmið og koma á samstilltu starfi stjórnvalda, sveitarstjórna og ýmissa hagsmunaaðila yfir lengri tíma. Þetta felur meðal annars í sér forgangsröðun á því hvers konar bein erlend fjárfesting er æskilegust og samhæfingu á starfi ríkisvalds, sveitarfélaga, orkufyrirtækja og annarra hagsmunaaðila. Stefna varðandi beina erlenda fjárfestingu þarf því að haldast í hendur við atvinnustefnu, stefnu í orkumálum, menntastefnu og framtíðarsýn fyrir íslenskt atvinnulíf. Starfshópurinn leggur því til að viðmið fyrir hvers konar erlenda fjárfestingu sem sóst er eftir haldist í hendur við opinbera stefnumörkun. Jafnframt verði til hliðsjónar greiningar á styrkleikum og samkeppnishæfni Íslands og það meginsjónarmið að bein erlend fjárfesting ýti undir lífsgæði á Íslandi í breiðum skilningi.

Starfs- og lagarammi endurspegli stefnu stjórnvalda varðandi beina erlenda fjárfestingu.
    Með stofnun Íslandsstofu og fjárfestingarsviðs sem einnar af þremur stoðum hennar skapast tækifæri fyrir formlegri og reglulegri samskipti við ráðuneytið og ráðherra, sem geta verið mikilvæg til að tryggja skjóta og eðlilega málsmeðferð. Starfshópurinn leggur til að formlegur vettvangur verði settur upp beint milli fjárfestingarsviðs og fagráðuneytis þar sem farið verður reglubundið yfir áherslur og úrlausnir verkefna.

Skýr forgangsröðun á tegund beinnar erlendrar fjárfestingar.
    
Starfshópurinn telur að samkeppnishæfni Íslands sé helst á sviðum sem tengjast hreinu umhverfi, hreinni orku, menntuðu og skapandi starfsfólki, landrými og góðu skipulagi samskiptakerfa. Auk þess býður Ísland öruggt, heilnæmt og fjölskylduvænt umhverfi sem kann að vera eftirsóknarvert fyrir sérfræðinga sem æskilegt er að laða til landsins.

„Tæki“ til að laða að beina erlenda fjárfestingu þurfa að vera í samræmi við markmiðs- og aðgerðaáætlun.
    Starfshópurinn leggur til að farið verði ítarlega yfir lagaramma, ívilnanir og skipulagsmál í framhaldi af markmiðs- og aðgerðaráætlun fyrir beina erlenda fjárfestingu. Skynsamlegt kann að vera að skipuleggja svæði fyrir mismunandi atvinnustarfsemi, þar sem gengið er fyrirfram frá ívilnunum, skipulagsmálum og öðrum þáttum sem eru á valdi opinberra aðila.
    Ennfremur leggur starfshópurinn til að farið verði ítarlega yfir þær hindranir sem kunna að vera til staðar í stjórnkerfinu fyrir eðlilega framgöngu erinda sem tengjast beinni erlendri fjárfestingu, m.a. vegna skipulagsmála og bindandi álita um skattamál o.fl.

Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hafi formlegt umboð til að útfæra stefnu stjórnvalda.
    Starfshópurinn leggur til að fjárfestingarsvið Íslandsstofu móti reglulega viðskiptaáætlanir á grunni stefnu og leiðbeininga stjórnvalda á hverjum tíma og að sú viðskiptaáætlun hljóti formlega staðfestingu og stuðning fagráðherra og/eða ríkisstjórnar.

Skýr skilgreining á starfsemi fjárfestingastofu.
    Starfshópurinn leggur til að starfsemi fjárfestingarsviðs Íslandstofu verði skilgreind í samhengi við nýtilkomið ívilnanafrumvarp, stefnumótandi byggðaáætlun og aðra tengda stefnumótun stjórnvalda. Þess þarf að gæta að mannafli og aðrar bjargir fjárfestingarsviðs haldist í hendur við verkefnin.

Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hafi öfluga heimastöð og skilvirka starfsemi erlendis.
    Starfshópurinn leggur til að starfsemi fjárfestingarsviðs verði styrkt og að formlegt samstarf og samráð verði milli þessarar starfsemi annars vegar og starfsemi atvinnuþróunarfélaga, Impru, Nýsköpunarmiðstöðvar og orkufyrirtækjanna hins vegar.

Ríkisstjórn tryggi nægilega fjármögnun og mannafla fyrir kynningar- og markaðsstarf.
    Starfshópurinn leggur til talsverða hækkun á framlögum til málaflokksins og að fyrirkomulagi framlaga verði breytt þannig að hægt verði að skipuleggja starfsemi til framtíðar.

Gera þarf árangursmælingar og upplýsa um árangur.
    Starfshópurinn leggur til að sett verði upp árangursmæling fyrir fjárfestingarsvið, og í raun Íslandsstofu alla, þar sem meðal annars verði mældur fjöldi verkefna, nýjar fjárfestingar, fjöldi starfa sem skapast, fjárhæð nýrra fjárfestinga, fjöldi fyrirspurna, fjöldi heimsókna, fjöldi funda með erlendum fjárfestum o.s.frv. í samræmi við viðmið WAIPA (Heimssamband fárfestingarstofa). Þessu til viðbótar er auðvitað eðlilegt og æskilegt að ávallt liggi fyrir fjöldi fjárfestingarverkefna og samfélagsleg áhrif þeirra (störf, skattar, útflutningstekjur o.s.frv.) en til þess að slíkt sé unnt þarf að bæta upplýsingagjöf Seðlabanka Íslands, Hagstofunnar og Ríkisskattstjóra.

Samstarf stjórnsýslu, stofnana, sveitarfélaga og hagsmunaaðila
á borð við orkufyrirtæki.

    Starfshópurinn telur að vel fari á því að kynningar- og markaðsstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu falli undir starfsemi Íslandsstofu svo lengi sem tryggt er að þessi málaflokkur hafi sjálfstæði og vægi innan stofunnar.
    Starfshópurinn telur að skerpa þurfi á stefnumörkun og framkvæmd hennar. Lagt er til að fjárfestingarsviði Íslandsstofu verði gert að gera stefnumarkandi áætlun til fimm ára um kynningar og markaðsstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu og jafnframt verkáætlun til eins árs í senn með mælanlegum markmiðum. Ennfremur leggur starfshópurinn til að fagráðherra staðfesti bæði stefnumarkandi áætlun og verkáætlun með formlegum hætti.
    Starfshópurinn telur að verulega skorti á samstarf milli fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og sveitarfélaga og stofnana sem starfa á tengdum sviðum. Þess vegna er lagt til að hafin verði kerfisbundin vinna í einstökum landshlutum við styrkleikagreiningu á svæðinu, almenna gagnaöflun fyrir mikilvæga þætti tengda fjárfestingarverkefnum, framsetningu slíkra upplýsinga og aðgerðaráætlun fyrir móttöku erlendra fjárfesta sem leita upplýsinga vegna hugsanlegrar staðsetningar á svæðinu og vísar starfshópurinn í því samhengi í skýrslu iðnaðarráðuneytisins um endurmótun stoðkerfis atvinnulífsins.
    Einnig er lagt til að komið verði á formlegum samstarfsvettvangi milli Nýsköpunarmiðstöðvar og fjárfestingarsviðs Íslandsstofu um val á sérgreindum samstarfsverkefnum þannig að allir þessir aðilar stefni að sama marki í kynningar- og markaðsstarfi fyrir (erlendar) nýfjárfestingar og leggi þá jafnframt fram fjármuni til slíkra verkefna.
    Frá sjónarhóli fjárfesta er sá aðili sem sinnir kynningar- og markaðsstarfi fyrir erlenda fjárfesta eðlilegur fyrsti áfangastaður. Þar leita þeir upplýsinga, ráðgjafar og þjónustu. Mörg verkefnanna velta á öflun og afhendingu orku. Þetta þýðir að formlegt og skilgreint samstarf þarf að vera milli fjárfestingarsviðs, Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja á Íslandi og fjárfestingarsvið þarf að hafa starfsfólk og fjármagn til að veita þá þjónustu sem þessi fyrirtæki þurfa og óska eftir.

1 BEIN ERLEND FJÁRFESTING
    Bein erlend fjárfesting er almennt skilgreind sem stofnun og uppbygging nýs fyrirtækis frá grunni (e. Green Field) fyrir tilstuðlan erlendra fjárfesta, eða í formi samruna eða yfirtöku erlends fyrirtækis (e. Brown Field). Í öllum tilfellum með langtíma starfsrækslu að markmiði.Dæmi um „Green Field FDI“ á Íslandi er uppbygging ALCOA Fjarðaáls á Reyðarfirði og dæmi um „Brown Field“ er þegar fjárfesting Magma Energy í HS Orku fór yfir 10% af virði fyrirtækisins.
    Bein erlend fjárfesting tók að vekja athygli í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum þegar japönsk bílafyrirtæki á borð við Toyota hófu sókn inn á Ameríkumarkað til að auka markaðshlutdeild sína. Þau þurftu þá að velja milli útflutnings bíla til Ameríku og þess að ráðast í beina erlenda fjárfestingu í Ameríku, í tengslum við opnun bílaverksmiðja sinna þar.
    Á síðustu áratugum hefur orðið gífurlegur vöxtur um allan heim í beinni erlendri fjárfestingu samfara auknu frjálsræði í alþjóðaviðskiptum. 1 Lagt hefur verið mat á að hvaða marki bein erlend fjárfesting á Íslandi ræðst af framboði mannauðs, verðs raforku, óbeins flutningskostnaðar, fjárfestingar- og viðskiptakostnaðar og aðildar að EFTA ásamt fleiri þáttum. 2 Meðal annarra þátta sem hafa áhrif á beina erlenda fjárfestingu eru t.d. menningartengsl. 3
    Meginþungi beinnar erlendrar fjárfestingar hér á landi hefur verið tengdur orkufrekum iðnaði sem fól m.a. í sér uppbyggingu álvera og taldist því til þess að vera „Green Field“ investment.
    Með beinni erlendri fjárfestingu er almennt átt við það þegar erlendur fjárfestir hefur stjórnunarleg áhrif á atvinnurekstur viðkomandi fyrirtækis. Algeng viðmiðunarregla er að ef erlendur aðili á meira en 10% í innlendu félagi þá er um beina erlenda fjárfestingu að ræða, samanber t.d. Eurostat. 4 Óbein fjárfesting tengist verðbréfum þar sem eignarhlutur er undir 10% og engin stjórnunarleg áhrif fylgja fjárfestingunni. 5
    Þegar talað er um beina erlenda fjárfestingu í hagfræði er almennt átt við flæðistærð, þ.e. þá fjárfestingu sem ráðist er í það árið, árleg fjárfesting. Hinsvegar, getur stundum verið um uppsafnaða fjárfestingu, þ.e. fjármunaeign að ræða. 6 Þetta er til samræmis við skilgreiningu Seðlabankans sem talar um „beina fjárfestingu (flæði)“ og „beina fjármunaeign í lok árs“. 7 Af sumum er þessi fjármunaeign talin vera meira lýsandi, því það gildi endurspeglar uppsafnaða fjárfestingu, oft yfir mörg ár, og eðli beinnar erlendrar fjárfestingar er að hún er almennt til margra ára. 8
    Athugun og viðtöl starfshópsins og þeirra aðila frá PwC sem gerðu úttekt á markaðs- /kynningarstarfi fyrir beina erlenda fjárfestingu á Íslandi bendir til þess að það sé nokkuð á reiki hvaða skilningur lagður er í hugtakið „bein erlend fjárfesting“ á Íslandi. Seðlabanki Íslands sem skráir beina erlenda fjárfestingu hér á landi fylgir viðurkenndum alþjóðlegum stöðlum sem t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) og OECD fylgja. Þannig greinir Seðlabanki Íslands t.a.m. ekki sérstaklega á milli nýfjárfestingar erlendra aðila eða hlutabréfakaupa þeirra, enda getahlutabréfakaup í sumum tilvikum verið nýfjárfesting t.d. við hlutabréfaútboð.
    Starfshópurinn leggur til að við stefnumótun leggi íslensk stjórnvöld áherslu á beina erlenda fjárfestingu sem hefur nýsköpunargildi:
     Sóst er eftir beinni erlendri fjárfestingu sem felur í sér stofnun og uppbyggingu nýs fyrirtækis frá grunni, stækkun á starfandi fyrirtæki eða samruna við erlent fyrirtæki þar sem til verður aukin framleiðsla, ný þekking, ný aðstaða, ný störf og/eða ný verðmæti til lengri tíma.
    Hér er með öðrum orðum átt við það sem vikið var að í upphafi og kallast „Green Field“ fjárfesting. Þá er hin svokallaða „Brown Field“ fjárfesting undanskilin en hún felur í sér samruna og yfirtökur.
    Í þessu felast mikilvæg skilaboð. Skilaboðin eru þau að sérstaklega er sóst eftir erlendri fjárfestingu sem skapar ný atvinnutækifæri, þekkingu og verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Í þessu felst forgangsröðun takmarkaðs fjármagns, starfskrafta og aðstöðu við kynningar- og markaðsstarf.
    Í þessu felst ekki að unnið verði gegn annarri beinni erlendri fjárfestingu í formi „Brown Field“ né óbeinni almennri fjárfestingu í hlutabréfum. Virkur markaður með eignarhlut í íslenskum félögum er mjög æskilegur fyrir íslenskt atvinnulíf að mati starfshópsins. Hins vegar er ástæða til að nýta takmarkaðar bjargir til að ýta sérstaklega undir fjárfestingu sem almennt er talin frekar til þess fallin að auka verðmæti í samfélaginu.
    Starfshópurinn vonast til þess að þverpólitísk samstaða geti orðið um þessar áherslur og að þannig verði unnt að marka skýra stefnu um beinar erlendar fjárfestingar til lengri tíma, en stöðugleiki er lykilatriði í þeirri viðleitni að laða erlenda fjárfestingu til Íslands.

1.1 ávinningur beinnar erlendrar fjárfestingar.
    Markmiðið með því að laða að beina erlenda fjárfestingu er m.a. að auka fjölbreytni í undirstöðum atvinnulífsins og fá aukið fjármagn inn til landsins til langs tíma sem nýtt er til uppbyggingar, frekar en lánsfé sem kemur til landsins í mislangan tíma. Þá leiðir bein erlend fjárfesting oft af sér verðmætasköpun og auknar útflutningstekjur, eins og orkufreki iðnaðurinn vitnar um. Þannig er unnt að styrkja stoðir fyrir góð og stöðug lífskjör og lífsgæði.
    Ríki um allan heim keppast við að laða til sín beina erlenda fjárfestingu með markvissum hætti þar sem ríkur skilningur er á því að slík fjárfesting bætir lífskjör.
    Kynningarstarfsemi, fyrirsjáanlegt og traust lagaumhverfi beinnar erlendrar fjárfestingar, sterkir innviðir, gott vinnuafl og margskonar ívilnanir eru meðal þess sem öll nágrannalönd okkar leggja áherslu á til að fá beina erlenda fjárfestingu til sín.
    Bein erlend fjárfesting skapar oft ekki einungis störf og verðmæti heldur getur hún og aukið fjölbreytni í atvinnulífi og í útflutningsgreinum, ef vel er á málum haldið. Almennt gildir sú regla að því fjölbreyttari sem útflutningur er, því minni verða ófyrirséðar sveiflur í verðmæti hans.
    Ísland er lítið og fremur einhæft hagkerfi og reiðir sig þess vegna umtalsvert á utanríkisverslun. Hlutfall útflutnings vöru og þjónustu af vergri landsframleiðslu var 53,4% árið 2009 9 og þetta hlutfall er hærra í mörgum smáum hagkerfum, en sambærilegar tölur fyrir stór hagkerfi á borð við Bandaríkin eru um 10–15%. Útflutningshlutfallið endurspeglar hversu mikilvæg stefna í milliríkjaviðskiptum (e. international trade and investment) er fyrir Ísland.
    Þörfin fyrir samstarf við erlenda aðila er mikil í smáum og tiltölulega einhæfum hagkerfum eins og því íslenska, ekki einungis vegna aðgangs að fjármunum heldur einnig til að auka fjölbreytni, bæta markaðsaðgang, ýta undir samkeppni og færa nýja þekkingu inn í atvinnulífið. Sterk rök hníga því að því, að markviss stefnumótun í tengslum við beina erlenda fjárfestingu sé mikilvægari fyrir Ísland en flest önnur hagkerfi í heiminum.
    Bein erlend fjárfesting sem felur í sér ný störf eða ný verðmæti getur gengt mikilvægu hlutverki í uppbyggingu íslensks atvinnulífs eftir hrunið. Samstarf við erlenda aðila sem eru tilbúnir til að leggja til fjármuni, þekkingu og aðstöðu auk þess að uppfylla skýr lagaákvæði er alltaf eftirsóknarvert en alveg sérstaklega á tímum þar sem fjárfestingar eru í lágmarki og atvinnuleysi mikið.
    Þetta endurspeglast í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingar græns framboðs frá maí 2009, þar sem segir m.a. að til að ná góðum og jöfnum hagvexti sem sé forsenda fyrir nýjum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi, þurfi „að stuðla að beinni erlendri fjárfestingu“.
    Erlenda fjárfestingu á ekki að laða að með vísan í lág laun eða lágt orkuverð. Ísland getur ekki og á ekki að keppa við önnur lönd á þeim grundvelli, heldur fremur að leitast við að verða samkeppnishæft á öðrum sviðum. Ekki á heldur að keppa um erlenda fjárfestingu með vísan í veikburða umhverfislöggjöf eða með því að ganga á önnur lífsgæði Íslendinga.
    Samkeppnishæfar útflutningsgreinar eru ekki markmið í sjálfu sér, heldur hluti af því að byggja upp samkeppnishæf lífskjör og lífsgæði.

1.2 umfang beinnar erlendrar fjárfestingar á íslandi.
    Seðlabankinn hefur það hlutverk að safna gögnum um beina erlenda fjárfestingu hér á landi og allnokkrar hagfræðirannsóknir hafa verið gerðar á slíkri fjárfestingu á Íslandi. 10 Framan af bar mest á beinni erlendri fjárfestingu til orkufreks iðnaðar. Bein erlend fjárfesting tengd orkufrekum iðnaði hefur þá sérstöðu að koma í stórum þrepum frekar en jafnt og þétt, ákvörðunarþættir beinnar erlendar fjárfestingar á Íslandi með sérstakri áherslu á orkufrekan iðnað hafa talsvert verið rannsakaðir. 11
    Bein erlend fjárfesting hefur komið til í tengslum við orkufrekan iðnað á Íslandi, m.a. vegna hagstæðs orkuverðs, góðra hafnarskilyrða, góðs aðgengis að köldu vatni, legu landsins og þá spilar inn í að flutningskostnaður hefur minna vægi en fyrir margar hefðbundar vörur, jafnframt því að varan er ekki viðkvæm í tengslum við geymsluþol eða nálægð við neytendamarkað. 12
    Dr. Michael Porter vakti athygli á þessari staðreynd í fyrirlestri hér á landi árið 2006 og aftur árið 2010 þar sem hann birti yfirlit yfir samkeppnisstöðu Íslands í útflutningi á heimsmarkaði undanfarin ár. Þar kemur fram að markaðshlutdeild Íslands í heimsframleiðslu hefur aukist hvað hraðast í málmframleiðslu og er, ásamt sjávarafurðum, að verða okkar stærsta útflutningsgrein. Aukning hlutdeildar Íslands í nýsköpun eða framleiðslu í hátæknigreinum væri lítil, þrátt fyrir áhugaverð fyrirtæki á þessu sviði. 13
    Nefnd sem fjallaði um íslenska skattkerfið, samkeppnishæfni þess og skilvirkni 14 komst að sömu niðurstöðum og Porter, þ.e. að um tiltölulega einhæfar erlendar fjárfestingar væri að ræða á Íslandi, en í skýrslunni kemur m.a. fram:
        Talið er að fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi nemi um 250 milljörðum í árslok ársins 2005. Er hún talin hafa aukist úr nærri 180 milljörðum króna frá árinu 2001 er hún var um 70 milljarðar. Um 190 milljarðar króna eða um 75% af hinni erlendu fjárfestingu voru í eigu fyrirtækja sem skráð eru í Lúxemburg eða á öðrum svæðum sem fyrst og fremst eru þekkt sem athvarf eignarhaldsfélaga sem njóta þar skattalegra fríðinda. Aukning á raunverulegri erlendri fjárfestingu (nýfjárfestingu) virðist því ekki veruleg ef frá er talin fjárfesting í stóriðju.
    Frá árinu 2005 hefur þó borið á nýfjárfestingum á fleiri sviðum og nægir að nefna eftirfarandi erlend fyrirtæki sem öll eru starfandi á Íslandi í dag:
     *      Becromal framleiðir álþynnur fyrir þétta. Hefur tekið ákvörðun um stækkun starfseminnar sem fara mun fram á næsta ári.
     *      Nimblegen sinnir stofnfrumurannsóknum og þjónustu við alþjóðleg lyfjafyrirtæki.
     *      Framestore annast eftirvinnslu kvikmynda.
     *      Íslenska Kísilfélagið ehf. framleiðsla á kísilmálmi í Helguvík; í meirihlutaeigu bandarískra aðila.
     *      Minkabú í Héraðsdal í Skagafirði; í eigu danskra aðila.
     *      Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal; í eigu írskra aðila.
     *      Verne Global Ltd. gagnaver í byggingu; í eigu bandarískra og íslenskra aðila.
     *      Carbon Recycling int. Undirbýr framleiðslu á umhverfisvænu metanoli; í eigu íslenskra og bandarískra aðila.
     *      Orf Líftækni; sótti erlent hlutafé til nýrrar starfsemi á árinu 2010.
     *      Brammer Ísland ehf. er alþjóðlegt fyrirtæki á sviði viðhaldsþjónustu (MRO).
    Öll eru þessi verkefni þó tiltölulega smá að umfangi og flokkast fyrirtækin í hóp smárra og meðalstórra fyrirtækja.
    Þá eru til alvarlegrar skoðunar ný verkefni á sviði beinnar erlendrar fjárfestingar. Þar um ræðir:
          framleiðslu á Sodium Klorate,
          framleiðslu á hreinkísil,
          framleiðslu á kísilmálmi,
          fjárfestingu í minkarækt,
          fjárfestingu í hótelrekstri,
          fjárfestingu í heilsutengdri ferðaþjónustu,
          fjárfestingu í gagnaverum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í súluritinu hér að ofan má sjá niðurstöður samanburðar á umfangi erlendrar fjárfestingar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á Íslandi og í nokkrum nágrannalöndum okkar árið 2009. Bein erlend fjárfestingin er liðlega 68% af landsframleiðslu árið 2009. Ef frá er talin fjárfesting í eignarhaldsfélögum er bein erlend fjárfesting á Íslandi líklega aðeins liðlega 26% af landsframleiðslu 2009 og að miklu leyti í stóriðju og málmiðnaði. Þeir sem fylgst hafa með erlendum fjárfestingum á Íslandi á undanförnum árum og þeim verkefnum sem orðið hafa að veruleika, telja að hlutfall eignarhaldsfélaga sé mun hærra hér á landi en í nágrannalöndunum og raunveruleg erlend fjárfesting því hlutfallslega minni hér á landi en opinber samanburður gefur til kynna.
    Ýmiskonar vandi er við mælingar á þessu sviði, til dæmis hvernig ríki kjósa að stilla af innflæði erlendrar fjárfestingar móti útgreiðslu arðs. Erlendur eignaraðili eins og til dæmis Magma Energy gæti hafið beina erlenda fjárfestingu með yfirtöku eða samruna, t.d. á árinu 2010, sem fæli ekki í sér fleiri störf eða stækkun verksmiðju. Síðan, t.d. á árinu 2015, gæti fyrirtækið ráðist í frekari beina erlenda fjárfestingu og í þetta sinn með umtalsverðri uppbyggingu mannvirkja, framlagi tækniþekkingar og fleiri störfum.
    Vegna þessara vandkvæða við mat beinnar erlendrar fjárfestingar hafa hagfræðingar í vaxandi mæli lagt mat á sölutölur erlendra fyrirtækja. Þar með telja menn sig vera að meta raunverulega starfsemi á staðnum. 15
    Skilgreining Seðlabanka Íslands á eignarhaldsfélögum inn í upplýsingar um beina erlenda fjárfestingu er svohljóðandi:
     *      Eignarhaldsfélag er skilgreint eftir ÍSAT 2008 stöðlunum.
     *      Bein fjármunaeign í fyrirtæki samanstendur af hlutdeild í bókfærðu eigin fé þess og hreinni lánastöðu gagnvart því. Fjárfestir sem veitir lán til dótturfyrirtækis í öðru landi eykur fjármunaeign sína á sama hátt og um hlutafjárframlag væri að ræða.
     *      Eigið fé er hlutafé/stofnfé, varasjóðir, endurmatsreikningur og óráðstafað eigið fé. Bókfært eigið fé getur hækkað með hlutafjárframlagi eða endurfjárfestingu hagnaðar.
     *      Til lánastöðu teljast bæði skammtíma- og langtímalán. Lánastöðunni er skipt upp í kröfur á dótturfyrirtæki, skuldir við dótturfyrirtæki og nettó stærð.
     *      Tekjur aðila af fjárfestingum geta verið á þrjá vegu, þ.e. í formi arðgreiðslna, endurfjárfests hagnaðar og hreinna vaxtatekna.
     *      Hugtök eru í samræmi við alþjóðlega staðla OECD og IMF. 16

1.3 samsetning beinnar erlendrar fjárfestingar 2009.
    Eins og sést á kökuritinu hér að neðan, þá er langstærsti hluti erlendu fjárfestingarinnar fjárfesting í eignarhaldsfélögum. 17 Í raun er stærstur hluti þessara eignarhaldsfélaga orðinn til sem veita fyrir erlent lánsfjármagn á árunum fyrir hrun. Það sem eftir stendur eru nær eingöngu fjárfestingar tengdar álframleiðslu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.













    Ef horft er til samanburðar við samsetningu beinnar erlendrar fjárfestingar í Danmörku sést hversu miklu fjölþættari hún er en hér á landi og fullyrða má að langstærstur hluti hennar tengist raunverulegri verðmæta- og atvinnusköpun. Þess ber að geta að hliðstæð sundurliðun hefur ekki fengist varðandi önnur samanburðarlönd sem getur að líta í súluritinu hér að framan þar sem þær reyndust ekki aðgengilegar í opinberum gögnum þessara landa en fyrirspurnir voru gerðar til Seðlabanka þeirra allra.
    Bein erlend fjárfesting í álframleiðslu hefur verið grundvöllur fyrir gríðarlega uppbyggingu í orkuvinnslu og dreifikerfi orku. Það má ekki gleyma því að sú sterka staða sem Ísland hefur á orkumarkaði er að verulegu leyti stóriðjunni að þakka.
    Hins vegar þarf að velta því fyrir sér hvort áframhaldandi uppbygging á þeim grunni sé skynsamleg og æskileg með tilliti til áhættudreifingar og verðmætasköpunar. Í það minnsta þarf að auka verulega hlutfall annarrar beinnar erlendrar fjárfestingar í landinu.
    Á Íslandi eru í gildi reglur sem takmarka eignaraðild útlendinga í íslenskum útgerðarfyrirtækjum og vinnslu. Reglurnar gera það að verkum að erlendir aðilar geta ekki fengið ráðandi stöðu í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Markmið þessara reglna er meðal annars að tryggja að einungis íslensk fyrirtæki, undir yfirráðum íslenskra aðila, sæki í sjávarauðlindina umhverfis Ísland. Þessar reglur leiða til þess að tækifæri íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til að sækja sér fjármagn eru takmarkaðar og eins eru reglurnar hindrun í vegi sameiningar við erlend fyrirtæki á sviði sjávarútvegs eða markaðssetningar á sjávarfangi.
    Í Evrópusambandinu (ESB) er réttur fólks til að fjárfesta almennt tryggður, óháð ríkisfangi eða atvinnugrein. ESB hefur hins vegar heimilað reglur sem eiga að tryggja að arðurinn af sjávarauðlindinni komi fram hjá því strandríki sem á auðlindina. Þannig geta fyrirtæki í sjávarútvegi notið frelsis til samstarfs við erlenda aðila en á sama tíma er leitast við að tryggja að eigandi auðlindarinnar njóti arðs af henni.
    Starfshópurinn telur vel koma til greina að kanna áhrif þess að heimila erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi, enda geti það gagnast íslenskum fyrirtækjum að sækja sér fjárfestingu og samstarfsaðila erlendis, en á sama tíma verði settar reglur sem tryggi að íslenska þjóðin njóti eðlilegs arðs af auðlindinni óháð því hver það er sem nýtir hana.

1.4 hindranir í vegi beinnar erlendrar fjárfestingar.
    Lítið umfang og einhæfni beinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi gefur tilefni til að ræða sérstaklega þær hindranir sem standa í vegi hennar.
    Starfshópurinn gat ekki fundið heimildir um mælingar á viðhorfum Íslendinga til erlendra fjárfesta en viðmælendur starfshópsins í atvinnulífi og stofnunum tala um almenna tortryggni gagnvart erlendum fjárfestum. Þeir benda á að skýringin á tortryggni kunni að vera sú ranghugmynd að hagnaður erlendra fjárfesta hljóti að vera tilkominn fyrir tap íslenskra aðila. Erlendir aðilar geri þannig „innrás“ á íslenskan markað og íslenskar auðlindir, sem er talið neikvætt. Fjárfestingar Íslendinga erlendis eru hins vegar jákvæð „útrás“.
    Ísland hefur upp á marga góða kosti að bjóða fyrir erlenda fjárfesta, meðal annars vegna góðra samskiptakerfa, staðsetningar, þátttöku í innri markaði Evrópusambandsins (ESB), hæfs starfsfólks og annarra þátta eins og nánar er rakið síðar í skýrslunni.
    Hins vegar eru einnig þættir sem fæla frá erlenda fjárfesta eða hafa neikvæð áhrif á áhættumat þeirra þegar skoðaðir eru mismunandi fjárfestingarkostir og hafa þannig áhrif á þá ávöxtunarkröfu sem þeir gera til verkefna á Íslandi.
    Óstöðugleiki gengis og skortur á aga í hagstjórn hefur áhrif á áhættumat erlendra fjárfesta. Þá er ekki einungis horft til mikils falls á gengi íslensku krónunnar í efnhagshruninu og gjaldeyrishöft, heldur einnig miklar sveiflur í gengi til lengri tíma. Ýmiskonar tæknilegar hindranir eru til staðar, til dæmis í regluverki sem takmarkar aðkomu erlendra aðila, skattalöggjöf o.s.frv. Ennfremur eru til staðar óáþreifanlegar hindranir sem felast í þeirri skynjun að hætta sé á að regluverki verði breytt yfir nótt án samráðs við hagsmunaaðila og að sértækar og afdrifaríkar ákvarðanir séu teknar sem hafi áhrif á rekstrarumhverfi einstakra fyrirtækja eða starfsgreina.
    Jafnframt mætti nefna fjarlægðarhindrun sem óáþreifanlega hindrun, en fjarlægð Íslands frá öðrum markaðssvæðum hefur mælst hafa marktæk neikvæð áhrif á beina erlenda fjárfestingu, sem og smæð heimamarkaðar. 18
    Viðmælendur starfshópsins nefna að erlendir fjárfestar skynji að landsáhætta sé mikil á Íslandi vegna óstöðugs efnhagslífs og pólitískra óvissuþátta. Þess vegna leiti sú spurning á erlenda fjárfesta, sem vilja taka þátt í áhugaverðum fyrirtækjum og verkefnum, hvort ekki sé mögulegt að færa starfsemina frá Íslandi.
    Þessi viðhorf eru staðfest í áhættumati Aon 19 , sem er alþjóðlegt tryggingarfyrirtæki. Aon metur landsáhættu fyrir beina erlenda fjárfestingu á Íslandi í þriðja flokki af sex, eða í meðalflokki. Ísland er eina vestræna landið sem stendur svo neðarlega í flokkun Aon. Meðal þeirra landa sem deila þessum flokki með Íslandi eru Rússland, Egyptaland, Tyrkland, Kína og Saudi-Arabía. Aon telur minni áhættu að fjárfesta í Suður-Afríku, Namibíu, Botswana og Rúmeníu, svo nokkur dæmi séu nefnd. Deila má um forsendur þessa áhættumats en áhættumat byggir að nokkru leyti á skynjun matsaðila og ef það er skynjun þeirra að áhætta sé mikil á Íslandi, þá hefur slíkt neikvæð áhrif.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Efnahags- og samvinnustofnun Evrópu (OECD) uppfærir reglulega skýrslu um hömlur á beinni erlendri fjárfestingu í ríkjum OECD og ýmsum öðrum ríkjum. Samkvæmt nýjustu skýrslunni 20 eru hvergi í OECD viðlíka hindranir í vegi beinnar erlendrar fjárfestingar og á Íslandi. Raunar er Kína eina ríkið sem skýrsluhöfundar fjalla um þar sem hindranir eru meiri en á Íslandi (sjá súlurit). Á skala þar sem 1 merkir að landið sé fullkomlega lokað fyrir beinni erlendri fjárfestingu og 0 merkir að landið sé fullkomlega opið fyrir beinni erlendri fjárfestingu fær Ísland gildið 0.4300. Til samanburðar þá er það Evrópuríki þar sem hömlur eru mestar, á eftir Íslandi, Eistland með gildið 0.098 og meðaltalið í OECD er 0.0095.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.















    Hömlur á fjárfestingum í einstaka atvinnugreinum, svo sem sjávarútvegi, hafa áhrif á þetta mat, m.a. mat OECD en þau áhrif eru ekki afgerandi þar sem Ísland er ekki eitt á báti hvað þetta varðar og mörg ríki hafa einhvers konar hömlur á fjárfestingum í einhverjum atvinnugreinum. Meginástæðuna fyrir því að Ísland fær algera falleinkunn hjá OECD er sú að skýrsluhöfundar telja að lög og vinnuaðferðir á Íslandi, við mat á því hvaða bein erlend fjárfesting sé heimil og hvaða fjárfesting sé óheimil, séu íþyngjandi og hamlandi. Án þess að skýrsluhöfundar vísi til þess sérstaklega, þá hlýtur hér að vera átt við lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri 22 og þá nefnd um erlenda fjárfestingu sem er kjörin af Alþingi.
    Starfshópurinn telur vandséð að þörf sé á sérstökum lögum sem hamla erlendri fjárfestingu, enda er sérstaklega fjallað um hömlur á eignarhaldi erlendra aðila í sérlögum um sjávarútveg, um orkunýtingu o.s.frv. Ennfremur verður ekki séð að þörf sé á sérstakri nefnd um erlenda fjárfestingu, enda geti viðkomandi fagráðuneyti og aðrir lögboðnir eftirlitsaðilar séð um eftirlit með því að bein erlend fjárfesting standist skilyrði laga og reglna. Starfshópurinn leggur því til að lögin verði afnumin og nefndin lögð niður.
    Skýrsla OECD er ekki eina vísbendingin um að regluverk og stjórnsýsla á Íslandi geti verið hamlandi, fremur en hvetjandi, fyrir beinar erlendrar fjárfestingar á Íslandi. Nokkur nýleg dæmi styðja þetta:
     Virðisaukaskattur á netþjóna í gagnaver. Þrátt fyrir að breið sátt sé um að æskilegt sé að laða til Íslands fjárfesta og þekkingu í uppbyggingu gagnavera þá tók um 18 mánuði að aðlaga reglur um virðisaukaskatt á netþjóna sem nauðsynlegar voru til að gera Ísland samkeppnishæft við önnur Evrópulönd á þessu sviði.
     Afstaða stjórnvalda til eignarhalds Magma á HS Orku. Skýrar og strangar reglur um eignarhald á auðlindum og umgengni við þær þurfa ekki að hafa neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu. Hins vegar ýtir umræða um eignaupptöku og aðrar sértækar aðgerðir sem hafa meiriháttar áhrif á rekstrarumhverfi einstakra fyrirtækja undir neikvætt áhættumat. Án þess að afstaða sé tekin til efnisatriða þessa einstaka máls þá bendir starfshópurinn á, að öll umræða um inngrip í einkaréttarlega samninga og eignarnám á einstaka fyrirtækjum hefur mikil og neikvæð áhrif á áhættumat erlendra fjárfesta. Ummæli ráðherra í þá veru að til greina komi að taka HS Orku eignarnámi eru ákaflega skaðleg fyrir beina erlenda fjárfestingu, svo ekki sé sterkar kveðið að orði.
     Afgreiðsla og ferill umhverfismats. Skýrar og strangar reglur um umhverfisleg áhrif verkefna þurfa ekki að hafa neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu og engin ástæða er til þess að slaka á umhverfiskröfum. Hins vegar er mikilvægt fyrir erlenda fjárfesta að geta treyst verkferlum og að stjórnsýslan sé skilvirk og gagnsæ. Sú hefur ekki verið raunin, m.a. þegar kemur að umhverfismati. Fyrirtækið REC sem framleiðir hráefni í sólarrafhlöður leitaði eftir staðfestingu yfirvalda um að tímalengd umhverfismats færi ekki fram yfir lögboðin mörk. Slíka yfirlýsingu var ekki unnt að fá þar sem yfirvöld telja sig ekki geta tryggt slíkt í gegnum lögin. Frestir eru rúmir og dæmi eru um ítrekaðar framlengingar. Engin viðurlög eru við því þegar frestir eru ekki virtir.
     Fyrirkomulag skipulagsmála. Núverandi fyrirkomulag skipulagsmála stendur í vegi fyrir samkeppnishæfni landsins gagnvart beinni erlendri fjárfestingu. Sveitarfélög eru í lykilhlutverki og ákvarðanir þeirra taka mið af svæðisbundnum hagsmunum fremur en almannahagsmunum. Þess eru dæmi að sveitarfélög neiti orkufyrirtækjum um að skipuleggja nýtingu orkusvæða nema gegn skuldbindingum um að orkan fari að einhverju eða öllu leyti til atvinnuuppbyggingar í héraði, þrátt fyrir augljóst óhagræði með tilliti til víðtækari hagsmuna.
     Umsóknir um bindandi álit vegna fjármálastarfsemi og framleiðslu. Strangar og skýrar reglur um fjármálastarfsemi og framleiðslu þurfa ekki að hafa neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu. Skýrt reglugerðarumhverfi er almennt talið kostur í þessu sambandi. Erlend fyrirtæki, hvort heldur í fjármálastarfsemi eða framleiðslu, þurfa hins vegar að hafa vissu um skattalega meðhöndlun starfseminnar þegar þau staðsetja sig hér á landi. Þjónustuaðilar við þessi fyrirtæki sem starfshópurinn ræddi við, svo sem skattaráðgjafar og endurskoðunarfyrirtæki, eru samdóma um að viðbrögð íslenskra stofnana séu of hæg og ómarkviss. Þetta er einnig niðurstaða sjálfstæðrar úttektar PwC í Belgíu frá 2010.
     Samkeppnishæfni skattkerfisins ekki talin áhugaverð. Árið 2008 var unnin skýrsla af PricewaterhouseCoopers (How Iceland can underpin FDI through tax incentives) um möguleika Íslands til að skapa samkeppnishæft umhverfi fyrir þjónustu á borð við fjármálaþjónustu alþjóðlegra fyrirtækja sem sjá um fjármögnun sína í gegnum eigin lánastofnun, umsýslufélög fyrir einkaleyfisþóknun og alþjóðlega skipaskráningu. Ekki hefur verið brugðist við þessum ábendingum og vart hægt að greina áhuga embættismanna og stjórnvalda á leiðum til stækkunar skattstofnsins og tekjuöflunar fyrir Ísland. Þvert á móti hafa erlend fyrirtæki, einkum kanadísk, sem hér hafa verið skráð um áraraðir og nýtt hafa þjónustu innlendra sérfræðinga til uppsetningar og reksturs eignarhaldsfélaga, kosið að hverfa frá Íslandi vegna óhagstæðra breytinga sem gerðar hafa verið á íslenskum skattalögum á undanförnum 2–3 misserum. Þessi fyrirtæki hafa greitt umtalsverðan skatt til íslenska ríkisins á hverju ári, jafnvel sem nemur hundruðum milljónum króna.

    Ef til vill má deila um forsögu og atburðarás þessara dæma sem hér eru sett fram en það er hins vegar tvímælalaust almennur skilningur viðmælenda starfshópsins að þeir sem íhugi að koma með beina erlenda fjárfestingu til Íslands setji vara við óstöðugleika í íslensku efnahagslífi, gjaldmiðilsáhættu og að margir óttist ófyrirséð inngrip stjórnvalda og óskilvirka stjórnsýslu. Þessi skynjun er staðfest í alþjóðlegu áhættumati fyrir beina erlenda fjárfestingu.
    Ef það er rétt, eins og þessi dæmi og lýsingar margra viðmælenda starfshópsins benda til, að þrátt fyrir stuttar boðleiðir sé stjórnsýslan á Íslandi hamlandi fyrir beina erlenda fjárfestingu, þá er það alvarlegt og brýnt úrlausnarefni.

1.5 leiðir til úrbóta.
    Meðal þess sem hægt er að gera til að lagfæra þessa stöðu er eftirfarandi:
     *      Alþingi og ríkisstjórn setji fram skýra stefnu um beina erlenda fjárfestingu.
     *      Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri verði numin úr gildi, enda er fjallað um hömlur á fjárfestingum í einstaka atvinnugreinum í sérlögum.
     *      Nefnd um erlenda fjárfestingu verði lögð niður.
     *      Setja skýrari vinnureglur fyrir stjórnsýsluna um að henni beri að gefa bindandi álit og að bindandi álit verði gefin innan skuldbindandi tímamarka, svo sem vegna skipulagsmála og skattamála.
     *      Skilgreina svæði fyrir mismunandi atvinnustarfsemi/klasa þar sem umhverfismat og önnur skipulagsmál, öll þjónusta við svæðið og aðrir þættir sem snúa að aðkomu opinberra aðila að mótun rekstraumhverfis, eru fyrirfram ákveðin og afgreidd. Þannig geta erlendir aðilar sem vilja setja á stofn nýja atvinnustarfsemi á Íslandi á því sviði, gengið að skipulagi og rekstrarumhverfi vísu.
     *      Sjálfsagt og eðlilegt er að sveitarfélög gegni mikilvægu hlutverki við ákvarðanatöku sem snertir atvinnuuppbyggingu og skipulagsmál, eins og lög gera ráð fyrir. Hins vegar kann að koma upp sú staða að sérhagsmunir einstakra byggðalaga stangist á við hagsmuni þjóðarinnar, þar sem sveitarfélög setja t.a.m. skilyrði um að orka nýtist í byggðalaginu eða að óeðlileg samkeppni milli sveitarfélaga leiði til lakari arðsemi og færri starfa. Þessa stöðu þarf að leysa með íhlutunarrétti ríkisins eða langtíma samningi milli ríkis og landeigenda.

2 LANGTÍMASTEFNUMÓTUN UM BEINA ERLENDA FJÁRFESTINGU.
    Stefna um beina erlenda fjárfestingu þarf að haldast í hendur við atvinnustefnu, stefnu í menntamálum og auðlindastefnu til lengri tíma. Lykilatriði í þessari vinnu er að unnið verði eftir breiðu samkomulagi sem allra flestra hagsmunahópa þannig að sameinast verði um grundvallaratriði og grundvallargildi til framtíðar. Heildstæð stefna fyrir beina erlenda fjárfestingu hefur ekki verið til staðar á Íslandi og engin formleg forgangsröðun á þeirri tegund erlendrar fjárfestingar, sem sóst er eftir, er fyrir hendi. Þess vegna átti starfshópurinn samtöl við aðila sem tengjast þremur mikilvægum stefnumótunarverkefnum sem unnin hafa verið á vegum ríkisstjórnar á undanförnum mánuðum.

2.1 Atvinnustefna: Ísland 20/20.
    Ríkisstjórnin samþykkti nýlega tillögur 20/20 hópsins um stefnumörkun og framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Íslandi fram til ársins 2020. Í þeim hluta skýrslunnar þar sem fjallað er um „einstök verkefni til að fylgja eftir stefnumörkun og atvinnustefnu“ segir:
        „Marka þarf skýra stefnu um erlenda fjárfestingu og vinna markvisst að því að greiða fyrir fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Sérstaklega þarf að huga að möguleikum til að afla þolinmóðs fjármagns fyrir innviði og áhættufjárfestingar á þekkingar- og nýsköpunarsviðinu.“
    Atvinnulífið og samkeppnishæfni þess byggist að mati nefndarinnar upp með þrennum hætti:
     *      Vaxtarskilyrði verði gerð sem hagstæðust fyrir starfandi fyrirtæki með almennri umgjörð um atvinnulífið.
     *      Stuðla verður sem mest að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi til að nýta með sem bestum hætti menntun og þekkingu til uppbyggingar sem fjölþættastrar starfsemi.
     *      Örva beina erlenda fjárfestingu til að skapa virðisauka og atvinnu með tiltölulega vel skilgreindum hætti þar sem hinar erlendu nýfjárfestingar byggja yfirleitt á margra ára markaðsaðgengi þeirra fyrirtækja, sem ákveða að setjast hér að með starfsemi sína.
    Af þessu verður ráðið að bein erlend fjárfesting sé mikilvægur þáttur í atvinnustefnu, setja þurfi skýrari ramma til framtíðar fyrir hvers konar erlenda fjárfestingu sem sóst er eftir og huga verði að því hvernig búið skuli að virðisaukandi nýfjárfestingum erlendra aðila.

2.2 Orkunýtingarstefna.
    Nýlega skilaði starfshópur af sér skýrslu og tillögum um orkustefnu til framtíðar. Í tillögum starfshópsins kemur fram að eitt af markmiðum orkustefnunnar sé að styðja uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á grundvelli orkuauðlinda þjóðarinnar, eðlis þeirra sem endurnýjanlegra auðlinda, og reynslu og þekkingar á sjálfbærri nýtingu slíkra auðlinda.
    Færa má rök að því að tilvist umhverfisvænna og endurnýjanlegra orkugjafa sé einn helsti segullinn fyrir beina erlenda fjárfestingu hér á landi. Mikilvægt er því að flétta saman viðskiptalega hagsmuni orkufyrirtækjanna og þjóðarinnar og finna leiðir til að hagsmunirnir fari saman við áherslur og val þeirra fjárfestingarverkefna sem hingað koma.
    Í greinargerð orkustefnunefndar er m.a. bent á þá erfiðleika sem geta verið því samfara að ná þessum markmiðum, svo sem smæð raforkumarkaðarins sem valdi því að orkufyrirtækin treysti sér ekki til að hefja byggingu virkjana fyrr en að sala raforkunnar er tryggð en þessi staða hefur valdið því fyrir stærri kaupendur, að þeir þurfa að staðfesta orkukaupin 3–4 árum áður en fyrsta afhending fer fram.
    Áhersla hefur því verið á að laða að tiltekna tegund stóriðju með hlutfallslega lágu orkuverði en tiltölulega öruggri kauptryggingu og löngum samningstíma, sem felur í sér stöðugleika.
    Færð eru að því rök að núverandi form sölusamninga leiði til áframhaldandi einsleitni í erlendum fjárfestingum, en skapi ekki umhverfi fyrir stofnun og vöxt minni og hugsanlega meira skapandi fyrirtækja.
        „Þetta getur leitt til áframhaldandi einhæfni í orkufrekum iðnaði, minni fjölbreytni í störfum og aukinnar hlutfallslegrar áhættu fyrir þjóðarbúið.“ 23
    Því bendir orkustefnunefnd á eftirfarandi leiðir til að tryggja aukna fjölbreytni tengda orkunýtingu:
     *      Í boði verði hverju sinni orka til fjölbreyttra verkefna, í smærri (1–10 MW) og meðalstórum (10–50 MW) einingum, til afgreiðslu innan þess tímaramma sem uppbygging verkefna af þeim stærðargráðum tekur að jafnaði, þ.e. eitt til fjögur ár.
     *      Raforkulög og reglur um tengingar við flutningsnet, dreifinet eða beint við virkjun séu þess eðlis að þau geti hentað smærri og meðalstórum orkunotendum enda taki þeir sanngjarnan þátt í kostnaði.
     *      Afhendingartími orku verði ásættanlegur bæði fyrir orkufyrirtæki og fyrir smáa og meðalstóra kaupendur.
     *      Að orkusölusamningar verði sem fjölbreyttastir að stærð og lengd og þeir renni út á mismunandi tímabilum.
     *      Að leitað verði kaupenda sem geta nýtt umframgetu í raforkuerfinu í góðum vatnsárum, án tryggingar fyrir afhendingu í lélegum vatnsárum.
     *      Að leitað verði leiða til að selja raforku og jarðvarma frá jarðhitavirkjunum til uppbyggingar iðngarða sem nýta hina fjölþættu orkustrauma jarðvarmavirkjana og framleiðslu og/eða affallsefni hvers annars, til dæmis í matvælaiðnaði, garðyrkju, líftækni, efnaiðnaði, pappírsvinnslu o.fl.
     *      Að ríkið hafi meiri stjórn á auðlindanýtingunni – þrói auðlindina og rannsaki orkusvæði, hanni útboð, sjái til þess að jafnt framboð verði á orku og innheimti auðlindagjald. Þannig tengi ríkið atvinnustefnu við auðlindastefnu.
    Starfshópur um beina erlenda fjárfestingu tekur heilshugar undir þessar niðurstöður og tillögur orkustefnunefndar og hvetur til markvissrar samþættingar á eigendastefnu orkufyrirtækjanna við atvinnustefnu og stefnu stjórnvalda um beina erlenda fjárfestingu, þannig að leitast verði við að samþætta þjóðarhag og viðskiptalega hagsmuni orkufyrirtækjanna. Opinber orkufyrirtækin þurfa þannig að fara eftir stefnumörkun stjórnvalda þar sem viðmiðið er þjóðarhagur.

2.3 Græna hagkerfið.
    Á vegum Alþingis er að störfum nefnd um græna hagkerfið með það að markmiði að fjölga störfum á sviðum sem stuðla að varðveislu og/eða endurheimt umhverfisgæða. Nefndin, sem er skipuð fólki úr öllum flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi, mun fara yfir stöðu þeirra málaflokka sem snerta græna hagkerfið allt frá reglum og starfsemi stjórnkerfisins til fjármögnunar og menntakerfis. Gert er ráð fyrir að úr þeirri vinnu komi fastmótaðar tillögur um umbótaaðgerðir.
    Það blasir við að stefnumótun um beina erlenda fjárfestingu þarf að taka mið af þeim markmiðum sem stjórnvöld og Alþingi setja sér um uppbyggingu græna hagkerfisins. Það á til dæmis við um hvers konar fjárfestingu er sóst eftir með ívilnunum, svo og hvernig kynningar- og markaðsstarfi fyrir beina erlenda fjárfestingu er háttað.

2.4 Menntamál.
    Því er gjarnan haldið fram í opinberri umræðu að menntunarstig á Íslandi sé hátt og að í þessu felist tækifæri í atvinnuuppbyggingu og beinni erlendri fjárfestingu.
    Í skýrslu Efnahags- og samvinnustofnunar Evrópu (OECD) um menntamál árið 2010 24 , kemur fram að Ísland fjárfestir um helmingi minna til háskólamenntunar en meðaltal OECD ríkjanna. Ísland er enn yfir OECD meðaltali þegar kemur að fjölda fólks með háskólamenntun en það mun breytast á næstu árum því í hópi 25 – 34 ára er Ísland undir meðaltalinu. Á Norðurlöndunum hefur um 40% fólks á þessum aldri lokið háskólaprófi en á Íslandi er hlutfallið um 33%. Það vekur athygli í skýrslu OECD að þrátt fyrir lítil framlög til háskóla þá ver Ísland meira fé til menntamála en meðaltal ríkja OECD. Skýringin er sú að framlög til grunnskóla eru hlutfallslega há á Íslandi og hvergi annars staðar í OECD er veitt meira til grunnskóla en til háskóla.
    Af þessu má ráða að verulegar breytingar þurfi að eiga sér stað á menntastefnu á Íslandi til þess að hún styðji við samkeppnisstöðu þekkingarfyrirtækja. Auka þarf framlög til háskóla og umtalsvert til rannsókna og huga að veitingu skattaafsláttar til fyrirtækja sem styðja grunnrannsóknir í háskólum.
    Líta má á fjárfestingu í verkmenntun og háskólamenntun sem fjárfestingu í innviðum fyrir allan þekkingariðnað og skapandi greinar, hvort sem fjallað er um tæknifyrirtæki, hönnun, framleiðslu eða þjónustu á svipaðan hátt og fjárfestingar í virkjunum eru nauðsynlegar fyrir orkufrekan iðnað. Þessi fjárfesting mun skila sér í væntanlegum hagnaði þessara fyrirtækja og beinum og óbeinum skatttekjum ríkins af starfsemi þeirra. Í því ljósi eru þær fjárhæðir sem settar eru í háskóla og rannsóknir á Íslandi ekki háar.
    Á fjárlögum ársins 2011 eru samanlögð framlög til Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri um 13 milljarðar króna og mikið vantar upp á að framlög til verkmenntunar á Íslandi mæti þörfum atvinnulífsins fyrir fagmenntað starfsfólk.
    Við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi þarf að leggja áherslu á að skapa verðmæt störf til að tryggja að lífskjör hér verði jafn góð eða betri en í nágrannalöndunum. Núverandi áherslur stjórnvalda og atvinnulífsins á að samkeppnisstaða útflutningsgreinanna sé svo góð kann að vera hættuleg, því hún felur m.a. í sér að laun hér á landi haldast lág. Samkeppnisstaða útflutningsgreinanna á því ekki að vera sjálfstætt markmið eða viðmið. Markmiðið á að vera samkeppnishæf lífskjör og verðmæt störf.

2.5 Leiðir til úrbóta.
    PricewaterhouseCoopers í Belgíu hefur dregið saman nokkra meginþætti sem ráða úrslitum um árangur við að laða að beina erlenda fjárfestingu. Þegar farið er yfir þá er ljóst að heildstæð stefnumótun til lengri tíma er lykilatriðið og tengist öllum öðrum þáttum svo sem vali á atvinnugreinum og geirum, auknu frumkvæði við að nálgast mögulega fjárfesta og fyrirtæki og kynningar- og markaðsstarf. Hér á eftir er farið yfir þessi atriði og bent á þá þætti sem bæta þarf úr:

Stjórnvöld móti langtímasýn og stefnu fyrir beina erlenda fjárfestingu í samhengi við aðra stefnumörkun.
    Ríkisstjórn Íslands hefur undirstrikað mikilvægi beinnar erlendrar fjárfestingar í samstarfssáttmála. Mismunandi skoðanir eru um hlutabréfakaup erlendra aðila í íslenskum hlutafélögum á vettvangi stjórnmálaen góð sáttvirðistveraumerlendarnýfjárfestingar. Sé lögð sérstök áhersla á erlenda fjárfestingu sem hefur nýsköpunargildi, skapast betri grundvöllur fyrir langtímastefnumótun og stöðugleika í starfi við að laða að beina erlenda fjárfestingu. Umtalsverður hluti beinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi undanfarna áratugi hefur verið á sviði orkufrekra verkefna svo auka þarf samhæfingu milli stefnu ríkisvalds, sveitarfélaga og orkufyrirtækja varðandi orkuháð verkefni með aðkomu erlendra fjárfesta.

Fjárfestingarstofur (Investment Promotion Agencies) hafi formlegt umboð til að framkvæma stefnu stjórnvalda á hverjum tíma.
    
Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hefur þróað eigin áherslur með forgangsverkefnum á grundvelli samkeppnisgreininga, en bæta þarf við formlegri leiðbeiningu og samþykki yfirvalda og setja viðmið til þess að mæla árangur af starfseminni.

Starfs- og lagarammi tryggi góða endurspeglun á stefnu stjórnvalda varðandi beina erlenda fjárfestingu.
    Koma þarf á beinum tengslum milli þeirra sem starfa að því að greiða fyrir beinni erlendri fjárfestingu og skrifstofum fagráðherra.

Skýr forgangsröðun á tegund beinnar erlendrar fjárfestingar.
    
Til að ná árangri þarf að vera ljóst hvers konar atvinnurekstri skuli sóst sérstaklega eftir, hvar styrkur Íslands liggur til framtíðar og hvers konar verkefni henta síður fyrir íslenskt samfélag. Engin samstaða er um slíkar áherslur og því hefur hvert verkefni fyrir sig verið afgreitt eftir því sem það hefur borist. Einn af göllunum við slíka „fyrstur kemur, fyrstur fær“ nálgun er að þau verkefni sem unnið er að henta ekki nauðsynlega atvinnustefnu og samfélagslegri uppbyggingu. Fjárfestingarsvið hefur komið sér upp eigin áherslusviðum sem flestir viðmælenda voru sammála um að væru eðlileg. Hins vegar komu fram sterk viðhorf viðmælenda þess efnis að aðgerðir til að laða að beina erlenda fjárfestingu þyrftu að haldast í hendur við styrkleika Íslands og miða að því að auka breidd í atvinnuuppbyggingu og nýfjárfestingum. Þannig mætti draga úr áhættu sem skapast vegna einhæfs atvinnulífs.

Skýr skilgreining á starfsemi fjárfestingarsviðs Íslandsstofu.
    Lýsa þarf formlega verkefnum fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og hlutverki sviðsins og tryggja fjármagn og mannafla til að sinna þeim. Hefðbundið fást fjárfestingarsvið við greiningu tækifæra, greiningu á samstarfsaðilum, markaðs- og kynningarstarf og aðstoð við verkefni með aðkomu erlendrar nýfjárfestingar og samskipti/þjónustu við erlenda fjárfesta.

Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hafi öfluga heimastöð og skilvirka starfsemi erlendis.
    Skilvirkt fjárfestingarsvið þarf að hafa starfsfólk sem getur sinnt samskiptum við æðstu stjórnendur mögulegra erlendra nýfjárfesta, sérfræðinga sem geta sinnt ítarlegri greiningarvinnu og jafnframt starfsfólk á Íslandi og utanlands sem getur sinnt skilvirku kynningarstarfi.

Ríkisstjórn tryggi fjármögnun og mannafla fyrir kynningar- og markaðsstarf.
    Fyrirkomulag fjármögnunar og umfang þarf að tryggja að unnt sé að gera langtímaáætlanir.

„Tæki“ til að laða að beina erlenda fjárfestingu þurfa að vera í samræmi við markmiðs- og aðgerðaáætlun.
    Lög um ívilnanir fyrir beina erlenda fjárfestingu eru stórt skref í rétta átt en ná tiltölulega skammt. Slíkar ívilnanir þarf að styðja með hraðvirkri og gegnsærri stjórnsýslu, skýrri sýn á framtíðarskipulag atvinnusvæða, upplýsingum um framboð á orku og stefnu um nýtingu hennar.

Gera þarf árangursmælingar og upplýsa um árangur.
    Starfsemi fjárfestingarsviðs Íslandsstofu hefur m.a. verið metin í gegnum alhliða úttekt UN 25 á vefsíðum og svörun fjárfestingarstofa um allan heim en bæta þarf við skipulegum árangursmælingum.

3 MAT OG VAL Á ATVINNUGREINUM EÐA GEIRUM SEM LEGGJA BER ÁHERSLU Á VIÐ KYNNINGU Á ÍSLANDI.
    Í erindisbréfi er þess farið á leit við starfshópinn að hann fjalli um mat og val á styrkleikum, tækifærum og atvinnugreinum eða geirum sem leggja beri áherslu á við kynningar- og markaðsstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu.
    Hingað til hefur bein erlend fjárfesting á Íslandi í miklu mæli verið á sviði álbræðslu, sem byggir m.a. á greiðum aðgangi að öruggri raforku á verði sem er við eða undir meðaltali á heimsvísu.
    Í skýrslu um ívilnanir frá Iðnaðarráðuneytinu í apríl 2009 segir m.a.:
             Ísland hefur nokkur tiltölulega vel afmörkuð tækifæri til að laða að BEF sem m.a. tengjast legu landsins, auðlindum þess og menntunarstigi þjóðarinnar.
             Þó raforka sé megin ástæða fyrir áhuga erlendra fyrirtækja á að staðsetja sig hér á landi er ljóst að hagkvæmt raforkuverð eitt og sér nægir ekki til þess að stíga skrefið til fulls. Aðrir kostir Íslands hafa einnig haft áhrif svo sem nálægð við markaði, stöðugleiki í stjórnkerfinu, lágir fyrirtækjaskattar, hátt menntunarstig, sveigjanlegt vinnuafl, góð verkmenning, sértæk tækniþekking, nægilegt landrými, góð hafnarskilyrði og fríverslunarsamningar við ESB og önnur lönd. Einmitt á öllum þessum sviðum skorar Ísland hátt samkvæmt niðurstöðum úr alþjóðlegum samkeppnisvísitölum hagvaxtar.
             Nálægð við markaði kann að hljóma einkennilega en þegar hráefni, raforku og markað er að finna í sitt hvorum heimshlutanum og flytja þarf hráefni um hálfan hnöttinn til þess að vinna úr því tiltölulega dýra vöru eins og raunin er með ál og kísiljárn þá er fjarlægð Íslands frá helstu mörkuðum í Evrópu og Norður Ameríku lítil og léttvæg. 26

    Ókostir Íslands frá sjónarhorni fjárfesta geta verið tengdir sömu þáttum og kostirnir. Lega landsins er þannig í sumum tilfellum ókostur þar sem flutningskostnaður á vöru með takmörkuðum virðisauka getur vegið upp kostnaðarlega hagkvæmni við staðsetningu á Íslandi. Lítill heimamarkaður takmarkar sömuleiðis fjölda fjárfestingartækifæra en margir erlendir fjárfestar ákvarða staðsetningu sína út frá því aðgengi sem slík staðsetning skapar þeim að nærmarkaði. Þá getur langur afhendingartími og aukinn geymslukostnaður ásamt skorti á framboði aðfanga, eins og á iðnaðargasi og afurðum efnaiðnaðar, eyðilagt ávinning af lægra raforkuverði og lágum fyrirtækjasköttum.
    Þrátt fyrir framangreindar takmarkanir verður að telja að talsverð tækifæri séu framundan fyrir land og þjóð umfram það sem gilt hefur fram til þessa. Ástæðurnar eru bæði tengdar aðstæðum á Íslandi og aðstæðum á erlendum mörkuðum.

3.1 Aðstæður á Íslandi.
    Aðild Íslands að EES getur gert Ísland að ákjósanlegri staðsetningu fyrir aðila sem t.d. koma frá Ameríku og vilja tryggja sér hagkvæmari aðgang að Evrópumarkaði gegnum Ísland.
    Efnahagshrunið með 50% gengisfellingu krónunnar hefur gert Ísland verulega samkeppnishæft kostnaðarlega, a.m.k. til skemmri tíma.
    Innviðir samfélagsins, einkum á suðvesturhorni landsins, hafa batnað verulega á undanförnum árum, þ.e. hvað varðar samgöngur, ljósleiðaratengingar og orkudreifingu.
    Ljósleiðaratenging milli Íslands og Evrópu er orðin viðunandi með tveimur afkastamiklum strengjum (Farice og Danice).
    Uppbygging hugbúnaðargeirans á Íslandi hefur gengið með miklum ágætum og farið er að bera á áhuga erlendra aðila um klasasamstarf við íslensku fyrirtækin.
    Yfirvöld hafa áhuga á að skapa aukna möguleika fyrir lítil og meðalstór orkuháð fyrirtæki með lækkun stóriðjuþröskuldar fyrir dreifingu orku í gegnum Landsnet og auknum möguleikum til beintengingar við jarðvarmaveitur, sbr. frumvarp til laga um endurskoðun raforkulaga.
    Ferðatengdar fjárfestingar munu á næstu árum miðast í ríkari mæli við fjárfestingu í afþreyingu og lengri dvöl á sama stað fremur en gistingu eina og sér. Slíkt opnar möguleika fyrir fjölþætt samstarf við erlenda fjárfesta, sem í vaxandi mæli hafa sýnt áhuga á aðkomu að slíkum verkefnum (PrimaCare og Heilsuþorpið að Flúðum).
    Sífellt betri flugsamgöngur til landsins, ásamt þeirri staðreynd að Ísland er á tímabelti mitt á milli Evrópu og Ameríku – sem auðveldar viðskiptasambönd.

3.2 Aðstæður erlendis.
    Orkuverð hefur farið ört hækkandi í nágrannalöndum og helstu samkeppnislöndum, einkum í Evrópu.
    Eftirspurn eftir grænni orku fer vaxandi eftir því sem umhverfismál verða ofar á baugi vegna hnattrænnar hlýnunar jarðar. Skattlagning á útblástur fyrirtækja sem neyðast til að nýta jarðefnaeldsneyti en eru e.t.v. að öðru leyti með umhverfisvæna framleiðslu, eykur áhuga
þeirra á flutningi starfseminnar til landa sem geta boðið upp á endurnýjanlega orku.
    Efnahagshrunið 2008 hefur á margan hátt skapað breyttar aðstæður á alþjóðlegum mörkuðum og valdið því að ný tækifæri eru að skapast. Þannig hafa fjárfestar í Asíu sýnt aukinn áhuga á staðsetningu hér á landi vegna legu landsins milli Evrópu og USA.
    Líkur eru taldar á bráðnun Norður-Íshafsins sem hefði í för með sér að sjóleiðin milli Evrópu og Asíu styttist um allt að 40%. Við það gætu skapast ný tækifæri til fjárfestinga hér á landi innan næstu 5–10 ára.
    Heilsutengd ferðaþjónusta færist í vöxt í heiminum og í kjölfarið eykst eftirspurn og áhugi á fjárfestingarverkefnum sem þessu tengjast.

    Fjárfestingarstofa, nú fjárfestingarsvið Íslandsstofu – hefur unnið og mótað áherslur sínar í samræmi við framangreinda þróun og forgangsraðað verkefnum og kynningarstarfi með það að leiðarljósi að fjárfestingartækifærin uppfylli sem best eftirfarandi meginskilyrði, þ.e. þau:
          bjóði upp á sem mestan virðisauka innanlands í gegnum framleiðsluferlið,
          hafi hlutfallslega mikla atvinnusköpun í för með sér og hátt hlutfall verðmætra starfa,
          geti leitt af sér nýja þekkingu og efli rannsóknir og þróun með tilvist sinni,
          feli í sér ný eða æskileg tækifæri og styrki þá innlendu starfsemi sem fyrir er,
          séu arðsöm og talin geta skilað hlutfallslega miklum tekjuskatti og stækkað þar með þjóðarkökuna,
          séu umhverfisvæn og beiti nýjustu tækni við starfsemi sína,
          auki fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.

3.3 Samkeppnisgreiningar.
    Fjöldi samkeppnisgreininga sem unnar hafa verið að frumkvæði verkefnisstjórnar Fjárfestingarstofu undanfarin ár sýna með ótvíræðum hætti að Ísland hefur að öðru jöfnu tækifæri til að laða að fjárfestingartækifæri sem uppfylla framangreind skilyrði.
    Hér á eftir er tekið saman stutt yfirlit yfir skýrslurnar og helstu niðurstöður þeirra:

Koltrefjar.

     Production of carbon fibers in Iceland: Comparison with production cost in Scotland and in Germany (2007)
    Iðntæknistofnun vann árið 2007, að frumkvæði Fjárfestingarstofunnar, samanburðarathugun á kostnaðarlegri samkeppnishæfni koltrefjaframleiðslu hér á landi í samstarfi við írska ráðgjafann Vince Kelly. Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að framleiðslukostnaður hér á landi væri á bilinu 15–25% lægri en í viðmiðunarlöndunum. UB Koltrefjar ehf. sem stofnað var m.a. til undirbúnings koltrefjaframleiðslu hér á landi komst að sömu niðurstöðu. Það er sem stendur í sambandi við leiðandi framleiðanda á þessu sviði um uppsetningu koltrefjaverksmiðju hér á landi, þegar markaðir hafa jafnað sig á efnahagshruninu 2008.
    Orkuþörf koltrefjaverksmiðju er á bilinu 10–15 MW og beinn starfsmannafjöldi yrði á bilinu 60–100. Þar af væru 15–20% menntaðir sérfræðingar og tæknimenn.

Efnaferlar.

    Diversified Usage of Renewable Energy in Iceland (2009)

    Investum ráðgjafafyrirtækið rannsakaði samkeppnishæfni Íslands fyrir framleiðslu á ýmiskonar efnaferlum sem hentað gætu til umhverfisvænnar nýtingar orkustrauma jarðvarmaveitna. Samkvæmt niðurstöðum Investum væri framleiðsla á klór, sodium klorate og lithium málmi einkar hentug hér á landi.
     Chemical Investments in Iceland (2010)
    Svissneska fyrirtækið Prochemics Ltd. gerði lauslega greiningu á klórbyggðum efnaferlum til frekari dýpkunar á úttekt Investum. Þeir benda á að Ísland sé mjög samkeppnishæft í grænni raforku og gufu. Af þessum sökum leggja þeir m.a. til að áhersla verði lögð á að laða til landsins starfsemi í tengslum við efnaferla til vatnshreinsunar og framleiðslu á hreinkísil.
    Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hóf kynningu á þessum niðurstöðum í evrópska efnaiðnaðinum á síðasta ári. Framleiðandi á sodium klorate og annar framleiðandi á hreinkísil eru sem stendur að íhuga staðsetningu á starfsemi hér á landi.
    Orkuþörf þessara fyrirtækja er misjöfn og háð stærð þeirra. Flest þeirra myndu hafa þörf fyrir 25–70 MW. Sodium Klorate verkefnið þyrfti um 50 MW og 60 starfsmenn og hreinkísilframleiðslan þyrfti um 60 MW og 350 starfsmenn í fyrsta áfanga, þar af um 30% háskóla- og tæknimenntaða.

Minkarækt.
    Í kjölfar örra framfara í íslenskri minkarækt og mikils áhuga minkabænda á samstarfi við erlenda kollega um uppbyggingu, hefur Fjárfestingarsvið safnað upplýsingum um stöðu greinarinnar hér á landi og samanburð við helstu samkeppnislönd sem eru Danmörk og Holland.
    Samkvæmt öllum gögnum sem fyrir liggja er Ísland eitt allra hagkvæmasta framleiðslulandið á þessu sviði: Afurðarverð er með því hæsta sem þekkist vegna mikilla gæða, framleiðslukostnaður er einna lægstur hér á landi, fóðurstöðvar eru vannýttar, landrými er fyrir hendi, sjúkdómar eru svo til óþekktir og úrgangur frá minkabúum er nýttur til áburðar á óræktartún.
    Í Danmörku og Hollandi er sótt að þessari atvinnugrein þar sem hún á illa við í þessum þéttbýlu löndum og því er m.a. mjög kostnaðarsamt að losna við úrgang, afla fóðurs o.s.frv.
    Talið er að 2–3 stöðugildi þurfi til að sinna ca. 1.500 læðum. Rekstur af þessu tagi fellur því afar vel að starfsemi í dreifbýli, skapar miklar gjaldeyristekjur (ca. 1 milljarður árið 2010) og talið að unnt sé að tífalda núverandi framleiðslu sem þá gæti aukið atvinnu á landsbyggðinni um allt að 200–300 störf.

Gróðurhús í iðnaðarskala.
    Frá árinu 2003 hefur Fjárfestingarstofan reglulega látið samkeppnisgreina Ísland með tilliti til matvælaframleiðslu í risagróðurhúsum (allt að 100.000 m 2). Samkeppnishæfnin hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár vegna hækkandi orkuverðs erlendis og aukinnar ásóknar í framleiðslu sem ekki notar skordýraeitur til að halda sníkjudýrum í skefjum.
    Fyrirliggjandi drög að breytingum á raforkulögum gera ráð fyrir heimild til beintengingar við jarðvarmaveitur og lækkun á skilgreiningu á stóriðjutaxta fyrir orkudreifinguna, en hvoru tveggja mun auka samkeppnishæfnina umtalsvert.
    Nokkrir aðilar hafa sýnt fjárfestingarverkefni af þessu tagi áhuga en ótti innlendra aðila við samkeppni frá svo stórum og hagkvæmum framleiðanda sem þessi viðskiptahugmynd gerir ráð fyrir, hamlar því m.a. að verkefninu sé hrundið í framkvæmd.
    Gróðurhús upp á 100.000 m 2 þarf 14 MW af raforku en nýtir jafnframt heitt og kalt vatn auk koltvísýrings. Í húsum af þessari stærð má reikna með vinnu fyrir á bilinu 60–100 manns sem háð er því hversu langt er stefnt í pökkun, úrvinnslu og flokkun.

Gagnaver.
     Benchmarking Study on Iceland as a Location for Data Centre Activity (Mai 2007)
    Unnin var greining á samkeppnishæfni Íslands árið 2007 að frumkvæði Fjárfestingarstofu og í samstarfi við orkufyrirtækin, íslensku símafyrirtækin og samtök upplýsingatæknifyrirtækja. Þar kemur fram að Ísland stendur viðmiðunarlöndunum (Indland, USA, UK) langtum framar í kostnaði og nokkurn veginn jafnfætis þeim bestu í gæðum.
    McKinsey ráðgjafafyrirtækið hefur síðan reiknað það út að m.v. 15 MW rafmagnsnotkun og meðaltalskostnað í Evrópu, sé sparnaður gagnavera um 17 milljónir dollara á ári eða 16% heildarkostnaðar séu þau staðsett á Íslandi. Mckinsey gefur Íslandi jafnframt hæstu einkunn af þeim löndum sem einna helst eru talin koma til greina fyrir staðsetningu gagnavera í framtíðinni.
    Með nýtilkominni breytingu VSK-laganna er talið að mörgum hindrunum hafi verið rutt úr vegi fyrir uppbyggingu gagnaversiðnaðar hér á landi.
    Orkuþörf gagnavera er breytileg eftir stærð þeirra og þjónustustigi en ætla má að meðal orkuþörf sé á bilinu 15–25 MW. Orkuþörfin getur þó orðið umtalsvert meiri enda gera áætlanir Verne Global, sem nú undirbýr sinn rekstur hér á landi, ráð fyrir framtíðarstækkun upp í allt að 100 MW. Atvinnusköpun er 1–4 stöðugildi pr. MW, háð tegund og eðli starfseminnar.

Tölvuleikjaframleiðsla.
    Making Iceland competitive in attracting foreign videogame company investment (Jan. 2011)
    Jess Mulligan, ráðgjafi á sviði tölvuleikjaframleiðslu, skoðaði nýlega samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði og bar hana saman við samkeppnishæfni Bretlands, Svíþjóðar og Kanada í atvinnugreininni. Niðurstöðurnar eru ótvíræðar. Kanada hefur ótvírætt forskot vegna þeirra ívilnana sem fyrirtæki í þessum geira njóta, en yfirvöld í Kanada settu sér fyrir allmörgum árum markmið um að byggja upp tölvuleikjaiðnað þar í landi.
    Skýrsluhöfundur telur eigi að síður að tækifæri séu til að laða að ákveðna tegund tölvuleikjafyrirtækja til Íslands og jafnvel með erlenda starfsmenn innanborðs. Helst kemur til greina að hans mati að fá inn fyrirtæki á sviði „online, mobile and social games“. Þetta eru gjarnan lítil og sveigjanleg fyrirtæki (6–15 starfsmenn) og með hlutfallslega mikla rannsóknar og þróunarstarfsemi. Helsti veikleiki okkar er þó talinn vera skortur á menntuðu fólki til starfa í þessari atvinnugrein og því er lögð áhersla á að samræma atvinnuuppbyggingu á þessu sviði við langtíma uppbyggingu menntunar til að tryggja starfsfólk. Jafnframt er talið nauðsynlegt að gera búsetu og starf erlendra sérfræðinga meira aðlaðandi með tímabundnum skattaívilnunum í anda þess sem flest þróuð ríki stunda, einkum og ekki síst í kjölfar efnahagskreppunnar.

Líftækni.
     Assessment of the Icelandic Biotech System (Strategro International LLC feb. 2007)
    Úttekt þessi var framkvæmd fyrir AVS og Samtök líftæknifyrirtækja á Íslandi. Þar kemur fram að skortur á stefnumörkun, stærð, sérhæfðu starfsfólki og samstarfi opinberra aðila, háskóla og einkaaðila séu helstu hindranir fyrir vexti líftæknigeirans á Íslandi.
    Á sama hátt er það álit skýrsluhöfunda að Ísland eigi mjög góða möguleika til vaxtar á ýmsum sviðum líftækni. Bent er á að við eigum jarðvarma, sjávarfang, aðlaðandi einkaleyfisumhverfi og frambærilega háskóla með hæfu fólki.
    Ljóst er því að hér er um óplægðan akur að ræða en ekki er að búast við árangri nema í gegnum langtíma stefnumörkun stjórnvalda og aðgerðaáætlun til uppbyggingar.
    Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hefur fengið áhugaverðar fyrirspurnir á þessu sviði, svo sem í tengslum við þörungarækt fyrir fæðubótarefni og framleiðslu á heilsusalti. Bæði þessi verkefni eru í vinnslu hjá erlendum fjárfestum með aðstoð fjárfestingarsviðs Íslandsstofu.

Skattar sem samkeppnistæki.
     How Iceland can underpin FDI through tax incentives?
    Mörg lönd hafa nýtt sér skattaumhverfi sitt til að laða að fjármálaþjónustu af ýmsu tagi.
    Sammerkt er með þessari tegund starfsemi að hún er tiltölulega kvik, þ.e. breytist samkeppnisskilyrðin, hverfur hún annað. Jafnframt er um að ræða starfsemi sem byggir á sérfræðiþjónustu vel menntaðra einstaklinga og síðast en ekki síst skapar hún umtalsverðar skatttekjur þó jaðarskattar séu hafðir hlutfallslega lágir.
    PricewaterhouseCoopers í Belgíu vann skýrslu í maí 2008 um það hvort og hvernig Ísland geti laðað að sér beina erlenda fjárfestingu með ívilnunum. Þó skýrslan hafi verið unnin fyrir bankahrun eru öll meginsjónarmið og niðurstöður ennþá í fullu gildi.
    Í skýrslunni er bent á a.m.k. þrenns konar starfsemi sem Ísland ætti að horfa til með það í huga að laða hingað til lands. Þar er um að ræða: Fjármálaþjónustu alþjóðlegra fyrirtækja sem sjá um fjármögnun sína í gegnum eigin lánastofnun, umsýslufélög fyrir einkaleyfisþóknun og „royalties“ og félög sem sinna alþjóðlegri skipaskráningu.
    Ýmissa úrbóta er talið þörf en engar þeirra eru óyfirstíganlegar. Á það er einmitt bent að litlar þjóðir geti haft einna mestan hag af því að nýta skattkerfi sitt með þessum hætti, enda sé slíkt gert með gegnsæjum og ábyrgum hætti í anda alþjóðasamninga og skuldbindinga.

3.4 Leiðir til úrbóta.
    Starfshópurinn telur að samkeppnishæfni Íslands sé helst á sviðum sem tengjast hreinu umhverfi, hreinni orku, menntuðu og skapandi starfsfólki, landrými og góðu skipulagi samskiptakerfa. Auk þess býður Ísland öruggt, heilnæmt og fjölskylduvænt umhverfi sem kann að vera eftirsóknarvert, að öðru jöfnu, fyrir sérfræðinga sem æskilegt er að laða til landsins.
    Í ljósi þeirrar langtímastefnumótunar sem unnin hefur verið í atvinnu- orku- og menntamálum og þeirrar greiningar sem unnin hefur verið á samkeppnishæfni Íslands leggur starfshópurinn til eftirfarandi viðmið fyrir mat á því hvað telst vera æskileg bein erlend fjárfesting. Æskilegt er að hún:
          bjóði upp á sem mestan virðisauka innanlands í gegnum framleiðsluferlið,
          hafi hlutfallslega mikla atvinnusköpun í för með sér og hátt hlutfall verðmætra starfa,
          geti leitt af sér nýja þekkingu og efli rannsóknir og þróun,
          feli í sér ný tækifæri eða tækifæri sem talin eru æskileg til styrkingar innlendri starfsemi sem fyrir er,
          sé arðsöm og talin geta skilað hlutfallslega miklum skatttekjum,
          sé umhverfisvæn og beiti nýjustu tækni við starfsemi sína,
          ýti undir fjölbreytni atvinnulífsins,
          falli vel að ímynd Íslands.
    Í þessu felst meðal annars að ekki verði sóst eftir frekari beinni erlendri fjárfestingu til nýrra álvera, meðal annars vegna þess að frekari fjárfestingar á því sviði eru áhættusamar fyrir íslenskt efnhagslíf í ljósi einhæfni í atvinnulífinu. Að auki byggir arðsemi álvera að verulegu marki á stærðarhagkvæmni og því er skynsamlegra að stækka þær einingar sem fyrir eru en að bæta við nýjum.
    Í kynningar- og markaðsstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu leggur starfshópurinn til að áhersla verði lögð á starfsemi sem:
          er þekkingarmiðuð og beitir nýjustu tækni,
          er umhverfisvæn í þeim skilningi að ekki sé um að ræða loftmengun, jarðvegsmengun eða, vatnsmengun,
          er orkuháð og greiðir hlutfallslega hátt verð fyrir orku,
          þarf hlutfallslega mikið landrými,
          byggir á styrkleikum lands og þjóðar svo sem viðskiptasamningum, umhverfi, legu landsins, auðlindum og menntun.
    Undir þessar áherslur fellur meðal annars margskonar iðnaður sem er orkuháður og byggir á nýrri tækni, hugbúnaðariðnaður, gagnaver, skapandi greinar, þjónustuiðnaður, heilsutengd ferðmennska og líftækniiðnaður.
    Samnefnarar fyrir þessi svið er orka, náttúra og þekking.

4 AUKIÐ FRUMKVÆÐI VIÐ AÐ NÁLGAST MÖGULEGA FJÁRFESTA OG FYRIRTÆKI.
    Í erindisbréfi beindi ráðherra því sérstaklega til starfshópsins að fjalla um aukið frumkvæði við að nálgast mögulega fjárfesta og fyrirtæki.
    Öll nágrannalönd okkar reka stofnanir sem hafa það markmið að laða að beina erlenda fjárfestingu.
    Verkefni tengd markaðs- og kynningarstarfsemi tengd beinni erlendri fjárfestingu eru fjölþætt og fela meðal annars í sér:
          almenna markaðssetningu lands og kynningarstarf,
          sölutengd verkefni: fyrirtækjaheimsóknir, fyrirlestra, svæðaheimsóknir og atvinnugreinaráðstefnur,
          upplýsingagjöf: almenn og sértæk tengslamiðlun.
    Hjá mörgum fjárfestingarstofum felst starfsemin að auki í undirbúningi skipulagsmála, útvegun húsnæðis, uppbyggingu innviða fyrir iðngarða, leyfisveitingum og aðstoð við umsóknir fyrir ívilnanir.
    Fjárfestingarstofur eru almennt fyrsti viðkomustaður fjárfesta sem skoða viðkomandi land sem fjárfestingarkost. Hlutverk þeirra er því að veita upplýsingar, ráðgjöf og aðstoða fjárfesta í samskiptum við innlenda hagsmunaaðila.
    Vinna við að laða beina erlenda fjárfestingu til Íslands er lítil og brotakennd í samanburði við nágrannalönd okkar. Stefnumörkun er óljós, málefnið fær mjög lítið fjármagn og í öfugu hlutfalli við þörf, starfskraftar eru mjög takmarkaðir, skipulag er óskilvirkt og árangursmælingum er ábótavant.
    Sérfræðingar frá PricewaterhouseCooper í Belgíu gerðu úttekt á stöðu málaflokksins á Íslandi og birtu ítarlega skýrslu í ágúst 2010. Skýrsla sérfræðinganna var m.a. byggð á viðtölum við aðila innan stjórnsýslu, Aþingis og atvinnulífs. Meginniðurstaða þeirra er að þrátt fyrir að fjárfestingasvið Íslandsstofu standi sig sérstaklega vel miðað við aðstæður og sýni metnað og frumkvæði í kynningar og markaðsstarfi þá sé umgjörð starfseminnar stórlega ábótavant.
    Á árunum 1995–2004 störfuðu tvær skrifstofur sem höfðu það meginhlutverk að draga beina erlenda fjárfestingu til Íslands. Annars vegar MIL (Markaðsstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar), með fjóra starfsmenn sem sinntu markaðssetningu á Íslandi fyrir stóriðju og Fjárfestingarstofan – almennt svið sem hafði fjóra starfsmenn sem sinntu kynningu á Íslandi fyrir öll önnur fjárfestingartækifæri. Þá stóð Aflvaki Reykjavíkur einnig fyrir viðamikilli kynningu á Reykjavík í samstarfi við báðar ofangreindar fjárfestingarstofur þannig að segja má að allt að ellefu starfsmenn hafi sinnt þessum verkefnum fram til ársins 2004.
    Með breyttum samkeppnislögum á orkumarkaðinum árið 2004 var MIL lögð niður og færðist þá markaðs- og kynningarstarfið vegna orkufrekra fjárfestingartækifæra sjálfkrafa yfir til Fjárfestingarstofu, sem jafnframt var færð á rekstrarlega ábyrgð Útflutningsráðs með sérstökum samstarfssamningi milli viðskiptaráðuneytisins og ráðsins.
    Sá starfsrammi sem búinn hefur verið markaðs- og kynningarstarfi fyrir beina erlenda fjárfestingu frá árinu 2004 og fram til þessa dags, byggir í stórum dráttum á eftirfarandi staðreyndum:
     *      Starfsemin hefur einungis verið skilgreind sem verkefni með sérstakri kennitölu. Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hefur því ekki stöðu sem sérstök eining innan stjórnkerfisins á borð við Nýsköpunarmiðstöð, Orkustofnun og fleiri aðila. Stjórnsýsluleg staða málaflokksins á fjárlögum er því afar veik.
     *      Fjármögnun byggir á 14% hlutdeild af markaðsgjaldi og hefur numið 45–55 milljónum ISK á ári að jafnaði ásamt beinu framlagi af fjárheimildum iðnaðarráðuneytisins (nú kr. 17.3 milljónir ISK) sem var óbreytt að krónutölu á árunum 1995–2007 (kr. 15 milljónir), en hefur síðan tekið árlegum verðlagsbreytingum (2007–2010).
     *      Stöðugildi við markaðs- og kynningarstarf hafa verið 2–2.5 en Fjárfestingarstofan hefur jafnframt annast kynningu á ívilnunum til kvikmyndagerðar með hálfu stöðugildi. Framlög til þessa kynningarstarfs hafa síðustu tvö árin numið kr. 6 milljónum en voru án framlaga á árunum 2004–2007.
     *      Mikil lækkun á gengi íslensku krónunnar samfara lækkun markaðsgjalds vegna samdráttar í efnahagslífinu hefur minnkað „kaupmátt“ framlaga til Fjárfestingarstofu svo nemur tugum prósenta undanfarin tvö ár.
    Fjárfestingarstofan, nú fjárfestingarsvið Íslandsstofu, hefur á undanförnum árum unnið eftir svohljóðandi leiðarljósi:
                 Fjárfestingarsvið Íslandsstofu leitast við, á grundvelli sérstaks samkomulags við ríkisstjórn Íslands, að laða að beina erlenda fjárfestingu til landsins í gegnum kynningar- og markaðsstarf sitt. Fjárfestingarsvið aðstoðar erlenda fjárfesta með því að veita hágæða þjónustu á öllum þeim sviðum sem nauðsynleg eru til að fjárfestirinn geti metið Ísland sem fýsilega staðsetningu fyrir væntanlega nýfjárfestingu. Til að auka árangur sinn enn frekar, mun fjárfestingarsvið greina og mæla samkeppnishæfni Íslands varðandi erlendar nýfjárfestingar í ákveðnum atvinnugreinum, sem búast má við að séu áhugaverðar fyrir atvinnuuppbyggingu á Íslandi, og sem fyrirfram má ætla að hefðu hag af staðsetningu hér á landi. Þá mun fjárfestingarsvið leitast við að upplýsa íslensk stjórnvöld á hverjum tíma um þörf fyrir lagaumbætur sem æskilegar eru til að örva beina erlenda fjárfestingu.
    Fjárfestingarákvarðanir eru tæknilegs eðlis og krefjast ítarlegra úttekta á staðháttum og því þurfa árangursríkar fjárfestingarstofur að geta veitt ítarlegar, tæknilegar upplýsingar um staðhætti fyrir hvert verkefni um sig. Þetta er mannfrek starfsemi og krefst stoðdeildarþjónustu til að unnt sé að veita sem besta upplýsingagjöf hverju sinni. Þess vegna er rík ástæða til að setja á fót formlegt samstarf fjárfestingarsviðs Íslandsstofu við stoðkerfi atvinnulífsins út um allt land, þannig að fjárfestingarsvið hafi stjórnunar- og samhæfingarhlutverk en miðstöðvar stoðkerfisins verði markaðsskrifstofur sinna svæða og sjái fjárfestingarsviði fyrir staðbundnum upplýsingum og kynningarefni.
    Í úttekt PricewaterhouseCoopers frá árinu 2010 er að finna samanburð á umfangi, fjármögnun og mönnun milli Íslands, Möltu, Svíþjóðar og Flanders þar sem kemur fram að Ísland stendur þessum svæðum langt að baki varðandi umgjörð og fjármagn sem varið er til þessa málaflokks, hvort sem horft er á krónutölu pr. íbúa eða heildarfjárhæðir. Annar ókostur er að framlögin lækka í kreppuástandi, þegar mest þörf er á beinni erlendri fjárfestingu. Þá er fyrirkomulag fjármögnunar með þeim hætti að erfitt er að gera langtímaáætlanir. Viðmælendur voru sammála um að árangur fjárfestingarsviðs Íslandsstofu væri eftirtektarverður í þessu ljósi.
    Starfsmenn fjárfestingarsviðs Íslandsstofu hafa lengst af verið þrír talsins þar sem hálft stöðugildi er bundið við kynningar á ívilnunum vegna kvikmyndagerðar. Enginn fjárhagslegur grundvöllur er fyrir fastri starfsemi utan Íslands eins og sakir standa. Frá 1. mars 2011 hefur starfsmönnum verið fjölgað í fjóra og er þá horft til ákveðinna verkþátta sem mynda samlegð með annarri starfsemi Íslandsstofu (vefsíðugerð, gerð kynningarefnis o.fl.)

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í töflunni er yfirlit yfir fjölda starfsmanna sem starfa að kynningar- og markaðsstarfi fyrir beina erlenda fjárfestingu. Bláa súlan táknar fjölda starfsmanna sem starfa hjá fjárfestingarstofum landanna og sú rauða táknar fjölda starfsmanna sem einungis vinnur að kynningar- og markaðsstarfi fyrir beina erlenda fjárfestingu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér sést fjöldi starfsmanna á hverja 100.000 íbúa í þessum fjórum löndum. Ekki kemur á óvart að Malta hefur hlutfallslega fleiri starfsmenn á þessu sviði en Flanders eða Svíþjóð þar sem smærri hagkerfi verja almennt hlutfallslega mun meira fjármagni og fleiri starfsmönnum til málaflokksins en þau sem stærri eru. Hins vegar er áberandi hversu fáir starfsmenn koma að málaflokknum á Íslandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér sjást fjárframlög til fjárfestingastofa (bláa súlan) og til kynningar- og markaðsstarfs fyrir beina erlenda fjárfestingu (rauða súlan) á Íslandi og í viðmiðunarríkjunum í evrum.
    Eins og sést á súluritunum verja Svíþjóð og Flanders svipuðum fjárhæðum til að laða að beina erlenda fjárfestingu. Líklega er eðlilegast að bera saman Ísland og Möltu vegna stærðar hagkerfa þeirra, en á Möltu veita þeir um það bil fimm sinnum hærri fjárhæð til þessa málaflokks á hvern íbúa en Íslendingar (Ísland 1.44 evrur. Malta: 7.16 evrur).
    Í stuttu máli þá er niðurstaða PwC í Belgíu sú að núverandi umfang fjárfestingarsviðs á Íslandi sé langt frá því að vera viðunandi, auk þess sem fyrirkomulag fjármögnunar sé óheppilegt þar sem hún sveiflast í öfugu hlutfalli við þörfina fyrir umsvif.
    Þeir leggja til að fimmfalda skuli bæði mannafla og fjármagn til þessa málaflokks á Íslandi og breyta fjármögnun markaðs- og kynningarstarfsins yfir í fasta árlega upphæð sem tekur mið af gengisþróun, viðskiptaáætlun fjárfestingarsviðs og innlendum verðlagsbreytingum.

4.1 Leiðir til úrbóta.
Starfshópurinn undirstrikar að auka þarf bæði mannafla og fjármagn til þessa málaflokks.
    Aukinn árangur liggur ekki síst í vandaðri undirbúningsvinnu og markvissum heimsóknum til fyrirtækja sem fyrirfram er talið vænlegt að laða til landsins. Þessi hluti starfsins krefst meiri mannafla og fjármuna en nú er fyrir hendi.
    Samkeppni um beina erlenda fjárfestingu hefur vaxið í kjölfar kreppunnar. Eigi Ísland að verða sýnilegt þarf bæði að auka almenna og sértæka kynningu á Íslandi svo og þeim kostum sem landið hefur upp á að bjóða í fjárfestingarlegu tilliti.
    Vaxandi þörf er á upplýsingum eða gagnabanka fyrir íslenska aðila sem leita fjárfestingarsamstarfs við erlenda aðila. Slík þjónusta var áður í höndum íslensku bankanna að mestu leyti en hefur lagst niður og færst að hluta til á herðar fjárfestingarsviðs.
    Áhersla á aukinn fjölbreytileika í beinni erlendri fjárfestingu hefur í för með sér aukinn kostnað og mannafla við að markaðssetja og kynna Ísland fyrir atvinnugreinum og fyrirtækjum sem lítið sem ekkert þekkja til hér á landi.
    Ýmsar forsendur eru þó til þess að ekki þurfi að auka mannafla og fjármagn í þeim mæli sem PwC leggur til og kemur það til af eftirfarandi ástæðum:
     *      Samkeppnishæfni Íslands liggur á tiltölulega fáum en augljósum sviðum og því er unnt að vinna markaðs- og kynningarstarfið tiltölulega stefnumiðað.
     *      Unnt er að skapa samlegð með einstökum sviðum Íslandsstofu ef rétt er á málum haldið, einkum í tengslum við almennt markaðs- og kynningarstarf.

Starfshópurinn leggur til að starfsmönnum fjárfestingarsviðs verði fjölgað.
    Þá er einnig lagt til að farið verði að tillögum PwC um fyrirkomulag fjármögnunar, sbr. hér að framan, og auk þess verði eftirfarandi aðferðarfræði hrint í framkvæmd til frekari styrkingar starfseminnar.
             Tímabundin heimild að árlegri fjárhæð kr. 150 milljónum, verði veitt fyrir árin 2012–2016 að báðum árum meðtöldum, til viðbótar núverandi hlutdeild í markaðsgjaldi og beinu framlagi af fjárlögum. Með þessu móti verður heildarráðstöfunarfé til starfseminnar um 220 milljónir króna næstu 5 árin.
             Lagt er til að þessi tillaga verði metin með hliðsjón af þeirri uppstokkun sem nú á sér stað í stoðkerfi atvinnuveganna. Því mætti e.t.v. hugsa þessi framlög sem hliðrun á því fjármagni sem veitt er til nýsköpunar byggðamála og atvinnuuppbyggingar almennt.
             Samlegð við starfsemi einstakra sviða Íslandsstofu, einkum þau sem tengjast ímynd og orðspori, verði fest í sessi og ákveðinni hlutdeild í því fjármagni sem veitt er til þeirrar starfsemi verði veitt til almennrar markaðssetningar fjárfestingarsviðs.
             Gerð verði starfs- og viðskiptaáætlun fjárfestingarsviðs til næstu 5 ára með skilgreindum markmiðum og árangursviðmiðunum sem endurskoðast árlega og er staðfest af fagráðherra að lokinni hverri endurskoðun.
    Með framangreindum tillögum vill starfshópurinn leggja áherslu á að til þess að áform um að laða til landsins beina erlenda fjárfestingu verði að veruleika, þarf allt starf í þá veru að byggja á langtímahugsun, samfellu, lagaumhverfi sem byggir á stefnumörkun um málaflokkinn og samkeppnisumhverfi sem styður við þá stefnu. Síðan þarf fjármagn og mannafli til markaðsstarfs að fylgja í kjölfarið.

5 SAMSTARFSTJÓRNSÝSLU, STOFNANA, SVEITARFÉLAGA OG HAGSMUNAAÐILA.
    Í erindisbréfi beindi ráðherra því til starfshópins að leggja mat á samstarf stjórnsýslu, stofnana, sveitarfélaga og hagsmunaaðila á borð við orkufyrirtæki.
    Á grunni þeirra viðtala sem starfshópurinn tók og þeirra takmörkuðu gagna sem finna má um samstarf þessara aðila, þá er það mat starfshópsins að verulega skorti á samhæfingu og skilvirkni í samstarfi stofnana, sveitarfélaga og hagsmunaaðila þegar að kynningar- og markaðsstarfi fyrir beina erlenda fjárfestingu komi. Þetta gæti að hluta til stafað af ómarkvissri markmiðssetningu og að hluta verið tilkomið vegna ólíkra hagsmuna eða lélegs skipulags.

5.1 Landshlutafélög, Impra og Nýsköpunarmiðstöð.
    Fjármagn og mönnun í stuðningsumhverfi byggðaþróunar og nýsköpunar er margfalt á við fjármögnun til eflingar beinnar erlendrar fjárfestingar. Á Íslandi eru starfandi átta landshlutafélög með samtals um 32 starfsmönnum, við Impru og Nýsköpunarmiðstöð starfa liðlega 100 starfsmenn í Reykjavík og úti á landsbyggðinni og 20 starfsmenn starfa hjá Byggðastofnun. 27 Starfsmenn fjárfestingarsviðs Íslandsstofu telja að einstök landsvæði séu mjög misvel búin til að taka á móti fyrirspurnum um hugsanlega staðsetningu einstakra fjárfestingartækifæra. Einnig verður það að teljast ókostur að svo til allt fjármagn Nýsköpunarmiðstöðvar er fast og nýtist því ekki til samstarfsverkefna við fjárfestingarsvið nema í formi vinnuframlags frá starfsmönnum stofnunarinnar. Með öðrum orðum þá fer nær allt fjármagn til að greiða laun en litlu fjármagni er varið í verkefni.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá desember 2010 kemur m.a. fram að á fjárlögum 2011 sé gert ráð fyrir kr. 1,1. milljarði til Nýsköpunarmiðstöðvar, atvinnuþróunarfélaga, Byggðastofnunar og byggðaáætlunar. Jafnframt er lögð á það áhersla að stuðningskerfið hafi þróast án nægilega skýrrar stefnumörkunar, stuðningsaðgerðir ríkisins hafi verið dreifðar og handahófskenndar og að kostnaðar- og ábatagreiningu skorti við mat á stuðningi við atvinnu- og byggðaþróun.
    Þá kemur einnig fram í skýrslunni að verulega skorti á samstarf og samlegð af starfsemi
Nýsköpunarmiðstöðvar og atvinnuþróunarfélaganna þar sem verkefni þeirra og starfssvið skarast oft á tíðum. Á Akureyri eru t.d. starfrækt útibú frá Nýsköpunarmiðstöð (4 stöðugildi) og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar (4 stöðugildi), samtals átta stöðugildi. Ástæða er til að ætla að verkefni þeirra og starfssvið skarist að einhverju leyti.
    Starfshópurinn telur út frá úttekt ríkisendurskoðunar að tilefni sé til að breyta áherslum og hliðra fjármagni yfir til markaðs- og kynningarstarfsemi fyrir beina erlenda fjárfestingu. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þeirra tiltölulega snöggu og skilvirku áhrifa sem BEF hefur á atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og þekkingaröflun.

5.2 Orkufyrirtæki.
    Orkufyrirtækin taka ákvarðanir um sölu á orku til verkefna sem kunna að hafa mikil áhrif á umfang og eðli atvinnuuppbyggingar í landinu. Fyrstu fyrirspurnum erlendra fjárfesta er yfirleitt beint til fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og ef um orkuháð verkefni er að ræða er leitað eftir viðræðum við öll orkufyrirtækin þrjú. Þótt orkan sé sá þáttur sem gjarnan kveikir áhugann og aðgengi að henni, afhendingartími og verð vegi þungt þá ræðst endanleg ákvörðun um það hvort af nýfjárfestingu á Íslandi verði eða ekki af samspili margra þátta. Almennt viðskipta- og skattaumhverfi, tollamál og milliríkjasamningar, mögulegar ívilnanir, umhverfis- og leyfamál, skipulag, landrými, samgöngur og fleira kemur til skoðunar, með aðstoð og fulltingi fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og annarra aðila. Eins og fram kemur í kaflanum um stefnumótun vegna erlendra fjárfestinga er mikilvægt að sem flestir þættir spili saman og hlutverk hvers og eins sé skýrt enda geta hagsmunir stangast á og þá þarf að greiða úr því.
    Núverandi stefna allra orkufyrirtækjanna er að hámarka eigin arðsemi, eins og eðlilegt er út frá viðskiptahagsmunum, með því að velja viðskiptavini sem greiða hæsta orkuverðið og eru tryggir viðskiptavinir. Eins og rakið er í skýrslu starfshóps um orkustefnu þurfa þessi viðhorf ekki endilega að fara saman við þjóðhagslega hagsmuni um hámörkun á heildarafrakstri af orkuauðlindunum með sem mestri beinni og óbeinni verðmætasköpun, innflutningi nýrrar þekkingar, atvinnustigi, skatttekjum, o.s.frv.
    Ríki og sveitarfélög eiga öflug orkufyrirtæki. Þau gæta eðlilega margvíslegra hagsmuna, svo sem í atvinnumálum, skipulagsmálum og umhverfismálum. Eigendur geta m.a. nýtt eigendastefnu fyrir orkufyrirtækin til að skýra samspil mismunandi hagsmuna, forgangsraða og leggja línurnar um það hvers konar orkuháðum verkefnum sóst er eftir. Þannig getur eigendastefnan haft áhrif á verkefnaval orkufyrirtækjanna og þar með á beina erlenda fjárfestingu sem tengist orkuháðum verkefnum án þess að gengið sé gegn viðskiptalegum hagsmunum orkufyrirtækjanna sjálfra.
    Starfshópurinn telur, af framangreindum ástæðum, eðlilegt að fela fjárfestingarsviði Íslandsstofu að hafa forgang um almennt markaðs- og kynningarstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu, þar með talið fyrir orkuháða starfsemi, enda er það allsstaðar skilgreint hlutverk slíkra stofnana að endurspegla stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Þetta þýðir að koma þarf á formlegu og skilgreindu samstarfi á milli fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og orkufyrirtækjanna. Fjárfestingarsvið þarf að hafa starfsfólk og fjármagn til að veita þá þjónustu sem orkufyrirtækin þurfa og óska eftir. Hér er átt við almennt markaðs- og kynningarstarf en ekki sölu. Dæmi um samvinnu þar sem áhersla annars aðilans er á almennt kynningarstarf út frá heildarhagsmunum heillar atvinnugreinar á meðan hinn sér um sölu og markaðssetningu á sinni þjónustu er farsælt og virkt samstarf Íslandsstofu og leiðandi ferðaþjónustufyrirtækja.

5.3 Stjórnsýsluleg staða kynningar – og markaðsstarfs fyrir beina erlenda fjárfestingu.
    Fjárfestingarsvið Íslandsstofu byggir á stjórnsýslulegum tengslum við iðnaðarráðuneyti. Mjög er mismunandi undir hvaða ráðuneyti fjárfestingarstofur heyra í öðrum löndum en algengast er að þau hafi stjórnsýslutengsl annað hvort við atvinnumálaráðuneyti eða utanríkisráðuneyti. Í skýrslu PwC (2010) er bent á að ekki virtist skipta öllu máli undir hvaða ráðuneyti málaflokkurinn heyrði, svo fremi sem tengslin væru formleg, skilvirk og náin.
    Gert er ráð fyrir endurskoðun samstarfssamnings iðnaðarráðuneytis og Íslandsstofu í kjölfar stofnunar Íslandsstofu hinn 1. júlí 2010. Slík endurnýjun hefur ekki farið fram enn sem komið er og því er ríkt tækifæri til að skýra samstarfið.
    Starfshópurinn tekur heilshugar undir þá ályktun í skýrslu PwC að viðskiptaáætlun staðfest af fagráðherra sé nauðsynlegt verkfæri til að skapa fjárfestingarsviði það bakland og stefnu sem þarf til að ná árangri. Þar þurfi að koma fram lýsing á áherslum, umfangi, stefnu og markmiðum til nokkurra ára í senn og aðgerðabundin áætlun fyrir næsta fjárhagsár.
    Þá var einnig bent á að stefnumörkun stjórnvalda varðandi atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu myndi skapa grundvöll að markvissari samskiptum við stjórnvöld um markmið, leiðir og árangur en verið hefur og bent á nauðsyn þess að reglubundnir og formlegir fundir séu haldnir með fagráðherra og ráðuneytisstjóra fagráðuneytis um einstök verkefni sem þarfnist stuðnings og aðstoðar stjórnvalda, svo sem til að ræða framgang stefnu og markmiða.
    Fagráð fjárfestingarsviðs hefur ályktað sérstaklega um stöðu fjárfestingarsviðs í stjórnsýslulegu tilliti en þar kemur m.a. fram eftirfarandi:
     *      Til þess að ná þessum meginmarkmiðum og byggja upp nauðsynlegt afl í starfsemi fjárfestingarsviðs leggur fagráð fjárfestinga áherslu á að Íslandsstofa skapi sterka og ótvíræða stöðu sem sameiginlegur vettvangur ólíkra hagsmunaaðila um fjárfestingarverkefni, hvort sem er innan stjórnsýslu, meðal erlendra fjárfesta, innlendra samstarfsaðila og/eða í nýsköpunar og fræðasamfélaginu.
     *      Fagráð fjárfestinga leggur áherslu á að hafa skýrt umboð ráðamanna landsins og beinatengingu við ráðherra í viðkomandi fagráðuneytum. Að öðrum kosti er ekki við því að búast, að markmið náist varðandi hlutverk og starfsemi Íslandsstofu á sviði beinna fjárfestinga erlendra aðila hér á landi. Mikilvægt er að fyrir hendi sé einhver skilgreindur aðili sem hefur með höndum samræmingarhlutverk í þessu umhverfi og geti skapað vettvang sem myndar upphaf að samstarfi ólíkra aðila. Af þeim sökum er kappkostað að umboðið sé skýrt og að Íslandsstofu verði gert kleift að vinna að framgangi og lausnum einstakra mála sem krefjast aðkomu stjórnsýslu eða annarra hagsmunaaðila.

5.4 Leiðir til úrbóta.
    Starfshópurinn telur að vel fari á því að kynningar- og markaðsstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu falli undir starfsemi Íslandsstofu svo lengi sem tryggt er að þessi málaflokkur hafi sjálfstæði og vægi innan stofunnar. Í núverandi skipuriti Íslandsstofu er fjárfestingarsvið eitt af þremur meginsviðum.
    Starfshópurinn telur að skerpa þurfi á stefnumörkun og framkvæmd hennar. Lagt er til aðfjárfestingarsviði Íslandsstofu verði gert að gera stefnumarkandi áætlun til fimm ára um kynningar og markaðsstarf fyrir beina erlenda fjárfestingu og jafnframt verkáætlun til eins árs í senn með mælanlegum markmiðum. Ennfremur leggur starfshópurinn til að fagráðherra staðfesti bæði stefnumarkandi áætlun og verkáætlun með formlegum hætti.
    Starfshópurinn telur að verulega skorti á samstarf milli fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og sveitarfélaga og stofnana sem starfa á tengdum sviðum. Þess vegna er lagt til að hafin verði kerfisbundin vinna í einstökum landshlutum við styrkleikagreiningu á svæðinu, almenna gagnaöflun fyrir mikilvæga þætti tengda fjárfestingarverkefnum, framsetningu slíkra upplýsinga og aðgerðaráætlun fyrir móttöku erlendra fjárfesta sem leita upplýsinga vegna hugsanlegrar staðsetningar á svæðinu.
    Einnig er lagt til að komið verði á formlegum samstarfsvettvangi milli Nýsköpunarmiðstöðvar og fjárfestingarsviðs Íslandsstofu um val á sérgreindum samstarfsverkefnum þannig að allir þessir aðilar stefni að sama marki í kynningar- og markaðsstarfi fyrir (erlendar) nýfjárfestingar og leggi þá jafnframt fram fjármuni til slíkra verkefna.
    Það er mat starfshópsins að formlegt og virkt samstarf milli fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og orkufyrirtækjanna gæti ýtt verulega undir árangur í kynningar- og markaðsstarfi fyrir beina erlenda fjárfestingu. Þess vegna leggur starfshópurinn til að komið verði á formlegum samstarfshópi með þátttöku iðnaðarráðuneytis, fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og orkufyrirtækja með það að leiðarljósi að samhæfa viðhorf til vals á atvinnugreinum og forgangsröðun þannig að þjóðhagslegir hagsmunir séu tryggðir samfara hagsmunum orkufyrirtækjanna, en í mjög mörgum tilfellum geta hagsmunir einmitt farið saman. Meðal markmiða samstarfshópsins er að samhæfa kynningar- og markaðsstarf, auka upplýsingagjöf um verkefni og samstarfsaðila og koma í veg fyrir misvísandi skilaboð til mögulegra erlendra fjárfesta.


Viðauki I.

STARFSEMI FJÁRFESTINGARSTOFA Í VIÐMIÐUNARLÖNDUM.
    Hér á eftir verður gerð örstutt grein fyrir starfsemi og uppbyggingu fjárfestingarstofa á Möltu, í Svíþjóð og Flanders í Belgíu. Úrdrátturinn byggir á skýrslu PwC í Belgíu (ágúst 2010).

MALTA
Mikilvægi beinnar erlendrar fjárfestingar.
    Stuðningur við BEF á Möltu er mikill. Allir flokkar (bæði í stjórn og stjórnarandstöðu) sammælast um mikilvægi málaflokksins og lagasetningar um BEF eru einróma samþykktar á þinginu. Stjórnvöld á Möltu líta á BEF sem mikilvægasta tækið til að auka hagsæld og hamla gegn atvinnuleysi.

Starfsemi og uppbygging.
    Malta Enterprise vinnur eftir svipuðu fyrirkomulagi og Íslandsstofa. Af 115 starfsmönnum Malta Enterprise eru 44 starfsmenn í vinnu við BEF, en í drögum að endurskipulagningu Malta Eneterprise sem nú er í gangi eru áform um fjölgun starfsmanna í 198 (óvíst er hve margir bætast við fjárfestingarsviðið). Fjárfestingarsviðið sér bæði um kynningu á landinu fyrir erlenda fjárfestingu sem og samningagerð og úthlutun á ívilnunum til fyrirtækja.

Samskipti við yfirvöld.
    Malta Enterprise vinnur að stefnumótun sinni innan ramma atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar – Vision 2015 og þegar stefnan hefur verið fullmótuð er ríkisstjórnin virkur þátttakandi í framkvæmd hennar.
    Í stefnunni eru sett fram ákveðin markmið, t.d. a) aukin fjárfesting; b) minna atvinnuleysi; c) aukin alþjóðleg samkeppnishæfni o.s.frv. og ríkisstjórnin einsetur sér að gera það sem til þarf til að markmiðin náist.

Umfang og fjármunir.
    44 starfsmenn vinna á fjárfestingarsviði Malta Enterprise og skiptist sviðið í þrjár deildir.
Sviðið hefur tvenns konar fjárveitingu: annars vegar rekstrarfjárveitingu upp á . 5,8 milljónir
og hins vegar eru ívilnanir upp á . 10 milljónir.

SVÍÞJÓÐ
Mikilvægi beinnar erlendrar fjárfestingar.
    Sænskir stjórnmálamenn eru orðnir vel meðvitaðir um mikilvægi BEF og í dag helst sænsk 'alþjóðavæðing' í hendur við BEF. Yfirvöld hafa séð að einfaldasta leiðin til þess að sænsk fyrirtæki geti orðið alþjóðleg er BEF.

Starfsemi og uppbygging.
    Invest Sweden er opinber stofnun undir utanríkisráðuneytinu (vildi frekar vera undir iðnaðarráðuneytinu því þeir sjá mun meiri samlegð við það ráðuneyti). Hjá Invest Sweden vinna 77 manns (þar af 35 á skrifstofum erlendis).

Samskipti við yfirvöld.
    Invest Sweden vinnur stefnumótun sína innan ramma atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar, en er óháð boðvaldi hennar. Ráðuneytið má ekki (samkvæmt lögum) hafa bein áhrif á ákvarðanir Invest Sweden, en getur haft óbein áhrif með úthlutun fjármuna.

Umfang og fjármunir.
    Á tveimur skrifstofum í Svíþjóð, þ.e. í Stokkhólmi (höfuðstöðvar) og Gautaborg, auk skrifstofa í Bandaríkjunum, Japan, Kína og Indlandi vinna 77 starfsmenn.
    Invest Sweden fær fasta fjárveitingu frá utanríkisráðuneytinu upp á 60 milljónir SEK á ári og sækja um ca 30 milljónir í aukafjárveitingu. Að auki fær Invest Sweden fjárveitingu frá svæðisskrifstofum í Svíþjóð.

FLANDERS, BELGÍU
Mikilvægi beinnar erlendrar fjárfestingar.
    Í Flanders er litið á BEF sem mikilvægan hluta efnahagslífsins. Um það bil helmingur af vergri landsframleiðslu í Belgíu kemur í gegnum BEF.

Starfsemi og uppbygging.
    Flanders Investment and Trade (FIT) er sjálfstæð stofa undir boðvaldi ráðherra. 'Rekstrarsamningur' til fjögurra ára er undirritaður milli FIT og flæmskra stjórnvalda um markmið, mat og fjárveitingar. FIT hefur 361 stöðugildi og yfir 90 alþjóðlegar skrifstofur, ca 30% starfsmanna vinnur að BEF.

Samskipti við yfirvöld.
    FIT er beint undir forseta flæmsku stjórnarinnar og ráðherra efnahags-, landbúnaðar- og
utanríkismála (einn ráðherra). Ráðherrann kemur úr iðnaði og er mjög hlynntur BEF. FIT hefur 12 manna stjórn sem semur við ríkisstjórnina og stýrir stefnumótun.

Umfang og fjármunir.
    FIT hefur 361 stöðugildi á yfir 90 stöðum í heiminum, með höfuðstöðvar í Brussel. Fjárveitingar til FIT námu . 58,4 milljónum 2009 (30% til BEF). 90% af fjárveitingum koma frá flæmska ríkinu, restin er tilkomin vegna þátttöku einkafyrirtækja í kynningarstarfi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimildir.
Aon, áhættugreining (tekið úr texta hér að framan, vantar ártal).
Blonigen B. A., Davies R. B. and Head K. (2003), Estimating the Knowledge-Capital Model of the Multinational Enterprise: Comment. American Economic Review, (93), 980–994.
Carr D. L., Markusen J. R. and Maskus K. E. (2001), Estimating the Knowledge-Capital Model of the Multinational Enterprise. American Economic Review, (91), 693–708.
Davies R.B., (2008). Hunting High and Low for Vertical FDI. Review of International Economics, 2 (5), 250–267.
Davies R.B. and Kristjánsdóttir H. (2010). Fixed Costs, Foreign Direct Investment, and Gravity with Zeros, Review of International Economics, 18(1), 47–62.
Davies R.B., Ionascu D. & Kristjánsdóttir H. (2008). Estimating the Impact of Time-Invariant Variables on FDI with Fixed Effects, Weltwirtschaftliches Archiv (Review of World Economics), 144( 3), 381–407.Endurmótun stoðkerfis atvinnulífsins. Greinargerð til iðnaðarráðuneytisins. Stjórnhættir, 7 desember 2010.
Helpman, E. (1984). A Simple Theory of Interna tional Trade with Multinational Corporations. Journal of Political Economy, 92(31): 451–71.
Iðnaðarráðuneyti. www.idnadarraduneyti.is/utgefid-efni/skyrslur/nr/3016
Iðnaðarráðuneyti. www.idnadarraduneyti.is/utgefid-efni/skyrslur/nr/2720
Kristjánsdóttir H. (2004). Determinants of Exports and Foreign Direct Investment in a Small Open Economy. Ph.D. Dissertation
Kristjánsdóttir H. (2010). Foreign Direct Investment: The Knowledge-Capital Model and a Small Country Case, Scottish Journal of Political Economy, 57(5)
Markusen J.R. (1984). Multinationals, Multi-plant Economies, and the Gains from Trade. Journal of International Economics, May, 16(3–4), pp. 205–26
Markusen J.R. (2002). Multinational Firms and the Theory of International Trade, Cambridge: MIT Press. Einnig aðgengilegt á vefslóð mpra.ub.uni-muenchen.de/8380/1/markusen-all.pdfOECD's FDI Restrictiveness Index (2010) update.http://www.oecd.org/dataoecd/32/19/45563285.pdf
Porter M. (2010). The Icelandic Geothermal Cluster, Reykjavik 2010, PPT-Presentation
OECD Education at a Glance (2010)
PriceWaterhouseCoopers ( 2010). Future options for Invest in Iceland Agency
Ríkisendurskoðun (2010). Stuðningur við atvinnu- og byggðarþróun, desember 2010
SA (2008). Determinants of Nordic Competitiveness. Confederation of Icelandic Employers
Seðlabanki Íslands (2011). Tekið af vefslóð sedlabanki.is/
World Investment Report (2006). FDI from Developing and Transition Economies: Implications for Development. United Nations. New York and Geneva.Tekið af vefslóð www.unctad.org/en/docs/ wir2006_en.pdf
World Bank (2011). Tekið af vefslóð data.worldbank.org/
World Bank Advisory Service: Global Investm Promotion Benchmarking 2009. Summary Report


Fylgiskjal III.

Fjárfestingarsvið Íslandsstofu:

Frá ársfundi WAIPA – heimssamtaka fjárfestingarstofa.


Greinargerð vegna stefnumótunar um beinar erlendar fjárfestingar.


(Genf 5.–6. september 2011.)


    Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hafði frumkvæði að því að fá alþjóðlega endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið PriceWaterhouseCoopers í Belgíu til að gera úttekt á því hvernig staðið hefur verið að kynningu á Íslandi sem staðsetningarkosti fyrir beina erlenda fjárfestingu. Ítarleg greinargerð PWC með samanburði á stefnumótun, áherslum og fjárveitingum milli nokkurra og fjölda ábendinga um úrbætur var svo lögð til grundvallar vinnu sérfræðinganefndar sem iðnaðarráðherra skipaði til að leggja drög að fyrstu stefnu Íslands varðandi beinar erlendar fjárfestingar.
    Til að fylgja þessari stefnumótunarvinnu eftir og fá betri yfirsýn yfir það sem gert er á alþjóðavísu í markaðssetningu og þjónustu vegna beinna erlendra fjárfestinga gerðist Fjárfestingarsvið Íslandsstofu aðili að World Association of Investment Promotion Agencies eða WAIPA frá og með 1. janúar 2011. WAIPA samanstendur af um 220 fjárfestingarstofum frá um 160 löndum. Áætlað er að um 95% af öllum beinum erlendum fjárfestingum í heiminum fari með beinum eða óbeinum hætti í gegnum aðildarskrifstofur WAIPA.
    Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður Fjárfestingarsviðs Íslandsstofu, sótti ársfund og ráðstefnu WAIPA í Genf dagana 5. til 6. september 2011. WAIPA World Investment Conference 2011 bar yfirskriftina „Shifting priorities for FDI: Sustained Growth and Technological Innovation“. Fyrirlestrum og umræðum á ráðstefnunni var skipt upp í eftirfarandi fjögur efnissvið:
     *      Back to basics-Ending the Short-Term View
     *      Changing Macro-Economic Realities and FDI
     *      The Long-Term View- Innovation, Green Technology and Economic Development
     *      Narrowing the Technology Gap - Host Country Innovation, R&D Relocation and FDI
    Fyrirlesarar og umræðustjórar komu frá fjárfestingarstofum, ríkisstjórnum, opinberum atvinnuþróunarstofnunum, háskólum og alþjóðafyrirtækjum á borð við Intel, Johnson og Johnson, Philips ofl. Samtals voru 25 aðilar alls staðar að úr heiminum sem deildu reynslu sinni og þekkingu.
    Ráðstefnan var afar upplýsandi um það sem er að gerast í beinni erlendri fjárfestingu í heiminum og hvaða kraftar hafa þar mest áhrif. Einnig var mjög fróðlegt að hlusta og taka þátt í umræðum um hlutverk fjárfestingarstofa og hvers eðlis verkefnin væru við þær aðstæður sem nú eru almennt uppi í efnahagslífi iðnríkjanna.
    Dagskrá ráðstefnunnar og lista yfir ræðumenn og þátttakendur í umræðum á ráðstefnunni má finna hér: www2.waipa.org/cms/Waipa/Activities/AnnualConferences/index.html
    Í eftirfarandi punktum frá ársfund og ráðstefnu WAIPA er einkum lögð áhersla á þau atriði sem tengjast yfirstandandi vinnu við mótun stefnu um beinar erlendar fjárfestingar á Íslandi og dæmi sem telja má hliðstæð fyrir þær aðstæður sem Fjárfestingarsvið Íslandsstofu býr við.

Þróun varðandi beinar erlendar fjárfestingar (BEF)
    Vesturlönd eru að breyta áherslum sínum í sambandi við BEF. Þau leita í auknum mæli eftir fjárfestingu sem er í samræmi við markmið þeirra um hagþróun og þjóðfélagsmynd. Fjárfesting sem skapar raunverulegan hagvöxt, verðmæt störf og auknar skatttekjur fyrir land og þjóð eru í forgangi.
    Alþjóðafyrirtæki fjárfesta ekki lengur nauðsynlega í viðkomandi landi og setja þar upp starfsemi heldur semja við fyrirtæki í landinu um framleiðslu á tilteknum afurðum. Þetta krefst nýrrar nálgunar af hálfu fjárfestingarstofanna og víkkar í reynd út starfssvið þeirra þar sem hlutverkið er að tengja saman aðila með faglegri markaðssetningu á landinu, samkeppnishæfni þess til framleiðslu afurðanna m.a. í samstarfi við hin innlendu fyrirtæki. Efnahagslegu áhrifin eru svipuð að frátaldri þeirri fjárfestingu sem ella hefði orðið.
    Lýst var eftir auknu hlutverki fjárfestingarstofa almennt í verkefnum af þessu tagi. Hér á landi er mögulegt að tengja slíkt hlutverk í gegnum Íslandsstofu sem hefur fagráð úr atvinnulífinu sem bakhjarla og er ætlað að halda ímynd Íslands og íslenskra útflutningsgreina á lofti erlendis. Fara þyrfti yfir slíkt hlutverk í tengslum við mótun stefnu um erlendar fjárfestingar og hvernig það rúmast innan þess ramma sem starfsemi Fjárfestingarsviðs Íslandsstofu er sniðinn.
    Aukin áhersla er lögð á að laða fjárfestingu til Vesturlanda frá hraðvaxtarlöndum svo sem Kína , Indlandi og Brasilíu þar sem fjárfestar frá þessum löndum eru óðum að færast upp að hlið Vesturlanda hvað varðar tækniþróun og neyslumynstur. BRIC löndin og mörg Asíulandanna sem áður voru fyrst og fremst móttakendur BEF eru komin í útrás og byrjuð að fjárfesta m.a. í Evrópu (sbr. Kína).

Áhugaverðar athugasemdir og staðhæfingar.
    Á fundinum komu fram margar mjög áhugaverðar upplýsingar, athugasemdir og staðhæfingar. Hér eru nokkrar tíndar til:
    Forseti WAIPA sagði það liggja fyrir að bein erlend fjárfesting sé helsti hvati efnahagsþróunar og nýsköpunar í veröldinni hvort heldur sem er í formi nýfjárfestinga (e. greenfield) eða sameiningar fyrirtækja. Tenging fjárfestingarstofa við atvinnulífið annars vegar og ríkisvaldið hins vegar gerir þær oft á tíðum mikilvægasta verkfærið til hagvaxtarsköpunar.
    Ken Davis hjá Vale Columbia Center on Sustainable International Investment sagði að bein erlend fjárfesting hefði tvöfalt meiri hagvaxtaráhrif en útflutningur vöru og þjónustu á heimsvísu. Af hálfu Fjárfestingarsviðs Íslandsstofu verður óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum sem skýra þessa staðhæfingu. Í ljósi mikilvægis BEF fyrir hagvöxt var spurt hversu mörg lönd hefðu sérstakt ráðuneyti sem hefði BEF á sinni könnu eða sem skilgreint verkefni.
    Hlutverk fjárfestingarstofa er bæði að þjóna erlendum fjárfestum sem leita eftir staðsetningu (reactive) og laða að fjárfestingu sem talin er hafa jákvæða þýðingu fyrir viðkomandi land út frá skýrri stefnu um atvinnuuppbyggingu (proactive).
    Þau lönd sem hafa staðið sig best við uppbyggingu atvinnulífs eiga það sameiginlegt að hafa skýra stefnu og aðgerðaáætlun til næstu ára sem grundvallast á skýrri framtíðarsýn til lengri tíma (e. short term goals with a long term view). Þetta eru lönd á borð við Kína og Brasilíu, en einnig smáríki eins og Malta, Írland og Kosta Ríka.
    Fyrir smáríki er sérstaklega mikilvægt að hafa skýra atvinnustefnu, þar með talið um beinar erlendar fjárfestingar, þar sem ella er hætta á einhæfni í atvinnulífinu með tiltölulega fáum og einhæfum erlendum fjárfestingum. Fjölbreytni er aðeins hægt að skapa með meðvitaðri stefnu sem löndin fylgja síðan eftir með frumkvæði í lagaumgjörð, markaðssetningu og kynningu.
    Virkasta og skilvirkasta leiðin til að byggja upp orðspor lands fyrir BEF er að hafa frumkvæði í markaðssetningu og kynningu byggt á skýrri stefnu. Þeir sem aðeins taka á móti BEF þegar hún birtist, byggja ekki markvisst upp orðspor því það verður alltaf tilviljunum háð hvers eðlis sú fjárfesting er sem til landsins kemur.
    Ísland var beinlínis notað sem dæmi um land sem ekki virtist hafa stefnu varðandi beinar erlendar fjárfestingar heldur brygðist fyrst við þegar áhugi væri til staðar. Dæmið sem notað var í þessu sambandi snerist um kínverskan auðmann sem átti fyrir tilviljun vin á Íslandi og gekk frá kaupsamningi á 0,5% landsins. Afleiðingin varð opinber ágreiningur innan ríkisstjórnar landsins um það hvort slíkt væri leyfilegt, æskilegt og umræðu um hvort kínverjar væru sérstaklega varhugaverð þjóð til samstarfs um BEF. Leo Johnson fyrrverandi fréttamaður hjá BBC og núverandi meðeigandi í PWC „Sustainability and Climate Change Team“ vakti máls á þessu og tók fram að þetta væri dæmi um það hvernig ekki ætti að vinna. Svona viðbrögð vektu almennt vantraust á viðkomandi landi.
    Þau lönd sem hafa ástundað að breyta lögum og skattaumgjörð frá einu ári til annars hafa misst af fjárfestingarverkefnum. Fátt hefur jafn neikvæð áhrif á BEF og ótti við síbreytilegt laga og skattaumhverfi. Einn frummælenda lýsti því þannig: „You have to open door for money- It takes a lifetime to build a reputation but only a moment to destroy it“.
    Stóru löndin í Evrópu (Þýskaland, Spánn, Frakkland og Bretland) hafa enga eiginlega stefnu hvað varðar beinar erlendar fjárfestingar. Ástæðan er sú að þangað sækja svo til allar tegundir fjárfestinga hvort sem er. Litlu ríkin hafa hins vegar flest hver, mótað sér stefnu því þau meta það svo að BEF sé mikilvægasti einstaki þátturinn til atvinnuuppbyggingar í viðkomandi landi. Þeirra á meðal eru Malta, Írland, Svíþjóð og Danmörk. Þá má nefna lönd utan Evrópu á borð við Kosta Ríka.
    Fjárfestingarstofur þurfa að virka sem hugmyndabrunnur fyrir atvinnuuppbyggingu með því að ástunda samkeppnisgreiningu á einstökum atvinnugreinum. Þær eiga að taka virkan þátt í umræðum um atvinnuuppbyggingu og þau tækifæri sem BEF getur skapað fyrir framtíðaruppbyggingu landsins. Þær þurfa einnig að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og eiga greiða leið að yfirvöldum til að fá aðstoð og stuðning við verkefni sem taka mið af stefnu stjórnvalda hverju sinni.
    Vaxandi möguleikar virðast vera á að laða að fjárfestingarverkefni sem flytja með sér rannsóknir og þróun t.d. á ýmsum sviðum hátækni og hugbúnaðargerðar,líftækni og lyfjaiðnaðar. Lykillinn að því að laða slík verkefni til landa utan höfuðstöðva viðkomandi fyrirtækja er að aðstæður með tillititi til menntunar, rannsóknarstofnana, löggjafar og viðskiptaumhverfis séu í lagi og samræmist þörfum þessara aðila. Um þetta voru æðstu ráðamenn Intel, Philips ogJ&J algerlega sammála, enda eru þeir með rannsóknar og þróunarstarfsemi í flestum löndum hins þróaða heims.
    Athugandi væri að gera sérstaka úttekt eða taka saman gögn um það sem til er með það að leiðarljósi að samkeppnisgreina Ísland á þessu sviði og láta reyna á það hvort hægt er að ná árangri á þessu sviði varðandi BEF og þá um leið hvort unnt er að bæta úr ágöllum ef einhverjir eru til að auka slíka möguleika. Til þess að þetta megi verða þarf víðtækt samstarf innlendra rannsóknaraðila, ríkisvaldsins og innlendra fyrirtækja sem hag gætu haft af rannsóknarsamstarfi við viðkomandi aðila.
    Ekki á að vera munur á beinni erlendri fjárfestingu og viðhorfum til innlendrar fjárfestingar; Báðar tegundir eru jafn mikilvægar og fyrir báða aðila er stöðugleiki og gagnsæi lykilatriði. Bent var á að ekki væri hægt að ætlast til að erlend fyrirtæki kæmu til viðkomandi lands ef innlend fyrirtæki væru að flýja aðstæður.
    Áhugi og aukin áhersla landa á grænar fjárfestingar og umhverfistengdar fjárfestingar (cleantech) var áberandi. Ísland ætti að öðru jöfnu að eiga möguleika á tækifærum á þessu sviði sbr. verkefni tengd græna hagkerfinu. Einnig þyrfti að skoða hvaða árangri íslensk fyrirtæki eru að ná á þessu sviði og hvort það getur myndað grundvöll að því að sækja á erlend fyrirtæki sem hefðu áhuga á nánara samstarfi við þau íslensku með flutningi til landsins eða R&Þ.

Ályktanir og niðurstöður.
    Að öllu samanlögðu var þessi ráðstefna afar upplýsandi og leiddi hugann að því hvernig við erum að vinna að þessum málaflokki í samanburði við aðrar þjóðir.
    Meginniðurstaða undirritaðs er að við eigum mun meiri möguleika á fjölþættri atvinnuuppbyggingu í gegnum beina erlenda fjárfestingu en almennt er talið og flest það sem er að gerast í heiminum um þessar mundir styrkir stöðu okkar í þessum efnum. Til að nýta þessa möguleika þarf fyrst og fremst að ráðast í eftirfarandi:
     *      Móta okkur skýra atvinnustefnu og stefnu varðandi BEF.
     *      Setja fram verkefna- og aðgerðaáætlun til næstu ára sem jafnframt er kostnaðar- og árangursmetin.
     *      Ná almennri viðhorfsbreytingu meðal ráðamanna og almennings um gildi og gagnsemi BEF með því að stuðla að umræðum og upplýsingu um þennan málaflokk.
     *      Stórauka samstarf allra hagsmunaaðila innanlands þar með talið yfirvalda til að skapa rétta og hagfellda umgjörð fyrir þær atvinnugreinar sem hefðu hag af að starfa hér á landi og sem uppfylla þau hagvaxtar-og samfélagsmarkmið sem gerðar eru kröfur um.
    Ljóst er að mikill samhljómur er milli þess sem fram kom á ráðstefnu WAIPA og áður hafði komið fram í úttekt PWC Belgíu og skýrslu sérfræðingahóps iðnaðarráðherra um beinar erlendar fjárfestingar. Okkur ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að ráðast í fyrirliggjandi verkefni.


Reykjavík, 12. september 2011

[sign]
Þórður H. Hilmarsson
forstöðumaður Fjárfestingarsviðs Íslandsstofu

Neðanmálsgrein: 1
    1 Sjá meðal annars umfjöllun UNTAD um beina erlenda fjárfestingu, www.unctad.org/templates         /Page.
        asp?intItemID=3146&lang=1 og skýrslu OECD (OECD Benchmark Definition of Foreign Direct Investment, Third Edition, 1999):
         www.oecd.org/dataoecd/10/16/2090148.pdf
Neðanmálsgrein: 2
    2 Davies & Kristjánsdóttir, 2010; Kristjánsdóttir, 2004; Kristjánsdóttir, 2010
Neðanmálsgrein: 3
    3 Davies, Ionascu & Kristjánsdóttir, 2008).
Neðanmálsgrein: 4
    4 europa.eu/estatref/info/sdds/en/bop/bop_fdi_sm.htm
Neðanmálsgrein: 5
    5 Sjá einnig skýrslu OECD (OECD Benchmark Definition of Foreign Direct Investment, Third Edition,         1999)
Neðanmálsgrein: 6
    6 Davies, 2008
Neðanmálsgrein: 7
    7 Seðlabanki Íslands, 2011
Neðanmálsgrein: 8
    8 Davies, 2008
Neðanmálsgrein: 9
    9 Samkvæmt Hagstofu Íslands (landsframleiðsla) og Seðlabanka Íslands (verðmæti útflutnings vöru og þjónustu).
Neðanmálsgrein: 10
    10 Davies & Kristjánsdóttir, 2010; Davies, Ionascu & Kristjánsdóttir, 2008; Kristjánsdóttir, 2004; Kristjánsdóttir, 2010.
Neðanmálsgrein: 11
    11 Kristjánsdóttir 2004, Kristjánsdóttir 2010.
Neðanmálsgrein: 12
    12 Kristjánsdóttir 2010
Neðanmálsgrein: 13
    13 The Icelandic Geothermal Cluster: M. Porter, Reykjavik 2010 (ppt presentation).
Neðanmálsgrein: 14
    14 Fjármálaráðuneytið 2008.
Neðanmálsgrein: 15
    15 Markusen, 2002
Neðanmálsgrein: 16
    16 Seðlabanki Íslands: Lárus Jóhannesson, hagfræðingur.
Neðanmálsgrein: 17
    17 The World Factbook – CIA, www.cia.gov/library/publications/the-world-factbook/; Seðlabanki Íslands: www. sedlabanki.is; FDi.net: www.fdi.net.
Neðanmálsgrein: 18
    18 Kristjánsdóttir, 2010.
Neðanmálsgrein: 19
    19 insight.aon.com/content/2011PoliticalRiskMap.
Neðanmálsgrein: 20
    20 OECD's FDI Restrictiveness Index; 2010 update. (http://www.oecd.org/dataoecd/32/19/45563285.pdf).
Neðanmálsgrein: 21
    22 1991, nr. 34 25. mars. Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
Neðanmálsgrein: 22
    23 Orkustefna fyrir Ísland, drög til umsagnar, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 23
    24 Education at a Glance 2010.
Neðanmálsgrein: 24
    25 Global Investment Promotion Benchmarking 2009: Summary Report:
World Bank Advicory Services_Investment Climate.
Neðanmálsgrein: 25
    26 Iðnaðarráðuneytið, apríl 2009: Ívilnanir til eflingar fjárfestingum í atvinnurekstri. Skýrsla starfshóps.
Neðanmálsgrein: 26
    27 Stuðningur við atvinnu- og byggðaþróun: Ríkisendurskoðun, des. 2010.