Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 386. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 499  —  386. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipun nefndar til að endurskoða vörugjalda- og tollalöggjöf.

Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Tryggvi Þór Herbertsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa fimm manna nefnd sem hafi það hlutverk að taka íslenska vörugjalda- og tollalöggjöf til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að einfalda kerfið og gera það skýrara.
    Nefndin verði skipuð fulltrúum tilnefndum af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu, Neytendasamtökum Íslands og fjármálaráðherra. Sá síðastnefndi verði formaður nefndarinnar.
    Nefndin skili fjármálaráðherra niðurstöðum eigi síðar en 1. maí 2012 og fjármálaráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðunum á þessu löggjafarþingi.

Greinargerð.


    Gildandi tollalög, nr. 88/2005, leystu af hólmi tollalög nr. 55/1987. Þau lög byggðust á þrennum eldri lögum sem fjölluðu um tollamálefni. Markmið laganna frá 1987 var að setja ein heildarlög sem tækju til allra meginþátta tollheimtu og tolleftirlits.
    Gildandi lög byggjast á starfi nefndar sem fjármálaráðherra skipaði árið 2001 en henni var falið að endurskoða þágildandi lög með það markmið í huga að vöruviðskipti milli Íslands og annarra landa yrðu sem greiðust en um leið svo búið um hnútana að tollyfirvöld gætu sinnt því hlutverki sínu að tryggja eftirlit með því að ólöglegur varningur bærist ekki til landsins og jafnframt að álagning aðflutningsgjalda væri rétt.
    Á umliðnum árum hefur neyslumynstur okkar Íslendinga breyst verulega. Frá því að bann við innflutningi á landbúnaðarafurðum var afnumið með aðild Íslands að GATT-samningnum árið 1995 hefur innanlandsneysla á búvörum aukist mikið. Við borðum nú til að mynda fjórfalt meira af alifugla- og svínakjöti en í lok níunda áratugarins og hefur neysla á osti á þessum sama tíma tvöfaldast. Hins vegar miðast innflutningskvóti enn við neysluna eins og hún var á árunum 1986–1988. Breytingar á tollum vegna landbúnaðarvara eru nú háðar hinu pólitíska mati ráðherra hverju sinni sem stundum er kallað geðþóttavald. Þeir ráðherrar landbúnaðarmála sem vilja frekari höft og tollvernd geta því auðveldlega breytt reglum í þessa veru eftir eigin geðþótta, eins og dæmin sanna.
    Einnig er ljóst að fara þarf yfir tollskrá og vörugjöld á aðra vöruflokka en réttilega hefur verið talað um frumskóg þegar kemur að þessum þætti skattlagningar. Tollar og vörugjöld eru eitt skýrasta dæmið um ógegnsæi skattkerfisins en vörugjöldin endurspegla vel hversu óréttlát og lítt skiljanleg slík skattlagning getur verið. Alþekkt eru dæmin um álagningu vörugjalda á brauðristar en þær eru enn skattlagðar á mismunandi hátt eftir því einu hvort brauðið fer lóðrétt eða lárétt í þær. Á brauðristar er hvorki lagður tollur né vörugjald. Á hin svonefndu samlokugrill, sem eru ekkert annað en brauðrist sem ristar brauðið lárétt, er hins vegar lagður 7,5% tollur og 20% vörugjald. Ofan á allt saman leggst svo 25,5% virðisaukaskattur.
    Annað dæmi eru byggingaplötur úr gifsi sem aðallega eru notaðar sem milliveggjaplötur og njóta vaxandi vinsælda sem slíkar enda eru þær þægilegri í meðförum en spónaplötur. Gifs er einnig minni eldsmatur en viðarplötur. Gifsvörur bera hins vegar 15% vörugjald en almennt ber efni til byggingariðnaðar ekki vörugjald, þ.m.t. spónaplötur og krossviður. Á sá sem byggir raunverulegt val um byggingarefni? Svo er ekki ef hann þarf að leita hagkvæmustu leiða við framkvæmdirnar.
    Nefna má einnig kakó í þessu samhengi en það ber hærri opinber gjöld til nota í drykki en í bakstur. Lægst gjöld ber það hins vegar ef það er flutt inn í baunaformi.
    Kerfi vörugjalda mismunar vörutegundum og hefur áhrif á val neytenda. Í sumum tilfellum eru vörugjaldsskyldar vörur ekki fluttar til landsins og í staðinn er flutt inn vara sem neytendamarkaðnum kann að hugnast síður. Markaðnum er því stýrt inn á brautir sem hann hefði ellegar ekki farið án opinberrar íhlutunar.
    Annar angi af þessum vörugjalda- og tollafrumskógi er mikill útflutningur á verslun, en nýlegar fréttir sýna að stór hluti þeirra Íslendinga sem fara utan telja hagstæðara að kaupa vörur og fara með þær í gegnum hið svonefnda rauða hlið til að greiða tolla og vörugjöld en að versla heima fyrir. Þetta þýðir einnig fækkun starfa á Íslandi.
    Ein meginstoð utanríkisstefnu Íslands er að stuðla að frjálsræði í viðskiptum og treysta öfluga alþjóðasamvinnu. Fengin reynsla sýnir glöggt að Íslendingum farnast best þegar landið er opið fyrir verslun og viðskiptum við umheiminn. Öflug utanríkisverslun er forsenda hagsældar á Íslandi og telja flutningsmenn því mikilvægt að haldið verði áfram á braut aukins viðskiptafrelsis. Miklu máli skiptir að utanríkisstefnan styðji við atvinnusköpun þjóðarinnar til framtíðar og veiti nauðsynlegt svigrúm til nýsköpunar sem byggist á hugviti og þekkingu fólksins í landinu. Þannig má halda opnum atvinnutækifærum ungs fólks sem menntar sig til starfa sem jafnvel enn eru ekki til.
    Hluti af því að treysta betur alþjóðasamvinnu og frjálsræði í viðskiptum er að taka íslenska tollalöggjöf til gagngerrar endurskoðunar með það fyrir augum að afnema viðskiptahindranir. Til þess þarf kerfi sem allir skilja og er einfalt. Svo er ekki nú. Það er því lagt til að löggjöf um tolla og vörugjöld verði endurskoðuð hið fyrsta.