Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 467. máls.
Þingskjal 713  —  467. mál.




Frumvarp til myndlistarlaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




I. KAFLI
Markmið og yfirstjórn.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að kveða á um skipan og fyrirkomulag myndlistarmálefna, að efla íslenska myndlist og búa henni hagfelld skilyrði.
    Ráðherra fer með yfirstjórn myndlistarmála samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Listasafn Íslands.
2. gr.
Hlutverk.

    Listasafn Íslands er eign íslenska ríkisins og er höfuðsafn á sviði myndlistar. Safnið skal einkum leitast við að safna íslenskri myndlist, vera miðstöð varðveislu, rannsókna, heimildasöfnunar og miðlunar á íslenskri myndlist. Listasafn Íslands veitir öðrum listasöfnum ráðgjöf, stuðlar að samvinnu listasafna og vinnur að samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar.

3. gr.
Helstu verkefni.

    Listasafn Íslands skal leitast við að koma upp metnaðarfullu safni íslenskrar myndlistar, skrá það, rannsaka, varðveita og miðla, innan lands og utan. Listasafn Íslands skal kosta kapps um að efla íslenska myndlist og stuðla að framþróun hennar.
    Leitast skal við að safnkosturinn endurspegli sem best strauma og stefnur í íslenskri og alþjóðlegri myndlist á hverjum tíma. Listasafn Íslands skal afla heimilda og stuðla að öflun og miðlun þekkingar á íslenskri myndlist til almennings og sérfræðinga til fræði- og rannsóknastarfa. Safnið skal annast fræðslustarfsemi um innlenda og erlenda myndlist fyrir skóla, fjölmiðla og almenning.

4. gr.
Safnstjóri.

    Ráðherra skipar forstöðumann Listasafns Íslands, safnstjóra, til fimm ára í senn. Safnstjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.
    Safnstjóri stjórnar starfsemi og rekstri safnsins og mótar listræna stefnu þess. Hann ræður aðra starfsmenn safnsins og er í fyrirsvari fyrir það.
    Endurnýja má skipun safnstjóra einu sinni til næstu fimm ára.

5. gr.
Innkaupanefnd.

    Á vegum Listasafns Íslands starfar þriggja manna innkaupanefnd skipuð af ráðherra til þriggja ára í senn. Í nefndinni situr safnstjóri, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra myndlistarmanna og einn án tilnefningar. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna.
    Innkaupanefndin ákveður kaup listaverka. Hún getur heimilað safnstjóra að ráðstafa allt að 20% af því fé sem árlega er ætlað til listaverkakaupa til kaupa á innlendum verkum.
    Innkaupanefnd fjallar um gjafir sem Listasafni Íslands eru boðnar og metur hvort þær skuli þegnar. Gjöf skal fylgja gjafabréf. Safnið má aldrei selja eða á annan hátt láta af hendi listaverk, er það hefur þegið að gjöf, nema að fengnu samþykki gefanda.
    Heimilt er að fenginni umsögn innkaupanefndar að selja listaverk úr eigu Listasafns Íslands í því skyni að kaupa annað verk eftir sama listamann er æskilegra þykir að sé í eigu safnsins.

6. gr.
Lán listaverka.

    Listasafni Íslands er heimilt að lána listaverk tímabundið til annarra safna eða stofnana, á sýningar eða til rannsókna. Höfundur á alltaf rétt á að fá verk sín lánuð á eigin sýningar.
    Öll lán á listaverkum þurfa að uppfylla skilyrði Listasafns Íslands um útlán verka.

7. gr.
Meðferð réttinda.

    Listasafn Íslands öðlast þann rétt sem á hverjum tíma fylgir listaverki samkvæmt íslenskum höfundalögum við venjulegt, óskilorðsbundið afsal þess, þó með þeirri takmörkun um sölu eða aðra afhendingu sem leiðir af ákvæðum 5. og 6. gr.
    Safnið hefur rétt til opinberra sýninga á listaverkum á vegum safnsins en um lán verka á aðrar listsýningar gilda ákvæði 6. gr. Enn fremur hefur safnið rétt til eftirmyndunar eða annarrar eftirgerðar fyrir það sjálft, svo sem til skrásetningar í gagnagrunn safnsins, til kynningar á einstökum sýningum og til birtingar í sýningarskrám. Til annarrar eftirgerðar eða birtingar listaverka þarf samþykki höfundaréttarhafa í samræmi við höfundalög.
    Höfundur á kröfu til þess að safnið heimili honum aðgang að verki hans til fjölföldunar og útgáfu en safnið á jafnan forgangsrétt til útgáfu þess að öðru jöfnu.

8. gr.
Fjárhagur.

    Kostnaður af rekstri Listasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum. Listasafnið getur einnig haft tekjur af eigin starfsemi, styrkjum og öðrum framlögum.

9. gr.
Gjaldtökuheimild.

    Listasafni Íslands er heimilt að taka aðgangseyri. Þá er safninu heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sína, svo sem lán á listaverkum, ljósmyndun þeirra, afnot af ljósmyndum, hvers konar sérunnar skrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu og fjölföldun hvers konar til þess að standa straum af kostnaði. Safnið setur gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku.

III. KAFLI
Myndlistarráð og myndlistarsjóður.
10. gr.
Skipan myndlistarráðs.

    Ráðherra skipar fimm manna myndlistarráð til þriggja ára í senn. Samband íslenskra myndlistarmanna tilnefnir tvo fulltrúa, Myndhöfundasjóður Íslands/Myndstef tilnefnir einn og Listasafn Íslands tilnefnir einn. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi ráðsmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Óheimilt er að skipa sama mann aðalfulltrúa í myndlistarráði lengur en tvö samfelld starfstímabil.

11. gr.
Hlutverk og starfsemi myndlistarráðs.

    Hlutverk myndlistarráðs er að vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni myndlistar. Hlutverk sitt samkvæmt lögum þessum rækir ráðið meðal annars með því að:
     a.      veita umsögn um þau mál sem ráðherra vísar til þess,
     b.      gera tillögu til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi myndlistarsjóðs til þriggja ára í senn,
     c.      úthluta árlega styrkjum úr myndlistarsjóði,
     d.      stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og myndsköpun þeirra hér á landi og erlendis,
     e.      efla alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana,
     f.      sinna öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk þess eða ráðherra kann að fela því.
    Ráðherra er heimilt að fela myndlistarráði að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila um framkvæmd verkefna sem unnin eru í þess þágu og til að annast almenna umsýslu vegna starfsemi ráðsins og myndlistarsjóðs.

12. gr.
Myndlistarsjóður.

    Alþingi veitir árlega fé í fjárlögum í myndlistarsjóð í því markmiði að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og kosta önnur verkefni er falla undir hlutverk og starfsemi myndlistarráðs skv. 11. gr.
    Myndlistarráð úthlutar styrkjum úr myndlistarsjóði. Ráðherra setur myndlistarsjóði reglur um auglýsingar, meðferð umsókna og afgreiðslu þeirra. Við mat á umsóknum er myndlistarráði heimilt að leita umsagnar fagaðila.
    Kostnaður af starfsemi myndlistarráðs greiðist úr myndlistarsjóði. Ráðið ber ábyrgð á umsýslu og fjárreiðum myndlistarsjóðs.

IV. KAFLI
Listaverk í opinberum byggingum.
13. gr.
Opinberar byggingar.

    Opinberar byggingar og umhverfi þeirra skal fegra með listaverkum. Skal miða við að listaverkin séu þáttur í þeirri heildarmynd sem byggingu og umhverfi hennar er ætlað að skapa. Til opinberra bygginga teljast:
     a.      byggingar sem ríkissjóður fjármagnar að nokkru eða öllu leyti, sbr. lög nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda,
     b.      byggingar sem reistar eru á vegum ríkisstofnana sem hafa sjálfstæðan fjárhag og eru því ekki háðar beinni fjárveitingarákvörðun Alþingis um byggingarframkvæmdir,
     c.      byggingar sem reistar eru fyrir ríkið samkvæmt samningi um einkaframkvæmd,
     d.      framkvæmdir sem fela í sér gagngerar endurbætur á eldra húsnæði og ber að fara með þær framkvæmdir eins og um nýbyggingu sé að ræða,
     e.      húsnæði sem ríkið tekur á leigu til a.m.k. 10 ára.
    Til opinberra bygginga teljast ekki byggingar sem reistar eru til bráðabirgða, byggingar sem standa fjarri alfaraleið, skemmur og aðrar sambærilegar byggingar.

14. gr.
Framlag til listaverka í nýbyggingum.

    Verja skal 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar. Með listaverkum er átt við hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggskreytingar innan húss og utan, höggmyndir, málverk, myndvefnað og aðra listræna fegrun. Þá getur listaverk verið eiginlegur byggingarhluti, að hluta eða í heild, og órjúfanlegur hluti af byggingu eða umhverfi hennar.

15. gr.
Undirbúningur.

    Í greinargerð með frumathugun og áætlanagerð skv. II. og III. kafla laga um skipan opinberra framkvæmda skal auk þeirra atriða sem þar eru tilgreind gera grein fyrir áætlun um kostnað vegna listaverka. Slíkur kostnaður skal vera hluti af þeirri heildarkostnaðaráætlun sem lögð er til grundvallar við fjárlagagerð vegna framkvæmdanna.

16. gr.
Ráðgjöf.

    Við ákvarðanir um listaverk í opinberum nýbyggingum sem lög þessi taka til skulu arkitekt mannvirkisins og byggingarnefnd leita faglegrar ráðgjafar hjá stjórn listskreytingasjóðs sem skal tilnefna fulltrúa af sinni hálfu til að annast samráð og ráðgjöf. Hin endanlega ákvörðun um val listaverka er í höndum byggingarnefndar og/eða verkkaupa að fenginni hinni faglegu ráðgjöf sjóðstjórnar. Kostnaður við ráðgjöf og val á listaverki skal rúmast innan þeirra fjárveitinga sem áætlaðar voru til verksins á fjárlögum.

17. gr.
Listskreytingasjóður.

    Alþingi veitir árlega fé í listskreytingasjóð til listaverka í opinberum byggingum sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999 ásamt umhverfi þeirra og annarra útisvæða á forræði ríkisins og sveitarfélaga svo og til listaverka í húsnæði sem ríkið tekur á leigu til a.m.k. 10 ára.
    Úthlutun styrkja úr listskreytingasjóði til listaverka í eldri byggingum og leiguhúsnæði er í höndum stjórnar listskreytingasjóðs. Stjórnin metur í hverju tilviki hvort fyrirhuguð listaverk séu þess eðlis að hafa skuli samráð við arkitekt byggingar við val á þeim.
    Sé bygging, umhverfi hennar eða útisvæði á forræði sveitarfélags skal koma framlag frá viðkomandi sveitarfélagi á móti úthlutun úr listskreytingasjóði.

18. gr.
Stjórn listskreytingasjóðs.

    Ráðherra skipar fimm manna stjórn listskreytingasjóðs til þriggja ára í senn. Samband íslenskra myndlistarmanna tilnefnir tvo fulltrúa, Arkitektafélag Íslands tilnefnir einn og samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir tilnefnir einn. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi stjórnarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Óheimilt er að skipa sama mann aðalfulltrúa í stjórn listskreytingasjóðs lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Hlutverk stjórnar er að veita ráðgjöf um listaverk í nýbyggingum sem lög þessi taka til, sbr. 16. gr., annast umsýslu fjárins og veita styrki úr listskreytingasjóði til listaverka í opinberum byggingum sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999, sbr. 17. gr. Stjórn listskreytingasjóðs er heimilt að eiga frumkvæði að gerð og uppsetningu listaverka.
    Ráðherra er heimilt að fela stjórn listskreytingasjóðs að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila um framkvæmd verkefna sem unnin er í þágu hennar til að annast almenna umsýslu vegna starfsemi stjórnarinnar og listskreytingasjóðs, sbr. 17. gr.
    Kostnaður af starfsemi stjórnar greiðist úr listskreytingasjóði. Stjórnin ber ábyrgð á umsýslu og fjárreiðum listskreytingasjóðs.

19. gr.
Samkeppni.

    Að öðru jöfnu skal fara fram opinber samkeppni í samræmi við venjur og reglur sem um slíkt gilda á hverjum tíma um meiri háttar verkefni á sviði listskreytinga opinberra bygginga, hvort sem um er að ræða nýbyggingar eða byggingar sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999. Slík samkeppni skal opin erlendum listamönnum enda njóti íslenskir listamenn sömu réttinda í þeirra löndum.
    Stjórn listskreytingasjóðs er heimilt að veita styrk úr listskreytingasjóði vegna kostnaðar við undirbúning umsóknar um framlag til listaverka skv. 17. gr., þ.m.t. kostnaðar við samkeppni.

20. gr.
Meðferð listaverka.

    Listaverk sem notið hefur framlags samkvæmt lögum þessum er eign íslenska ríkisins. Hafi listaverk einnig notið framlaga annarra aðila skv. 17. gr. skal eignarréttur skiptast í réttu hlutfalli við framlag aðila.
    Óheimilt er að flytja listaverk varanlega úr byggingu eða frá henni nema með samþykki stjórnar listskreytingasjóðs. Jafnframt er óheimilt að selja listaverk sem notið hefur framlags nema með samþykki stjórnarinnar. Sé listaverk selt skal semja um endurgreiðslu á framlagi samkvæmt lögum þessum.
    Öll listaverk sem njóta styrks úr listskreytingasjóði samkvæmt lögum þessum skulu merkt greinilega og halda skal skrá um þau.

V. KAFLI
Önnur ákvæði.
21. gr.
Málsmeðferð.

    Ákvarðanir um styrkveitingar skv. 12. og 17. gr. eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.

22. gr.
Setning reglugerða.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga í heild eða einstakra kafla þeirra.

23. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2013. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 58/1988, um Listasafn Íslands, og lög nr. 46/1998, um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Fram til 1. janúar 2013 er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laga þessara meðal annars með því að óska eftir tilnefningum og skipa innkaupanefnd Listasafns Íslands, sbr. 5. gr., myndlistarráð, sbr. 10. gr., og stjórn listskreytingasjóðs, sbr. 18. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Lagafrumvarp þetta er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðherra og er nú lagt fram í annað sinn eftir nokkra endurskoðun, m.a. á grundvelli framkominna umsagna um efni þess. Þá hefur verið bætt við ákvæðum um listaverk í opinberum byggingum með það í huga að fella endurskoðuð ákvæði laga um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, nr. 46/1998, inn í þetta frumvarp.
    Með frumvarpinu er komið til móts við brýna þörf til að skilgreina lagaramma myndlistarsviðsins í heildarlögum með líkum hætti og hefur verið gert um önnur listasvið. Þannig eru til leiklistarlög, nr. 138/1998, þar sem lagagreinar um Þjóðleikhúsið eru felldar inn í löggjöfina. Þessi lög eru nú í endurskoðun þannig að þau nái til allra sviðslista. Í leiklistarlögum er einnig fjallað um leiklistarráð og framlag til leikhópa, nokkurs konar leiklistarsjóð, eins og gerð er tillaga um myndlistarráð og myndlistarsjóð í þessu frumvarpi. Hér er því verið að halda áfram þeirri vinnu við samhæfingu laga á listasviðum, sem löggjafinn hefur sett á undanförnum árum.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Við setningu safnalaga, nr. 106/2001, breyttist hlutverk Listasafns Íslands á þann veg að það var gert að höfuðsafni á sviði myndlistar. Í ákvæði til bráðabirgða í safnalögum er kveðið á um að endurskoða skuli lög er þá giltu um söfn sem störfuðu samkvæmt sérstökum lögum.
    Um Listasafn Íslands gilda lög nr. 58/1988, með síðari breytingum. Nauðsynlegt er að aðlaga þau annars vegar að safnalögum og hins vegar að þau taki frekar mið af rammalöggjöf um myndlistarmál en sérlögum um safnið. Var sú leið farin í leiklistarlögunum, en þau voru höfð til hliðsjónar við gerð lagafrumvarps þessa. Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki til allrar myndlistarstarfsemi sem ríkið stendur fyrir eða styrkir, þ.m.t. starfsemi listskreytingasjóðs nema starfsemi Listasafns Einars Jónssonar.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um Listasafn Íslands. Í frumvarpinu eru ákvæðin um Listasafn Íslands gerð einfaldari en í núgildandi lögum.
    Helstu breytingar eru að lagt er til að safnráð í núverandi mynd verði lagt niður. Það er í samræmi við skipan mála hjá öðrum höfuðsöfnum, þ.e. Þjóðminjasafni Íslands og Náttúruminjasafni Íslands, en samkvæmt gildandi lögum eru safnráð ekki skipuð við þau söfn. Heiti forstöðumanns listasafnsins verður breytt í safnstjóri. Haldið er því ákvæði að safnstjóri er skipaður til fimm ára í senn og geti hlotið endurráðningu til næstu fimm ára. Sú breyting er lögð til er varðar innkaupanefnd að ráðherra skipi einn fulltrúa án tilnefningar sem jafnframt yrði formaður. Í gildandi lögum sitja tveir fulltrúar listamanna í safnráði í innkaupanefnd ásamt forstöðumanni. Þar sem lagt er til að safnráð verði lagt niður er gert ráð fyrir að Samband íslenskra myndlistarmanna tilnefni einn fulltrúa, en safnstjóri muni áfram sitja í nefndinni. Í frumvarpið er sett ákvæði um að Listasafni Íslands sé heimilt að taka aðgangseyri svo og gjald fyrir þjónustu sína, en slíkt ákvæði er ekki í gildandi lögum. Safnið skal setja gjaldskrá.
    Í II. kafla eru önnur helstu nýmæli í þessu frumvarpi og varða þau skipan myndlistarráðs og stofnun myndlistarsjóðs. Ráðuneytið veitti um langt árabil margvíslega styrki á sviði myndlistar af safnliðum í fjárlögum. Þar var einkum um að ræða ferðastyrki til einstaklinga og hópa og styrki vegna einstakra verkefna innan lands og erlendis. Ráðuneytið hafði þriggja manna myndlistarnefnd, sem var skipuð fulltrúum Sambands íslenskra myndlistarmanna, Listasafns Íslands og ráðuneytisins, sér til ráðgjafar við slíkar úthlutanir. Með samningi við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) færðust styrkúthlutanir vegna verkefna erlendis til miðstöðvarinnar og myndlistarnefndin var lögð af. Veiting styrkja á vegum ráðuneytisins vegna myndlistarverkefna innan lands féll samhliða niður. Ef frá eru talin listamannalaun hafa íslenskir myndlistarmenn ekki nema að mjög litlu leyti notið sambærilegs fjárstuðnings til myndsköpunar sinnar og sýningahalds eins og leikhópar og tónlistarfólk hafa notið til sinnar starfsemi. Með starfi myndlistarráðs og stofnun myndlistarsjóðs er stefnt að því að bæta hag þessarar listgreinar til jafns við aðrar.
    Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að stofnað verði myndlistarráð, hliðstætt leiklistarráði og tónlistarráði og stjórn bókmenntasjóðs, er verði ráðherra til ráðgjafar og annist úthlutun úr myndlistarsjóði. Enn fremur er ráðinu ætlað að stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og listsköpun þeirra og vinna að því að efla alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana. Myndlistarráð mun þannig veita ráðuneytinu faglega aðstoð og stuðning.
    Hlutverk myndlistarsjóðs verður samkvæmt frumvarpinu að veita fjárhagslegan stuðning til verkefna á sviði myndlistar til að efla hana og koma henni á framfæri hér á landi og erlendis.
    Í III. kafla eru felld inn ákvæði laga um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, nr. 46/1998, þar sem þau snúa einnig að því að efla myndlist í landinu. Annars vegar er um að ræða að verja skuli 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar og hins vegar að listskreytingasjóður úthluti styrkjum til listaverka í eldri opinberum byggingum sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999. Í frumvarpinu er afmarkað hvað telst til opinberra bygginga og hefur þar verið bætt við tveimur þáttum, annars vegar byggingum fyrir ríkið samkvæmt samningi um einkaframkvæmd og hins vegar húsnæði sem ríkið tekur á leigu til lengri tíma. Þá er að mestu horfið frá því að nota orðið listskreyting og í staðinn notað orðið listaverk. Einnig er skilgreint hvað átt er við með listaverki og m.a. tiltekið að það geti verið eiginlegur byggingarhluti, að hluta eða í heild, og órjúfanlegur hluti af byggingu eða umhverfi hennar. Stjórn listskreytingasjóðs veitir styrki til eldri bygginga og veitir einnig ráðgjöf um listaverk í þeim mannvirkjum sem lögin taka til. Skipan stjórnarinnar yrði óbreytt frá gildandi lögum. Að öðru jöfnu skal fara fram samkeppni um meiri háttar listaverk í opinberum byggingum. Nýju ákvæði er bætt við þar sem lýst er eignarhaldi ríkisins á þeim listaverkum sem njóta framlags samkvæmt frumvarpinu. Einnig eru sett inn ákvæði um hvernig fara beri með listaverk í opinberum byggingum.
    Með lagafrumvarpi þessu er að því stefnt að skapa heildarramma um skipan myndlistarmála og styrkveitingar ríkisins við málaflokkinn.
    Frumvarp til myndlistarlaga var lagt fram á 135. löggjafarþingi 2007–2008 en hlaut ekki afgreiðslu. Við undirbúning þessa frumvarps var tekið tillit til ýmissa ábendinga sem bárust menntamálanefnd Alþingis er nefndin leitaði umsagna um þau frumvörp.

IV. Samráð.
    Frumvarpið snertir eina ríkisstofnun sem starfar á myndlistarsviðinu, þ.e. Listasafn Íslands, svo og listskreytingasjóð. Þá snertir það félagasamtök sem starfa á myndlistarsviðinu og sviði arkitektúrs. Við fyrstu gerð frumvarpsins var haft samráð við Listasafn Íslands og samtök myndlistarmanna. Í meðferð Alþingis á frumvarpinu var leitað eftir umsögnum. Fjórtán aðilar sendu skriflegar athugasemdir. Almennt var frumvarpinu fagnað og enginn lýsti andstöðu við frumvarpið. Nokkrar athugasemdir voru gerðar við einstakar efnisgreinar. Við endurskoðun frumvarpsins var farið vandlega yfir þessar athugasemdir og leiddu þær til breytinga á 3., 6., 7. og 11. gr.
    Samráð var haft við fjármálaráðuneyti um kostnaðargreiningu á frumvarpinu.

V. Mat á áhrifum.
    Telja má að samþykkt frumvarpsins muni skapa heildstæðari og skýrari lagagrundvöll fyrir myndlistarsviðið og styrkja starfsemi myndlistarmanna með stofnun myndlistarsjóðs. Umsýsla sjóðanna tveggja mun alfarið vera utan ráðuneytisins og ákvarðanir um styrkveitingar endanlegar á stjórnsýslusviði. Þær munu því ekki sæta kæru til ráðherra. Ráðuneytinu ætti að gefast betra tóm til að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram að markmið frumvarpsins er að marka heildarramma fyrir málefni íslenskrar myndlistar, að efla hana og búa henni sem best skilyrði. Ákvæði frumvarpsins taka til allrar myndlistarstarfsemi sem ríkið stendur fyrir eða styrkir nema starfsemi Listasafns Einars Jónssonar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra fari með yfirstjórn myndlistarmála samkvæmt frumvarpinu.

Um 2. gr.


    II. kafli frumvarpsins tekur til Listasafns Íslands sem áður var fjallað um í sérstökum lögum um safnið, nr. 58/1988. Í þessari grein er kveðið á um að Listasafn Íslands sé eign íslenska ríkisins og að það sé höfuðsafn á sviði myndlistar. Er þetta í samræmi við ákvæði safnalaga þar sem segir að höfuðsöfn séu í eigu ríkisins og séu miðstöðvar safnastarfsemi hvert á sínu sviði. Í þeim segir jafnframt að höfuðsöfn skuli starfa eftir sérstökum lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra og uppfyllir II. kafli þessa frumvarps til myndlistarlaga það skilyrði hvað varðar Listasafn Íslands.
    Safnið skal einkum leitast við að safna íslenskri myndlist og vera miðstöð rannsókna sem tengjast henni, það skal safna heimildum um íslenska myndlist og miðla henni til almennings. Gert er ráð fyrir að það veiti öðrum listasöfnum ráðgjöf, stuðli að samvinnu listasafna og vinni að samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar.

Um 3. gr.


    Í greininni er annars vegar tekið mið af 5. gr. safnalaga, nr. 106/2001, um hlutverk Listasafns Íslands og hins vegar 2. gr. laga nr. 58/1988, um Listasafn Íslands. Safninu er ætlað að efla íslenska myndlist og stuðla að framþróun hennar, og kallar það á gott samstarf þess við m.a. fræða- og kennslustofnanir á sviði lista sem og ýmis frjáls félagasamtök sem láta sig málefni myndlistar varða.
    Skilgreiningar á verksviði safnsins eru í frumvarpinu færðar til nútímahorfs og einfaldaðar og þannig leitast við að auka svigrúm safnsins til að skipa starfi sínum með sem hagkvæmustum hætti miðað við aðstæður á hverjum tíma. Samtímis er lögð aukin áhersla á skyldur Listasafnsins á sviði heimildasöfnunar um íslenska myndlist og bættan aðgang almennings og fræðimanna að þeim. Loks kemur fram að safnið gegnir veigamiklu hlutverki á sviði fræðslu um myndlist, og ber að líta á það sem eitt af meginverkefnum safnsins.

Um 4. gr.


    Í greininni segir að ráðherra skipi forstöðumann Listasafns Íslands sem beri starfsheitið safnstjóri og verði hann skipaður til fimm ára í senn í samræmi við ákvæði 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Lagt er til að safnstjóri hafi háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfsemi safnsins. Um sambærileg starfsgengisskilyrði er að ræða og gilda um forstöðumann í lögum um Náttúruminjasafn Íslands og lagt er til að gildi um þjóðminjavörð í frumvarpi til nýrra laga um Þjóðminjasafn Íslands. Í þessu felst rýmkun starfsgengisskilyrða frá því sem nú í lögum um Listasafn Íslands, nr. 58/1988.
    Safnstjóri er stjórnandi safnsins og mótar stefnu þess. Hann er ábyrgur gagnvart ráðherra fyrir fjárhagslegum rekstri og starfsemi safnsins. Er þetta í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997. Þá skal safnstjóri í samræmi við ákvæði í safnalögum og frumvarpi til nýrra safnalaga sitja í safnaráði.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að safnráð verði skipað og því verður ekki leitað umsagnar þess um skipun safnstjóra. Hið sama gildir t.d. við skipun þjóðminjavarðar og forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands. Talið er eðlilegt að samræmi sé milli höfuðsafna ríkisins hvað þetta varðar.
    Í gildandi lögum um Listasafn Íslands eru ákvæði um að forstöðumaður megi aðeins sitja tvö skipunartímabil. Því er haldið í frumvarpinu, þ.e. að heimilt er að endurnýja skipun safnstjóra til næstu fimm ára þannig að hann gæti setið alls 10 ár í starfi. Það hefur verið framkvæmd ráðuneytisins að forstöðumenn listastofnana gegni að öðru jöfnu ekki starfi lengur en að hámarki tvö starfstímabil þar sem æskilegt sé að stuðla að þróun og endurnýjun listgreinanna. Undir lok fyrra tímabils færi fram mat á frammistöðu safnstjóra og í ljósi þess tekin ákvörðun um hvort endurnýja eigi skipunina til næstu fimm ára.
    Um starf safnstjóra fer að öðru leyti að lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og laga um fjárreiður ríkisins.

Um 5. gr.


    Efnislega er greinin sambærileg við 8. gr. laga nr. 58/1988, um Listasafn Íslands. Helstu breytingar eru að gert er ráð fyrir að ráðherra skipi innkaupanefnd safnsins og fellt er niður ákvæði um að skjóta megi ágreiningsmálum til safnráðs.
    Lagt er til að nefndin verði skipuð þremur fulltrúum: safnstjóra, einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra myndlistarmanna og einum án tilnefningar. Með þessu fyrirkomulagi getur ráðherra séð til þess að innkaupanefndin endurspegli fjölþætta þekkingu og reynslu á sviði myndlistar, t.d. úr fræðasamfélaginu eða atvinnulífinu, til viðbótar þeirri yfirsýn sem safnstjóri og fulltrúi samtaka myndlistarmanna leggja af mörkum til starfs nefndarinnar. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna.
    Hlutverk innkaupanefndar er að ákveða listaverkakaup safnsins. Innkaupanefnd getur heimilað safnstjóra að ráðstafa allt að 20% af því fé sem árlega er ætlað til listaverkakaupa til kaupa á innlendum verkum. Eðlilegt þykir að innkaupanefnd geti veitt safnstjóra slíka heimild þar sem aðstæður geta verið með þeim hætti að bregðast verði skjótt við, t.d. þegar safnið hefur tækifæri til þess að eignast eftirsóknarverð listaverk í samræmi við hlutverk þess. Gera verður ráð fyrir því að innkaupanefnd mæli nánar fyrir um heimild safnstjóra samkvæmt greininni.
    Í 3. mgr. er fjallað um gjafir til safnsins og er ákvæðið efnislega samhljóða 11. gr. gildandi laga um Listasafnið nema að hér fjallar innkaupanefnd um gjafir.
    Þá er í 4. mgr. fjallað um sölu listaverka sem safnið hefur yfir að ráða, en ákvæðið er að mestu samhljóða 10. gr. laga nr. 58/1988. Hér er þó ekki gert ráð fyrir að afla þurfi sérstaklega samþykkis höfundar fyrir því að verk hans í safneigninni verði selt til að skapa möguleika á að kaupa annað verk eftir hann. Af 3. mgr. leiðir aftur á móti að ávallt verður að leita samþykkis gefanda við sölu listaverks ef um gjöf er að ræða.

Um 6. gr.


    Greinin tekur mið af 7. gr. safnalaga, nr. 106/2001, og 12. gr. laga nr. 58/1988. Fellt er niður heimildarákvæði um stofnun sérstakrar útlánadeildar, enda hefur það aldrei verið notað. Í greininni er tiltekið að safninu sé heimilt að lána listaverk tímabundið til annarra safna eða stofnana, á sýningar eða til rannsókna. Hér er um rýmri heimild að ræða en í núgildandi lögum þar sem einungis listsýningar eru nefndar. Listasafnið hefur um langt skeið lánað verk tímabundið, t.d. til ráðuneyta og sendiráða.
    Hins vegar eru skilyrði fyrir útlánum á verkum í eigu safnsins gerð skýrari en áður, og er safninu með þessu ákvæði ætlað að setja sérstakar reglur þar að lútandi sem geta m.a. fjallað um lánstíma, meðferð og tryggingar verkanna.

Um 7. gr.


    Greinin er samhljóða 13. gr. gildandi laga um Listasafnið nema 2. mgr. hennar hefur verið skýrð nánar, þ.e. að réttur safnsins til endurmyndunar eða annarra eftirgerðar fyrir það sjálft hefur verið nánar skilgreindur með orðunum „svo sem til skrásetningar í gagnagrunn safnsins, til kynningar einstakra sýninga og til birtinga í sýningarskrám“.
    Listasafninu ber að tryggja að við meðferð listaverka á þess vegum sé farið að höfundalögum, nr. 73/1972, og samningum sem byggjast á ákvæðum þeirra laga.

Um 8. gr.


    Kostnaður af rekstri Listasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Safnið getur einnig aflað annarra framlaga, svo sem stuðnings frá fyrirtækjum, komið sér upp styrktarfélagi til að afla fjár sem væri einkum varið til kaupa á íslenskum listaverkum til safnsins eða á annan hátt aukið ráðstöfunarfé sitt. Framlög sem aflað er á þennan máta ætti ekki að draga frá almennri fjárveitingu til safnsins. Þá getur safnið aflað eigin tekna með sölu á margs konar þjónustu.

Um 9. gr.


    Safninu er veitt heimild til gjaldtöku vegna starfsemi sinnar, þar á meðal til að innheimta aðgangseyri af gestum. Þá er safninu heimilt að taka gjald fyrir ákveðna þætti þjónustunnar til að standa straum af kostnaði, svo sem fyrir lán á listaverkum, ljósmyndun þeirra, afnot af ljósmyndum, sérunnar skrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu og fjölföldun hvers konar. Lagt er til að safnið setji gjaldskrá vegna þessarar þjónustu.
    Þetta ákvæði er nýmæli í lögunum.

Um 10. gr.


    Skipun myndlistarráðs er nýjung sem er ætlað að vera til samræmis við önnur listgreinaráð sem skipuð hafa verið, t.d. leiklistarráð og tónlistarráð, nema að hér er gert ráð fyrir að ráðið verði skipað fimm fulltrúum enda verður verksvið þess víðtækt og stefnumarkandi. Skipan myndlistarráðs er í stórum dráttum í samræmi við skipun ráðgjafarnefndar ráðuneytisins á sviði myndlistar til meira en tveggja áratuga nema að bætt er við tveimur fulltrúum. Hún byggist einnig á sömu grundvallarsjónarmiðum um aðkomu fagaðila og viðhöfð eru við ákvörðun um skipun leiklistarráðs og allflestra sjóðstjórna á vegum ráðuneytisins. Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) eru heildarsamtök þeirra sem starfa á sviði myndlistar og tilnefnir tvo fulltrúa. Myndhöfundasjóður Íslands/Myndstef stendur vörð um höfundarrétt vegna opinberrar endurbirtingar og sýningar á verkum myndlistarmanna og tilnefnir einn fulltrúa. Listasafn Íslands sem er höfuðsafn á sviði myndlistar tilnefnir einn fulltrúa og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður.
    Með þessu fyrirkomulagi getur ráðherra séð til þess að myndlistarráð endurspegli fjölþætta þekkingu og reynslu á sviði myndlistar, t.d. úr fræðasamfélaginu eða atvinnulífinu, til viðbótar þeirri yfirsýn sem fulltrúar samtaka myndlistarmanna, Myndhöfundasjóðs og Listasafns Íslands leggja af mörkum til starfs ráðsins. Varamenn verði skipaðir með sama hætti.
Gerð er tillaga um að skipunartími myndlistarráðs verði þrjú ár og að ekki verði heimilt að skipa sama mann aðalfulltrúa meira en tvö starfstímabil í röð, eða í sex ár.

Um 11. gr.


    Í greininni er hlutverk myndlistarráðs skilgreint. Ráðinu er ætlað að vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni myndlistar. Ráðinu er ætlað að gera tillögur um hvernig æskilegast er að haga stuðningi ríkisins við myndlist til að hún eflist og dafni sem best. Íslenskir myndlistarmenn hafa aðeins að litlu leyti notið sambærilegs fjárstuðnings til myndsköpunar sinnar og sýningahalds og leikhópar og tónlistarfólk hafa notið til sinnar starfsemi ef frá eru talin listamannalaun. Myndlistarmenn hafa getað sótt um verkefnis- og ferðastyrki, einkum vegna verkefna erlendis, en að öðru leyti hefur stuðningur við þá verið takmarkaður. Með starfi myndlistarráðs og stofnun myndlistarsjóðs er stefnt að því að bæta hag þessarar listgreinar til jafns við aðrar.
    Myndlistarráð gerir tillögu til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi myndlistarsjóðs til þriggja ára í senn og annast úthlutun styrkja úr sjóðnum.
    Kynning á íslenskum myndlistarmönnum og myndsköpun þeirra hér á landi og erlendis skal vera veigamikill þáttur í starfi myndlistarráðs. Vegna slíkra verkefna og þeirra umsvifa sem fyrirsjáanleg eru af hálfu myndlistarráðs er talið nauðsynlegt að ráðið hafi heimild til að reka eigin skrifstofu eða semja við utanaðkomandi aðila um umsýslu sjóðsins og framkvæmd verkefna. Hér er einkum litið til áframhaldandi samstarfs og samstarfssamninga við þann aðila sem annast þessi verkefni nú. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) hefur á síðustu árum annast kynningu á íslenskri myndlist erlendis á grundvelli samstarfssamnings við ráðuneytið og séð um úthlutanir á styrkjum.

Um 12. gr.


    Hér er gert ráð fyrir stofnun myndlistarsjóðs. Hlutverk sjóðsins er skilgreint með víðum hætti en gert ráð fyrir að myndlistarráð geri tillögur til ráðherra um áherslur og stefnu í starfi sjóðsins, og ákveði hvernig fjármunum hans verði varið til styrkja á grundvelli umsókna, verkefna eða áhersluatriða myndlistarráðs, kynningarmála og umsýslukostnaðar.
    Sjóðnum er ætlað að sjá um styrkveitingar á vegum ráðuneytisins til myndlistarverkefna og styrkja kynningu á íslenskri myndlist hér á landi og erlendis.
    Snýr þetta einkum að verkefna- og ferðastyrkjum til myndlistarmanna, en einnig stuðningi við verkefni er stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og myndsköpun þeirra hér á landi og erlendis. Loks getur verið um að ræða verkefni sem efla alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana.
    Ráðherra er ætlað að setja myndlistarsjóði starfsreglur. Í þeim skal m.a. gert ráð fyrir að hægt sé að leita eftir umsögnum fagaðila um einstök mál.

Um 13. gr.


    Við setningu heildarlaga um myndlist er talið eðlilegt að fella ákvæði laga nr. 46/1998, um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, inn í þau þar sem ákvæði þeirra snúa einnig að því að efla myndlist í landinu. Lagt er til að orðið listaverk sé notað í skal listskreytinga. Í 1. mgr. er því slegið föstu að opinberar byggingar og umhverfi þeirra skuli fegra með listaverkum og að þau séu þáttur í þeirri heildarmynd sem ætlunin er að skapa með byggingunni og umhverfi hennar. Þá er í greininni nánar afmarkað hvað teljist til opinberra bygginga sem heimilt er að fegra með listaverkum. Ákvæðið er að meginstofni samhljóða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 46/1998. Þó er bætt við tveimur þáttum, annars vegar byggingum fyrir ríkið samkvæmt samningi um einkaframkvæmd og hins vegar húsnæði sem ríkið tekur á leigu til lengri tíma. Á nokkrum sviðum hefur aukist að ríkið standi ekki sjálft að því að byggja heldur geri samning um slíkt við sveitarfélög eða einkaaðila. Því er í c-lið ákvæði um að byggingar sem reistar eru fyrir ríkið samkvæmt samningi um einkaframkvæmd falli undir opinberar byggingar sem lögin ná til. Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að ríkið leigi húsnæði til langs tíma, en í slíkum tilvikum er einnig full ástæða til að huga að listaverkum. Í e-lið 1. mgr. er lagt til að húsnæði sem ríkið tekur á leigu til a.m.k. 10 ára geti einnig talist til opinberra bygginga.
    Þar sem ekki er talið nauðsynlegt að setja listaverk í allar opinberar byggingar eru í 2. mgr. taldar upp nokkrar undanþágur, svo sem byggingar sem reistar eru til bráðabirgða, skemmur og byggingar sem standa fjarri alfaraleið. Það verður þó að vera matsatriði hverju sinni hvort ástæða sé til að veita fé til listskreytinga í slíkum byggingum.

Um 14. gr.


    Lög nr. 46/1998, um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, leystu af hólmi lög um Listskreytingasjóð ríkisins, nr. 71/1990. Í lögunum var reynt „að tryggja svo sem auðið er framkvæmd þeirrar meginreglu að listskreyting sé þáttur í hverri byggingu sem reist er á vegum ríkisins með því að lögbinda að 1% af heildarkostnaði við bygginguna skuli varið í þessu skyni“ eins og segir í athugasemdum við frumvarpið. Samkvæmt þessum lögum var það á ábyrgð þeirra sem forræði höfðu fyrir hverri byggingarframkvæmd að tryggja að þessari lagaskyldu væri framfylgt. Reynslan sýnir að þetta hefur ekki alltaf gengið eftir og í of mörgum tilvikum hefur fé til listskreytinga, 1% af heildarbyggingarkostnaði, verið skorið niður að hluta eða alfarið í sparnaðarskyni.
    Haldið er óbreyttu ákvæði gildandi laga um að verja skuli 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar. Ákvæðið skýtur að sjálfsögðu ekki loku fyrir að kostað sé meiru til listaverka en þessu nemur, ef fjárhagslegt svigrúm leyfir. Þá er skilgreint hvað átt er við með listaverkum. En slíka skilgreiningu er ekki að finna í gildandi lögum. Um er að ræða bæði fasta og lausa listmuni. Algengar eru veggskreytingar bæði innan húss og utan. Einnig höggmyndir, málverk, myndvefnaður og annars konar listræn fegrun. Einnig geta listaverk verið eiginlegur byggingarhluti, að hluta eða í heild, og órjúfanlegur hluti af byggingu eða umhverfi hennar.

Um 15. gr.


    Ákvæði greinarinnar er efnislega samhljóða 2. gr. gildandi laga, en þar er því slegið föstu að gera skal ráð fyrir kostnaði vegna listaverka eins og öðrum kostnaði í frumathugun og áætlanagerð vegna opinberrar byggingar. Um þessa þætti er fjallað í lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001. Í greininni er áréttað að kostnaður við listaverk skuli skilgreindur sem hluti af heildarkostnaðaráætlun sem lögð er til grundvallar við fjárlagagerð. Með þessu er leitast við að tryggja að listaverk séu jafn eðlilegur þáttur og hverjir aðrir þegar nýbygging er reist.

Um 16. gr.


    Stjórn listskreytingasjóðs hefur samkvæmt gildandi lögum haft með höndum faglegt ráðgjafarhlutverk varðandi listaverk í nýbyggingum. Gert er ráð fyrir að þetta hlutverk verði áfram í höndum stjórnar sjóðsins. Endanleg ákvörðun um val listaverka er á ábyrgð bygginganefndar og/eða verkkaupa eftir að slík ráðgjöf hefur verið veitt. Þetta er gert til að tryggja að breitt fagleg mat eigi sér stað á vali á listaverkum. Sá kostnaður sem af ráðgjöf kann að leiða skal rúmast innan fjárveitingar til nýbyggingarinnar.

Um 17. gr.


    Misbrestur er víða á að listaverk séu í opinberum byggingum. Í gildandi lögum voru innleidd þau nýmæli að byggingar sem reistar voru fyrir gildistöku þeirra, 1. janúar 1999, gátu fengið framlag úr listskreytingasjóði. Þetta hefur reynst mikilvægt og gert að verkum að gerð hefur verið bragarbót á þessum málum í ýmsum opinberum byggingum, en nauðsynlegt er að halda slíku ákvæði áfram í lögum til að halda því starfi áfram. Færst hefur í vöxt að ríkið taki húsnæði á leigu til lengri tíma fyrir stofnanir sínar og er því eðlilegt að hægt sé að veita fjármunum til listaverka í slíku húsnæði. Því er opnað fyrir þann möguleika að heimilt sé að veita fé til listaverka í leiguhúsnæði sem ríkið tekur á leigu í a.m.k. 10 ár. Gert er ráð fyrir að Alþingi veiti áfram fé í listskreytingasjóð til að styrkja listaverk í eldri byggingum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að stjórn sjóðsins úthluti styrkjum úr honum. Þá er gert ráð fyrir að stjórnin meti í hverju tilviki hvort nauðsynlegt er að hafa samráð við arkitekt byggingar við val á listaverki, en stefna ber að því að sem best sátt og samstaða ríki um listaverk í eldri byggingum.
    Oft eru byggingar, umhverfi þeirra eða útivistarsvæði á forræði sveitarfélags. Í slíkum tilvikum er eðlilegt að framlag komi frá viðkomandi sveitarfélagi á móti framlagi úr listskreytingasjóði.

Um 18. gr.


    Stjórn listskreytingasjóðs yrði áfram skipuð fimm fulltrúum. Samband íslenskra myndlistarmanna tilnefni tvo fulltrúa, Arkitektafélag Íslands einn, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir einn og einn yrði skipaður án tilnefningar og væri hann formaður. Hér er um óbreytta skipan að ræða og í gildandi lögum. Skipunartímabilið er hins vegar lengt um eitt ár frá gildandi lögum og er það í samræmi það sem annars gildir oftast með ráð og nefndir ráðuneytisins. Þá er í 2. mgr. ákvæði um að óheimilt er að skipa sama mann aðalfulltrúa í stjórn lengur en tvö samfelld starfstímabil. Þetta er hliðstætt því sem gerist með aðrar nefndir og ráð á vegum ráðuneytisins.
    Tilgangur listaverka í opinberum byggingum er fyrst og fremst að fegra þær og umhverfi þeirra til hagsbóta fyrir þá sem starfa í þeim og fyrir þá sem þangað þurfa að sækja þjónustu, en þetta skapar listamönnum einnig starfstækifæri. Við val á staðsetningu listaverka er æskilegt að leggja megináherslu á rými sem eru opin almenningi.
    Samkvæmt 3. mgr. er stjórn listskreytingasjóðs falið að annast ráðgjöf um listaverk í opinberum nýbyggingum. Hér er um að ræða ráðgjöf í tengslum við ráðstöfun 1% af heildarbyggingarkostnaði hverju sinni. Þetta ákvæði um listaverk í nýbyggingum hefur verið í gildi í mörg ár samkvæmt lögum um listskreytingar opinberra bygginga, en einhver brögð hafa verið á að því hafi verið fullnægt. Til að tryggja að faglega sé staðið að ráðstöfun fjárins er mikilvægt að stjórn listskreytingasjóðs sem skipuð er fagfólki veiti ráð áður en ákvörðun um listaverk í nýbyggingum er tekin. Stjórnin hefur einnig það hlutverk að veita styrki til listaverka í eldri opinberum byggingum, þ.e. byggingum sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999. Stjórnin getur bæði auglýst eftir umsóknum um styrki til kaupa á listaverkum í þessu skyni en einnig ætti hún að eiga frumkvæði að því að opinberar byggingar verði með listaverkum og hvernig þau eru sett upp í viðkomandi rými.
    Í 4. mgr. er ákvæði um að ráðherra sé heimilt að fela stjórn sjóðsins að reka skrifstofu eða gera samning við til þess bæra aðila. Hingað til hefur skrifstofa Sambands íslenskra myndlistarmanna annast umsýslu listskreytingasjóðs og má búast við að svo verði áfram. Allur kostnaður af starfsemi stjórnar greiðist úr sjóðnum.

Um 19. gr.


    Ákvæði þessarar greinar er efnislega óbreytt frá 6. gr. gildandi laga.

Um 20. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru ný. Rétt er að lýsa eignarhaldi ríkisins á þeim listaverkum sem njóta framlags samkvæmt frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða listaverk sem koma til vegna 1% ákvæðisins um nýbyggingar og hins vegar listaverk sem eru keypt með styrk úr listskreytingasjóði til að hafa í eldri byggingum. Þar sem í 17. gr. frumvarpsins er haldið óbreyttu ákvæði gildandi laga um að sveitarfélag leggi einnig til fé til listaverka sé bygging, umhverfi hennar eða útisvæði á forræði þess, er í þessari grein ákvæði um að eignarréttur listaverks skiptist í réttu hlutfalli við framlag aðila.
    Mikilvægt er að skapa lagaramma um það hvernig fara ber með listaverk í opinberum byggingum. Í 2. mgr. er lagt til að stjórn listskreytingasjóðs verði falið að veita samþykki sitt fyrir bæði flutningi og sölu listaverka sem falla undir lögin enda er um eign ríkisins að ræða. Ef um sölu verður að ræða skal semja um endurgreiðslu á framlagi. Eðlilegt er að stjórnin geti varið slíkri endurgreiðslu til að veita frekari styrki til listskreytinga.
    Í 3. mgr. er ákvæði um að merkja skuli greinilega öll listaverk sem notið hafa styrks samkvæmt lögunum. Slík merking skal ekki skaða listaverkið á neinn hátt. Í merkingu skal m.a. koma fram heiti listaverks og ártal, nafn listamanns og að framlag til kaupa á verkinu hafi verið veitt samkvæmt þessum lögum. Jafnframt skal halda ítarlega skrá um öll listaverk sem aflað er á grundvelli laganna.

Um 21. gr.


    Í greininni er kveðið á um að ákvarðanir um úthlutun styrkja úr myndlistarsjóði og listskreytingasjóði skv. 12. og 17. gr. sé ekki hægt að vísa til úrskurðar á æðra stjórnsýslustigi.

Um 22. og 23. gr. og ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðin þarfnast ekki frekari skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til myndlistarlaga.

    Markmiðið með frumvarpi þessu er að kveða á um skipan og fyrirkomulag myndlistarmálefna að efla íslenska myndlist og búa henni sem best skilyrði. Frumvarp til myndlistarlaga var lagt fram á 135. og 136. löggjafarþingi, en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju eftir nokkra endurskoðum, m.a. á grundvelli framkominna umsagna um efni þess. Með frumvarpinu er ætlunin að skilgreina lagaramma myndlistarsviðs í heildarlögum með líkum hætti og gert hefur verið með önnur listasvið og skapa heildarramma um skipan myndlistarmála og styrkveitinga ríkisins til málaflokksins.
    Í frumvarpinu eru ákvæði um Listasafn Íslands gerð einfaldari en í núgildandi lögum og þau aðlöguð að rammalöggjöf um myndlistarmál.
    Við gildistöku þessara laga falla úr gildi lög um Listasafn Íslands, nr. 58/1988, og lög um Listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, nr. 46/1998. Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki til allrar myndlistarstarfsemi sem ríkið stendur fyrir eða styrkir nema starfsemi Listasafns Einars Jónssonar. Þar sem tilgangur frumvarpsins er að skilgreina lagaramma myndlistarsviðs í heildarlögum inniheldur það ákvæði úr þeim lögum sem falla brott við gildistöku þess, þ.e. laga nr. 58/1988 og laga nr. 46/1998.
    Helstu breytingar í frumvarpinu eru að í fyrsta lagi er lagt til að þriggja manna innkaupanefnd verði skipuð og er hlutverk hennar að ákveða listaverkakaup Listasafns Íslands. Í gildandi lögum kemur fram að fulltrúar listamanna eigi tvo fulltrúa í nefndinni en í frumvarpinu er lagt til að listamenn hafi einn fulltrúa og að ráðherra skipi einn fulltrúa en ásamt þessum fulltrúum situr safnstjóri í nefndinni. Fellt er niður ákvæði um að skjóta megi ágreiningsmálum til safnaráðs þar sem í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að safnaráð verði skipað.
    Í öðru lagi kemur fram í frumvarpinu að kostnaður af rekstri Listasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum. Safnið getur einnig aflað annarra framlaga eins og styrkja og í frumvarpinu eru einnig sett ný ákvæði um heimildir safnsins til að taka aðgangseyri og gjald fyrir þjónustu sína.
    Í þriðja lagi er lagt til að nýtt myndlistarráð verði skipað en það er hliðstætt leikslistarráði, tónlistarráði og stjórn Bókmenntasjóðs. Hér er um nýjung að ræða og er skipun ráðsins í samræmi við skipun ráðgjafarnefndar ráðuneytisins á sviði myndlistar til meira en tveggja áratuga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fimm fulltrúum í ráðinu í stað þriggja sem voru í ráðgjafarnefnd ráðuneytisins. Ráðið á m.a. að stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum, styrkja starfsemi þeirra og veita fjárhagslegan stuðning við verkefni á sviði myndlistar. Vegna umsvifa myndlistarráð er mælt fyrir um það í frumvarpinu að ráðið hafi heimild til að reka eigin skrifstofu eða semja við utanaðkomandi aðila um umsýslu myndlistarsjóðs og framkvæmd verkefna.
    Í fjórða lagi er lagt til að stofnaður verði myndlistarsjóður en honum er ætlað að sjá um styrkveitingar á vegum ráðuneytisins til myndlistarverkefna og styrkja kynningu á íslenskri myndlist. Snýr þetta einkum að verkefna- og ferðastyrkjum til myndlistarmanna. Kostnaður af starfsemi myndlistarráðs greiðist úr myndlistarsjóði. Ráðuneytið hefur veitt margvíslega styrki á sviði myndlistar af safnliðum í fjárlögum en með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að slík framlög í fjárlögum fari að mestu í gegnum myndlistarsjóð.
    Í fimmta lagi eru lagðar til þónokkrar breytingar á gildandi ákvæðum laga um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins í frumvarpinu. Þar ber helst að nefna að í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um að fegra skuli opinberar byggingar með listaverkum eigi einnig við byggingar ríkisins samkvæmt samningi um einkaframkvæmd og auk þess húsnæði sem ríkið tekur á leigu til 10 ára eða lengur. Í frumvarpinu eru taldar upp nokkrar undanþágur vegna þessa ákvæðis. Kostnaður af ráðgjöf vegna listskreytinga í nýbyggingum skal rúmast innan fjárveitinga til nýbygginga. Eftir sem áður er í frumvarpinu ákvæði um að verja skuli 1% af heildarbyggingarkostnaði nær allra tegunda opinberra nýbygginga til listaverka í viðkomandi byggingu og umhverfi hennar.
    Í sjötta lagi er skipunartími stjórnar listskreytingasjóðs lengdur um eitt ár í frumvarpi þessu og er ráðherra heimilt að fela stjórninni að reka sérstaka skrifstofu eða semja við það til bæra aðila um framkvæmd verkefna sem eru unnin í þágu hennar. Hingað til hefur skrifstofa Sambands íslenskra myndlistarmanna annast umsýslu Listskreytingasjóðs ríkisins og má búast við að svo verði áfram. Allur kostnaður af starfsemi stjórnar greiðist úr sjóðnum. Listaverk sem hlotið hafa framlag samkvæmt lögunum verða eign íslenska ríkisins en hafi listaverkið einnig notið framlaga annarra aðila skal eignaréttur skiptast í réttu hlutfalli við framlag aðila. Ákvæði frumvarpsins eiga að taka gildi 1. janúar 2013.
    Gera má ráð fyrir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni færa fjárheimildir til myndlistarsjóðs úr fjárheimildum í útgjaldaramma sínum árið 2013 sem verða ætlaðar til styrkveitinga til myndlistarverkefna og kynningar á íslenskri myndlist. Sem dæmi má nefna fjármagn sem ætlað er til Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og ýmis framlög mennta- og menningarmálaráðuneytisins á safnliðum, t.d. sérstakt 45 m.kr. framlag í fjárlagafrumvarpinu 2012 sem ætlað er til kynningarmála bókmennta og fleiri listgreina, þ.m.t. myndlistar.
    Lögfesting frumvarpsins ætti því ekki að hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, heldur munu þau ráðast af framlögum í fjárlögum hverju sinni.