Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 443. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 893  —  443. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um starfsstöðvar ríkisskattstjóra.


     1.      Hvaða breytingar hafa orðið á starfsmannafjölda hjá einstökum starfsstöðvum ríkisskattstjóra frá því að skattstofur vorur lagðar niður í ársbyrjun 2010?

    Skattstofur sem sjálfstæðar ríkisstofnanir voru lagðar niður með lögum 1. janúar 2010. Í eftirfarandi töflu eru upplýsingar um starfsmannafjölda í árslok 2009 annars vegar og árslok 2011 hins vegar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Embætti ríkisskattstjóra var veitt fjárveiting til sérstaks skatteftirlits árið 2010. Embættið réð í framhaldi sjö sérfræðinga til að sinna umræddum verkefnum. Hefði það ekki komið til væri mannaflinn 259 menn eða 19 stöðum færra en þegar sameiningin tók gildi.

     2.      Eru áform um að styrkja starfsemi starfsstöðvanna á landsbyggðinni með tilfærslu verkefna?
     Frá því að sjálfstæð embætti skattstjóra voru sameinuð ríkisskattstjóra hefur skattframkvæmd verið endurskipulögð. Í febrúar 2011 var skattstofunni í Reykjavík lokað og starfsemi hennar færð á aðrar starfsstöðvar ríkisskattstjóra, einkum á Laugaveg 166 og á Suðurgötu 14 Hafnarfirði, en ákveðnir þættir framkvæmdarinnar voru einnig sendir á aðrar starfsstöðvar. Í endurskipulagningu skattframkvæmdar hefur m.a. falist að tekin hefur verið upp aukin sérhæfing og verkefni flokkuð. Þannig hafa starfsstöðvar ýmist fengið aukin verkefni eða verkefnin verið færð annað. Samkvæmt eldra fyrirkomulagi sinntu allar skattstofur, nú starfsstöðvar RSK, öllum þáttum skattframkvæmdarinnar. Gallinn við það fyrirkomulag var umtalsverður skortur á samræmingu og því reyndist skattframkvæmd hafa verið mismunandi eftir því hvar framteljandi var búsettur. Með aukinni sérhæfingu hefur tekist að hraða afgreiðslu erinda. Eru allar kærur og erindi nú afgreidd með sambærilegum hætti hvar sem framteljandi er búsettur.
    Hlutverk starfsstöðva er talsvert mismunandi eftir verkefnum sem þeim hafa verið falin. Þannig vinna nú allir starfsmenn á Siglufirði, að einum undanskildum, við að þjónusta landsmenn í gegnum síma. Á Ísafirði hafa sjómannaframtöl verið afgreidd, á Hellu eru afgreidd landbúnaðarframtöl, á Egilsstöðum er umsjón og stjórnun með svokölluðum handreikningi, í Hafnarfirði er stjórnun með yfirferð atvinnurekstrarframtala, á Akureyri er stjórnað allri yfirferð einstaklingsframtala á landinu öllu, teknar ákvarðanir vegna ívilnana og umsjón með gagnaskilum. Þannig voru verkefni færð á milli starfsstöðva eftir því sem aukin sérhæfing gekk eftir.
    Ný skipan skattframkvæmdar hefur tekið mið af þeim starfsmönnum sem eru til staðar á hverjum stað. Af þeirri ástæðu er algjör sérhæfing starfsstöðva ekki raunhæfur kostur, ef komast á hjá flutningi mannafla milli starfsstöðva, heldur er mannaflinn á hverjum stað nýttur eftir sérþekkingu hvers og eins. Reiknað er með að starfsmönnum ríkisskattstjóra muni fækka um a.m.k. 10 á næstu árum. Stefnt er að því að ekki þurfi að grípa til uppsagna vegna þessa, heldur eigi fækkun starfa sér stað í tengslum við uppsagnir starfsmanna, eða þeir láti af störfum vegna aldurs. Fækkun starfsmanna er óhjákvæmileg vegna lækkunar fjárveitinga. Ekki eru áform uppi um að fækka starfsstöðvum, ef til slíks þarf að grípa, má ekki reikna með að starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu yrðu fyrst sameinaðar. Við fækkun starfsmanna mun verða horft til þess að starfsmönnum utan höfuðborgarsvæðisins fækki ekki hlutfallslega meira en á höfuðborgarsvæðinu.
    Verkefni verða flutt á milli starfsstöðva eftir því sem aðstæður kalla á slíkt og starfskraftar eru til staðar. Ekki er reiknað með teljandi nýráðningum nema í undantekningatilvikum.
    Almennt um verkefnaflutning er það að segja að leitast er við að flytja verkefni eftir því sem unnt er frá höfuðborgarsvæðinu og á starfsstöðvar út á landi. Stærsta breytingin þar var flutningur þjónustuvers til Siglufjarðar. Næstu verkefni sem flutt verða frá höfuðborgarsvæðinu eru almenn símsvörum á skiptiborði embættisins og umsjón með álagningu bifreiðagjalda.