Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 635. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1017  —  635. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um framkvæmdaátak í vegamálum á árunum 2012–2013.

Flm.: Jón Gunnarsson, Bjarni Benediktsson, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson,
Birgir Ármannsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Illugi Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til framkvæmdaátaks í vegamálum á árunum 2012–2013. 26,4 milljörðum kr. verði varið til verkefnisins árið 2012 og 29,5 milljörðum kr. árið 2013 sem viðbót við þau verkefni sem hafa verið ákveðin með fjárlögum 2012.
    Til að fjármagna verkefnið skulu gefin út ríkisskuldabréf sem verði greidd á árunum 2016–2026.

Greinargerð.


    Sambærileg tillaga var lögð fram á síðasta löggjafarþingi (sbr. þingskjal 1073, 618. mál). Með tillögu þessari er lagt til að fjárfest verði í innviðum samfélagsins, eins og lagt er til í þingsályktun (þingskjal 142, 142. mál) um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf, þannig að auknu fjármagni verði varið í vegaframkvæmdir á næstu árum. Samhliða framkvæmdaátaki því sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir að sérstakt átak verði gert til að auka umferðaröryggi á vegum landsins, svo sem með því að fækka einbreiðum brúm. Nú eru til að mynda um 42 einbreiðar brýr á hringveginum, 39 á Suðausturlandi og þrjár á Norðausturlandi. Nauðsynlegt er að setja aukinn kraft í vegaframkvæmdir en í tillögu þessari er átt við vegaframkvæmdir að jarðgangagerð undanskilinni. Eðlilegt er að samhliða þessu átaki hefjist framkvæmdir við jarðgangagerð eins og rætt hefur verið. Fjölmörg verk eru tilbúin til útboðs, mörg þeirra var búið að bjóða út árið 2008 en framkvæmdum var frestað og öðrum sem voru tilbúin til útboðs var slegið á frest. Rétt er að árétta að það eru einkafyrirtæki sem sjá um að vinna þau verk sem boðin eru út af Vegagerðinni. Verktakaiðnaðurinn varð fyrir verulegum skakkaföllum við hrun bankanna og því munu vegaframkvæmdir styðja mjög við þá iðngrein. Samdráttur í framkvæmdum hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir verktakafyrirtæki í jarðvinnu og leitt af sér gjaldþrot fyrirtækja og fjöldauppsagnir starfsfólks. Auk þess hefur Vegagerðin verulegar áhyggjur af því að þekking og reynsla í greininni muni líða mjög fyrir þann mikla samdrátt sem hefur orðið. Hið opinbera gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnustarfsemi, þó að það sé ekki hlutverk ríkisins að búa til störfin, þá eru innviðir samfélagsins eins og samgöngumannvirki á ábyrgð ríkisins. Eins og staðan er í þjóðfélaginu núna er kjörið tækifæri að ráðast í uppbyggingu á þessum innviðum, þekking og reynsla er til staðar, fjárfestingin ýtir þjóðfélaginu af stað og bættir innviðir leiða til aukinnar framleiðni hjá fyrirtækjunum og þar með til aukins hagvaxtar.
    Nú eru tilbúnar til útboðs fjölmargar framkvæmdir sem hægt yrði að ráðast í strax á næsta ári. Hér er lagt til að á árinu 2012 verði 26,4 milljörðum kr. varið til fjárfestinga í innviðum þjóðfélagsins og 29,5 milljörðum kr. árið 2013. Sérstaklega þarf að nýta átakið til vegaframkvæmda sem auðvelda aðgengi að vinsælum ferðamannastöðum. Verkefni sem hægt er að ráðast í með skömmum fyrirvara eru fjölbreytt og á mismunandi stöðum á landinu. Mörg verkefnanna eru brýn en við val þeirra og forgangsröðun á framkvæmdatímanum þarf að líta til eðlilegrar dreifingar milli landshluta. Eðlilegt er þegar teknar eru ákvarðanir um átaksverkefnið sem hér um ræðir að þau verkefni sem þegar eru á vegáætlun njóti forgangs í framkvæmdaröðun.
    Atvinnusköpun af átakinu yrði mikil og má í því sambandi nefna að samkvæmt áætlun Samtaka atvinnulífsins mundu skapast yfir 500 störf við útboð á verkefnum að verðmæti 6 milljarða kr. sem ríkisstjórnin talaði um að bjóða út á fyrri hluta þessa árs. Ljóst má því vera að með slíku átaki sem hér er lagt til að ráðist verði í muni skapast á annað þúsund störf á næstu árum. Nokkur umræða hefur verið um sérstaka fjármögnun vegna einstakra vegaframkvæmda með veggjöldum. Til að mynda er gert ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði í einkaframkvæmd. Flutningsmenn eru sammála um að ekki verði gengið lengra í skattaálögum til samgöngumála en nú er orðið. Hækkun eldsneytisgjalds er ofaukið við þær erfiðu aðstæður sem ríkja í samfélaginu. Umræða og vinna við framtíðarskipulag á innheimtu skatta vegna samgöngumála má ekki verða til þess að tefja þær mikilvægu framkvæmdir sem hér er fjallað um. Slík umræða krefst tíma og frekari rannsókna. Þróun í bílaflota landsmanna til umhverfisvænni og eyðsluminni farartækja kallar á slíka úttekt.