Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1054  —  206. mál.
Númer.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar



á skýrslu forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis árið 2010.


    Með skýrslunni er í fyrsta skipti gerð grein fyrir meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis samkvæmt nýju ákvæði 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp sem samþykkt var vorið 2011 og tók gildi 1. september 2011. Samkvæmt ákvæðinu ber forsætisráðherra í október á hverju ári að leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd ályktana sem þingið samþykkti á næstliðnu ári og kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar við þeim, nema lög kveði á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Einnig er kveðið á um að í skýrslunni skuli fjalla um meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstaks ráðherra. Loks er kveðið á um að skýrslan skuli ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar og að nefndin geti lagt álit sitt á henni fyrir þingið. Ef nefndin telur ástæðu til getur hún gert tillögur til þingsins um einstök atriði í skýrslunni.
    Nefndin hefur fjallað um skýrsluna og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneytinu.
    Skýrslan nær til ályktana Alþingis á árinu 2010 og er gerð grein fyrir framkvæmd ályktana innan hvers ráðuneytis.
    Fyrir nefndinni komu fram viðbótarupplýsingar sem varða þrjár þingsályktanir sem fjallað er um í skýrslunni, þ.e. um þá framvindu sem orðið hefur eftir að skýrslan var lögð fram.
    Í fyrsta lagi varðandi þingsályktun 23/138, um afgerandi lagalega sérstöðu Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi, frá 16. júní 2010, að fjárveiting hafi nú fengist til verkefnisins og sé áformað að setja á fót stýrihóp til að framfylgja þingsályktuninni.
    Í öðru lagi varðandi þingsályktun 8/138, um skýrslu sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs, frá 10. maí 2010, að ráðuneytið hafi tekið málið upp við fulltrúa Færeyja og Grænlands á fundi í lok nóvember 2011. Það verði rætt áfram á embættismannafundum á þessu ári og á ráðherrafundi sem er fyrirhugaður í vor.
    Í þriðja lagi varðandi þingsályktun 16/138, um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun, frá 8. júní 2010, að verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð hefði haldið ráðstefnu 10. febrúar þar sem kynnt var hugmyndafræði, framkvæmd og skipulag slíkrar þjónustu. Á ráðstefnunni var gerð grein fyrir stöðuúttekt á vinnu verkefnisstjórnarinnar og verklagi við fyrsta áfanga verkefnisins lýst. Verkefninu á að ljúka fyrir árslok 2014 með faglegu og fjárhagslegu mati á framkvæmd þess.
    Nefndin telur það mikilvæga breytingu á þingsköpum Alþingis að kveðið sé á um skyldu forsætisráðherra til að leggja fram skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem Alþingi hefur samþykkt. Það veiti framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald að forsætisráðherra geri Alþingi árlega grein fyrir framkvæmd þingsályktana sem Alþingi hefur beint til þess. Þá bendir nefndin á að þingmenn geta nýtt efni skýrslunnar til að beina fyrirspurnum til ráðherra um framkvæmd ályktananna.
    Nefndin telur skýrsluna greinargóða en að í henni þyrfti að koma fram yfirlit yfir framkvæmd ályktana þingsins t.d. þrjú ár aftur í tímann enda koma ályktanir ekki alltaf til framkvæmda strax, m.a. vegna kostnaðar við verkefnin. Í slíku yfirliti gæti komið fram hve framkvæmdin er langt komin, hvort hún er hafin, í vinnslu eða lokið. Nefndin beinir því til þingskapanefndar að huga að því við endurskoðun laga um þingsköp hvort rétt sé að leggja til slíkar breytingar á 8. mgr. 45. gr. þeirra.
    Nefndin telur einnig mikilvægt að á vef Alþingis verði skýrslan tengd þeim þingsályktunum sem fjallað er um í henni til þess að gera upplýsingarnar aðgengilegar.

Alþingi, 15. mars 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


formaður.


Róbert Marshall.


Lúðvík Geirsson.



Magnús M. Norðdahl.


Pétur H. Blöndal.


Birgir Ármannsson.



Margrét Tryggvadóttir.