Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 689. máls.

Þingskjal 1119  —  689. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum
(stofnstyrkir, frádráttarákvæði).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Lokamálsliður 1. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í 12. gr. laga nr. 78/2002 er fjallað um fjárhæð og útreikning styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna. Í lokamálslið 1. mgr. 12. gr. kemur fram að frá styrkfjárhæðinni skuli „dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða byggingar hennar“. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 78/2002 segir um þetta ákvæði að ef „veitan hefur notið annarra styrkja, svo sem vegna jarðhitaleitar, skulu þeir koma til frádráttar við úthlutun þessa styrks“.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að framangreindur lokamálsliður 1. mgr. 12. gr. laganna falli brott. Er sú tillaga í samræmi við tillögur í skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar en sá starfshópur skilaði skýrslu sinni til iðnaðarráðherra í desember 2011.
    Í skýrslu starfshópsins eru þau rök færð fyrir brottfalli ákvæðisins að jarðhitaleit og boranir kosti svipað hvort sem leitað er að heitu vatni fyrir þúsund manna eða hundrað manna byggð. Það sé verulega íþyngjandi fyrir smærri jarðhitaverkefni ef allur stofnstyrkur þurrkist út vegna þess opinbera fjármagns sem lagt var í jarðhitaleitina. Dæmi eru um að Alþingi veiti framlag til byggingar minni hitaveitna og ef það framlag kemur til frádráttar þeim styrk sem kveðið er á um í 12. gr. laga nr. 78/2002 getur það leitt til þess að forsendur fyrir byggingu hitaveitunnar bresta.
    Frá árinu 2003 hefur umræddu frádráttarákvæði 1. mgr. 12. gr. laganna verið beitt alls fimm sinnum og frádrátturinn samtals numið 26 millj. kr. Afnám ákvæðisins hefur því óveruleg áhrif á hagsmuni ríkissjóðs en skiptir minni hitaveitur og sveitarfélög hins vegar afar miklu máli. Er breytingin enn fremur liður í stefnumörkun ríkisins um aukna nýtingu jarðvarma á landsvísu.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Orkustofnun. Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á nýjar hitaveitur sem sækja um stofnstyrki á grundvelli laga nr. 78/2002. Orkustofnun hefur samkvæmt lögunum umsjón með afgreiðslu umsókna um styrki.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að núverandi fyrirkomulagi við útreikning styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna verði breytt á þá leið að annar beinn og óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins eða stofnana þess við viðkomandi hitaveitu verði ekki dreginn frá styrkfjárhæðinni eins og gert er samkvæmt gildandi lögum. Slíkir styrkir geta til að mynda hafa fengist vegna jarðhitaleitar sem getur verið stór hluti stofnkostnaðar við að koma á hitaveitu í fámennum byggðarlögum og getur þar með dregið verulega úr styrkfjárhæð til að stofna sjálfa hitaveituna hafi þeir verið greiddir. Á undanförnum áratug hefur fimm sinnum komið til þess að umræddu ákvæði hafi verið beitt við útreikning styrkja og hafa styrkir verið lækkaðir um samtals 26 m.kr. eða að jafnaði um 2–3 m.kr. á ári. Því er hér ekki um verulegar fjárhæðir að ræða þegar horft er til þess að á fjárlögum 2012 er fjárheimild til niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar rúmar 1.200 m.kr. Heildarfjárhæð styrkja á fjárlagalið til niðurgreiðslna á húshitun og vegna stofnunar nýrra hitaveitna ræðst af ákvörðun Alþingis í fjárlögum hverju sinni og því mun sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu fyrst og fremst hafa í för með sér að í einhverjum mæli verði sum árin meira ráðstafað til stofnstyrkja en minna til niðurgreiðslna en ella hefði verið.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það ætti að hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.