Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1298, 140. löggjafarþing 346. mál: Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað (lagasafn).
Lög nr. 38 24. maí 2012.

Lög um breyting á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, með síðari breytingum (lagasafn).


1. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
Lagasafn.
     Ráðherra sér um útgáfu lagasafns. Útgáfa lagasafns getur verið í rafrænu eða prentuðu formi. Ráðherra er heimilt að fela öðrum að sjá um útgáfu lagasafns. Komi fram misræmi milli texta í útgáfu lagasafns og þess texta sem birtur er í A-deild Stjórnartíðinda gildir texti Stjórnartíðinda, sbr. 2. gr.
     Með ábyrgð og umsjón á útgáfu lagasafns fer sérstök þriggja manna ritstjórn sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Skal einn tilnefndur af forseta Alþingis, en tvo skipar ráðherra án tilnefningar og skal annar þeirra vera ritstjóri og fullnægja skilyrðum til að gegna embætti héraðsdómara, að undanskildu skilyrði 4. mgr. 31. gr. laga um dómstóla.
     Ráðherra tekur ákvörðun um útgáfu lagasafns í prentuðu formi, að fenginni tillögu ritstjórnar.
     Heimilt er að selja prentuð eintök af lagasafni gegn gjaldi sem nemur kostnaði við vinnu, undirbúning og umsjón með útgáfu þess, prentun og sölu. Skal gjaldið renna til greiðslu kostnaðar af prentuðu útgáfunni.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi lög um laganefnd, nr. 48/1929.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ritstjórn lagasafnsins sem skipuð var 16. mars 2011 heldur áfram störfum þar til ný ritstjórn hefur verið skipuð samkvæmt lögum þessum.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2012.