Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1561  —  387. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum (heimildir Matvælastofnunar, kærufrestur, EES-reglur).


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin fjallaði áfram um málið eftir að 2. umræða fór fram.
    Nefndin afgreiddi málið til 2. umræðu með tillögu til breytingar sem m.a. fól í sér rýmkun heimildar Matvælastofnunar til aðgangs að upplýsingum sem tollyfirvöld geyma. Í sama mund komu upp áhyggjur af því meðal nefndarmanna að efni breytingartillögu nefndarinnar færi að einhverju leyti í bága við sjónarmið sem komið höfðu fram í umsögn Persónuverndar um málið. Af þeim sökum óskaði framsögumaður málsins þess í þingræðu við 2. umræðu að málinu yrði vísað til nefndarinnar á nýjan leik að umræðunni lokinni.
    Í téðri umsögn Persónuverndar kemur fram að skoðun stofnunarinnar á frumvarpinu hafi leitt í ljós að vinnsla upplýsinga samkvæmt því gæti stuðst við tiltekin ákvæði persónuverndarlaga að því gefnu að miðlun upplýsinga frá tollyfirvöldum til Matvælastofnunar yrði afmörkuð við tiltekna flokka upplýsinga.
    Um leið og framangreindar áhyggjur komu upp leitaði framsögumaður málsins til Persónuverndar og óskaði álits hennar á breytingartillögum nefndarinnar en vegna mikilla anna hjá stofnuninni hafði hún ekki tök á að bregðast við fyrir lok 2. umræðu. Að morgni 14. júní sl. barst nefndinni ný umsögn um þingmálið og þegar samþykktar breytingar á því. Í umsögninni kemur fram að Persónuvernd telji breytingarnar ekki koma til móts við ábendingar sem stofnunin setti fram í fyrri umsögn sinni heldur virðist ætlunin þvert á móti vera að rýmka aðgang Matvælastofnunar að gögnum tollstjóra. Þá ítrekar stofnunin efni fyrri umsagnar sinnar og leggur áherslu á að aðgangur Matvælastofnunar að persónugreinanlegum upplýsingum verði afmarkaður með þeim hætti að samrýmist grundvallarreglum um meðalhóf sem m.a. koma fram í 7. gr. persónuverndarlaga.
    Álit nefndarinnar er að fara verði fram af varfærni þegar löggjöf kann að fela í sér skerðingu á þeim réttindum borgaranna sem njóta verndar VII. kafla stjórnarskrár. Í ljósi þess leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Efnismálsgrein 1. gr. orðist svo:
    Matvælastofnun er heimill rafrænn aðgangur að farmskrárupplýsingum úr upplýsingakerfum tollyfirvalda vegna eftirlits með þeim vörum sem 27. gr. a og 27. gr. b ná til. Matvælastofnun og starfsmenn hennar skulu meðhöndla upplýsingar, sem veittar eru samkvæmt þessari grein, sem trúnaðarupplýsingar og í samræmi við lög um persónuvernd. Stofnunin og starfsmennirnir bera jafnframt sömu þagnarskyldu og starfsmenn tollstjóra samkvæmt ákvæðum tollalaga.

    Kristján L. Möller, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. júní 2012.



Sigmundur Ernir Rúnarsson,


2. varaform.


Ólína Þorvarðardóttir.


Björn Valur Gíslason.



Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Jón Gunnarsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.