Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 225. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1632  —  225. mál.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd,
nr. 44/1999, með síðari breytingum.


Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á fund sinn Magnús Guðmundsson frá Landmælingum Íslands. Auk þess ræddi nefndin við Elías Blöndal frá Bændasamtökum Íslands.
    Í tengslum við samkomulag sem var gert á milli þingflokka vegna afgreiðslu þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga (þskj. 1407) leggur meiri hlutinn til að felld verði brott ákvæði frumvarpsins um greiningu vegslóða og um kortagrunn um vegi og vegslóða utan miðhálendislínu. Miðhálendislína miðast við mörk hálendisins eins og þau voru skilgreind í svæðisskipulagi miðhálendisins árið 1999.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á 2. mgr. 2. gr. sem fjallar um undanþágur frá meginreglunni um bann við akstri utan vega. Meiri hlutinn leggur til að festa í lög ákvæði um þetta samsvarandi þeim sem nú eru í 5. gr. reglugerðar nr. 525/2005, um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á 4. mgr. 2. gr. en þar er kveðið á um skyldu ráðherra til að kveða á um gerð kortagrunns í reglugerð. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi samráðs við gerð kortagrunns og leggur til breytingar þar að lútandi en sambærileg ákvæði er að finna í 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, um gerð aðalskipulags. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að tillaga að kortagrunni skuli auglýst og öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir innan ákveðins frests sem skuli ekki vera skemmri en átta vikur frá birtingu auglýsingar. Með þessum breytingum er málsmeðferð við gerð kortagrunns eins og gildir um gerð landsskipulagsstefnu, sbr. 6. mgr. 11. gr. skipulagslaga.
    Þá leggur meiri hlutinn til að felld verði brott ákvæði frumvarpsins um breytingar á 37. gr. laganna um sérstaka vernd tiltekinna jarðmyndana og vistkerfa.
    Vinna stendur yfir við heildarendurskoðun náttúruverndarlaga og hefur umhverfisráðherra í hyggju að leggja fram frumvarp þess efnis í byrjun næsta löggjafarþings.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Fyrirvari Álfheiðar Ingadóttur lýtur að því að 3. gr. frumvarpsins er felld brott.
    Árni Johnsen og Róbert Marshall voru fjarverandi afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. júní 2012.



Þuríður Backman,


1. varaform.


Mörður Árnason,


frsm.

Atli Gíslason.



Álfheiður Ingadóttir,


með fyrirvara.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.