Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 842. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1689  —  842. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar um
auglýsingar um störf.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu mörg störf hafa verið auglýst „án staðsetningar“ hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess frá 1. júní 2009 til 1. júní 2012? Hversu mörg störf hafa verið auglýst á sama tímabili hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess?

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið.
    Engin störf hafa verið auglýst „án staðsetningar“ hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu á því tímabili sem um ræðir.
    Alls hafa 15 störf verið auglýst á þessu tímabili, þar af þrjú vegna átaks Vinnumálastofnunar um sumarstörf fyrir námsmenn.

Einkaleyfastofan.
    Engin störf hafa verið auglýst „án staðsetningar“ hjá Einkaleyfastofunni frá 1. júní 2009 til 1. júní 2012.
    Alls hafa átta störf verið auglýst til umsóknar hjá stofnuninni á sama tímabili, þar af fjögur vegna átaks Vinnumálastofnunar um sumarstörf fyrir námsmenn.
                             
Fjármálaeftirlitið.
    Engin störf eru skilgreind „án staðsetningar“ hjá Fjármáleftirlitinu á því tímabili sem um ræðir.
    Fjármálaeftirlitið auglýsir öll laus störf í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Í svari við seinni hluta fyrirspurnarinnar er miðað við fjölda ráðninga í laus störf.
    Auglýsing lausra starfa tekur mið af því starfshlutverki sem um ræðir. Tíðkast hefur að birt sé ein auglýsing þó laus séu tvö eða fleiri störf svo lengi sem um sama starfshlutverk er að ræða (t.d. stöðu sérfræðings í fjárhagslegu eftirliti).

    Tafla 1: Yfirlit yfir ráðningar í laus störf hjá Fjármálaeftirlitinu frá 1. júní 2009 til 1. júní 2012.     
Ár Fjöldi ráðninga á tímabili
                             Frá 1.6.2009 10

2010

37
              2011     23
                   Til 1.6.2012 14
         Í töflu 1 má sjá yfirlit yfir ráðningar í laus störf frá júní 2009 til júní 2012. Á bak við hverja ráðningu getur hafa verið auglýst í tvígang (t.d. ef enginn hæfur umsækjandi sótti um í fyrsta sinn þegar auglýst var). Einnig er mögulegt, eins og fyrr er getið, að fleiri en einn hafi verið ráðinn fyrir hvert auglýst starf.



Hagstofa Íslands.
    Alls hafa 33 störf verið auglýst til umsóknar hjá stofnuninni á þessu tímabili og ekkert þeirra hefur verið auglýst „án staðsetningar“ .

Samkeppniseftirlitið.
    Á tímabilinu 1. júní 2009 til 1. júní 2012 auglýsti Samkeppniseftirlitið tíu störf laus til umsóknar, þar af tvö sumarstörf og eitt tímabundið starf. Ekkert þessara starfa var „án staðsetningar“.

Seðlabankinn.
    Á tímabilinu 1. júní 2009 til 1. júní 2012 hefur Seðlabanki Íslands auglýst 52 störf laus til umsóknar. Ekkert þeirra hefur verið auglýst „án staðsetningar“ (fjarvinnslustörf).