Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 787. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1709  —  787. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um húsnæðismál námsmanna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er staðan í húsnæðismálum námsmanna?

    Upplýsingum varðandi húsnæðismál námsmanna er ekki safnað kerfisbundið og leitaði velferðarráðuneytið því til þeirra aðila sem reka og leigja námsmannaíbúðir á háskólastigi í þeim tilgangi að svara fyrirspurn þessari. Þessir aðilar eru Félagsstofnun stúdenta, Byggingarfélag námsmanna, Keilir, Félagsstofnun stúdenta á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Bifröst. Misjafnt er hvernig staðið er að skráningu og vinnslu þessara gagna aðila á milli. Niðurstöðurnar gefa til kynna að í heildina séu ríflega 2.500 íbúðir til leigu á vegum þessara aðila fyrir námsmenn á landinu öllu en þá eru ekki taldir með framhalds- og sérskólar sem bjóða heimavist. Leigueiningarnar eru af öllum stærðum og gerðum og því er erfitt að ákvarða nákvæmlega hversu marga þær hýsa en áætlað er að 815 leigueiningar Félagsstofnunar stúdenta hýsi um 1.500 manns með börnum og mökum meðtöldum.
    Enn fremur eru 299 íbúðir í byggingu á vegum Félagsstofnunar stúdenta og er áætlað að þær verði teknar í notkun árið 2013. Jafnframt áætlar Félagsstofnun stúdenta að byggja 100 íbúðir til viðbótar en það verkefni er í deiliskipulagsferli hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjavík. Aðrir aðilar en Félagsstofnun stúdenta eru ekki í byggingarframkvæmdum sem stendur. Biðlistar eru eftir húsnæði hjá öllum þeim aðilum sem leitað var til að tveimur undanskildum. Sammerkt er að mest er eftirspurnin eftir litlum íbúðum og einstaklingsíbúðum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvar þeir sem eru á biðlista dvelja meðan þeir eru á biðlistum framangreindra aðila. Að framansögðu virðist vera talsverð eftirspurn eftir húsnæði fyrir námsmenn á landinu öllu, þó hún sé sýnu mest í Reykjavík. Sem dæmi barst Félagsstofnun stúdenta um 1.800 umsóknir um húsnæði í sumar 2012 en á biðlista 4. september 2012 voru 889 umsóknir. Sú uppbygging sem nú stendur yfir og er fyrirhuguð á vegum Félagsstofnunar stúdenta mun að öllum líkindum stytta biðlista en ekki er gert ráð fyrir að þeir heyri sögunni til.
    Vonir standa til að sú vinna sem hefur farið fram á vegum velferðarráðherra í samræmi við tillögur samráðshóps um húsnæðisstefnu frá vori 2011 eigi eftir að koma námsmönnum til góða sem og öðrum landsmönnum. Þar ber fyrst að nefna nýtt húsnæðisbótakerfi sem vinnuhópur um húsnæðisbætur lagði til á vormánuðum 2012 en þar er gert ráð fyrir jöfnum stuðningi vegna húsnæðiskostnaðar án tillits til þess hvort fólk býr í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði. Enn fremur liggja fyrir áform um að styrkja leigumarkaðinn en verið er að skoða rekstrar- og skattaumhverfi húsnæðisfélaga í því skyni. Með jafnræði í stuðningi á húsnæðismarkaði, bættu rekstrarumhverfi leigufélaga og stórbættri upplýsingagjöf á húsnæðismarkaði er það von ráðherra að á Íslandi geti í framtíðinni þrifist blómlegur leigumarkaður sem námsmenn ættu að geta notið betur með nýjum húsnæðisbótum.