Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 12. september 2012, kl. 20:26:10 (0)


141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:26]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Forseti. Ágætu bræður og systur á Alþingi og góðir áheyrendur. Hugur okkar flestra er hjá bændum norðan lands þessa stundina, björgunarsveitarmönnum, línuviðgerðarmönnum og öðrum þeim sem nú glíma við afleiðingar óveðursins mikla sem skall á landinu upp úr helginni. Við stöndum enn og aftur í mikilli þakkarskuld við allt það góða fólk sem skyldan kallar til verka við svona aðstæður, ekki síst þann mikla fjölda sem vinnur ómetanlegt starf í sjálfboðavinnu. Stjórnvöld munu að sjálfsögðu gera það sem í þeirra valdi stendur til að auðvelda úrvinnslu þessara atburða, þar með talið að bæta tjón í gegnum Bjargráðasjóð og eftir atvikum taka á öðrum þeim málum sem að stjórnvöldum snúa. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur í gær og í dag verið í sambandi við aðila á svæðinu, aflað upplýsinga og undirbúið öll möguleg viðbrögð.

Fram að þessum hausthvelli sem á okkur skall var sumarið í raun og veru búið að vera okkur Íslendingum hagfellt á flestan hátt eins og ég reyndar vonaðist til og óskaði okkur við eldhúsdagsumræður hér á þingi úr þessum ræðustól síðastliðið vor. Sólríkt og hlýtt sumar yljaði og jafnvel einum um of í þeim skilningi að þurrkar hömluðu víða grasvexti og komu niður á heyfeng. Gæftir til sjávarins voru að sama skapi með ágætum enda gengu makrílveiðar og annar veiðiskapur vel. Strandveiðar hleyptu lífi í þorpin við sjávarsíðuna og erlendir ferðamenn streymdu til landsins í meira mæli en nokkru sinni. Atvinnuástand batnaði jafnt og þétt frá vormánuðum og gegnum sumarið á alla mælikvarða sem til eru til að mæla það og bjartsýni landsmanna hefur vaxið nú hvern mánuðinn fram af öðrum ef marka má mælingar þar á. Allt hefur þetta leitt til þess að bölmóðs- og niðurrifssöngurinn er enn þá meira hjáróma en áður miðað við almenna upplifun.

Nú er þessu góða sumri að vísu lokið með harkalegum hvelli en þannig er nú einu sinni blessað landið okkar og því fær enginn mannlegur máttur breytt. Um aðra hluti en um veðrið og náttúruöflin höfum við oftast meira að segja. Það á til dæmis við um glímu okkar Íslendinga við það efnahagslega fárviðri af mannavöldum sem hér skall á haustið 2008. Nú rétt tæpum fjórum árum eftir hrun hefur okkur óumdeilanlega tekist að endurheimta tapað efnahagslegt sjálfstæði. Við stöndum á eigin fótum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem Sjálfstæðisflokkurinn bað um hjálp, væntanlega ekki að ástæðulausu, er farinn fyrir ári síðan. Ísland hefur aðgang aftur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Landið sem var að sökkva og komast í greiðsluþrot að mati umheimsins haustið 2008 nýtur nú virðingar og fær athygli út á þann árangur sem hér hefur náðst. Því verða menn að kyngja hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Það hefur að sönnu ekki tekist án fórna og mikið hefur reynt á þanþolið, til hins ýtrasta á stundum. Staðreyndin er þó að margt af því sem hér hefur tekist, svo sem að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs og koma hagvexti af stað, hefur gengið miklum mun brösulegar í öðrum ríkjum þar sem efnahagserfiðleikar, þótt minni séu en hér, hafa barið að dyrum. Það viðurkenndi formaður Sjálfstæðisflokksins í samanburðarkafla ræðu sinnar áðan. Úr því að ríkisstjórn Íslands er samt ómöguleg, eru þá ríkisstjórnir nánast allra annarra Evrópuríkja enn þá verri og Bandaríkjanna líka? Þær hljóta að vera hörmulega lélegar ef við föllum á prófinu.

Hagstofan spáir nú 2,8% hagvexti á yfirstandandi ári, tölur fyrir fyrri hluta ársins liggja fyrir og gefa góðar líkur á að þær spár gangi eftir á árinu 2013 og áfram er spáð 2,5–3% hagvexti. Ef þessar hagvaxtartölur og hagvaxtarspár ættu að fá einhverju ráðið um viðhorf manna til ríkisstjórna í Evrópu og víðar þyrftum við ekki að kvíða því. Ef þetta er svona auðvelt, minn góði vinur, Bjarni Benediktsson, og jafnvel meira, að það sé bara aumingjaskapur að hagvöxturinn sé ekki 5% eða 7%, eins og þið sumir sjálfskipaðir kraftaverkamenn í þjóðmálaumræðunni teljið, af hverju drýpur þá til dæmis ekki smjör af hverju strái í Stóra Bretlandi íhaldsins þar sem þú hefur verið í læri, hv. þm. Bjarni Benediktsson? Þar eru íhaldsúrræðin prufukeyrð þessa mánuðina og þar hefur verið samdráttur í hagkerfinu þrjá ársfjórðunga í röð — ekki bara lítill hagvöxtur, samdráttur. Og þar eru ykkar menn, góðir sjálfstæðismenn, við völd.

Veruleikinn er auðvitað sá, og það er tímabært að fara að viðurkenna það að unnist hefur á flestan hátt ótrúlega vel úr hinum grafalvarlega vanda Íslands. Það er ekki sagt til þess að einn frekar en annar berji sér á brjóst. Það er sagt til þess að halda því til haga að við sem þjóð sjáum nú ávöxt af baráttu okkar og fórnum, líkt og ágætur hagfræðingur við Kólumbíuháskóla benti á í blaðagrein um endurreisnina nú á dögunum. Þá er nú ekki farið fram á mikið að menn njóti sannmælis.

Einn mesti skuggi sem nú fellur á annars ágætar framtíðarhorfur Íslands eru efnahagserfiðleikar umheimsins og hættan á að þeir smiti í auknum mæli til okkar gegnum versnandi viðskiptakjör og minnkandi kjark til fjárfestinga. Evrópa, einkum evruríkin, á í mjög alvarlegum erfiðleikum og það skiptir Ísland miklu máli hvernig úr vinnst. Það er mikilvægt að jafnt umræða um vanda Evrópu sem og sú umræða sem við Vinstri græn teljum nú brýnt að fari fram um stöðu mála hvað varðar viðræður okkar við Evrópusambandið verði á málefnalegum og uppbyggilegum nótum. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að við stöndum ekki fast á rétti okkar gagnvart Evrópusambandinu sem öðrum, til dæmis þegar ríkir fiskveiðihagsmunir eiga í hlut. Það má Evrópuþingið eins og aðrir vita.

Eitt mikilvægasta verkefni okkar nú er auðvitað að stuðla að aukinni fjárfestingu, því að það er rétt að heildarfjárfestingarstigið er enn þá lágt í sögulegu samhengi. Við skulum heldur ekki deila um það því að það sýna mælingar. En að mínu mati var það fullkomlega eðlilegt og óumflýjanlegt, það gat ekki farið öðruvísi en að fjárfestingarstigið á Íslandi færi langt niður. Skýringuna er að finna í hruni fjármálakerfisins og mannvirkjageirans, í lítilli íbúðafjárfestingu og takmarkaðri opinberri fjárfestingu. Eins og við var að búast stöðvaðist íbúðafjárfesting nánast eftir hrun enda hafði þar verið ofþensla og óeðlilega mikið byggt mörg ár í röð. Íbúðafjárfesting er enn lítil en er þó farin að aukast á ný og það er aðeins spurning um tíma hvenær aukinn kraftur færist í byggingastarfsemi. Fjárfesting hins opinbera minnkaði einnig mikið eftir hrunið enda gaf staða ríkissjóðs og velflestra sveitarfélaga enga möguleika á öðru, það var óumflýjanleg ráðstöfun að draga úr fjárfestingum hins opinbera strax eftir hrun, en nú hefur halli á rekstri ríkisins og sveitarfélaga sem betur fer minnkað og staðan lagast verulega.

Fjárfestingarnar eru á uppleið. Þegar meðaltal atvinnuvegafjárfestingar frá árinu 1990 er skoðað kemur í ljós að það var 12,2% af landsframleiðslu frá árinu 1990 til og með árinu 2012 samkvæmt áætlun. Samkvæmt spá Hagstofunnar verður atvinnuvegafjárfesting tæplega 11% af landsframleiðslu á þessu ári. Atvinnuvegafjárfestingin hefur sem sagt tekið hressilega við sér og er nú komin nálægt meðaltalinu frá 1990. Hún er komin yfir það sem hún var tímabilið 1990–1995. Hverjir voru þá við völd? Hún er meiri núna en hún var árið 2002. Og hverjir voru þá við völd? Þetta eru nú staðreyndirnar.

Ég gleðst yfir því að nýverið tók til starfa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Ég tel að með því hafi stjórnvöld og atvinnulífið eignast mjög öflugt tæki til stefnumótunar, framþróunar og nýsköpunar og með þessu eru allir atvinnuvegir landsins komnir undir eitt ráðuneyti á nýjan leik sem er að mínu viti rétt skipan. Auðvitað verða hinar hefðbundnu atvinnugreinar, sjávarútvegur, landbúnaður og almennur iðnaður, áfram burðugar í hinu nýja ráðuneyti en nú fá ferðaþjónusta, mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs um árabil, verslun, fjármálaþjónusta og skapandi greinar einnig sinn sess við hlið hinna og verða jafnsettar.

Ríkisstjórnin hefur gert mikið átak í menntunarmálum og í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin hefur mikið átak verið gert í því að tryggja nemum pláss í framhaldsskólum og atvinnuleitendum möguleika til að nýta tíma sinn til náms. Lánskjör námsmanna hafa verið bætt verulega þrátt fyrir erfiðar efnahagsaðstæður og þannig mætti áfram telja.

Komandi þings bíða krefjandi verkefni, þar á meðal að útkljá áratuga deilumál um vernd, nýtingu og eignarhald auðlinda á Íslandi. Annars vegar eru það deilur um stjórn fiskveiða og eignarhald á sjávarauðlindinni, hins vegar eru það deilur um vernd og nýtingu vatnsfalla og jarðvarma. Bjarminn af nýrri stjórnarskrá, heildstæðri stjórnarskrá fyrir lýðveldið, er einnig í sjónmáli.

Góðir áheyrendur. Komandi vetur, kosningavetur fer í hönd. Hann á að mínu mati að geta farið friðsamlega fram, enda er bjart fram undan að uppistöðu til í íslensku samfélagi eftir mjög erfið ár sem nú eru að baki. Það ætti því ekki að þurfa að vera erfitt fyrir okkur að vera á sæmilega uppbyggilegum nótum. Það legg ég að minnsta kosti til að núverandi stjórnarflokkar geri og bendi á þau fjölmörgu tækifæri og miklu möguleika sem við erum nú komin í aðstöðu til og höfum lagt grunninn að að hægt sé að virkja okkur til hagsbóta. Að loknum þessum kosningum væri svo auðvitað óskapleg gæfa ef við sameinuðumst um að umhverfisverndarsinnuð og félagslega þenkjandi umbótaöfl leiddu landið áfram. Ég tel að aðrir stjórnmálaflokkar og framboð í landinu eigi að sameinast um að bjóða Sjálfstæðisflokknum upp á að minnsta kosti fjögur ár í viðbót til endurhæfingar og sjálfskoðunar sem enn virðist, vel að merkja, ekki hafa farið fram. Á þeim tíma mæli ég með því að við verðum góð við Sjálfstæðisflokkinn, við verðum umburðarlynd og skilningsrík og við veitum Sjálfstæðisflokknum skjól til að reyna að finna fjölina sína. Kannski verður hann þá aftur einhvern tíma stjórntækur, sæmilega víðsýnn flokkur með svolitlu félagslegu eða húmanísku ívafi, eins og hann var stundum, og hugsanlega verður hann einhvern tíma aftur fær um að bera ábyrgð á efnahagsmálum án þess að stofna okkur í stórhættu. Hróp að okkur sem tókum við þrotabúinu og digurmæli eru engin manndómsprufa.

Ég vona, góðir landsmenn, að veturinn verði okkur ekki of strembinn þó að hann byrji bratt. Megi vonanna birta áfram umlykja Ísland þó að skammdegið fari í hönd og það liggi illa á Sjálfstæðisflokknum. — Góðar stundir.