Fjárlög 2013

Fimmtudaginn 13. september 2012, kl. 14:26:56 (0)


141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:26]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár, 2013. Stóru tíðindin í ríkisfjármálum á þessu kjörtímabili eru auðvitað þau að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er að takast að vinna niður hinn tröllaukna fjárlagahalla upp á 216 milljarða sem var sá heimanmundur sem þessi ríkisstjórn fékk í veganesti úr hruninu ef við getum notað það fallega orð um þann ógeðsdrykk sem núverandi ríkisstjórn fékk á hveitibrauðsdögum sínum.

Viðsnúningurinn er gríðarlegur. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að fjárlagahallinn verði 2,8 milljarðar á næsta ári, þ.e. 0,1% af vergri landsframleiðslu samanborið við 8% árið 2009.

Vissulega þurfum við að hafa áhyggjur af skuldastöðunni. Skuldirnar eru allt of miklar út af fjárlagahallanum sem hrunið færði okkur og þess vegna verðum við að tryggja að með áframhaldandi bata í efnahagskerfinu verði skýrt forgangsmál að greiða niður skuldir. Það er einmitt ein af meginforsendum fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar að 2/3 af tekjum ríkissjóðs vegna veiðigjalda og arðgreiðslna eða sölu eigna úr bankakerfinu renni í ríkissjóð til að ná jöfnuði og greiða niður skuldir en 1/3 fari til fjárfestingarverkefna.

Annað áhyggjuefni er staða Íbúðalánasjóðs sem er alvarleg og kallar á sérstakar aðgerðir og jafnvel heildarendurskoðun á hlutverki hans og lánastefnu. Það er sérstakt fagnaðarefni í þessu frumvarpi að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hyggst nota aukið svigrúm í þágu ungs barnafólks og fjölskyldna í greiðsluvanda vegna bankahrunsins í formi barnabóta, aukinna greiðslna til fæðingarorlofs og húsnæðis- og vaxtabóta.

Ég vil einkum nota minn stutta tíma í þessari umræðu til að fjalla um fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á gistingu. Á því máli eru tvær hliðar. Í fyrsta lagi er mjög eðlilegt og í fullu samræmi við atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar að atvinnugreinar í samfélaginu sitji við sama borð þegar kemur að skattlagningu. Gistiþjónustan hefur í reynd verið á undanþágu með því að vera í lægra skattþrepi og þegar hagur vænkast í ferðaþjónustunni eins og óumdeilanlega hefur verið að gerast undanfarin ár, og greinin er orðin þriðja stærsta stoðin í atvinnulífi okkar, er eðlilegt að afnema þessa undanþágu.

Hin hliðin á málinu er, og það hefur verið gagnrýnt, að ákvörðunin eigi að koma til framkvæmda strax næsta vor sem komi illa niður á þessari grein vegna þess að bókanir, sérstaklega stærri aðila, bókanir á ráðstefnur og fleira, eru gerðar með löngum fyrirvara og búið að semja um allt verð. Þetta eru að mínu viti veigamikil rök sem eðlilegt er að taka tillit til við efnismeðferð fjárlaganna í þinginu og ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra hefur þegar lýst því yfir að það verði skoðað sérstaklega í ráðuneytinu. Ég tel að það sé sanngirniskrafa að aðlögunartími greinarinnar á þessum breytingum verði lengdur.

Meginspurningin er hins vegar: Er líklegt að þessi tiltekt í virðisaukaskattskerfinu muni skaða ferðaþjónustuna til lengri tíma? Það tel ég að hafi ekki verið sýnt fram á með sannfærandi rökum. Þvert á móti er margt sem bendir til að áhrifin hafi mjög verið ýkt í opinberri umræðu. Hér er rétt að hafa í huga að gistikostnaður er einungis um 11% af heildarkostnaði erlendra ferðamanna sem hingað koma og hækkunin er talin munu auka heildarútgjöld þeirra um innan við 2%. Það geta varla talist drápsklyfjar, virðulegi forseti.

Því hefur verið haldið fram að hækkun virðisaukaskattsins á gistiþjónustu muni leiða til fækkunar ferðamanna en við nákvæma skoðun á þeim athugunum sem bæði KPMG og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafa gert má álykta að ferðamönnum muni áfram fjölga á næsta ári þrátt fyrir fjölgun virðisaukaskattsins og að sú fjölgun verði reyndar í takt við langtímafjölgun ferðamanna, þ.e. verði líklega á bilinu 7–10% á ári í stað 15% sem við höfum upplifað undanfarin missiri. Það er býsna myndarleg aukning, þrátt fyrir allt. En stóra ógnin við afkomu ferðaþjónustunnar í landinu er ekki þessi tiltekna breyting á virðisaukaskatti heldur svarta atvinnustarfsemin, sem er verulegt og vaxandi vandamál í greininni, eins og fram kom í athugun ríkisskattstjóra í sumar. Það er auðvitað óþolandi fyrir heiðarlega aðila í ferðaþjónustu úti um allt land, og auðvitað samfélagið allt, að sumir borgi skatta sína og skyldur á sama tíma og samkeppnisaðilar í neðanjarðarbisness komist upp með að standa ekki skil á neinum sköttum og geti þar með undirboðið samkeppnisaðilana eða jafnvel rutt þeim út af markaðnum. Hér þurfa stjórnvöld og aðilar í ferðaþjónustu að bindast samtökum um að uppræta neðanjarðarhagkerfið í ferðaþjónustunni og það á að haldast í hendur við fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti.

Mín niðurstaða er að þetta fjárlagafrumvarp staðfesti góðan árangur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Hún hefur náð miklum árangri í að ná niður risavöxnum fjárlagahalla og svigrúm er að skapast til að styrkja velferðarþjónustuna sem sést best á auknum stuðningi við ungt barnafólk. En við þurfum sannarlega að hafa áfram aga í ríkisfjármálunum, einbeita okkur að því að greiða niður skuldir og nýta síðan aukið svigrúm, ef og þegar það skapast, (Forseti hringir.) í skynsamlegar fjárfestingar í fjölbreyttu atvinnulífi þar sem vaxtarsprotar eins og grænt hagkerfi, skapandi greinar og uppbygging ferðamannastaða og friðlýstra svæða (Forseti hringir.) verði í forgangi.