Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. september 2012, kl. 15:59:20 (0)


141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[15:59]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um hvernig við breytum mögulega stjórnarskrá lýðveldisins. Fyrsti flutningsmaður málsins er sá hv. þingmaður sem talaði á undan mér, Pétur H. Blöndal, en ég er einn af meðflutningsmönnum þess.

Málið snýr að því að við breytum lögum þannig að greiði 40 þingmenn á Alþingi atkvæði um tiltekna tillögu stjórnarskrárinnar skuli bera þá breytingartillögu undir atkvæði þjóðarinnar innan þriggja mánaða. Og samþykki meira en helmingur þjóðarinnar þá tillögu sem meira en 40 þingmenn samþykkja hér þá breytist stjórnarskráin. Þannig þarf ekki að rjúfa þing. Ég og hv. þingmaður höfum gagnrýnt það fyrirkomulag sem nú er, þ.e. að síðasta verk Alþingis áður en boðað er til kosninga þegar stjórnarskránni hefur verið breytt sé að leggja fram ákveðnar breytingar á stjórnarskránni og síðan sé kosið — það er ekki bara kosið um stjórnarskrána heldur einnig um atvinnumál, um utanríkismál og efnahagsmál og fólk, og fleira mætti nefna — því að hættan sé sú að þær breytingar sem Alþingi gerði á stjórnarskránni í aðdraganda þessara kosninga muni falla milli skips og byggju, að þær verði ekki aðalatriðið í kosningunni.

Þess vegna finnst mér það afar áhugaverð tillaga — ég styð hana og ég sé að þingmenn fleiri flokka gera það — að leggja til þessa breytingu, þ.e. ef 40 þingmenn leggja til ákveðna breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins skuli bera það undir þjóðina í beinni atkvæðagreiðslu innan þriggja mánaða. Þá er einmitt verið að greiða atkvæði um þá breytingu á stjórnarskránni. Ég hélt þegar ég sá að málið yrði á dagskrá að hér yrði þéttskipaður salur vegna umræðu um breytingar á því grundvallarplaggi sem stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er og þess að fram undan er þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána og tilteknar breytingar á henni. Þó að ýmislegt sé óljóst í því hélt ég að áhugamenn um stjórnarskrána og mögulegar breytingar á henni mundu láta sjá sig við þessa umræðu.

Staðreyndin er sú að framsögumaður málsins er búinn að flytja ágæta yfirlitsræðu yfir frumvarpið. Ég er annar á mælendaskrá og svo hv. þm. Margrét Tryggvadóttir. Ég hefði haldið að þingmenn allra flokka ættu að koma og sýna málinu þá virðingu að ræða það efnislega vegna þess að þetta er grundvallarumræða um það hvernig við viljum haga málefnum stjórnarskrárinnar til lengri tíma litið.

Ég er hingað kominn til að lýsa yfir ánægju minni með málið og með að það skuli hafa komið svo snemma fram sem raun ber vitni. Ég tel mjög brýnt að við breytum lagasetningunni á þann veg sem hér hefur verið nefnt. Það er í raun og veru mjög erfitt að finna röksemd að mínu viti gegn þessari tillögu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur mælt fyrir. Ef ákveðinn hluti þingmanna sammælist um breytingar á stjórnarskránni fær hver einasti kjósandi í landinu að greiða atkvæði um hvort hann sé samþykkur eða andvígur þeirri breytingartillögu. Og ef við berum hlýjar tilfinningar til þess grundvallarrits sem stjórnarskráin er hlýtur þetta að vera sú aðferðafræði sem mér finnst almennt vera kallað eftir í dag, að fólk fái meiri aðkomu að því að móta stjórnarskrána. Þess vegna finnst mér með ólíkindum, í ljósi þess að mjög margir flutningsmenn standa að þessu ágæta frumvarpi, að enginn vinstri grænn eða samfylkingarmaður skuli hafa viljað standa að því. Það væri gaman að fá þá til umræðunnar og segja hvaða meinbugi menn sjá á málinu, þ.e. að hleypa íslenskum almenningi beint að ákvarðanatöku um það hvernig við viljum haga stjórnarskránni til framtíðar litið. Það er hárrétt sem nefnt hefur verið að í aðdraganda næstu kosninga verður ekki bara kosið um nýja stjórnarskrá, kosið verður um utanríkismál og svo mörg önnur mál. Þess vegna hefði ég haldið að breytingartillagan væri til svo mikilla bóta að við gætum fengið umboð frá íslenskum kjósendum varðandi þessa breytingartillögu og hina breytingartillöguna.

Menn hafa gagnrýnt það mikið undanfarið að fara eigi í miklar endurbætur á stjórnarskránni. Ég var talsmaður þess að við þyrftum að endurbæta stjórnarskrá lýðveldisins og ég held að það séu eiginlega allir á því að hún þurfi breytinga við. En ég tel að hún eigi ekki að vera aðalatriðið þegar kemur að kosningum heldur skuldamál heimilanna, atvinnumál, utanríkismál og öll þau mál sem okkur eru svo hugleikin í aðdraganda kosninga. Þetta mál veldur mér nokkrum áhyggjum. Nauðsynlegt væri og til bóta fyrir umræðuna að heyra sjónarmið þeirra sem ekki eru sammála því frumvarpi sem við ræðum.

Ég er hingað kominn til að lýsa yfir fullum stuðningi við málið og eins til að lýsa yfir ánægju með að málefni stjórnarskrárinnar skuli vera til umræðu á Alþingi í dag vegna þess að kallað er eftir því að við ræðum þau mál. Margir saka okkur þingmenn um að hafa mismikinn áhuga á málefnum stjórnarskrárinnar. Þess vegna er virkilega ánægjulegt að ræða þau mál og sérstaklega framsæknar hugmyndir um með hvaða hætti við getum breytt umgjörðinni til að breyta stjórnarskránni til lengri tíma litið.

Ég vonast til þess að málið fái góða efnislega umfjöllun á Alþingi og vonandi verða þær hugmyndir að veruleika einn góðan veðurdag sem hv. þm. Pétur H. Blöndal og flutningsmenn hans á málinu leggja til.