Rannsókn á einkavæðingu banka

Fimmtudaginn 20. september 2012, kl. 17:45:41 (0)


141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum rannsókn á einkavæðingu bankanna sem varð fyrir einum 12 árum, næstum því í fyrndinni. Það hafa þegar farið fram tvær rannsóknir, bæði hjá Ríkisendurskoðun og svo hefur fjárlaganefnd líka farið yfir málið. Það virtist ekkert misjafnt hafa komið í ljós þar.

Ég er síður en svo á móti því að rannsaka einkavæðingu bankanna, ég hef bara enga trú á að það komi neitt út úr því. Ef á annað borð á að fara af stað í þennan leiðangur held ég að það sé rétt að klára hann og taka allt ferlið. Eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði er þetta allt saman tengt. Bankarnir voru einkavæddir. Þeir söfnuðu miklum skuldum og skuldbindingum. Síðan fóru þeir á hausinn í hruninu, eitthvað varð að gera við þá og þeir voru færðir kröfuhöfunum. Allt er þetta eitt stórt samhengi og það er nákvæmlega rétt hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, það er ekkert hægt að sundurgreina þetta. Þess vegna skil ég ekki af hverju á að sundurgreina málið þegar kemur að rannsókninni. Ég get ekki annað en leitt hugann að því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði hérna áðan: Hvert er feimnismálið? Það er ekki eins og það vanti viljann hjá núverandi stjórnarmeirihluta til að rannsaka allt milli himins og jarðar. Hvað munar þá um að bæta við einni rannsókn í viðbót? Réttara sagt: Hvað munar um að stækka þá rannsókn sem þessi tillaga felur í sér yfir í það að klára allt það ferli sem hv. þm. Björn Valur Gíslason lýsti svo vel að væri ekki hægt að sundurgreina? Hv. þm. Björn Valur Gíslason hélt því fram að þessi þrá eftir að rannsaka hina síðari einkavæðingu væri til þess að halda einhvers konar pólitísku jafnvægi. Það held ég að sé alls ekki rétt hjá hv. þingmanni. Ég held að það sé rétt að ljúka þessu máli endanlega með fullnaðarrannsókn á málinu.

Hvað varðar upplýsingar sem komu fram í máli hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur hef ég reyndar ekki heyrt þetta áður. Þetta skýrir kannski margt í öllu þessu ferli. Eins og ég gat um í andsvörum við hv. þm. Björn Val Gíslason er þetta í þriðja skipti sem þetta mál kemur fram núna á þrem árum og ekki alltaf í nákvæmlega sama búningi. Það er ljóst að meiri hlutanum hefði verið í lófa lagið að taka þetta mál í gegnum þingið. Nú upplýsir hv. þm. Margrét Tryggvadóttir að henni hafi virst vera andstaða við málið hjá fleirum en stjórnarandstöðunni. Þá verður maður að álykta sem svo að það hafi verið andstaða innan stjórnarflokkanna við það að þetta færi í gegn og þá spyr maður: Hvað hafa menn að fela í þessu sambandi eða af hverju stafar þessi andstaða stjórnarflokkanna sjálfra við málið eða einhverra innan þeirra? Var ef til vill ekki meiri hluti í þinginu fyrir því?

Þá leiðir það hugann að því hvort hugur fylgi ekki máli hér, hvort þetta sé allt eitt stórt leikrit, leikrit sem sé hannað til að einhverjir þingmenn sem eru að fara í prófkjör og annað slíkt geti talað inn í bakland sitt sem hinir skínandi riddarar en enginn hugur fylgi máli. Aftur á móti veit ég af samskiptum mínum við hv. þm. Margréti Tryggvadóttur að þar fylgir hugur máli, hún vill láta fara fram þessa rannsókn og ég efast ekki á neinn hátt um það.

Ef þetta er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason heldur fram, hvernig stendur þá á því að málið hafi ekki komið fram nógu snemma til að lenda ekki í kraðakinu þegar verið er að semja um mál inn og út í lok þingsins? Það er ekki þannig að málið hafi ekki verið undirbúið, að það hafi birst allt í einu eða að þetta sé einhver neyðarráðstöfun að koma fram, eins og oft vill verða þegar mál eru á síðustu stundu. Það er ekki hægt að skýra það með því vegna þess að þetta er þriðja árið sem málið er sett fram. Núna kemur það fram snemma, þ.e. í upphafi þings, það er búið að vinna málið og það er ljóst að það mun fara í gegn ef meiri hlutinn vill það raunverulega. Hugsanlega er horfin sú andstaða sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir lýsti áðan að henni hafi virst í stjórnarflokkunum við málið en hugsanlega er bara verið að mæla fyrir málinu til að það týnist í vetrinum. Hugsanlega eru menn fyrst og fremst að nota það í prófkjörsbaráttu til að tala inn í baklandið sitt. Hvað veit ég? Við eigum eftir að sjá það. Ég legg til að fyrst verið er að flytja þetta mál verði það útvíkkað og hin síðari einkavæðing tekin inn í það vegna þess að ég sé ekki að neinn ætti að vera á móti því nema menn hafi eitthvað misjafnt að fela.