Gengistryggð lán

Mánudaginn 08. október 2012, kl. 15:25:13 (0)


141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

gengistryggð lán.

[15:25]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Nú eru fjögur ár frá hruni og eiginlega enn lengra síðan krónan fór af stað og féll mikið. Mig langar að spyrja ráðherra atvinnu og nýsköpunar, sem er nefnilega líka ráðherra bankamála en hefur lítið svarað fyrir þessi mál, um stöðu þeirra sem tóku gengistryggð lán.

Það er ekki hægt að rekja alla þessa sorgarsögu á tveimur mínútum en 15. febrúar sl. féll dómur sem fjármálafyrirtækin segja að hafi skapað enn meiri óvissu, en það er þó eitt lán í landinu sem engin óvissa er um og það er lánið sem dæmt var um. Þetta fólk hefur ekki enn fengið úrlausn sinna mála, það er ekki búið að endurreikna lán þeirra sem þó er engin óvissa um.

Nú eru ellefu mál í gangi og mig langar að spyrja ráðherrann: Telur hann að málið sé í góðum farvegi og að við fáum einhverja lausn eða niðurstöðu í þessi mál þegar þessi ellefu dómsmál hafa gengið sinn veg?

Mig langar líka að spyrja ráðherrann um samráðið sem Samtök fjármálafyrirtækja fengu að gera með leyfi Samkeppniseftirlitsins, sem nú hefur sent þeim fyrirspurnir um framkvæmd ýmissa atriða, hvort hann hafi fylgst með þessu og hvort honum sýnist þetta vera í lagi.

Þessi mál eru ekkert grín. Líf fólks sem er með gengistryggð húsnæðislán er nánast í herkví. Fólk getur ekki skipt um húsnæði, fólk getur ekki skilið að skiptum og enginn veit hvað hann á eða hvað hann skuldar. Úr þessu verður að leysa. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)