Verndar- og orkunýtingaráætlun

Þriðjudaginn 09. október 2012, kl. 14:17:47 (0)


141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í vor þegar ákveðið var að vísa rammaáætluninni til atvinnuveganefndar var það gert á grundvelli núgildandi þingskapa. Atvinnuveganefnd vann að mínu mati mjög vel að þessu máli. Hún kallaði fyrir fjölda gesta og kallaði eftir umsögnum, þær hlupu á einhverjum hundruðum. Ég tel að vinnulag nefndarinnar hafi verið algerlega óaðfinnanlegt.

Hvers vegna er þá verið að reyna að freista þess að koma í veg fyrir að það mál sem hér er verið að ræða, hluti af rammaáætluninni, geti farið til atvinnuveganefndar? Er verið að lýsa vantrausti á starf nefndarinnar? Er verið að lýsa vantrausti á starf formanns nefndarinnar? Ég tók eftir því að hv. þm. Mörður Árnason sagði að þetta mál snerist um að haldið væri rétt og skynsamlega á málunum. Hv. þingmaður var greinilega að gefa til kynna að það hefði ekki verið gert og atvinnuveganefnd væri ekki treystandi í þessu máli. (Gripið fram í.) Þá finnst mér rétt að menn segi það bara opinskátt og séu ekkert að tala neitt utan að því.

Þetta mál á auðvitað heima í atvinnuveganefnd. Það er tillaga 1. flutningsmanns málsins. Þetta mál á sér rætur í starfi (Forseti hringir.) iðnaðarráðuneytis og þess vegna er eðlilegt að það fari til atvinnuveganefndar og menn séu ekki með þennan hráskinnaleik í upphafi málsmeðferðar.