Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2012, kl. 12:59:37 (0)


141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það hefði verið einfaldari lagasetningaraðgerð að fella það ákvæði sem um er að ræða niður og láta önnur ákvæði standa. Ég vil hins vegar, til að gæta allrar sanngirni, segja að mér finnst allt í lagi það sem sagt er um nákvæmari skráningu minnisblaða og þess háttar, sérstaklega í 1. gr. þessa frumvarps. Ég segi líka varðandi a-liðinn í 2. gr. frumvarpsins að mér finnst ágætt að það sé þá bókað ef afgreiðsla máls byggir á einhverjum öðrum sjónarmiðum en þeim sem koma fram í upprunalegu minnisblaði. Það er alltaf spurning hvað á nákvæmlega að segja í lagatexta en ég held að þetta sé ekkert slæmt.

Þriðja atriðið er síðan varðandi hina opinberu kynningu sem á að eiga sér stað að loknum ríkisstjórnarfundum. Þar er ég hins vegar nokkuð sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að í því ákvæði felast frekar almennar leiðbeiningar og þeir sem vilja halda einhverju leyndu geta gert það á grundvelli þeirrar víðtæku undantekningarheimildar sem þar er að finna. Við getum sagt að það séu ekki slæm markmið sem sett eru fram í þessari grein sem hér er merkt b-liður 2. gr. Og ég hygg að afar oft sé þetta einmitt þannig að mála er getið í fjölmiðladagskrá ríkisstjórnar og ráðherrar gera síðan grein fyrir þeim í fjölmiðlum ef eftir því er leitað. En þetta er hins vegar grein sem er þannig saman sett að hún er ekki trygging fyrir einu eða neinu.

En ég tek það aftur fram, sem ég gerði í ræðu minni áðan, að mér finnst þessi lending á málinu miklu ásættanlegri en sú sem sett var í lög í september 2011. Það sem ég var að gagnrýna áðan var kannski fyrst og fremst það að byrjað væri á að samþykkja lagafrumvörp eða lagagreinar og eftir á væri farið út í að spá í það hvort þær gengju upp eða ekki.