Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 152  —  152. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

Flm.: Guðmundur Steingrímsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Eygló Harðardóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Lúðvík Geirsson, Róbert Marshall.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa þriggja manna starfshóp sem semji skýrslu um það hvernig útfæra megi jafnt búsetuform barna sem búa jafnt og til skiptis hjá báðum foreldrum sínum á tveimur heimilum. Markmið starfshópsins verði að kanna leiðir til að eyða þeim mikla aðstöðumun sem er á milli heimila þegar foreldrar sem búa ekki saman ákveða að ala upp börn sín saman á tveimur heimilum. Í því skyni taki hópurinn m.a. afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu henti betur. Starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 2013 og leggi ráðherra fram frumvarp byggt á niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en á haustþingi 2014.

Greinargerð.


    Það er mikilvægt fyrir börn að eiga góð samskipti við báða kynforeldra sína. Jafnan er litið svo á, til að mynda í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að slík samskipti séu ein af grundvallarréttindum barna. Lagaþróun síðustu áratuga hefur verið á þá leið að jafna stöðu foreldra svo að foreldrar taki jafna ábyrgð á umönnun og velferð barns. Þannig var í barnalögum, nr. 20/1992, fyrst gert ráð fyrir þeim möguleika að foreldrar sem ekki byggju saman gætu samið um að fara sameiginlega með forsjá barns en þeim þó gert að semja einnig um hvar barnið skyldi eiga lögheimili. Á síðustu árum hefur mikill meiri hluti foreldra sem hafa skilið eða slitið samvistum, eða á bilinu 85–95%, samið um sameiginlega forsjá og af þeim fer þeim börnum sífellt fjölgandi sem dvelja jafnlengi hjá báðum foreldrum. Er þá oft um það að ræða að barn sé viku hjá föður og viku hjá móður. Skiptar skoðanir hafa verið á því hvort slíkt sé barni fyrir bestu. Þeirra sjónarmiða hefur stundum gætt í umræðunni að barn muni skorta festu í lífi sínu sé það mikið á ferðinni milli tveggja heimila. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að líðan þeirra barna sem búa ríkulega hjá báðum foreldrum sínum á tveimur heimilum er jafngóð og þeirra barna sem búa á einum stað hjá báðum foreldrum sínum. Sumir þættir í lífi barnsins eru jafnvel betri hjá þessum börnum en öðrum. Rannsóknir hafa sýnt að góð samskipti við báða foreldra að loknum skilnaði dregur úr vanlíðan barna og óæskilegum áhrifum skilnaðar. Í þeim tilvikum þar sem foreldrar hafa aldrei búið saman að neinu ráði en kjósa samt að ala upp börn sín sameiginlega er rík umgengni barna við báða foreldra sína börnum einnig mikilvæg. Flutningsmenn telja því að færa megi fyrir því veigamikil rök að löggjafinn styðji og hvetji til þess í allri lagaumgjörð að báðir foreldrar umgangist börn sín ríkulega og taki jafnan þátt í uppeldi þeirra óháð því hvort þeir búi saman eða ekki.
    Í þónokkrum löndum er gert ráð fyrir möguleika á jöfnu búsetuformi barna á tveimur stöðum og er reynslan almennt góð. Ekki er endilega farin sú leið að heimila að barn hafi tvö lögheimili, heldur er oft um að ræða að sérstakt búsetuform, jöfn búseta, sé mögulegt með margvíslegri lagalegri þýðingu þó svo lögheimilið sé áfram hjá öðru foreldrinu. Má um það m.a. vísa til fyrirkomulags um jafna búsetu í Noregi sem foreldrar geta samið um. Í tillögu þessari er lagt til að starfshópur taki afstöðu til þess hvaða fyrirkomulag hentar best á Íslandi, hvort sem það yrði tvöfalt lögheimili eða annað fyrirkomulag jafnrar búsetu sem ekki er gert ráð fyrir í gildandi lögum. Mikilvægt er að starfshópurinn útfæri undir hvaða kringumstæðum og með hvaða skilyrðum fyrirkomulagið geti átt við. Í því sambandi gæti hugsanlega verið skynsamlegt að jöfn búseta eða tvöfalt lögheimili sé háð því skilyrði að heimili barnsins séu ekki of langt hvort frá öðru, t.d. að þau séu innan sama skólahverfis, og jafnframt að fyrirkomulagið komi aðeins til greina ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns, hafi báðir ríkulega og reglubundna umgengni við það og semja sérstaklega sín á milli um jafna búsetu.
    Mikill misbrestur er á því að íslensk löggjöf styðji þá foreldra sem kjósa að ala upp börn sín saman án þess þó að búa saman. Aðstöðumunur foreldranna er þónokkur. Til að mynda er gert ráð fyrir því að það foreldri sem barnið á lögheimili hjá skuli hafa töluvert meira að segja um hagi barnsins heldur en hitt foreldrið. Lögheimilisforeldrið þiggur einnig margvíslegan fjárstuðning á meðan hitt foreldrið nýtur ekki sams konar réttar og félagslegrar aðstoðar. Þá eru ýmsar stofnanalegar og félagslegar hindranir til staðar sem gera því foreldri þar sem barnið hefur ekki lögheimili erfiðara fyrir en hinu að sinna skyldum sínum gagnvart barninu. Úr þessu er áríðandi að bæta með frumvarpi því sem hér er lagt til að verði samið á grundvelli niðurstaðna sérfærðihóps.
    Það er hag barna fyrir bestu að foreldrar sem kjósa að annast um þau á tveimur heimilum í góðri sátt búi við sambærileg skilyrði, en ekki sé hvatt til ágreinings með ójafnri stöðu heimilanna. Hér er lagt til að kannað verði með hvaða hætti rétt sé að löggjafinn bjóði þeim foreldrum sem kjósa að ala upp börn sín saman, þrátt fyrir að þeir búi ekki saman, upp á viðeigandi lagalega umgjörð sem styður og hvetur foreldrana í þessari viðleitni sinni, enda sé það barni fyrir bestu.