Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 183. máls.

Þingskjal 184  —  183. mál.



Frumvarp til laga

um vopn, sprengiefni og skotelda.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.

    Ákvæði laga þessara gilda um:
     a.      skotvopn,
     b.      skotfæri,
     c.      sprengiefni,
     d.      skotelda,
     e.      önnur vopn, svo sem hnúajárn, örvaboga, högg-, stungu- eða eggvopn, rafmagnsvopn, gasvopn og táragasefni,
     f.      efni og tæki sem samkvæmt skilgreiningum 3. gr. teljast ekki til skotvopna, skotfæra, sprengiefna eða skotelda en hafa svipaða eiginleika og verkanir, og
     g.      eftirlíkingar af þeim vopnum sem getur í a–e-lið.
    Ákvæði laga þessara gilda einnig um einstaka hluta þeirra efna og tækja sem tilgreind eru í 1. mgr., nema annað segi í lögum þessum.
    Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til og getur sett í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, svo og um einstök efnisatriði eftir því sem nánar segir í lögunum.
    Lögreglustjórar hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar á meðal eftirlit með því að leyfishafar samkvæmt lögunum uppfylli skilyrði fyrir útgáfu leyfis.

2. gr.

    Lög þessi gilda ekki um:
     a.      vopn, tæki, skotfæri, sprengiefni og skotelda skv. 1. og 3. gr. sem eru í umráðum Landhelgisgæslu Íslands, lögreglu, fangelsa, annarra handhafa ríkisvalds, erlendra lögreglumanna eða öryggisvarða sem starfa undir stjórn íslenskrar lögreglu,
     b.      vopn, tæki, skotfæri, sprengiefni og skotelda í umráðum erlendra her- eða öryggissveita sem starfa í boði íslenskra yfirvalda.
    Ráðherra setur sérstakar reglur um innflutning, útflutning og meðferð búnaðar skv. a-lið 1. mgr., að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið, að undanskildum þeim búnaði sem heyrir til Landhelgisgæslu Íslands en um hann fer eftir lögum um þá stofnun. Í reglum þessum má einnig kveða á um hvernig búnaður þessi skuli vera auðkenndur.
    Ákvæði laga þessara, önnur en VII. kafli, gilda ekki um eftirgreind vopn, en ráðherra setur reglur um meðferð þeirra, framleiðslu og inn- og útflutning, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið:
     a.      naglabyssur og skothamra sem ætluð eru til nota í iðnaði,
     b.      línubyssur og tilheyrandi skotfæri, merkjabyssur eða önnur slík skotvopn og skotelda sem eingöngu eru ætluð til björgunarstarfa,
     c.      pinnabyssur og önnur slík tæki sem ætluð eru til þess að aflífa sláturdýr og ekki til þess að skjóta úr lausu skeyti,
     d.      skotvopn sem ætluð eru til leikja, svo sem litboltabyssur,
     e.      köfunarbyssur,
     f.      fastar skutulbyssur,
     g.      netabyssur og tilheyrandi skotfæri sem eingöngu eru ætluð til veiða á fuglum til merkinga á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands,
     h.      langboga, sveigboga, trissuboga og örvarodda,
     i.      skotfæri sem eingöngu eru ætluð til þess að nota í vopn skv. a–g-lið, og
     j.      skotvopn sem gerð hafa verið varanlega óvirk.

3. gr.

    Í lögum þessum og reglum sem settar eru með stoð í þeim er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
     a.      Eftirlíking er hlutur sem svo mjög líkist fyrirmyndinni að auðveldlega má villast á hlutnum og henni en sem þó er ekki unnt að nota á sama hátt og fyrirmyndina.
     b.      Framleiðsla er tilbúningur, samsetning, endurbætur og viðgerðir á hlutum þeim og efnum sem 1. gr. tekur til.
     c.      Haglabyssa er skotvopn sem ekki er með gormlaga rákum eða skorum í innanverðu hlaupi og sem ætlað er til þess að skjóta úr mörgum höglum eða skeytum í einu skoti.
     d.      Handhlaðið skotvopn er skotvopn sem þannig háttar til um að skot er sett eða fært handvirkt í hlaup eða að því.
     e.      Hálfsjálfvirkt skotvopn er skotvopn með sömu eiginleikum og segir í l-lið, þar sem þó verður að taka í gikkinn í hvert skipti sem skoti er hleypt af.
     f.      Hreyfiorka er tiltekin með mælieiningunni júl (joule) samkvæmt hinu alþjóðlega mælieiningakerfi SI (Système international d'unités): j = kg . m 2/s 2.
     g.      Kalíber er stærð skots og samsvarandi innanmál hlaups á riffli og skammbyssu þar sem þvermál kúlu og lengd skothylkis eru tiltekin í millimetrum, auðkennd með ensku tommumáli eða öðru heiti. Nánari ákvæði um þetta setur ráðherra í reglugerð.
     h.      Loftbyssa er hvert það skotvopn sem skjóta má úr lausu skeyti með samanþjöppuðu andrúmslofti eða öðrum lofttegundum.
     i.      Miðkveikt skot er skot þar sem kveikiefnið er í sérstakri hvellhettu sem sett er í miðjan botn skothylkis utan frá.
     j.      Randkveikt skot er skot þar sem kveikiefninu er komið fyrir innanvert í jaðarrönd í botni skothylkis.
     k.      Riffill er skotvopn, lengra en 60 cm að heildarlengd og með lengra hlaupi en 30 cm, með gormlaga rákum eða skorum í innanverðu hlaupi og sem ætlað er til þess að skjóta úr heilli kúlu eða skeyti, jafnsveru innanmáli hlaupsins.
     l.      Sjálfvirkt skotvopn er skotvopn sem skjóta má úr röð skota með þeim hætti að afl úr skoti er látið draga úr hlaupinu tómt skothylki (sé því til að dreifa), spenna bóg vopnsins, færa nýtt skot úr skotgeymi í hlaup og hleypa af þegar tekið hefur verið í gikkinn og eins lengi og þrýst er á hann.
     m.      Skammbyssa er skotvopn sem er ekki lengra en 60 cm að heildarlengd eða með hlauplengd allt að 30 cm.
     n.      Skot er samsett og fullgert skot með hvellhettu, skothylki (sé því til að dreifa), púðri, kúlu, höglum eða öðru lausu skeyti sem gert er til þess að skjóta úr skotvopni.
     o.      Skoteldar eru hvers konar hlutir sem innihalda efni eða efnablöndu sem getur sprungið og ætlað er, með íkveikju eða á annan hátt, að gefa frá sér hita, ljós, hljóð, lofttegund eða reyk með útvermnum, sjálfbærum efnaferlum.
     p.      Skotfæri eru skot, sbr. n-lið, svo og púður og hvellhettur til skotfæragerðar, kúlur, högl, önnur laus skeyti og tóm skothylki.
     q.      Skotvopn er vopn eða tæki sem hægt er með sprengikrafti, samanþjöppuðu lofti eða á annan sambærilegan hátt að skjóta úr kúlum (kúlulaga eða sívölum), höglum eða öðrum lausum skeytum. Þá er enn fremur átt við meginhluta skotvopns, þ.e. hlaup, láshús eða þá uppistöðu skotvopns sem hlaup er fest á, svo og lásbúnað allan, að undanskildum gikk, svo og við hljóðdeyfi. Þá telst sá hlutur vera skotvopn sem lítur út eins og skotvopn og unnt er, vegna efnis hans og gerðar, að breyta í skotvopn.
     r.      Sprengiefni er fast eða fljótandi efni eða efnablöndur, önnur en greinir í o-lið, sem hafa þann eiginleika að geta sprungið við högg, þrýsting eða hita, svo og kveikiefni, þ.m.t. hvellhettur og kveikiþráður.
     s.      Stærðarnúmer er hlaupvídd haglabyssu, tiltekin sem hlutfall kúlu af blýpundi, niður að 10,4 mm (0,410 tommum) og skal þá tala um kalíber eins og tíðkast hefur.
     t.      Sverð er vopn með hjöltum og 65 cm málmblaði eða lengra, hvort sem er með egg eða ekki.
     u.      Vopn telst vera hvert það áhald, verkfæri eða tæki sem nota má sem barefli eða til þess að skjóta, kasta, höggva, stinga eða skera með og þannig deyða eða meiða menn eða dýr, enda sé hluturinn þannig geymdur eða með hann farið að ætla megi, með tilliti til staðar og stundar, að hann sé ætlaður til þeirra verka.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða nánar en segir í grein þessari hvaða efni og tæki skuli teljast skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skoteldar og kveða nánar á um flokkun þeirra.

II. KAFLI
Skotvopn og skotfæri.
Framleiðsla.
4. gr.

    Enginn má framleiða skotvopn eða skotfæri nema hafa fengið til þess leyfi lögreglustjóra. Í slíku leyfi felst heimild til þess að selja framleiðsluna í samræmi við 13. og 14. gr. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins og slökkviliðsstjóra.
    Leyfi til þess að framleiða skotvopn má aðeins veita einstaklingi sem er minnst 25 ára að aldri, hefur skotvopnaleyfi og réttindi til þess að kalla sig byssusmið eða sambærilegu heiti í einhverju af ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
    Leyfi til þess að framleiða skotfæri má aðeins veita einstaklingi sem er minnst 25 ára að aldri og hefur skotvopnaleyfi.
    Óheimilt er að veita lögaðila leyfi skv. 1. mgr. nema hann sé skráður í fyrirtækjaskrá og tilnefni einn starfsmann sinn sem fullnægir skilyrðum 2. eða 3. mgr. til þess að annast framleiðsluna. Skal starfsmaður sá hafa umsjón með daglegri framleiðslu og telst hann ábyrgur fyrir meðferð og vörslu varanna ásamt stjórnendum lögaðilans.
    Aðeins skal veita þeim leyfi skv. 1. mgr. sem hefur til umráða fullnægjandi húsnæði til starfseminnar.
    Leyfi skv. 1. mgr. skal gefið út til fimm ára í senn. Þó má, ef sérstaklega stendur á, gefa það út til skemmri tíma eftir því sem lögreglustjóri ákveður. Við endurnýjun leyfis skal lögreglustjóri kanna hvort leyfishafi uppfylli enn skilyrði til þess að hafa leyfið.

5. gr.

    Sá sem framleiðir skotvopn eða skotfæri, hvort sem er til eigin nota, sölu innan lands eða til útflutnings, skal ávallt gæta fyllstu varúðar við þá iðju, svo og meðferð og geymslu þess sem hann framleiðir.
    Skylt er þeim sem framleiðir skotvopn að setja á það auðkennisstafina IS, framleiðslunúmer, framleiðsluár og auðkenni eftir nánari reglum sem ráðherra setur. Skal framleiðandi láta skrá skotvopnið í skotvopnaskrá þegar smíði þess er lokið. Sama á við um meginhluta skotvopns ef þeim er ráðstafað til annarra án þess að um fullgert skotvopn sé að ræða.
    Skylt er þeim sem framleiðir skotfæri sem ætluð eru til sölu að setja á umbúðir um þau auðkennisstafina IS, nafn framleiðanda, auðkennisnúmer, tegund skotfæra og kalíber.
    Sá sem framleiðir skotvopn skal halda skrá um öll þau skotvopn sem hann hefur framleitt og um það hverjum þau eru seld. Í skránni skulu koma fram upplýsingar um tegund skotvopns, módelheiti og eintaksnúmer þess. Skal afhenda skrá þessa lögreglustjóra þegar framleiðandi hættir starfsemi. Skrá þessa ber að varðveita ekki skemur en í fimm ár frá því að framleiðandi hætti starfsemi.
    Framleiðandi skotvopna og skotfæra skal veita viðkomandi lögreglustjóra, hvenær sem þess er óskað, aðgang að birgðabókhaldi og nákvæmar upplýsingar um framleiðsluna, seldar vörur og óseldar birgðir. Þá getur lögreglustjóri hvenær sem er og án sérstakrar heimildar krafist þess að fá aðgang að húsnæði þar sem framleidd eru skotvopn eða skotfæri í atvinnuskyni eða þar sem birgðir af þessum vörum eru geymdar.

6. gr.

    Bannað er að framleiða til notkunar eða sölu innan lands:
     a.      sprengifim flugskeyti og skotbúnað til hernaðar,
     b.      sjálfvirka eða hálfsjálfvirka skammbyssu,
     c.      sjálfvirkan eða hálfsjálfvirkan riffil,
     d.      sjálfvirka haglabyssu,
     e.      hálfsjálfvirka eða handhlaðna fjölskota haglabyssu með skothylkjahólfum sem tekur fleiri en tvö skothylki nema henni hafi verið breytt til samræmis við þennan áskilnað,
     f.      skotvopn, dulbúin sem eitthvað annað,
     g.      skot með skeytum sem ætlað er að rjúfa brynvörn eða eru með sprengju- eða íkveikjuskeytum svo og skeyti í slík skot,
     h.      skotfæri í skammbyssur með skeytum sem splundrast og skeyti í slík skot, nema þegar um er að ræða vopn til veiða eða íþróttaskotfimi fyrir þá sem hafa rétt til þess að nota þau, og
     i.      eftirlíkingar skotvopna.

7. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. er handhafa skotvopnaleyfis heimilt að búa til skotfæri til eigin nota í þau skotvopn sem hann hefur réttindi fyrir, enda fái hann til þess leyfi lögreglustjóra skv. 2. mgr. og heimilt sé að nota slík skotfæri hér á landi. Ákvæði 2.–5. mgr. 5. gr. taka ekki til slíkrar framleiðslu.
    Skilyrði leyfis skv. 1. mgr. eru þau að lögreglustjóri telji umsækjanda hafa til þess nægilega þekkingu, að hann hafi haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár og gengist undir námskeið í gerð skotfæra, enda samþykki ríkislögreglustjóri námsefni og fyrirkomulag slíkra námskeiða.

8. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirtalin atriði, að höfðu samráði við Vinnueftirlit ríkisins og Mannvirkjastofnun:
     a.      réttindi og skyldur framleiðenda skotvopna og skotfæra,
     b.      framleiðslu og sölu skotvopna og skotfæra,
     c.      gerð og búnað húsnæðis og nauðsynlegar öryggisreglur,
     d.      prófun skotvopna sem framleidd eru hér á landi, og
     e.      merkingar og gæðaeftirlit.

Inn- og útflutningur.
9. gr.

    Enginn má í atvinnuskyni flytja til landsins skotvopn eða skotfæri nema hann hafi fengið til þess leyfi lögreglustjóra. Í slíku leyfi felst heimild til þess að selja skotvopn og skotfæri í heildsölu. Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar slökkviliðsstjóra.
    Enginn má í atvinnuskyni flytja úr landi skotvopn eða skotfæri nema hann hafi fengið til þess leyfi lögreglustjóra. Áður en slíkt leyfi er veitt skal hafa samráð við utanríkisráðuneyti.
    Leyfi skv. 1. og 2. mgr. má aðeins veita einstaklingi sem hefur skotvopnaleyfi og er minnst 25 ára að aldri.
    Óheimilt er að veita lögaðila leyfi skv. 1. og 2. mgr. nema hann sé skráður í fyrirtækjaskrá og tilnefni einn starfsmann sinn sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. Telst hann ábyrgur fyrir meðferð og vörslu varningsins ásamt stjórnendum lögaðilans.
    Aðeins skal veita leyfi skv. 1., 2. og 3. mgr. þeim sem hafa til umráða fullnægjandi húsnæði til starfseminnar.
    Sá sem í atvinnuskyni flytur inn eða út skotvopn eða skotfæri skal ávallt gæta fyllstu varúðar við meðferð og geymslu varningsins.
    Lögreglustjóri má veita skotfélagi, skotíþróttafélagi eða skotveiðifélagi leyfi til þess að flytja inn skotfæri enda uppfylli félagið skilyrði 4. mgr. að undanskildu skilyrðinu um skráningu í fyrirtækjaskrá.
    Sá sem flytur inn eða út skotvopn í atvinnuskyni skal halda skrá um öll þau skotvopn sem hann hefur flutt inn eða út og um það hverjum þau eru seld. Í skránni skulu koma fram upplýsingar um tegund skotvopns, framleiðanda, módelheiti og eintaksnúmer þess. Skal afhenda skrá þessa lögreglustjóra þegar inn- eða útflytjandinn hættir starfsemi. Skrá þessa ber að varðveita ekki skemur en í fimm ár frá því að inn- eða útflytjandinn hættir starfsemi.
    Innflytjandi eða útflytjandi skotvopna og skotfæra skal veita viðkomandi lögreglustjóra, hvenær sem þess er óskað, aðgang að birgðabókhaldi og nákvæmar upplýsingar um starfsemina, seldar vörur og óseldar birgðir. Þá getur lögreglustjóri, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að húsnæði þar sem birgðir af þessum vörum eru geymdar.
    Leyfi skv. 1. og 2. mgr. skal gefið út til fimm ára í senn. Þó má, ef sérstaklega stendur á, gefa það út til skemmri tíma eftir því sem lögreglustjóri ákveður. Við endurnýjun leyfis skal lögreglustjóri kanna hvort leyfishafi uppfylli enn skilyrði til þess að hafa leyfið.

10. gr.

    Óheimilt er að flytja inn þá hluti sem tilgreindir eru í 6. gr. Þó getur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, heimilað innflutning vopna sem getið er í 6. gr. ef þau hafa ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs og tengsla við sögu landsins. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu getur, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, enn fremur heimilað innflutning hálfsjálfvirkra skammbyssna og hálfsjálfvirkra riffla fyrir randkveikt skot, enda séu slík vopn sérhönnuð að gerð og þyngd og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar, svo sem nánar verður kveðið á um í reglugerð.
    Þegar skotvopn sem ekki er númerað eintaksnúmeri framleiðanda er flutt varanlega til landsins skal setja á það eintaksnúmer á kostnað innflytjanda áður en það er afhent þeim sem flytur það inn. Heimilt er að víkja frá skilyrði þessu þegar skotvopn hefur ótvírætt söfnunar- eða fornminjagildi vegna tengsla þess við sögu landsins.
    Óheimilt er að flytja í atvinnuskyni inn í landið eða úr því skotfæri nema þau séu í umbúðum þar sem fram komi upprunaland þeirra, nafn framleiðanda, auðkennisnúmer, tegund skotfæra og kalíber.

11. gr.

    Enginn má flytja inn til eigin nota skotvopn nema með leyfi lögreglustjóra. Sama gegnir um handhafa skotvopnaleyfis sem vill flytja varanlega úr landi skotvopn sem hann hefur leyfi fyrir. Samráð skal haft við utanríkisráðuneyti áður en leyfi er veitt til þess að flytja skotvopn varanlega úr landi.
    Enginn má flytja tímabundið úr landi skotvopn sem hann hefur leyfi fyrir nema hann hafi til þess sérstakt útflutningsleyfi lögreglustjóra eða evrópskt skotvopnaskírteini. Skal sá sem í hlut á framvísa leyfi þessu eða skírteininu þegar hann fer úr landi með vopnið eða sendir það úr landi.

12. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirtalin atriði:
     a.      húsnæði inn- og útflytjenda og geymslu varnings, að höfðu samráði við Mannvirkjastofnun og Vinnueftirlit ríkisins,
     b.      staðfestingu lögreglustjóra á vörureikningum áður en tollafgreiðsla fer fram,
     c.      prófun skotvopna sem flutt eru til landsins,
     d.      merkingar og gæðaeftirlit,
     e.      evrópskt skotvopnaskírteini, og
     f.      vopn sem heimilt er að fá undanþágu fyrir.

Verslun og útleiga.
13. gr.

    Enginn má í atvinnuskyni versla með skotvopn eða skotfæri eða leigja út skotvopn nema hann hafi fengið til þess leyfi lögreglustjóra.
    Leyfi skv. 1. mgr. má aðeins veita þeim sem hefur skotvopnaleyfi og er minnst 25 ára að aldri. Slíkt leyfi takmarkast við þau skotvopn sem viðkomandi hefur réttindi til að nota. Ef umsækjandi er ríkisborgari eða lögaðili annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal umsókn um leyfi beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hið sama gildir um ríkisborgara Færeyja og lögaðila þar í landi.
    Leyfi skv. 1. mgr. má veita lögaðila, enda tilnefni hann starfsmann sem fullnægir skilyrðum 2. mgr. Skal sá starfsmaður hafa umsjón með daglegri verslun eða útleigu og telst hann ábyrgur fyrir meðferð og vörslu varanna ásamt stjórnendum lögaðilans.
    Skotfélagi, skotíþróttafélagi eða skotveiðifélagi er heimilt að selja félagsmönnum sínum skotfæri, enda uppfylli félagið skilyrði 3. mgr. og kaupandi hafi viðkomandi skotvopnaréttindi fyrir samsvarandi skotvopni. Sama gildir um þá sem stunda skotæfingar undir umsjón á vegum félagsins, enda taki viðkomandi ekki skotfærin með sér af félagssvæðinu.
    Aðeins skal veita þeim leyfi skv. 1. mgr. sem hafa til umráða fullnægjandi húsnæði til starfseminnar.
    Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt skal leita umsagnar slökkviliðsstjóra.
    Sá sem verslar með skotvopn eða skotfæri eða hefur með höndum útleigu skotvopna skal ávallt gæta fyllstu varúðar við meðferð og geymslu þess sem hann selur eða leigir út.
    Leyfi skv. 1. mgr. skal gefið út til fimm ára í senn. Þó má, ef sérstaklega stendur á, gefa það út til skemmri tíma, eftir því sem lögreglustjóri ákveður. Við endurnýjun leyfis skal lögreglustjóri kanna hvort leyfishafi uppfylli enn skilyrði til þess að hafa leyfið.
    Sá sem verslar með skotvopn og skotfæri skal halda skrá um öll þau skotvopn sem hann hefur til sölu og um það hverjum þau eru seld. Skrá þessa ber að varðveita ekki skemur en í fimm ár frá því að vopn er keypt eða selt. Þá skal hann veita lögreglustjóra, hvenær sem óskað er, aðgang að birgðabókhaldi og að húsnæði þar sem verslað er með skotvopn eða skotfæri eða þar sem birgðir af þessum vörum eru geymdar. Ákvæði þetta á einnig við um skotvopnaleigu.
    Sá sem hefur fengið leyfi til að versla með skotvopn eða skotfæri eða reka skotvopnaleigu má ekki selja eða afhenda hluti þessa öðrum en þeim sem sýnir skilríki fyrir því að hann megi kaupa þá eða fara með. Þetta tekur þó ekki til þeirra sem stunda skotæfingar undir umsjón annarra samkvæmt lögum þessum.
    Óheimilt er að afhenda kaupanda skotfæri í önnur vopn en þau sem hann hefur heimild til að nota samkvæmt skilríkjum sem hann framvísar skv. 10. mgr.

14. gr.

    Bannað er að versla með eða leigja út þá hluti sem greinir í 6. gr. Þó getur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, heimilað verslun með vopn sem getið er í 6. gr. ef þau hafa ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs og tengsla við sögu landsins. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu getur, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, enn fremur heimilað verslun með hálfsjálfvirkar skammbyssur og hálfsjálfvirka riffla fyrir randkveikt skot, enda séu slík vopn sérhönnuð að gerð og þyngd og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar, svo sem nánar verður kveðið á um í reglugerð.
    Bannað er að versla með skotfæri nema þau séu í umbúðum þar sem fram komi nafn framleiðanda, lotunúmer og gerð skotfæranna.

15. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirtalin atriði:
     a.      verslun með skotvopn og skotfæri,
     b.      skotvopnaleigu,
     c.      bann við verslun með og útleigu skotvopna og skotfæra sem teljast sérstaklega hættuleg eða skaðleg,
     d.      húsnæði til starfseminnar og um vörslu varanna, að höfðu samráði við Mannvirkjastofnun og Vinnueftirlit ríkisins, og
     e.      vopn sem heimilt er að fá undanþágu fyrir.

Meðferð.
16. gr.

    Enginn má eignast, hafa í vörslum sínum eða fara með skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi hjá lögreglustjóra. Lögreglustjóra er heimilt að setja sérstök skilyrði fyrir leyfi, telji hann þess þörf. Ef umsækjandi er ríkisborgari eða lögaðili annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal umsókn um leyfi beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hið sama gildir um ríkisborgara Færeyja og lögaðila þar í landi.
    Enginn má eiga eða fara með þá hluti sem tilgreindir eru í 6. gr. Þó getur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, heimilað meðferð vopna sem getið er í 6. gr. ef þau hafa ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs og tengsla við sögu landsins. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu getur, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, enn fremur heimilað meðferð hálfsjálfvirkra skammbyssna og hálfsjálfvirkra riffla fyrir randkveikt skot, enda séu slík vopn sérhönnuð að gerð og þyngd og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar, svo sem nánar verður kveðið á um í reglugerð.
    Skotvopnaleyfi skal gefa út til tíu ára í senn. Þó má, ef sérstaklega stendur á, gefa það út til skemmri tíma eftir því sem lögreglustjóri ákveður. Við endurnýjun skotvopnaleyfis er lögreglustjóra heimilt að kanna hæfi leyfishafa ef sérstök ástæða þykir til.
    Lögreglustjóri skal gefa út skírteini til þess sem fær skotvopnaleyfi. Í því skal tilgreina réttindi leyfishafa, nafn hans, kennitölu og heimilisfang. Þar skal vera nýleg ljósmynd af leyfishafa. Þá skal þar geta skotvopna sem eru í eigu leyfishafa eða honum hafa verið lánuð í samræmi við 3. mgr. 23. gr.

17. gr.

    Skotvopnaleyfi felur í sér heimild til þess að eiga skotvopn og nota í hvers konar lögmætum tilgangi, svo sem til veiða, íþróttaiðkunar og annarra skotæfinga, hvort sem er á eigin vegum eða félags. Umsækjandi skal þó gera grein fyrir því í hvaða skyni sótt er um leyfi. Skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis eru þau að maður:
     a.      hafi náð 20 ára aldri,
     b.      hafi ekki verið sviptur sjálfræði,
     c.      sé andlega heilbrigður, reglusamur og að öðru leyti hæfur til þess að fara með skotvopn,
     d.      samþykki að lögreglustjóri geti kannað hvort hann uppfylli skilyrði c-liðar, svo sem með því að kanna málaskrá lögreglu eða afla upplýsinga eftir öðrum leiðum,
     e.      sé heimilisfastur hér á landi,
     f.      hafi ekki gerst brotlegur við ákvæði þessara laga, almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni eða laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum,
     g.      sé ekki meðlimur í eða í nánum tengslum við samtök sem teljast til skipulagðra brotasamtaka, og
     h.      hafi sótt námskeið í meðferð og notkun skotvopna og staðist próf að því loknu.
    Lögreglustjóri má veita umsækjanda leyfi fyrir skotvopni þegar tvö ár eru liðin frá því að honum var refsað fyrir brot skv. f-lið 1. mgr., enda hafi refsing ekki farið fram úr sektum og brot auk þess verið smávægilegt. Að liðnum fimm árum frá því að umsækjanda var refsað fyrir slíkt brot getur lögreglustjóri veitt umsækjanda leyfi, enda hafi refsing ekki farið fram úr sex mánaða fangelsi, ekki verið um að ræða árásar- eða ofbeldisbrot, ítrekuð brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni eða ítrekuð ölvunarbrot.
    Lögreglustjóri má veita umsækjanda sem heimilisfastur er erlendis leyfi í allt að tvö ár fyrir skotvopni sem leyft er hér á landi, enda fullnægi viðkomandi skilyrðum 1. mgr. eða hafi gilt erlent skotvopnaleyfi fyrir vopni því sem hann flytur með sér eða sams konar vopni og sótt er um leyfi fyrir. Leita ber samþykkis yfirvalda í heimalandi viðkomandi hafi hann ekki gilt erlent skotvopnaleyfi en ella skal tilkynna þeim um leyfisveitinguna.
    Lögreglustjóri má veita umsækjanda undanþágu frá aldursskilyrði a-liðar 1. mgr. til þess að fá skotvopnaleyfi, uppfylli umsækjandi eftirtalin skilyrði:
     a.      hafi náð 15 ára aldri,
     b.      æfi skotfimi á viðurkenndu æfingasvæði skotfélags, skotíþróttafélags eða skotveiðifélags með skotvopni af þeim flokki vopna sem heimilt er að veita byrjendum leyfi fyrir,
     c.      hafi til þess leyfi forráðamanns og telst sá vera ábyrgur fyrir vopninu, hafi hann skotvopnaleyfi,
     d.      taki við skotvopninu úr hendi forráðamannsins á félagssvæðinu, hafi hann skotvopnaleyfi, en ella úr hendi félagsmanns, enda sé vopnið þá geymt á félagssvæðinu, og
     e.      noti vopnið þar undir umsjón forráðamannsins eða félagsmanns og skili því þar að notkun lokinni.
    Ákvæði 4. mgr. taka einnig til þess sem hefur ekki skotvopnaleyfi og er 20 ára eða eldri, enda hafi hann hvorki verið sviptur skotvopnaleyfi né það verið afturkallað.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur forráðamaður, nákominn ættingi eða venslamaður yngri manns en 20 ára, sem sjálfur er minnst 25 ára að aldri og hefur haft skotvopnaleyfi í minnst tvö ár, leyft honum að nota skotvopnið til skotæfinga eða veiða, enda sé hann sjálfur viðstaddur, hafi umsjón með notkun skotvopnsins, sýni fyllstu aðgæslu og láti skotvopnið ekki úr yfirráðum sínum. Sé um að ræða ólögráða mann og viðkomandi er ekki forráðamaður hans skal einnig liggja fyrir skriflegt leyfi forráðamannsins til þessa.
    Heimilt er viðurkenndu skotfélagi, skotveiðifélagi og skotíþróttafélagi að lána manni skotvopn í eigu félagsins til þess að æfa skotfimi á svæði félagsins í þeim flokki skotvopna sem heimilt er að veita byrjendum leyfi fyrir. Sé viðkomandi ólögráða skal hann hafa leyfi forráðamanns til þessa. Það er auk þess skilyrði að viðkomandi noti vopnið undir umsjón félagsmanns sem taki við því að notkun lokinni.

18. gr.

    Lögreglustjóri getur veitt lögaðila leyfi til þess að eiga skotvopn þurfi hann nauðsynlega á því að halda vegna starfsemi sinnar. Skal þá fá tiltekinn mann sem hefur skotvopnaleyfi til þess að nota skotvopnið og geyma það ásamt tilheyrandi skotfærum og telst hann ábyrgur fyrir því eins og hann væri eigandi þess. Skal skotvopnsins getið í skotvopnaskrá og í skotvopnaskírteini viðkomandi.

19. gr.

    Að frátöldum þeim sem greinir í 4., 9. og 13. gr. er óheimilt að veita þeim sem á fyrir 20 skotvopn eða fleiri leyfi til þess að eignast fleiri skotvopn. Lögreglustjóri getur þó heimilað einstaklingi eða safni að eignast fleiri skotvopn og skotfæri fyrir þau, enda sé um að ræða vopn sem hafa ótvírætt söfnunargildi, svo sem vegna tengsla við sögu landsins.
    Þegar um er að ræða safn skal tilnefna mann sem hefur skotvopnaleyfi til þess að sjá um skotvopn þess og skotfæri. Telst hann vera ábyrgur fyrir meðferð og vörslu vopnanna ásamt stjórnendum safnsins.
    Óheimilt er að nota safnvopn skv. 1. mgr. eða kaupa fyrir þau skotfæri nema með leyfi lögreglustjóra. Vopn þessi skal skrá sérstaklega í skotvopnaskrá.

20. gr.

    Nú deyr sá sem leyfi hefur fyrir skotvopni og skal dánarbúi hans þá, innan 12 mánaða frá andláti, gert að ráðstafa því skv. 1. mgr. 23. gr. eða afhenda það lögreglustjóra til ráðstöfunar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. Standi sérstaklega á, svo sem vegna fjölda skotvopna eða verðmætis þeirra, er heimilt að veita lengri frest, í allt að 12 mánuði til viðbótar.
    Nú eyðileggst skotvopn eða því er fargað og skal það þá afskráð. Ef skotvopn týnist eða því er stolið skal eigandi þess tilkynna lögreglu um það þegar í stað.
    Heimilt er með leyfi lögreglustjóra að fela þeim sem leyfi hefur til þess að framleiða skotvopn skv. 1. mgr. 4. gr. að gera skráð skotvopn varanlega óvirkt. Skal þá breyta meginhlutum vopnsins, sbr. 2. málsl. q-liðar 1. mgr. 3. gr., á þann veg að það verði ónothæft til þess að skjóta með.

21. gr.

    Skotfélög, skotíþróttafélög og skotveiðifélög sem stofnuð eru til þess að iðka skotfimi og skotveiðar skulu leita leyfis lögreglustjóra fyrir þeirri starfsemi.
    Skotfélag, skotíþróttafélag eða skotveiðifélag skal uppfylla eftirfarandi skilyrði til þess að öðlast leyfi:
     a.      vera stofnað á sérstökum stofnfundi,
     b.      hafa skipulagsbundna stjórn,
     c.      hafa félagslög,
     d.      hafa að lágmarki 20 félagsmenn sem hafa skotvopnaleyfi, og
     e.      hafa kennitölu.
    Í umsókn skal gera grein fyrir þeim skotæfingum eða skotkeppnum sem félagið hyggst standa fyrir. Uppfylli félag framangreind skilyrði gefur lögreglustjóri út leyfi því til handa.

22. gr.

    Ríkislögreglustjóri skal halda landsskrá skotvopna, sérstaka rafræna skotvopnaskrá fyrir landið allt. Í hana skulu lögreglustjórar skrá upplýsingar um veitt skotvopnaleyfi og skotvopn, sbr. 16. og 17. gr. Þar skal og skrá tegund skotvopns, framleiðanda þess, ef vitað er um hann, módelheiti, lástegund, kalíber eða stærðarnúmer, hámarksfjölda skota og eintaksnúmer framleiðanda. Þá skal skrá allan feril skotvopna frá því að þau eru framleidd hér á landi eða varanlega flutt hingað til lands. Í skotvopnaskrá skal enn fremur skrá allar breytingar á skotvopnum, sbr. 4. mgr. 23. gr. Þar skal jafnframt skrá öll skotvopn sem glatast hafa, gerð hafa verið varanlega óvirk eða varanlega flutt úr landi. Allar upplýsingar um einstök skotvopn skal varðveita þar ekki skemur en í 20 ár eftir að þau hafa glatast eða verið gerð óvirk, eyðilögð eða varanlega flutt úr landi.
    Ráðherra er heimilt að fela einum tilteknum lögreglustjóra að færa landsskrá skotvopna.
    Landsskrá skotvopna skal vera tengd þjóðskrá á þann hátt að m.a. megi fylgjast með því ef skotvopnaleyfishafi deyr.
    Landsskrá skotvopna skal vera tengd málaskrá lögreglu á þann hátt að í málaskránni sjáist hvort sá sem kærður er fyrir brot hafi leyfi samkvæmt lögum þessum.

23. gr.

    Eiganda skotvopns er óheimilt að selja eða gefa það nema viðtakandi sýni fram á að hann hafi leyfi lögreglustjóra fyrir vopninu.
    Eiganda skotvopns er óheimilt að selja, gefa eða afhenda á annan hátt skotvopn sem bannað er í lögum þessum eða reglum samkvæmt þeim. Þó má selja slík vopn úr landi, að fengnu leyfi lögreglustjóra.
    Eiganda skotvopns er heimilt að lána það öðrum til tímabundinna afnota í allt að þrjá mánuði, enda hafi sá leyfi til þess að nota sambærilegt skotvopn. Skal eigandi þá gefa út skriflega heimild til hans fyrir láninu.
    Breytingar á lásgerð skotvopns, kalíberum eða hámarksfjölda skota eða öðru því sem hefur umtalsverð áhrif á stærð, verkan eða skilgreiningu skotvopnsins eru óheimilar nema með leyfi lögreglustjóra. Þá er óheimilt án leyfis lögreglustjóra að breyta hlauplengd vopns ef það leiðir til þess að skilgreining þess samkvæmt lögunum breytist.
    Þrátt fyrir 4. mgr. eru minni háttar breytingar á skotvopni heimilar án leyfis lögreglustjóra, svo sem að skipta um eða breyta skefti vopns svo að það hæfi eigandanum eða skipta um eða lagfæra aðra hluta en meginhluta þess. Þó skal tilkynna lögreglustjóra um slíkar breytingar ef stærð vopnsins breytist við þær.
    Óheimilt er að setja hljóðdeyfi á skotvopn nema með leyfi lögreglustjóra. Eingöngu er heimilt að veita leyfi fyrir hljóðdeyfi á stærri riffla sem nota miðkveikt skot. Þó er óheimilt að nota hljóðdeyfi ef skot hefur verið hlaðið niður þannig að hraði skots fari undir hljóðhraða. Að því leyti sem það samrýmist friðunar- og veiðilöggjöf getur lögreglustjóri, ef nauðsyn ber til, veitt undanþágu frá banni til að nota hljóðdeyfi á öll vopn til þeirra sem nota skotvopn vegna atvinnu sinnar, svo sem við eyðingu vargs eða meindýra í þéttbýli.

24. gr.

    Hver sá sem fer með eða notar skotvopn skal hafa skotvopnaskírteini meðferðis og sýna það þegar lögregla eða þar til bær aðili krefst þess. Nú sýnir maður ekki skírteini og er lögreglu þá heimilt að taka vopnið í sína vörslu til bráðabirgða þar til viðkomandi leggur fram skilríki fyrir því að hann hafi heimild til að nota vopnið.
    Nú er sá sem í hlut á með skotvopnið að láni eða á leigu, án þess þó að 4. mgr. 17. gr. eigi við, og skal hann þá leggja fram skriflega heimild eiganda skotvopnsins því til sönnunar.

25. gr.

    Sá sem fer með eða notar skotvopn skal ætíð gæta fyllstu varúðar. Óheimilt er að bera skotvopn á almannafæri eða á milli notkunar- eða geymslustaða nema það sé óhlaðið og í umbúðum.
    Óheimilt er að bera skotvopn á sér innan klæða. Ráðherra getur, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, veitt undanþágu frá banni þessu ef sérstaklega stendur á.
    Þeim sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa er óheimilt að fara með skotvopn.
    Þegar ástæða er til að ætla að maður hafi brotið ákvæði 3. mgr. er lögreglu heimilt, í þágu rannsóknar máls, að láta taka úr honum öndunar-, svita-, munnvatns-, blóð- og þvagsýni eða láta hann sæta læknisskoðun.
    Þeim sem í hlut á er skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við rannsókn skv. 4. mgr.
    Ekki má hleypa af skoti á vegi, yfir veg, úr ökutæki, á almannafæri eða annars staðar þar sem hætta getur stafað af. Að því leyti sem það samrýmist friðunar- og veiðilöggjöf getur lögreglustjóri, ef nauðsyn ber til, veitt undanþágu frá þessu banni þeim sem nota skotvopn vegna atvinnu sinnar, svo sem í landbúnaði eða við eyðingu vargs eða meindýra. Ávallt skulu þeir sýna fyllstu aðgæslu þrátt fyrir undanþágu þessa.
    Ekki má hleypa af skoti á annars manns landi eða skjóta yfir annars manns land án leyfis landeiganda eða ábúanda, nema lög mæli öðruvísi fyrir. Mál út af broti gegn þessari málsgrein skal því aðeins höfða að sá krefjist sem misgert var við.

26. gr.

    Enginn má hafa í vörslum sínum skotfæri nema fyrir þau skotvopn sem hann hefur leyfi eða lánsheimild fyrir.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur lögreglustjóri veitt manni sem hefur skotvopnaleyfi heimild til þess að safna skotfærum fyrir önnur vopn en hann hefur leyfi fyrir, enda séu skotfærin hvorki bönnuð né sérstaklega hættuleg. Í leyfinu skal tiltaka heildarmagn skotfæra sem safna má og magn skotfæra fyrir hvert kalíber. Slíks leyfis skal getið í skotvopnaskrá.

27. gr.

    Eigandi eða sá sem geymir skotvopn og skotfæri skal ábyrgjast vörslu þeirra með þeim hætti að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra.
    Þegar skotvopn og skotfæri eru ekki í notkun skulu skotvopn geymd í læstri hirslu af viðurkenndri gerð. Þá skulu skotfæri geymd í læstri hirslu, aðskilinni frá skotvopninu sem þau eiga við.
    Lögreglustjóri getur, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að húsnæði þar sem geymd eru skotvopn og skotfæri til þess að kanna hvort skilyrði 1. og 2. mgr. þessarar greinar eru uppfyllt.

28. gr.

    Óheimilt er að efna til skotkeppni á öðru svæði en lögreglustjóri hefur leyft að notað verði til slíkrar starfsemi.
    Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt skal lögreglustjóri leita umsagnar sveitarstjórnar og Vinnueftirlits ríkisins.

29. gr.

    Ráðherra er m.a. heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirtalin atriði:
     a.      skráningu vopna í skotvopnaskrá,
     b.      skotvopnaskírteini,
     c.      flokkun skotvopna eftir gerð og kalíberi,
     d.      skilyrði til þess að fá að eignast og nota skotvopn,
     e.      námskeið í meðferð og notkun skotvopna,
     f.      tímabundið skotvopnaleyfi,
     g.      skotvopna- og skotfærasöfn og meðferð safnvopna,
     h.      tímabundið lán skotvopns,
     i.      afhendingu og sölu skotfæra,
     j.      geymslu skotvopna og skotfæra, þar á meðal um gerð hirslna og lása,
     k.      gerð og búnað skotsvæða, þar á meðal um geymslu skotvopna og skotfæra þar, að höfðu samráði við Vinnueftirlit ríkisins og Mannvirkjastofnun,
     l.      bann við tilteknum gerðum vopna eða skotfæra sem hættuleg teljast, umfram það sem segir í lögum þessum,
     m.      heimild lögaðila til þess að eiga vopn,
     n.      leyfi til einstaklinga til þess að iðka skotfimi þótt þeir uppfylli ekki aldursskilyrði laga þessara til þess að eiga og fara með skotvopn, og
     o.      vopn sem heimilt er að fá undanþágu fyrir.

III. KAFLI
Sprengiefni.
Framleiðsla, innflutningur, sala og meðferð.
30. gr.

    Enginn má framleiða sprengiefni, hvort sem er til eigin nota, sölu innan lands eða til útflutnings, flytja það inn eða versla með það án þess að hafa fengið til þess leyfi lögreglustjóra, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið.
    Óheimilt er að veita lögaðila leyfi skv. 1. mgr. nema hann sé skráður í fyrirtækjaskrá og tilnefni einn starfsmann sinn sem fullnægir skilyrðum 1. mgr. 33. gr. til þess að annast framleiðsluna. Skal starfsmaður sá hafa umsjón með daglegri framleiðslu og telst hann ábyrgur fyrir meðferð og vörslu varanna ásamt stjórnendum lögaðilans.
    Sá sem framleiðir, flytur inn eða verslar með sprengiefni eða íblöndunarefni í sprengju skal veita viðkomandi lögreglustjóra, hvenær sem þess er óskað, aðgang að birgðabókhaldi og nákvæmar upplýsingar um framleiðsluna, seldar vörur og óseldar birgðir, sem og upplýsingar um kaupanda efnis. Þá getur lögreglustjóri, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að húsnæði þar sem framleitt er sprengiefni eða þar sem birgðir af því eru geymdar.
    Sá sem framleiðir, flytur inn eða verslar með sprengiefni eða íblöndunarefni í sprengju skal tilkynna viðkomandi lögreglustjóra ef magn sprengiefnis eða íblöndunarefnis í sprengju fer yfir 500 kg. Sama gildir ef samanlagt magn sprengiefnis eða íblöndunarefna fer yfir 500 kg á sex mánuðum.
    Sá sem framleiðir, flytur inn eða verslar með sprengiefni skal sjá til þess að sprengiefni, þ.m.t. smæstu einingar þess, sé sérstaklega auðkennt með einkvæðum auðkennum og að upplýsingar um sprengiefnið séu skráðar samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð svo að rekja megi feril þess.

31. gr.

    Enginn má kaupa sprengiefni nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Leyfið veitir lögreglustjóri í því umdæmi þar sem leyfisbeiðandi hefur lögheimili. Ef umsækjandi er lögaðili veitir lögreglustjóri leyfið þar sem starfsstöð umsækjandans er. Ef umsækjandi er ríkisborgari eða lögaðili annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal umsókn um leyfi beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hið sama gildir um ríkisborgara Færeyja og lögaðila þar í landi.
    Aðeins má veita þeim leyfi til þess að kaupa sprengiefni sem sýnir fram á að honum sé það nauðsynlegt.
    Leyfi samkvæmt þessari grein skal gefið út fyrir ákveðna tegund og magn sprengiefnis.
    Þegar lögaðili fær leyfi skv. 1. mgr. skal hann að jafnaði tilnefna ákveðinn mann sem annist vörslu sprengiefnisins.
    Þeim sem fengið hefur leyfi til þess að kaupa sprengiefni er óheimilt að afhenda efnið öðrum nema með leyfi lögreglustjóra.

32. gr.

    Sá einn má hafa í vörslum sínum eða fara með sprengiefni og annast sprengingar sem fengið hefur til þess leyfi lögreglustjóra. Leyfið veitir lögreglustjóri í því umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili. Ef umsækjandi er ríkisborgari eða lögaðili annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal umsókn um leyfi beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hið sama gildir um ríkisborgara Færeyja og lögaðila þar í landi.
    Eigandi sprengiefnis skal ábyrgjast vörslu þess og sjá um að óviðkomandi nái ekki til þess. Geyma skal sprengiefni í sérstakri sprengiefnageymslu sem samþykkt er af Mannvirkjastofnun og er í lágmarksfjarlægð frá annarri byggð.
    Sá sem fer með og notar sprengiefni skal ætíð gæta fyllstu varúðar.
    Þeim sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa er óheimilt að fara með sprengiefni.

33. gr.

    Skilyrði fyrir því að fá leyfi samkvæmt kafla þessum eru þau að maður:
     a.      hafi náð 25 ára aldri,
     b.      hafi ekki verið sviptur sjálfræði,
     c.      sé andlega heilbrigður, reglusamur og að öðru leyti hæfur til þess að fara með sprengiefni,
     d.      samþykki að lögreglustjóri geti kannað hvort hann uppfylli skilyrði c-liðar, svo sem með því að kanna málaskrá lögreglu eða afla upplýsinga eftir öðrum leiðum,
     e.      sé heimilisfastur hér á landi,
     f.      hafi ekki gerst brotlegur við ákvæði vopnalaga, almennra hegningarlaga, áfengislaga eða laga um ávana- og fíkniefni,
     g.      sé ekki meðlimur í eða í nánum tengslum við samtök sem teljast til skipulagðra brotasamtaka, og
     h.      hafi sótt námskeið um sprengiefni, framleiðslu þess, meðferð og notkun sem Vinnueftirlit ríkisins viðurkennir og staðist bóklegt og verklegt próf að því loknu.
    Leyfi samkvæmt kafla þessum gilda í fimm ár. Heimilt er að gera leyfishafa að sækja námskeið og gangast undir próf áður en réttindi hans eru endurnýjuð.

34. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirtalin atriði að fenginni umsögn Mannvirkjastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins:
     a.      réttindi og skyldur framleiðanda, innflytjanda, seljanda og notanda samkvæmt kafla þessum,
     b.      skilyrði fyrir leyfisveitingu og flokkun réttinda,
     c.      námskeið í meðferð og notkun sprengiefnis,
     d.      framleiðslu og búnað framleiðslu- og geymsluhúsnæðis svo og nauðsynlegar öryggisreglur, þar á meðal lágmarksfjarlægð frá annarri byggð,
     e.      hve miklu sprengiefni framleiðanda, innflytjanda, seljanda og notanda efnis er heimilt að hafa umráð yfir á hverjum tíma,
     f.      skyldu þess sem annast sprengingar að tilkynna um þær til yfirvalda eða opinberra stofnana,
     g.      flutning sprengiefnis og meðferð þess, og
     h.      hvernig og í hvaða tilvikum auðkenna skuli sprengiefni og skrá það í gagnagrunn og hvernig rekja megi feril þess fram til þess að það er notað eða því eytt. Þá skal þar kveða á um aðgang lögregluyfirvalda að skránni og hversu lengi skuli varðveita upplýsingar í henni.

35. gr.

    Nú finnast sprengiefni eða hlutir sem ætla má að hafi að geyma sprengiefni á víðavangi, reknir á land eða á reki og skal þá finnandi þegar tilkynna lögreglunni eða Landhelgisgæslu Íslands um fundinn.

IV. KAFLI
Skoteldar.
Framleiðsla, innflutningur, sala og meðferð.
36. gr.

    Enginn má framleiða, flytja inn eða úr landi eða versla með skotelda, nema með leyfi lögreglustjóra. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins og slökkviliðsstjóra.
    Skilyrði fyrir því að fá leyfi samkvæmt kafla þessum eru þau að maður:
     a.      hafi náð 25 ára aldri,
     b.      hafi ekki verið sviptur sjálfræði,
     c.      sé andlega heilbrigður, reglusamur og að öðru leyti hæfur til þess að framleiða eða hafa umráð yfir skoteldum í verulegu magni,
     d.      samþykki að lögreglustjóri geti kannað hvort hann uppfylli skilyrði c-liðar, svo sem með því að kanna málaskrá lögreglu eða afla upplýsinga eftir öðrum leiðum,
     e.      sé heimilisfastur hér á landi,
     f.      hafi ekki gerst brotlegur við ákvæði vopnalaga, almennra hegningarlaga, áfengislaga eða laga um ávana- og fíkniefni, og
     g.      sýni að mati lögreglustjóra fram á það að hann hafi kunnáttu til þess að framleiða eða fara með og hafa umráð yfir skoteldum í verulegu magni eða hafi sótt námskeið um skotelda, framleiðslu þeirra, meðferð og notkun sem Vinnueftirlit ríkisins viðurkennir og staðist bóklegt og verklegt próf að því loknu.
    Leyfi samkvæmt kafla þessum gilda í fimm ár. Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að leyfishafi skuli sækja námskeið og gangast undir próf áður en réttindi hans eru endurnýjuð.
    Óheimilt er að veita lögaðila leyfi skv. 1. mgr. nema hann tilnefni einn starfsmann sinn sem fullnægir skilyrðum 2. mgr. til þess að annast framleiðslu, innflutning, útflutning eða verslun með skotelda. Skal hann hafa umsjón með daglegri framleiðslu, sé um hana að ræða, svo og með geymslu og annarri meðferð skoteldanna. Telst hann ábyrgur fyrir framleiðslu, meðferð og vörslu skoteldanna ásamt stjórnendum lögaðilans.
    Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita félagasamtökum leyfi til að selja skotelda í smásölu enda uppfylli þau skilyrði 3. mgr.
    Sá sem framleiðir, flytur inn eða verslar með skotelda skal sjá til þess að skoteldavörur séu merktar með sýnilegum, læsilegum og óafmáanlegum hætti á íslensku eða á því tungumáli sem teljast verður opinbert tungumál í því landi þar sem varan er seld.
    Sá sem framleiðir, flytur inn eða verslar með skotelda skal veita viðkomandi lögreglustjóra, hvenær sem þess er óskað, aðgang að birgðabókhaldi og nákvæmar upplýsingar um framleiðsluna, seldar vörur og óseldar birgðir. Þá getur lögreglustjóri, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að húsnæði þar sem framleiddir eru skoteldar eða þar sem birgðir af þeim eru geymdar.

37. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirtalin atriði að fenginni umsögn Mannvirkjastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins:
     a.      réttindi og skyldur framleiðanda, innflytjanda og seljanda samkvæmt kafla þessum,
     b.      skilyrði fyrir leyfisveitingu og flokkun réttinda,
     c.      námskeið í meðferð og notkun skotelda,
     d.      sölu og meðferð skotelda, þar á meðal um aldurstakmörk og bann við skoteldum sem skaðlegir teljast,
     e.      framleiðslu og búnað framleiðslu- og geymsluhúsnæðis, svo og nauðsynlegar öryggisreglur,
     f.      hve miklu af skoteldum framleiðanda, innflytjanda og seljanda efnis er heimilt að hafa umráð yfir á hverjum tíma, og
     g.      húsnæði fyrir sölu skotelda.

38. gr.

    Þeir sem fara með skotelda skulu ætíð gæta fyllstu varúðar. Einungis má selja og markaðssetja skotelda sem uppfylla kröfur laga þessara og reglna sem settar eru samkvæmt þeim.
    Framleiðendur skotelda skulu tryggja að þeir samrýmist þeim öryggiskröfum, m.a. um CE-samræmismerkingu, sem gerðar eru í reglugerð um skotelda o.fl. og einnig reglum sem settar eru í samevrópskum stöðlum sem vísað hefur verið til í Stjórnartíðindum eða reglugerðum sem ráðherra er heimilt að setja samkvæmt lögum þessum. Ef framleiðandi skotelda er utan Evrópska efnahagssvæðisins er innflytjandi þeirra ábyrgur fyrir því að skoteldarnir uppfylli þessar kröfur í samræmi við gildandi lög og reglur sem kveða á um ábyrgð innflytjenda og dreifingaraðila á vöru.
    Gerðarviðurkenning skotelda skal fara fram hjá tilkynntum aðila sem hefur rétt til að veita slíka viðurkenningu á grundvelli tilskipana, laga og reglugerða sem um þær gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Nú verður alvarlegt slys af völdum skotelda og skal þá þegar í stað tilkynna lögreglu um það. Lögregla skal upplýsa Neytendastofu eins fljótt og verða má um alvarlegt slys af völdum skotelda.
    Skylt er að tilkynna Neytendastofu þegar vart verður gallaðra skotelda í umferð.
    Öll sala á skoteldum til almennings er óheimil nema að fengnu söluleyfi og samþykki lögreglustjóra varðandi staðsetningu og aðstæður á sölustað. Hið sama gildir um aðrar starfsstöðvar, svo sem geymslur fyrir skotelda til styttri eða lengri tíma. Dreifingaraðilar bera ábyrgð og kostnað af förgun skotelda eftir síðasta söludag eða vegna ákvörðunar um að skoteldar séu teknir af markaði.

39. gr.

    Neytendastofa skal fara með markaðseftirlit með skoteldum í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim.
    Um skyldur framleiðanda og dreifingaraðila, þ.m.t. skyldur til að tilkynna tafarlaust um innköllun vöru af markaði, eftirlit og málsmeðferð fer að öðru leyti eftir lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, svo og lögum um skaðsemisábyrgð, eftir því sem við getur átt.
    Ákvörðunum Neytendastofu sem teknar eru á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda. Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður nefndarinnar liggur fyrir.
    Nú unir aðili ekki úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Höfða skal mál innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Málshöfðun frestar hvorki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.

V. KAFLI
Önnur vopn.
40. gr.

    Vopnaburður á almannafæri er bannaður. Heimilt er að bera á sér bitvopn þar sem eðlilegt og sjálfsagt getur talist, svo sem við vinnu eða veiðar eða í öðrum tilvikum þegar hættulaust telst.
    Enginn má, nema að fengnu leyfi lögreglustjóra, framleiða, flytja inn til landsins, eignast, hafa í vörslum sínum eða fara með eftirtalin vopn:
     a.      lásboga sem hefur meiri togkraft en 7 kg,
     b.      sverð, og
     c.      bolta í lásboga.
    Skilyrði fyrir því að fá leyfi skv. 2. mgr. er að umsækjandi hafi náð 20 ára aldri. Þá skal fara um leyfisveitinguna skv. 16. og 17. gr. eftir því sem við á.
    Bannað er að flytja til landsins, framleiða, eignast eða hafa í vörslum sínum:
     a.      fjaðrahníf, fjaðrarýting, fallhníf eða fallrýting,
     b.      barefli, svo sem hnúajárn, gaddakylfu eða felukylfu,
     c.      kaststjörnu og kasthníf, og
     d.      slöngubyssu.
    Heimilt er að víkja frá banni skv. 4. mgr. með leyfi lögreglustjóra ef vopn hefur ótvírætt söfnunargildi, svo sem vegna tengsla við sögu landsins.
    Öðrum en lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands, fangelsisyfirvöldum, öðrum handhöfum ríkisvalds, erlendum lögreglumönnum eða öryggisvörðum, sem starfa undir stjórn íslenskrar lögreglu, er óheimilt að flytja til landsins, framleiða eða eignast handjárn eða fótjárn úr málmi eða öðru efni. Sama gildir um úðavopn, svo sem gasvopn, táragasvopn og vopn sem gefa raflost.

VI. KAFLI
Afturköllun leyfa, viðurlög o.fl.
41. gr.

    Leyfi samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim skal lögreglustjóri afturkalla ef ekki teljast lengur vera fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu. Hinu sama gegnir ef leyfishafi er óreglusamur eða ef ætla má af öðrum ástæðum að hann muni fara óforsvaranlega með þau vopn, tæki, skotfæri, sprengiefni eða skotelda sem hann hefur leyfi fyrir. Þá má afturkalla leyfi samkvæmt lögum þessum ef leyfishafi hefur ekki sinnt fyrirmælum sem gefin eru með stoð í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim. Um afturköllun leyfis fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Lögreglustjóri í því umdæmi þar sem leyfishafi á lögheimili eða hefur starfsstöð tekur ákvörðun um afturköllun, án tillits til þess hvar leyfið var upphaflega gefið út.
    Lögreglustjóra er heimilt til bráðabirgða að afturkalla leyfi án fyrirvara ef brýna nauðsyn ber til og leggja jafnframt hald á vopn, efni og tæki sem leyfið tekur til.
    Nú er húsnæði, framleiðsluháttum eða vörslu varnings sem lög þessi taka til ábótavant að mati lögreglustjóra, Mannvirkjastofnunar eða slökkviliðsstjóra og getur lögreglustjóri þá, til bráðabirgða og án fyrirvara, lagt hald á skotvopn, skotfæri, skotelda, sprengiefni eða önnur vopn.

42. gr.

    Þegar leyfi samkvæmt lögum þessum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim er afturkallað skal sá sem í hlut á skila skilríkjum um leyfið til lögreglu ásamt þeim vopnum, efnum og tækjum sem leyfið tekur til.
    Þegar ekki eru fyrir hendi skilyrði til eignaupptöku getur lögreglustjóri að liðnum þremur mánuðum frá leyfissviptingu ákveðið að selja efni þau og tæki sem leyfið tekur til en að sex mánuðum liðnum ef um skotvopn er að ræða. Við söluna skal, eftir því sem kostur er, hafa samráð við eiganda varningsins. Skal söluandvirðið að frádregnum kostnaði renna til eiganda.
    Nú telur lögreglustjóri vopn, efni eða tæki verðlaust, ónýtt eða hættulegt eða þá svo verðlítið að ekki sé rétt að selja það og skal þá eyðileggja það eða gera óvirkt án greiðslu bóta til handa eiganda.

43. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Stórfelld brot eða margítrekuð varða fangelsi allt að átta árum. Með stórfelldu broti er m.a. átt við það þegar brot er framið í sambandi við atvinnustarfsemi eða varðar mörg eða sérstaklega hættuleg vopn, efni eða tæki eða mikið magn sprengiefnis eða skotelda. Enn fremur ef hætta eða tjón hefur hlotist af brotinu.
    Gera má lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn lögum þessum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim.
    Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim eru refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

44. gr.

    Nú fremur maður brot gegn lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim og má þá með dómi svipta hann réttindum sem hann hefur fengið samkvæmt þeim.
    Nú fremur maður brot með hlutum sem tilgreindir eru í 3. mgr. 2. gr. og ekki þarf sérstakt leyfi fyrir og má þá með dómi svipta hann heimild til þess að eiga, fara með og nota slíka hluti að viðlagðri refsingu skv. 43. gr.
    Nú fremur maður sem hefur fengið réttindi samkvæmt lögum þessum brot gegn ákvæðum XVIII. kafla, 211. gr., 218. gr. eða 252. gr. almennra hegningarlaga eða gegn lögum um ávana- og fíkniefni og skal þá svipta hann þeim réttindum.
    Að öðru leyti skal fara um réttindasviptingu samkvæmt ákvæðum 68. gr. og 68. gr. a í almennum hegningarlögum.

45. gr.

    Upptæk skal gera öll skotvopn, skotfæri, sprengiefni, skotelda, tæki, efni og önnur vopn, sem og eftirlíkingar, sem falla undir lög þessi og reglur settar samkvæmt þeim og hafa verið flutt til landsins án heimildar eða verið framleidd án heimildar, höfð eru til sölu í atvinnuskyni án heimildar, finnast vörslulaus eða eru í vörslu manns án þess að hann hafi fengið leyfi eða heimild fyrir þeim og löglegur eigandi finnst ekki að þeim. Þá skal og gera upptæka þá hluti sem að framan greinir og eru ólögmætir samkvæmt lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Nú fremur maður brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim og má þá gera upptæk hjá honum skotvopn, skotfæri, sprengiefni, skotelda, tæki, efni og önnur vopn, sem og eftirlíkingar, sem hann hefur framið brotið með ef skilyrði til upptöku eru að öðru leyti fyrir hendi.
    Nú er brot stórfellt og má þá einnig gera upptæk önnur skotvopn, skotfæri, sprengiefni, skotelda, tæki, efni og önnur vopn sem sökunautur hefur leyfi fyrir.
    Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku skv. 69. gr. almennra hegningarlaga.
    Lögreglustjóri ákveður hvernig geyma skuli og ráðstafa þeim vopnum, tækjum og efnum sem hald hefur verið lagt á vegna afturköllunar leyfis eða gerð hafa verið upptæk samkvæmt kafla þessum.

46. gr.

    Nú hefur maður undir höndum hluti eða efni án tilskilins leyfis eða sem bann er lagt við í lögum þessum og skal honum þá ekki refsað ef hann afhendir lögreglu hlutina eða efnin af sjálfsdáðum.
    Lögreglustjóri getur heimilað að sá sem afhendir lögreglu skotvopn og skotfæri sem 1. mgr. tekur til og ekki eru bönnuð í lögum þessum fái leyfi fyrir þeim eða þau verði seld öðrum, að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglna sem settar eru samkvæmt þeim.

VII. KAFLI
Stjórnsýslukæra og gjaldtaka.
47. gr.

    Kæra má stjórnsýsluákvarðanir samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim til ráðuneytisins. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum nema annars sé sérstaklega getið í lögum þessum.

48. gr.

    Um gjald fyrir leyfi samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Kostnaður vegna námskeiða og prófa sem haldin eru með heimild í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim greiðist með gjaldi sem ráðherra ákveður að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
49. gr.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/ 43/EB frá 4. apríl 2008 um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/2010 frá 10. nóvember 2010, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992.

50. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi vopnalög, nr. 16/1998, með áorðnum breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Einstaklingur sem fengið hefur skotvopnaleyfi og uppfyllir ekki ákvæði 2. mgr. 27. gr., um geymslu skotvopns sem hann hefur í vörslum sínum, skal innan tveggja ára frá gildistöku reglugerðar um geymslu skotvopna og skotfæra sanna fyrir lögreglustjóra að hann hafi bætt úr því.
    Bann við því að eiga og nota skotvopn í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim tekur ekki til skotvopna sem fara í bága við lög þessi hafi þau verið lögleg eftir eldri lögum.
    Þrátt fyrir skilyrði II., III. og IV. kafla skulu þeir sem fengið hafa leyfi til þess að framleiða, flytja inn eða úr landi, versla með, eiga eða fara með skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skotelda í gildistíð eldri laga halda þeim réttindum sínum. Leyfishöfum ber þó að uppfylla skilyrði laganna þegar leyfi er endurnýjað.
    Framleiðendur og innflytjendur skv. 2. og 3. mgr. 38. gr., um CE-samræmismerkingu og gerðarviðurkenningu, skulu hafa lagað sig að reglunum eigi síðar en 1. janúar 2014.
    Ákvæði 4. mgr. gildir ekki um skotelda sem framleiddir eru hér á landi.
    Óheimilt er að selja skotelda sem fluttir hafa verið inn fyrir 1. janúar 2014 og uppfylla ekki skilyrði 2. mgr. 38. gr. um CE-samræmismerkingu til landa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi (682. mál) en er nú endurflutt óbreytt.
    Þáverandi dómsmálaráðherra ákvað með bréfi hinn 25. febrúar 2008 að skipa nefnd til þess að endurskoða vopnalög, nr. 16/1998, með síðari breytingum, reglugerð um skotvopn og skotfæri o.fl., nr. 787/1998, með síðari breytingum, reglugerð um sprengiefni, nr. 684/ 1999, með síðari breytingum, reglugerð um skotelda, nr. 952/2003, með síðari breytingum, og reglur um litmerkibyssur, nr. 464/2000. Í erindisbréfi ráðherra til nefndarinnar segir svo:
    „Á þessu ári eru liðin tíu ár frá setningu gildandi vopnalaga, nr. 16/1998. Á þessum tíu árum hefur reynt á ýmis atriði við túlkun laganna, tækni hefur fleygt fram og þjóðfélagið tekið breytingum. Jafnframt hefur alþjóðlegt samstarf á þessu sviði aukist. Af þessum ástæðum er orðið tímabært að endurskoða vopnalögin og hefur dóms- og kirkjumálaráðherra ákveðið að skipa nefnd í því skyni. [...]
    Nefndinni er ætlað að endurskoða ákvæði vopnalaga og þeirra reglugerða og reglna sem settar hafa verið á grundvelli laganna í heild sinni. Nefndinni er m.a. ætlað að taka til athugunar hvort ástæða sé til að breyta uppbyggingu laganna og hvort tilefni sé til að þrengja eða rýmka ákvæði þeirra einkum með tilliti til vopna sem ætluð eru til nota í hernaði. Einnig er nefndinni ætlað að kanna hvort þörf sé á því að festa í vopnalög ákvæði sem nú eru að finna í þeim reglugerðum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Nefndinni er enn fremur ætlað að fara yfir dóma og úrskurði ráðuneytisins þar sem reynt hefur á ákvæði vopnalaga og athuga hvort þeir gefi tilefni til að skýra einstök ákvæði laganna nánar. Þá er nefndinni ætlað að taka til skoðunar ýmis álitaefni, m.a. réttindamál og leyfisveitingar til þeirra sem stunda byssusmíði hér á landi, ákvæði um söfnunarvopn og þær takmarkanir sem eru á sölu þeirra, rýmkun reglna um litmerkibyssur, hvort ástæða sé til að takmarka skráningaraðgang að skotvopnaskrá í því skyni að gera hana skilvirkari, hvort tilefni sé til að kveða á um fjöldatakmarkanir á vopnaeign einstaklinga og lögaðila og hvort gera þurfi breytingar á vopnalögum og reglum settum á grundvelli þeirra vegna Evrópulöggjafar á þessu sviði. Ef formaður telur tilefni til getur nefndin tekið upp fleiri atriði en hér hafa verið talin.
    Nefndinni er falið að hafa samráð við þau samtök, stofnanir og ráðuneyti sem hagsmuna hafa að gæta, svo sem Umhverfisstofnun, umhverfisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, Vinnueftirlit ríkisins, Slysavarnafélagið Landsbjörg o.fl. Gert er ráð fyrir að drög að frumvarpi liggi fyrir á haustmánuðum 2008.“
    Í nefndina voru skipuð Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari, til þess að vera formaður hennar, Thelma Þórðardóttir, lögfræðingur, tilnefnd af ríkislögreglustjóra, Ólafur Þ. Hauksson, þáverandi sýslumaður á Akranesi, tilnefndur af Lögreglustjórafélagi Íslands, Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Landhelgisgæslu Íslands, Ívar Erlendsson, stjórnarmaður í stjórn Skotveiðifélags Íslands, tilnefndur af Skotveiðifélagi Íslands og Jón Sigurður Ólason, stjórnarmaður í stjórn Skotíþróttasambands Íslands, tilnefndur af Skotíþróttasambandi Íslands. Margrét María Grétarsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, var ritari nefndarinnar þar til hún lét af störfum í ráðuneytinu og við starfi hennar tók Skúli Þór Gunnsteinsson, lögfræðingur í ráðuneytinu.
    Áður en frumvarpinu var skilað til ráðuneytisins var það sent utanríkisráðuneyti, umhverfisráðuneytinu, ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu Íslands, Vegagerðinni, Brunamálastofnun, Vinnueftirlitinu, Skotíþróttasambandi Íslands og Lögreglustjórafélagi Íslands til umsagnar og hafa þessir aðilar sent umsögn og athugasemdir um frumvarpið eins og það leit út áður en nefndin skilaði því af sér.
    Nefndin skilaði frumvarpi til ráðuneytisins árið 2009 en talið var rétt að bíða með framlagningu þess þar sem önnur og brýnni málefni höfðu forgang.
    Þá sameinuðust dómsmála- og mannréttindaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í nýtt innanríkisráðuneyti 1. janúar 2011 og var frumvarpið til skoðunar í ráðuneytinu fram á vormánuði 2011 en ljóst var að gera þyrfti breytingar á því vegna lagasamræmingar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í júlí 2011 urðu voveiflegir atburðir í Noregi þar sem sprengt var í miðborg Osló og í kjölfarið voru framin fjöldamorð í eynni Útey í Buskerud. Við voðaverkin var m.a. notast við mikið magn sprengiefnis og hálfsjálfvirk skotvopn. Af þessu tilefni var talið rétt að fara betur yfir frumvarpið með tilliti til atburðanna í Noregi.
    Frumvarp þetta er í meginatriðum óbreytt frá því að nefndin skilaði því til þáverandi dómsmálaráðuneytis en þó hefur efni þess verið þrengt að einhverju leyti. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur nr. 2007/23/EB og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 4. apríl 2008 um að koma á kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota nr. 2008/43/EB sem samþykktar voru af sameiginlegu EES-nefndinni þann 10. nóvember 2010 með ákvörðun nr. 119/2010. Þá hefur þurft að hafa hliðsjón af tilskipun ráðsins frá 18. júní 1991 um eftirlit með öflun og eign vopna nr. 91/477/EBE en vísað er til tilskipunarinnar í viðauka B við samning sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengengerða eða svokallaðan Brusselsamning. Breytinga sem ráðuneytið hefur lagt til verður sérstaklega getið í athugasemdum hér á eftir.

I. Almenn atriði.
    Vopnalöggjöf hér á landi á sér ekki ýkja langa sögu. Það var ekki fyrr en árið 1935 að fram kom á Alþingi þingmannafrumvarp, flutt að ósk dómsmálaráðherra, um innflutning, sölu og meðferð á skotvopnum, skotfærum, alls konar sprengjum og hlutum og efni í þau. Frumvarp þetta hlaut samþykki á þinginu árið 1936 og varð að lögum nr. 69/1936. Lög þessi voru í fjórum stuttum greinum þar sem kveðið var á um heimild ráðherra til þess að setja reglugerð um innflutning, leyfisskyldu þeirra sem hefðu skotvopn undir höndum, skrá yfir skotvopn og refsiheimild. Frumvarpinu fylgdu þessar athugasemdir: „Það mun vart nú finnast það ríki, sem ekki lætur vopnagerð, vopnasölu og vopnaburð til sín taka að einhverju leyti, enda er þeirri stefnu að vaxa fylgi í flestum löndum, að ríkisstjórnum beri að hafa sem sterkasta íhlutun um þessi mál. Það þykir eðlilegt, að ríkisstjórnin hér á landi hafi hönd í bagga með vopnasölu og vopnaburði. Er þetta frumvarp af þessum sökum fram komið.“
    Dómsmálaráðherra setti reglugerð í nokkrum greinum um þetta efni, nr. 105/1936, þar sem fram kom í 1. gr. að þeim einum væri heimilt að flytja inn eða versla með skotvopn, skotfæri eða sprengjur sem hefðu til þess leyfi dómsmálaráðherra. Í 3. gr. reglugerðarinnar sagði enn fremur að engum einstaklingi væri heimilt að eiga eða hafa í vörslum sínum nein af þeim tækjum, sem reglugerðin eða lögin tækju til, nema hann hefði fengið til þess leyfi lögreglustjóra í því umdæmi sem hann dveldi eða væri búsettur. Slíkt leyfi skyldi vera skriflegt og þar tilgreint nafn leyfishafa, staða hans og heimilisfang. Þá skyldi þar skýrt tekið fram til hvaða tækja og efna það tæki og heimilt var að setja þar sérstök skilyrði, teldi lögreglustjóri þess þörf. Leyfið skyldi bundið við persónu og vera óframseljanlegt. Þá var leyfishafa bannað að afhenda öðrum tæki eða efni sem leyfið tæki til. Loks var kveðið svo á í greininni að lögreglustjóra væri heimilt að svipta mann leyfi án þess að færa fram rök fyrir því en skjóta mátti slíkri ákvörðun til dómsmálaráðherra.
    Óhætt er að segja að sú stefna, sem vísað var til í athugasemdum með frumvarpinu frá 1935, að „ríkisstjórnum beri að hafa sem sterkasta íhlutun“ um vopnagerð, vopnasölu og vopnaburð, hefur orðið ráðandi, jafnt í löggjöf hér á landi sem erlendis. Kemur þar margt til. Má benda á það að mikil velmegun á Vesturlöndum hefur aukið þar eftirspurn eftir hvers konar veiði- og sportvopnum, gríðarlegt magn hernaðarvopna og sprengiefnis hefur komist í umferð eftir styrjaldir síðustu áratuga og upplausn Sovétríkjanna. Þá hefur hvers konar tækniþróun síðustu áratuga orðið til þess að það er nærri á hvers manns færi að búa til hættulegt sprengiefni og tiltölulega einfalt er að breyta skotvopnum eða jafnvel að framleiða þau. Síðast en ekki síst hafa hryðjuverk og ógnarstefnur ýmiss konar, ásamt greiðum samgöngum og frjálsræði í viðskiptum gert það nauðsynlegt að ríkisvaldið hlutist með styrkum hætti til um þessi málefni.
    Lög um skotvopn, sprengiefni og skotelda, nr. 46/1977, sem leystu af hólmi lögin frá 1936, byggðust á eldri lögunum í helstu atriðum. Þau voru þó mun ítarlegri að öllu leyti, enda sniðin að þörfum þjóðfélags sem orðið var gjörbreytt frá því sem var um miðjan fjórða áratug aldarinnar. Núgildandi vopnalög, nr. 16/1998, eru í aðalatriðum sniðin eftir lögunum frá 1977 en eru talsvert ítarlegri og hafa að geyma ýmis nýmæli. Ekki er talin ástæða til þess að gera með þessu frumvarpi miklar breytingar á kafla- og efnisskipan frá því sem verið hefur en þó er þess að geta að reglum um framleiðslu, innflutning, verslun og meðferð tækja og efna, sem frumvarpið tekur til, hefur verið skipað í sérstaka kafla eftir því hvort um er að ræða skotvopn, sprengiefni, skotelda eða önnur vopn.

II. Helstu nýmæli.
    Í athugasemdum við frumvarp til núgildandi vopnalaga segir að það sé ein af meginreglum þess að öll vopn séu bönnuð, nema þau séu sérstaklega leyfð samkvæmt lögum. Er þetta frávik frá hinni almennu lögmætisreglu, sem er grundvallarregla í íslenskum rétti, að skerðing á eignum eða athafnafrelsi borgaranna geti aðeins átt sér stað samkvæmt lögum eða heimild í lögum. Þetta er þó ekki tekið fram í texta laganna eins og þurft hefði að gera. Þá er einnig á það að líta að almennt orðalag laganna bendir ekki til annars en að þau séu reist á lögmætisreglunni. Allt að einu hefur lagaframkvæmdin verið í samræmi við þetta sjónarmið sem fram kom í athugasemdunum. Reynslan af þessari lagaframkvæmd hefur ekki verið að öllu leyti góð. Af henni hefur hlotist nokkur óvissa og ágreiningur og þar af leiðandi ýmislegir og jafnframt ástæðulausir erfiðleikar fyrir veiðimenn, íþróttaskotmenn og aðra löghlýðna borgara sem fara með og eiga skotvopn. Hefur sú leið verið valin nú að byggja á almennu lögmætisreglunni í frumvarpinu, sem m.a. kemur fram í 17. gr. þess, þar sem segir að skotvopnaleyfi feli í sér heimild til þess að eiga og nota skotvopn í hvers konar lögmætum tilgangi, svo sem til veiða, íþróttaiðkunar o.fl. Þó verður að hafa í huga öryggi og hagsmuni almennings. Þessi tilhögun útheimtir það aftur á móti að frumvarpið sé ítarlegt og texti þess skýr. Sama máli gegnir um þær reglur og reglugerðir sem settar yrðu með stoð í slíkum lögum. Hafa þessi atriði verið höfð að leiðarljósi við frumvarpssmíðina og einnig við samningu regluverksins sem henni tengist.
    Allmörg nýmæli eru í I. kafla frumvarpsins sem varða gildissvið laganna og skilgreiningar. Þau eru nauðsynleg vegna nýrrar löggjafar, breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og ekki síst til þess að gera löggjöfina skýra og framkvæmd hennar skilvirka. Þá hefur í ýmsum atriðum þurft við smíði frumvarpsins að hafa hliðsjón af tilskipun nr. 91/477/EBE um eftirlit með öflun og eign vopna, tilskipun nr. 2007/23/EB um að setja á markað flugeldavörur og tilskipun nr. 2008/43/EB um að koma á kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota, eins og vikið er að í athugasemdum við einstakar greinar hér á eftir. Eins og fram hefur komið hefur tilskipun nr. 91/477/EBE verið tekinn upp í Schengen-samstarfið og síðustu tvær tilskipanirnar hafa verið innleiddar í samning um Evrópska efnahagssvæðið.
    Sem fyrr segir hefur í frumvarpinu verið skilið á milli efnisflokka að því er varðar ákvæði um framleiðslu, innflutning, verslun og meðferð og er það gert til glöggvunar.
    Í VI. kafla frumvarpsins, um afturköllun leyfa, viðurlög og fleira, er að finna ýmis nýmæli. Bæði er gert ráð fyrir því að refsingar fyrir brot gegn vopnalöggjöfinni verði hertar, upptökuákvæði hafa verið endurskoðuð og ný ákvæði eru þar um réttindasviptingu. Sérstaklega má nefna að ákvæði um afturköllun leyfa hafa verið gerð mun skilvirkari og ákveðnari og til þess ætlast að því úrræði verði beitt frekar en hingað til hefur tíðkast.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin er í meginatriðum samhljóða 2. gr. núgildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Greinin er í meginatriðum samhljóða 3. gr. núgildandi laga. Með greininni er gildissvið laganna afmarkað á þann veg að ákvæði þeirra taka einungis til þeirra vopna, tækja og efna sem heyra til almenningi. Rétt þótti að hnykkja sérstaklega á því að innflutningur og meðferð búnaðar á vegum Landhelgisgæslu Íslands fellur undir lög um þá stofnun. Enda þótt hér sé það lagt til í 2. mgr. að ráðherra setji reglur um innflutning, útflutning og meðferð búnaðar sem a-liður 1. mgr. tekur til færi betur á því að kveðið væri nánar á um það í sérstökum lögum. Ekki er lagt til að ráðherra geti sett reglur um búnað skv. b-lið 1. mgr.
    Í 3. mgr., sem er hliðstæð 2. mgr. 3. gr. núgildandi laga, eru talin upp vopn og tilfæringar sem gert er ráð fyrir að ráðherra setji sérstakar reglur um og falli ekki undir ákvæði frumvarpsins um meðferð, framleiðslu og inn- og útflutning, svo sem ýmis konar nytjavopn en einnig leik- og veiðivopn. Þá eru þau nýmæli að hefðbundnir örvabogar falli ekki undir ákvæði frumvarpsins heldur er gert ráð fyrir að ráðherra setji um þá reglur. Er þetta gert að tillögu Bogveiðifélags Íslands. Þó mun lásbogi með 7 kg togkraft eða meira áfram falla undir ákvæði frumvarpsins. Enn fremur var á síðari stigum frumvarpsins bætt inn í 3. mgr. svokölluðum netabyssum að tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Margvíslegar aðferðir eru notaðar til að veiða fugla til merkingar, m.a. háfar og ýmis net. Um miðja síðustu öld voru fundnar upp netabyssur og hafa þær verið í notkun hér á landi frá 1977. Loks er gert ráð fyrir því að skotvopn sem gerð hafa verið varanlega óvirk falli ekki undir ákvæði laganna.

Um 3. gr.

    Greinin kemur í stað 1. gr. núgildandi laga en er verulega aukin. Hugtök og tækniatriði þarf að skilgreina vel til þess að löggjöf af þessu tagi sé glögg og nái markmiði sínu. Hér eru m.a. skilgreind hugtök og tækniatriði sem ekki aðeins reynir á í frumvarpstextanum sjálfum heldur er einnig gert ráð fyrir að byggt verði á þeim í reglugerðum sem settar yrðu á grundvelli laganna. Þykir rétt að hafa slíkar skilgreiningar í lögum fremur en í reglugerðum. Greinin skýrir sig að mestu leyti sjálf. Nokkur atriði skulu þó skýrð nánar. Í íslenskri löggjöf hefur verið leitast við að flokka skotvopn að nokkru leyti með hliðsjón af hættueiginleikum þeirra og hefur þá verið miðað við hlaupvídd vopnsins. Enda þótt viss fylgni geti verið þar á milli, einkum að því er varðar eldri vopn sem gerð voru fyrir svart púður, er þessi viðmiðun ekki fullnægjandi. Því er gert ráð fyrir að hættueiginleikar vopna verði í reglugerð bundnir við hreyfiorku eins og hún er tjáð með hinni alþjóðlegu einingu júl (joule) og að hinar margvíslegu tegundir skota fyrir riffla og skammbyssur, þ. e. kalíber, verði flokkuð þannig. Að því er varðar orðið loftbyssa skal þess getið að það tekur hvort sem er til loftskammbyssu eða riffils. Um skilgreiningu orðsins vopns er það að segja að hún er nokkuð þrengd frá því sem er í 1. mgr. núgildandi laga. Málsgreinin eins og hún er nú þykir vera of rúm og almennt orðuð og mætti jafnvel segja að hún uppfylli ekki þær kröfur um skýrleika sem gera verður til refsiheimilda. Hefur hún enda reynst örðug í framkvæmd.

Um 4. gr.

    Grein þessi kemur í stað 4. gr. núgildandi laga og er að nokkru leyti sama efnis. Í 2. mgr. er skerpt á skilyrðum fyrir leyfi til þess að framleiða skotvopn. Rétt þykir að setja þar ákvæði um lágmarksaldur og lágmarksmenntun framleiðanda skotvopns. Skotvopn eru hættuleg tæki og galli eða missmíð getur valdið slysi, bæði á þeim sem fer með vopnið og þeim sem nærstaddir kunna að vera. Byssusmíði er ekki löggilt iðngrein hér á landi og því farin sú leið að gera það að skilyrði fyrir leyfi að viðkomandi hafi öðlast slík starfsréttindi í einhverju af ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Þá er, í samræmi við það sem að framan segir, sett aldurslágmark fyrir leyfi til þess að framleiða skotfæri í atvinnuskyni, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Loks er þess að geta að rétt þykir að takmarka gildistíma leyfis samkvæmt þessari grein við fimm ár. Greinin skýrir sig sjálf að öðru leyti.

Um 5. gr.

    Í grein þessari er að finna ákvæði um skyldur skotvopna- og skotfæraframleiðanda og svarar hún að nokkru leyti til 5. gr. núgildandi laga. Eru þar m.a. ákvæði um merkingu skotvopna og skotfæra sem sett eru til samræmis við kröfur sem gerðar eru í 4. gr. tilskipunar Evrópusambandsins, sem fyrr var getið, um eftirlit með öflun og eign vopna er byggist á bókun Sameinuðu þjóðanna um ólöglega framleiðslu og dreifingu á skotvopnum, aukahlutum þeirra og skotfæra (e. UN Protocol on the illicit manufacturing of and trafficking in firearms, their parts and components and ammunition 55/255) og settar hafa verið til þess að hindra alþjóðlegt vopnasmygl og aðra ólöglega dreifingu skotvopna og skotfæra. Þá er í 5. mgr. ákvæði sem svarar til 9. gr. núgildandi laga.

Um 6. gr.

    Í þessari grein eru talin upp þau vopn, skotfæri og búnaður sem bannaður er á hinu borgaralega sviði. Er hér að nokkru leyti byggt á 4. mgr. 5. gr. núgildandi laga en einnig höfð hliðsjón af tilskipun nr. 91/477/EBE um eftirlit með öflun og eign vopna. Lagt er til að sjálfvirkir og hálfsjálfvirkir rifflar og skammbyssur verði áfram bönnuð vopn hér á landi en þó verði heimilt að flytja inn, versla með og fara með bönnuð vopn á grundvelli undanþágu þar um svo sem nánar verður skýrt í athugasemdum með 10., 14. og 16. gr. frumvarpsins. Undanþáguheimildirnar eru þó þrengdar frá gildandi löggjöf í ljósi þess að grunur hefur verið um meinta misnotkun á undanþáguákvæði gildandi laga og þá einkum á hálfsjálfvirkum skammbyssum til íþróttaiðkunar. Lítið hefur sést til þessara vopna í skotkeppnum og skotæfingasvæðum hér á landi. Svo virðist sem þessi skotvopn séu ekki keypt í þeim tilgangi að stunda skotfimi þrátt fyrir að leyfið fyrir skotvopninu sé fengið með vísan til skotíþrótta. Þrátt fyrir að þær þrengingar sem lagðar verða til í frumvarpi þessu gætu talist íþyngjandi fyrir fámennan hóp manna, þá verður að telja það smávægilega hagsmuni þegar litið er til almannahagsmuna. Skotvopn eru hættuleg tæki og almenningur hlýtur að mega treysta því að þau skotvopn sem almennt eru hættulegri en önnur komist ekki í hendur óvandaðra einstaklinga vegna hagsmuna fámenns hóps.

Um 7. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um leyfi til þess að framleiða skotfæri til eigin nota og svarar hún til 4. mgr. 4. gr. núgildandi laga.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði sem varða inn- og útflutning skotvopna og skotfæra í atvinnuskyni. Samsvara þau í stórum dráttum ákvæðum 4. og 5. gr. frumvarpsins að því er tekur til framleiðslu skotvopna og skotfæra. Mikilsvert er að þeir sem sinna þessum starfa séu áreiðanlegir og hafi þekkingu á vörum þessum. Þá er einnig mikilvægt að yfirvöld veiti þeim aðhald. Því eru hér m.a. sett skilyrði um skotvopnaleyfi umsækjanda og lágmarksaldur, svo og um fimm ára gildistíma starfsleyfis. Ákvæðið í 2. mgr. um samráð við utanríkisráðuneytið er í samræmi við fyrirhugaða lagasetningu um eftirlit með hlutum, tækni og þjónustu sem hefur hernaðarlega þýðingu. Í 7. mgr. er ákvæði um að leyfa megi skotfélögum, skotíþróttafélögum og skotveiðifélögum að flytja inn skotfæri til þess að selja félagsmönnum. Loks er þess að geta að 8. mgr. er að nokkru leyti sett til þess að koma til móts við tilskipun nr. 91/477/EBE um eftirlit með öflun og eign vopna.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. eru ákvæði sem vísa til bannsins um framleiðslu í 6. gr. Þó er lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu heimilt, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, að heimila innflutning þeirra vopna sem getið er í 6. gr. enda hafi þau ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs og tengsla við sögu landsins. Ljóst er að bæði skilyrðin þurfa að vera fyrir hendi, þ.e. aldur og tengsl við sögu landsins. Sambærilegt ákvæði er að finna í gildandi lögum en þar dugar að vopn hafi söfnunargildi annaðhvort vegna aldurs eða vegna tengsla við sögu landsins. Þá er lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu jafnframt heimilt, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, að heimila innflutning hálfsjálfvirkra skammbyssna og hálfsjálfvirkra riffla fyrir randkveikt skot, enda séu slík vopn sérhönnuð að gerð og þyngd og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar, svo sem nánar verður ákveðið í reglugerð. Sambærilegt ákvæði er að finna í gildandi lögum en ákvæðið er þrengt nokkuð. Undanþága fyrir skotvopn til íþróttaiðkunar er eingöngu bundin við hálfsjálfvirkar skammbyssur og hálfsjálfvirka riffla fyrir randkveikt skot en það eru litlir rifflar, 22 cal. Þá munu verða sett skilyrði í reglugerð um þyngd og gerð þessara vopna óhlaðinna og í upprunalegu ástandi. Þá verður gerður áskilnaður um íþróttaiðkun í reglugerð.
    Í 2. mgr. er nýtt efnisákvæði um það að skylt sé að setja eintaksnúmer á innflutt skotvopn sem er ónúmerað. Undanþága er þó frá þessu þegar um er að ræða skotvopn sem hefur ótvírætt söfnunar- eða fornminjagildi vegna tengsla þess við sögu landsins. Er þetta ákvæði þrengra en hliðstætt ákvæði 3. mgr. 5. gr. núgildandi laga. Sú regla að skotvopn beri eintaksnúmer er augljóslega þýðingarmikil, bæði vegna skráningar vopnsins á leyfi og til þess að rekja megi feril þess. Verður ekki séð að ástæða sé til þess að víkja frá þessu nema í algerum undantekningartilfellum. Loks er að geta þess að ákvæði 3. mgr. er sett til þess að laga reglurnar að 4. gr. tilskipunar nr. 91/477/EBE um eftirlit með öflun og eign vopna.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er ákvæði sem að nokkru leyti kemur í stað 2. mgr. 5. gr. núgildandi laga um varanlegan innflutning til eigin nota. Þá er þar sett ákvæði um varanlegan útflutning vopns sem skráð er hér á landi og svarar til 1. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Loks er að nefna ákvæði í 2. mgr. um tímabundinn útflutning skotvopns, sem er nýmæli, en þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 12. gr.

    Grein þessi gefur ekki tilefni til athugasemda umfram það að gert er ráð fyrir því að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um tímabundinn út- og innflutning skotvopna samkvæmt Evróputilskipun um evrópsk skotvopnaskírteini sem gildi þá við hlið ákvæðisins í 2. mgr. 11. gr.

Um 13.–15. gr.

    Hér er skipað ákvæðum um verslun og útleigu sem eru hliðstæð ákvæðunum um innflutning. Þarfnast þau ekki sérstakra skýringa. Þó er rétt að geta um tvennt. Skv. 1. mgr. 14. gr. getur lögreglustjóri heimilað verslun með vopn sem flutt hafa verið inn samkvæmt undanþáguheimild sem lögð er til 1. mgr. 10. gr. Þannig geta þessi vopn gengið kaupum og sölum innan lands með leyfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þó svo að meiri takmarkanir séu á sölu þessara skotvopna en hefðbundinna skotvopna sem leyfð eru samkvæmt frumvarpinu. Þannig verður hálfsjálfvirk skammbyssa sem leyfi er veitt fyrir vegna íþróttaiðkunar ekki seld einstaklingi nema hann uppfylli sömu skilyrði og kaupandinn og ástundi skotfimi. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 10. gr. Þá er rétt að geta þess að ákvæði 9. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 14. gr. eru að nokkru leyti sett til að aðlaga íslenskan rétt að kröfum tilskipunar nr. 91/477/EBE um eftirlit með öflun og eign vopna. Þá hefur verið höfð hliðsjón af reglum vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins en ýmsum íslenskum lögum var breytt með lögum nr. 77/2011, þar á meðal gildandi vopnalögum.

Um 16. gr.

    Greinin samsvarar efnislega 12. gr. gildandi laga að því undanskildu að höfð er hliðsjón af reglum vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Skv. 1. mgr. má enginn eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Með útgefnu skotvopnaleyfi er leyfishafi eingöngu að afla sér heimildar til að nota skotvopn en ekki er skilyrði að hann eigi skotvopn. Í athugasemdum með frumvarpi er varð að gildandi vopnalögum kemur fram að þetta fyrirkomulag ætti að draga úr skotvopnaeign einstaklinga og líklega stuðla að því að einstaklingar fái lánuð eða leigð skotvopn í þau fáu skipti sem vopn eru notuð. Reyndin hefur verið sú að ekki hefur dregið úr skotvopnaeign einstaklinga hér á landi. Þó getur ákvæði sem þetta komið til móts við einstaklinga sem hafa áhuga á skotvopnum en hafa hvort aðstöðu né fjármagn til að eiga skotvopn. Til samræmis við undanþáguákvæði 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 14. gr. getur lögreglustjóri heimilað meðferð þeirra vopna sem flutt hafa verið inn samkvæmt undanþágureglu 1. mgr. 10. gr. og seld samkvæmt undanþágureglu 1. mgr. 14. gr. Það liggur í hlutarins eðli að sá sem kaupir skotvopn á undanþágu hefur sjálfkrafa leyfi til að nota það. Hins vegar eru takmarkanir á notkun þessara vopna. Þannig takmarkast notkun safnvopna við 3. mgr. 19. gr. og ákvæði reglugerða og notkun skotvopna sem fengin eru með undanþágu til iðkunar skotíþrótta takmarkast við þá iðkun. Þannig verður að telja það ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir leyfi fyrir skotvopni sem fæst samkvæmt undanþágu til íþróttaiðkunar að leyfishafi sé virkur í skotfimi. Sé viðkomandi ekki virkur í skotfimi eru nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu ekki fyrir hendi. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Þessi grein kemur í stað 13. gr. núgildandi laga. Eins og vikið var að í inngangi hefur verið valin sú leið hér að heimila almennt alla lögmæta meðferð skotvopna í samræmi við almennu lögmætisregluna og kemur þetta skýrt fram í 1. mgr. þessarar frumvarpsgreinar. Í 13. gr. gildandi laga, sem vísar jafnframt til 14., 15. og 17. gr. gildandi laga, er notkun skotvopna talsverðum takmörkum háð. Ekki verður séð að skynsamleg ástæða sé til þess að takmarka notkun skotvopna eins og þar er gert. Hefur það enda valdið núningi og ýmsum ástæðulausum vandkvæðum án þess að séð verði að það skili nokkrum ávinningi fyrir borgarana. Þrátt fyrir þá breytingu sem hér er lögð til þykir þó rétt að gera ráð fyrir því að umsækjandi um skotvopnaleyfi geri grein fyrir því til hvers hann ætli að nota skotvopn.
    Skilyrði þess að fá skotvopnaleyfi eru í meginatriðum þau sömu og í 13. gr. gildandi laga. Þó eru hér sett ný skilyrði sem telja verður þýðingarmikil. Skilyrði um reglusemi er í löggjöf nokkurra nágrannaríkja og verður að telja bæði eðlilegt og sanngjarnt. Óregla og skotvopnaleyfi geta ekki með nokkru móti farið saman. Óregla er hér hvers konar ofneysla áfengis eða annarra vímuefna. Óreglu má staðreyna með ýmsum hætti, svo sem lögregluskýrslum, læknisvottorðum og öðrum sönnunargögnum. Þá er það nýmæli að gert er ráð fyrir því að umsækjandi samþykki að lögreglustjóri kanni hvort hann standist skilyrðin um andlega heilbrigði, reglusemi og almennt hæfi. Ekki getur þetta skilyrði talist vera íþyngjandi fyrir umsækjandann þegar litið er til þess að skotvopn eru hættuleg tæki og almenningur hlýtur að mega treysta því að óhæfir einstaklingar fái ekki skotvopnaleyfi. Þá verður að hafa í huga að synjun lögreglustjóra á þessari forsendu er vitaskuld kæranleg eftir reglum stjórnsýslulaga. Gert er ráð fyrir því að lögreglustjóri geti kannað þessi atriði eftir hvers konar lögmætum leiðum. Loks er það nýmæli að umsækjandi um skotvopnaleyfi megi ekki vera meðlimur eða í nánum tengslum við samtök sem teljast til skipulagðra brotasamtaka. Með skipulögðum brotasamtökum er átt við félagsskap þriggja eða fleiri manna sem hefur það að meginmarkmiði, beint eða óbeint í ávinningsskyni, að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varðar að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi, eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felst í því að fremja slíkan verknað. Fyrir liggur að hópar afbrotamanna hafa á síðustu misserum lagt áherslu á að komast yfir vopn. Lögreglan hefur upplýsingar að skammbyssum hafi verið smyglað inn í landið og þá hefur umsóknum um innflutning á skammbyssum fjölgað nokkuð frá árinu 2008. Því er það mat lögreglunnar að tryggja þurfi örugga vörslu og meðhöndlun þessara vopna. Þessa þróun má að einhverju leyti rekja til tilkomu erlendra glæpahópa hingað til lands og því er ástæða til að óttast aukna vopnaeign og vopnaburð. Tengsl manna við skipulagða brotastarfsemi má kanna með ýmsum hætti, t.d. í málaskrá lögreglunnar. Þannig verður að gjalda varhug við því að veita einstaklingi skotvopnaleyfi hafi hann t.d. oft komið við sögu lögreglunnar í tengslum við félaga sem sannanlega eru aðilar að skipulagðri brotastarfsemi.
    Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. núgildandi laga má lögreglustjóri veita undanþágu frá sakaferilsskilyrði b-liðar, enda sé um smávægilegt brot að ræða eða langt um liðið frá broti. Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er gert ráð fyrir sams konar heimild.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að menn sem eru heimilisfastir erlendis geti áfram fengið tímabundna undanþágu frá búsetuskilyrði eins og gert er í 4. mgr. 13. gr. núgildandi vopnalaga. Ákvæðið er ítarlegra en núgildandi ákvæði og þar er enn fremur höfð hliðsjón af 7. gr. tilskipunar nr. 91/477/EBE um eftirlit með öflun og eign vopna.
    Til álita kom við frumvarpssmíðina að lækka almennt aldursskilyrði skotvopnaleyfis í 18 ár og hefði það þá verið til samræmis við það sem tíðkast í vopnalöggjöf sumra annarra ríkja og við lögræðis- og kosningaaldur hér á landi. Frá því var þó horfið og ákveðið að leggja til að þessu aldursmarki verði haldið. Óneitanlega er nokkur þroskamunur á þeim sem eru 18 ára og þeim sem eru 20 ára og skotvopn eru hættuleg, eins og áður hefur verið tekið fram. Aftur á móti er í 4. mgr. gert ráð fyrir því að víkja megi frá þessu aldursmarki með ströngum skilyrðum. Helgast þetta af því að til þess að ná góðum árangri í skotíþróttum, eins og öðrum íþróttum, er nauðsynlegt að hefja æfingar mun fyrr en við 20 ára aldur. Því er lagt til að þeir sem orðnir eru 15 ára geti fengið takmarkað skotvopnaleyfi eins og nánar er útlistað í málsgreininni. Skilyrðin eru hér þröng og leggja strangar kvaðir á forráðamann leyfishafa eða þess skotfélags, skotíþróttafélags eða skotveiðifélags sem í hlut á. Verður ekki séð að þessi tilhögun eigi að skapa hættu á misnotkun umfram það sem felst í því að veita almennt skotvopnaleyfi. Þá verður að hafa það í huga að skotíþróttir njóta alþjóðlegrar viðurkenningar og eru meðal ólympískra greina.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir því að sá sem uppfyllir almenna aldursskilyrðið í 1. mgr. geti einnig fengið takmarkað skotvopnaleyfi skv. 6. mgr. Þetta getur reyndar ekki talist koma til móts við brýna þörf en allt að einu þótti rétt að gera ráð fyrir þessum möguleika.
    Í 6. mgr. er gert ráð fyrir því að forráðamaður eða nákominn venslamaður geti leyft þeim sem yngri er en 20 ára að nota skotvopn með þeim ströngu skilyrðum sem þar greinir. Þetta er í samræmi við það sem ávallt hefur viðgengist og hefur verið látið óátalið. Rétt þykir að festa þetta í lögum, enda verður ekki séð að þetta valdi hættu á misnotkun. Náinn ættingi eða venslamaður telst hér vera foreldri, stjúpforeldri, afi eða amma, systkini og stjúpsystkini, mágur og mágkona.
    Í 7. mgr. er gert ráð fyrir því að maður geti fengið lánað skotvopn hjá skotíþrótta- eða skotveiðifélagi til þess að æfa með því á svæði félagsins án þess að hann þurfi að fá útgefið skotvopnaleyfi. Er þetta ákvæði sett til þess að koma til móts við þörf þeirra sem kynnu að vilja láta reyna á það hvort það henti þeim að leggja stund á skotfimi án þess að þeir þurfi fyrst að afla sér skotvopnaleyfis.

Um 18. gr.

    Þessi grein samsvarar 14. gr. núgildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.

    Í 1. mgr. er sett ákvæði um hámarksfjölda skotvopna í eigu einstaklinga eða safna. Slíkt ákvæði hefur ekki verið í lögum hér á landi. Allmörg dæmi eru um það að menn eigi fleiri en 20 skotvopn. Ætla má að mörgum mundi reynast örðugt að varðveita fleiri skotvopn en 20 á þann tryggilega hátt sem áskilinn er í 27. gr. frumvarpsins og ekki verður við það unað að einstaklingar komi sér upp vopnabúrum. Jafnframt er gengið út frá því að þetta hámark komi til móts við þarfir og smekk sem flestra. Gert er ráð fyrir því að frá þessu takmarki megi víkja ef alveg sérstaklega stendur á vegna söfnunargildis vopns. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 20. gr.

    1. mgr. samsvarar 16. gr. núgildandi laga og 2. mgr. svarar til 25. gr. þeirra. Í 3. mgr. er nýmæli þar sem gert er ráð fyrir því að gera megi skotvopn varanlega óvirkt og telst það þá ekki lengur skotvopn, sbr. j-lið 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.

    Greinin samsvarar 1. mgr. 17. gr. núgildandi laga, en 2. og 3. mgr. samsvara 8. gr. núgildandi reglugerðar um skotvopn, skotfæri o. fl. Rétt þykir að ákvæði af þessu tagi séu í lögum fremur en í reglugerð.

Um 22. gr.

    1. mgr. greinarinnar svarar til 18. gr. núgildandi laga en er mun ítarlegri og uppfyllir hún kröfur tilskipunar nr. 91/477/EBE um eftirlit með öflun og eign vopna. Gert er ráð fyrir því að ríkislögreglustjóri haldi skrána en í 2. mgr. er heimild fyrir ráðherra til að fela tilteknum lögreglustjóra, hvort sem er ríkislögreglustjóra eða einhverjum staðbundnum lögreglustjóra, að færa skrána. Mikið veltur á því að skráin sé færð á samræmdan hátt og því er þetta úrræði haft hér. Loks er hér nýmæli í 3. mgr. um það að skráin skuli tengd þjóðskrá og þarfnast það ekki skýringa. Ákvæði 4. mgr., sem er einnig nýmæli, helgast af úrræðum sem mælt er fyrir um í 41. og 43. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.

    Ákvæði 1. mgr. samsvarar 1. mgr. 19. gr. núgildandi laga. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að skotvopn sem bannað er en löglegt hefur verið hér á landi samkvæmt eldri lögum gangi ekki kaupum og sölum innan lands. Þar á móti er gert ráð fyrir því að eigandinn geti selt það úr landi með leyfi lögreglustjóra. Loks er þess að geta að 3. mgr. samsvarar 2. mgr. 19. gr. núgildandi laga og þarfnast ekki skýringar.
    Í 4. mgr. er ákvæði sem er samsvarandi 1. mgr. 38. gr. núgildandi vopnalaga en hér er þó miðað við að breytingin þurfi að hafa umtalsverð áhrif á stærð, verkan eða skilgreiningu skotvopnsins eða breyti því þannig að máli skipti fyrir 3. gr. frumvarpsins og nánari flokkun vegna skotvopnaleyfis í reglugerð. Þá er þess að geta að það að taka skiptihlaup af skotvopni eða setja slíkt hlaup á það telst ekki vera breyting í skilningi þessa ákvæðis.
    Lagt er til að hljóðdeyfar verði áfram bannaðir nema með leyfi lögreglustjóra fyrir stærri riffla sem nota miðkveikt skot. Þannig er komið til móts við skotáhugamenn að einhverju leyti til að vernda heyrn notandans að einhverju marki. Að því leyti sem það samrýmist friðunar- og veiðilöggjöfinni geti lögreglustjóri veitt undanþágu frá banninu til þeirra sem nota skotvopn atvinnu sinnar vegna, svo sem við eyðingu vargs og meindýra í þéttbýli.
    Þá er það nýmæli að óheimilt verður að nota hljóðdeyfi ef skot hefur verið hlaðið niður þannig að hraði þess fari undir hljóðhraða. Hægt er að gera stóra riffla nánast hljóðlausa með góðum hljóðdeyfi ef skot hefur verið hlaðið niður. Því er nauðsynlegt að setja hömlur á þetta þrátt fyrir að riffillinn verði hálfmáttlaus fyrir vikið og mikla kunnáttu þurfi til verka.

Um 24. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 20. gr. núgildandi laga. Hér hefur þó verið valið að nota orðið skotvopnaskírteini enda er rétt að gera mun á leyfinu sjálfu og skilríkjum leyfishafans fyrir því.

Um 25. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 21. gr. núgildandi laga. Þó er gert ráð fyrir því að ráðherra geti veitt undanþágu frá banni við því að bera vopn innanklæða ef alveg sérstaklega stendur á. Undanþáguákvæðið í 6. mgr. er að mestu orðalagsbreyting frá því sem er í 4. mgr. 21. gr. vopnalaga.

Um 26. gr.

    Greinin tekur eingöngu til skotfæra. Hér það nýmæli að gert er ráð fyrir því að lögreglustjóri geti heimilað manni að safna skotfærum fyrir önnur vopn en þau sem hann hefur leyfi fyrir. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 27. gr.

    Grein þessi er samhljóða 23. gr. núgildandi laga. Afar mikilsvert er að skotvopn og skotfæri séu tryggilega varðveitt. Því er lögreglustjóra í 3. mgr. veitt heimild til þess að kanna, hvenær sem hann telur þörf á, hvort skotvopn og skotfæri eru geymd í samræmi við ákvæði greinarinnar. Gert er ráð fyrir því að í reglugerð verði gerðar strangar kröfur um geymslu skotvopna og skotfæra.

Um 28. gr.

    Greinin er samhljóða 24. gr. núgildandi laga.

Um 29. gr.

    Hér eru teknar saman í eina grein heimildir ráðherra til þess að setja nánari ákvæði um meðferð skotvopna og skotfæra. Þykir greinin skýra sig sjálf.

Um 30. gr.

    Greinin er nýmæli að því leyti til að ekki eru ákvæði í núgildandi vopnalögum um framleiðslu sprengiefnis. Brýnt er að lög taki til framleiðslu sprengiefnis og því er hér gerð tillaga um að úr verði bætt. Þrjár fyrstu málsgreinarnar geyma ákvæði sem svara til 4., 5., 9. og 13. gr. frumvarpsins að því er varðar skotvopn og skotfæri og þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að lagt er til að sama gildi um sprengiefni og íblöndunarefni í sprengju. Sérstaklega er verið að tryggja lögreglunni aðgang að upplýsingum um kaup á áburði en áburður (ammoníum nítrat) er aðaluppistaðan í tilteknu sprengiefni. Sprengiefnið sem um ræðir hefur oft verið notað við hryðjuverk, t.d. í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar.
    Í 4. mgr. er lögð sú skylda á þann sem framleiðir, flytur inn eða verslar með sprengiefni eða íblöndunarefni að tilkynna lögreglu um magnkaup á þessum efnum.
    Í 5. mgr. er ákvæði um merkingar á umbúðum til þess að koma til móts við reglur Evrópska efnahagssvæðisins, einkum tilskipun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2008/43 frá 4. apríl 2008.

Um 31.–32. gr.

    Greinar þessar eru að mestu samhljóða 26. og 27. gr. núgildandi laga. Rétt þykir að bæta við ákvæði sem svarar til 3. mgr. 25. gr. frumvarpsins um þá sem eru undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Þá er komið til móts við reglur um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Loks þarf sprengiefnageymsla að vera samþykkt af Mannvirkjastofnun.


Um 33. gr.

    Í núgildandi vopnalögum er ekki ákvæði um skilyrði fyrir því að maður fái sprengiefnaleyfi af nokkru tagi. Aftur á móti eru reglur um þetta í 30. gr. núgildandi reglugerðar um sprengiefni. Nauðsynlegt er að þessu verði skipað með lögum, enda er hér um að ræða atvinnuréttindi annars vegar en hins vegar atriði sem skipta miklu máli fyrir heill almennings. Hefur hér og verið hert nokkuð á þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerðinni. Þykir rétt að gera ekki minni kröfur til þeirra sem sækja um sprengiefnaleyfi en þeirra sem sækja um skotvopnaleyfi. Þá hefur auk þess verið sett 25 ára aldursskilyrði. Loks er í 2. mgr. gert ráð fyrir því að slík réttindi gildi ekki lengur en í fimm ár.

Um 34. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa en hér er gert ráð fyrir heimild ráðherra til þess að setja reglur um merkingar á sprengiefni og skráningu þess í samræmi við 5. mgr. 30. gr. frumvarpsins.

Um 35. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 29. gr. núgildandi laga.

Um 36.–37. gr.

    Ákvæðin koma í stað VI. kafla núgildandi laga og eru verulega aukin frá þeim sem þar eru. Bæði eru hér tekin upp ýmis efnisákvæði sem nú eru í reglugerð um skotelda og kaflinn jafnframt að nokkru leyti sniðinn eftir frumvarpskaflanum um sprengiefni. Nauðsynlegt er að mun ítarlegri ákvæði um skotelda verði lögfest en nú eru í lögum, enda geta reglur á þessu sviði varðað verulega fjárhagslega hagsmuni annars vegar og einnig er hins að gæta að öll meðferð skotelda í umtalsverðu magni getur varðað almannaheill. Hafa hér verið sett allströng skilyrði fyrir leyfi til þess að flytja inn og versla með skotelda, þar á meðal áskilnaður um 25 ára aldurslágmark. Einstakar greinar þarfnast annars ekki sérstakra skýringa en þó skal þess getið að gert er ráð fyrir því að aldurslágmark þeirra sem með skotelda fara verði bundið við gerð skoteldanna og ákveðið í reglugerð.

Um 38.–39. gr.

    Í ákvæðunum er lögð sú skylda á framleiðendur skotelda að þeir samrýmist þeim öryggiskröfum, m.a. um CE-samræmismerkingu, sem útfærðar verða nánar í reglugerð. Þá er innflytjandi ábyrgur fyrir því að skoteldarnir uppfylli þessar kröfur ef framleiðandi er utan Evrópska efnahagssvæðisins. Eru ákvæðin til þess fallið að tryggja betur neytendavernd og auka öryggi skotelda.
    Lagt er til að gerðarviðurkenning fari fram hjá tilkynntum aðila sem hefur rétt til að veita slíka viðurkenningu á grundvelli tilskipana, laga og reglna sem um þær gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Miklar skyldur eru lagðar á þann aðila sem framkvæmir gerðarviðurkenningu á skoteldum og ábyrgð er mikil. Engin framleiðsla er á skoteldum hér á landi eins og staðan er nú en þeim mun meira flutt inn af skoteldum, aðallega frá aðilum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Lagt er til að Neytendastofa fari með markaðseftirlit með skoteldum. Neytendastofa vinnur nú þegar að flestum þeim markaðseftirlitsverkefnum sem kveðið er á um í tilskipunum sem í gildi eru í Evrópusambandinu og teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Eðlilegt er að nýta sérhæfingu stofunnar að þessu leyti og mundi markaðseftirlit með skoteldum geta fallið vel að kjarnastarfsemi Neytendastofu á sviði markaðseftirlits og öryggi vöru.
    Við samningu ákvæðanna var höfð hliðsjón af tilskipun nr. 2007/23/EB um að setja á markað flugeldavörur en tilskipunin hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 40. gr.

    Vopnaburður á almannafæri hefur færst í vöxt á undanförnum áratugum og hafa margir hörmulegir atburðir hlotist af því, eins og alkunna er. Nauðsynlegt er að setja þessu skorður í lögum. Þýðingarmesta ákvæði frumvarpsgreinarinnar er 1. mgr. en hún er í meginatriðum samhljóða 1. mgr. 30 gr. núgildandi laga.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að leyfi lögreglustjóra þurfi fyrir lásboga með 7 kg togkrafti eða meiri togkrafti, sverði og boltum í lásboga. Almennir bogar verða undanskildir ákvæðum um innflutning o.fl. en ráðherra mun setja um þá reglur. Slíkt mun tíðkast í nágrannaríkjum Íslands og þrátt fyrir að bogar geti verið afar öflug og langdræg vopn hafa ekki skapast vandræði hérlendis eða erlendis vegna þeirra. Um sverð er það að segja að þau eru bönnuð skv. d-lið 2. mgr. 30. gr. núgildandi laga ef þau eru sambland högg- og bitvopna. Sverð er vitaskuld hættulegt vopn en á móti kemur að það er ómeðfærilegt og torvelt er að bera það á sér óséð. Er því gert ráð fyrir því að sverð, eins og það er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins, verði leyfisskylt og að skilyrði fyrir slíku leyfi séu sambærileg við þau sem sett eru fyrir skotvopnaleyfi.
    Í 4. mgr. eru talin upp þau vopn sem ástæða er talin til þess að banna og svarar málsgreinin til 2. mgr. 30. gr. núgildandi laga. Skv. a-lið 2. mgr. 30. gr. núgildandi vopnalaga eru bitvopn með lengra blaði en 12 cm bönnuð, enda séu þau ekki ætluð til notkunar við heimilishald eða atvinnu. Ákvæði um bann við tilteknum tegundum bitvopna geta orkað tvímælis, enda er óhætt að segja að margvísleg áhöld sem tiltæk eru á heimilum og vinnustöðum séu ekki síður handhæg og hættuleg en þau sem nú eru bönnuð. Verður ekki séð að það hafi neina þýðingu að banna vopn sem eru ekki beinlínis heimilisáhöld eða verkfæri en eru þó ekki hættulegri en slík áhöld. Nauðsynlegt er að hafa í huga að tilgangslaus og óljós lagaákvæði eru til þess fallin að draga úr virðingu manna fyrir lögunum. Er því ekki talin ástæða til þess að halda þessu ákvæði í lögum. Í b-lið 2. mgr. 30. gr. núgildandi vopnalaga er lagt bann við þessum vopnum: fjaðrahnífum, fjaðrarýtingum, fallhnífum, fallrýtingum, stunguvopnum eða öðrum slíkum vopnum. Þykir rétt að hafa þessi vopn bönnuð áfram en þó er lagt til að orðin „stunguvopn og önnur slík vopn“ falli niður. Ekki er með góðu móti hægt að sjá hvaða vopn er hér átt við og gera verður þær kröfur til refsiheimilda að þær séu skýrar. Í c-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga er lagt bann við höggvopnum af tiltekinni gerð. Heppilegra þykir að kalla þessi vopn barefli enda hefur orðið höggvopn almennt aðra merkingu en það virðist hafa í þessu ákvæði. Lagt er til að bann við kylfum sem ekki eru ætlaðar til íþróttaiðkunar eða öðrum slíkum vopnum falli niður. Með vísan til þess sem segir hér að framan um bitvopnin í 2. mgr. 30. gr. laganna verður ekki séð að raunhæft sé að banna slík barefli og núgildandi ákvæði um „önnur slík vopn“ er óskýrt. Um rafmagnsvopn vísast til þess sem segir hér á eftir um 6. mgr. þessarar frumvarpsgreinar. Þá er gert ráð fyrir því að kasthnífar og kaststjörnur verði áfram bönnuð vopn. Rétt þykir með vísan til þess sem sagði hér að framan að ákvæðið um „önnur slík vopn“ í e-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga falli brott. Þá er lagt til að slöngubyssur verði áfram bönnuð vopn.
    Ákvæði 5. mgr. frumvarpsgreinarinnar svarar til 3. mgr. 30. gr. núgildandi laga.
    Loks er í 6. mgr. ákvæði sem svarar til 4. mgr. 30. gr. núgildandi laga. Málsgreinin tekur þó til fleiri aðila en lögreglu og er það til samræmis við 1. mgr. 2. gr. laganna og jafnframt er höfð hliðsjón af nýjum búnaði sem yfirvöld nota.

Um 41. gr.

    Ákvæði 1. mgr. kemur í stað 1. mgr. 34. gr. núgildandi laga og er að mestu samhljóða. Þó ber að geta þess að samkvæmt þessu ákvæði frumvarpsins er lögreglustjóra ekki einungis heimilt heldur skylt að afturkalla leyfi samkvæmt lögunum ef nauðsynleg skilyrði fyrir því eru ekki lengur uppfyllt. Lögreglustjóra ber skv. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins að hafa eftirlit með því að leyfishafar uppfylli leyfisskilyrði, enda hefur hann til þess ýmis úrræði. Um óreglusemi, sem er ástæða leyfissviptingar og er nýmæli hér, er vísað til athugasemda við 17. gr. frumvarpsins. Þá er lögreglustjóra heimilt til bráðabirgða að afturkalla leyfi án fyrirvara ef brýna nauðsyn ber til og leggja jafnframt hald á vopn, efni og tæki.
    Önnur ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá því sem nú er í 34. gr. vopnalaga.

Um 42. gr.

    Frumvarpsgreinin er efnislega samhljóða 35. gr. núgildandi vopnalaga.

Um 43. gr.

    Ákvæði 1. mgr. samsvarar 36. gr. núgildandi laga. Sú breyting er þó gerð á henni að refsimörk ákvæðisins eru hækkuð í átta ár þegar um stórfelld brot er að ræða. Brot sem varða skotvopn, sprengiefni eða skotelda geta varðað mikla hagsmuni og margra. Rétt þykir að þyngja refsingar fyrir stórfelld brot. Skilgreiningin á stórfelldu broti í greininni er ekki tæmandi heldur einungis sett hér til leiðbeiningar.
    Í 2. mgr. er það nýmæli að brot lögaðila gegn lögunum geti varðað ábyrgð samkvæmt reglum II. kafla A í almennum hegningarlögum. Ætla má að helst reyni á þetta ákvæði í sambandi við framleiðslu og meðferð sprengiefnis og skotelda en refsing getur hér ekki farið fram úr fésekt.
    Ákvæði 3. mgr. er samhljóða 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga.

Um 44. gr.

    Frumvarpsgreinin er nýmæli. Í skotvopna- og vopnalögum hefur til þessa skort ákvæði um réttindasviptingu sem viðurlög við broti. Hér er gerð tillaga um að úr því verði bætt, enda verður að telja að þörf sé á slíkum ákvæðum. Auk sviptingar réttinda sem veitast samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er einnig gert ráð fyrir því í 2. mgr. að svipta megi mann heimild til þess að eiga, fara með og nota hluti þá sem greinir í 3. mgr. 2. gr. Fordæmi eru fyrir því í íslenskum lögum að svipta megi menn réttindum sem ekki eru veitt formlega. Má þar nefna t.d. rétt til þess að öðlast ökuréttindi eða rétt til þess að hafa umráð yfir dýrum. Þá er ekki unnt að líta fram hjá því að þótt þessir hlutir séu ekki leyfisskyldir geta þeir verið hættulegir ef ekki er rétt með þá farið. Ákvæði 3. mgr. helgast af því að það er hvorki óhætt né viðurkvæmilegt að sá sem dæmdur hefur verið fyrir verulegt ofbeldisbrot, fíkniefnabrot eða fyrir almannahættubrot fái að hafa áfram leyfi sem hér um ræðir.

Um 45. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er að mestu leyti efnislega samhljóða 1. mgr. 37. gr. gildandi laga og þarfnast ekki sérstakra skýringa að öðru leyti en því að ekki verður gert skylt að gera upptæk skotvopn hjá þeim sem ekki hefur endurnýjað skotvopnaleyfi sitt.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. svarar til 2. mgr. 37. gr. gildandi laga en er nú skipað í tvær málsgreinar til glöggvunar. Hér er það sem upptækt má gera tilgreint ítarlegar en í lagaákvæðinu þannig að ekkert af því sem lögin eða reglurnar taka til er undanskilið.
    Ákvæði 4. og 5. mgr. eru samhljóða 3. og 4. mgr. 37. gr. núgildandi laga.

Um 46. gr.

    Grein þessi hefur að geyma nýmæli. Gert er ráð fyrir því í 1. mgr. að menn geti skilað inn leyfislausum og bönnuðum hlutum sér að refsilausu. Er þetta ákvæði í samræmi við það sem þekkist í löggjöf á Norðurlöndum og víðar og helgast vitaskuld af því að mikilsvert er að ná til allra slíkra hluta sem í umferð kunna að vera. Ákvæði 2. mgr. er ætlað að hvetja menn enn frekar til þess að skila inn skotvopnum og skotfærum sem ekki er leyfi fyrir.

Um 47.–50. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki frekari skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í 1. mgr. er skotvopnaeigendum veitt svigrúm til að aðlagast nýjum reglum um geymslu skotvopna og skotfæra og er miðað við tveggja ára frest frá því að reglugerð tekur gildi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild manna til að eiga og fara með vopn sem leyfileg voru samkvæmt eldri löggjöf en verða bönnuð samkvæmt frumvarpinu.
    Í 3. mgr. er þess getið að þeir sem hafi leyfi samkvæmt eldri lögum haldi leyfinu en verði að uppfylla skilyrði laganna sem gerð eru til leyfisveitinga þegar leyfi er endurnýjað. Þannig þarf einstaklingur sem hefur skotvopnaleyfi samkvæmt gildandi lögum að uppfylla skilyrði 17. gr. frumvarpsins þegar skotvopnaleyfið er endurnýjað.
    Í 4. mgr. er innflytjendum og dreifingaraðilum veitt svigrúm til að laga sig að breyttum kröfum um CE-samræmismerkingar skotelda til 1. janúar 2014. Eftir 1. janúar 2014 skulu allir skoteldar vera CE-merktir hér á landi. Reglur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB um að setja á markað flugeldavörur tóku gildi í júlí 2010 að því er varðar skotelda í flokki I–III en munu taka gildi í júlí 2013 hvað varðar skotelda í flokki IV. Eðlilegt er og sanngjarnt að veita innflytjendum hér á landi svigrúm til ársins 2014 til að bregðast við þessari breytingu, þrátt fyrir ákvæði tilskipunarinnar, svo þeim verði gert mögulegt að losa sig við óseldar birgðir og finna framleiðanda sem framleiðir CE-merkta skotelda. Þannig má benda á þessu til stuðnings að Evrópusambandið veitti löndum sambandsins 3–5 ár til að laga sig að tilskipuninni. Flestir þeir skoteldar sem fluttir eru inn til Íslands eru framleiddir í Kína. Sömu framleiðendur framleiða einnig fyrir stóra innflytjendur víðs vegar í Evrópu og því er það kappsmál hjá þeim að uppfylla skilyrðið um CE-samræmismerkinguna. Þess má geta að samkvæmt úrtakskönnun Neytendastofu í Danmörku uppfylltu 27 eintök af 56 skoteldum ekki kröfur um CE-samræmismerkinguna.
    Engir skoteldar eru framleiddir hér á landi eins og er. Gera verður þá kröfu til lögaðila sem hefur framleiðslu á skoteldum hér á landi að hann uppfylli strax skilyrði laganna og því er tekið fram í 5. mgr. að undanþága 4. mgr. gildi ekki um þá skotelda. Þeir verða því að vera CE-merktir og uppfylla skilyrði laganna í hvívetna.
    Þrátt fyrir að heimilt verði að flytja inn og selja skotelda sem ekki eru CE-merktir fram til 1. janúar 2014 er ekki heimilt að flytja þá aftur úr landi til annarra landa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ákvæðið skýrir sig sjálft.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um vopn, sprengiefni og skotelda.


    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi vopnalögum, nr. 16/1998. Á þeim 12 árum sem núverandi löggjöf hefur verið í gildi hefur reynt á ýmis atriði við túlkun laganna, tækni hefur fleygt fram og þjóðfélagið tekið breytingum. Jafnframt hefur alþjóðlegt samstarf á þessu sviði aukist. Frumvarpið er mun ítarlegra en gildandi löggjöf, til glöggvunar er skilið á milli efnisflokka að því er varðar framleiðslu, innflutning, verslun og meðferð. Þá eru ítarlegri ákvæði um afturköllun leyfa, viðurlög o.fl. Með frumvarpinu eru innleiddar tvær Evróputilskipanir sem teknar hafa verið upp í samning um Evrópska efnahagssvæðið.
    Verði frumvarpið að lögum mun þurfa að gera smávægilegar breytingar á tölvukerfi lögreglunnar vegna skotvopnaskrár, sem áætlað er að geti numið allt að 2 m.kr. og verði fjármagnað af fjárheimildum innanríkisráðuneytis fyrir viðhald og þróun á tölvukerfum lögregluembætta. Þá mun Neytendastofa taka að sér markaðseftirlit með skoteldum sem kann að verða lítið eitt meira en það sem nú fer fram eða sem svari til allt að þriggja mannmánaða í vinnu á ári. Er því ekki talið að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs og að sá kostnaður rúmist innan núverandi fjárheimilda hlutaðeigandi stofnana.