Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 342. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 389  —  342. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins.

Flm.: Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Gunnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Vigdís Hauksdóttir.

    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að láta gera ítarlega úttekt á áhrifum Schengen- samstarfsins á íslenskt þjóðfélag. Í úttektinni fælist m.a. að kanna skyldur Íslendinga og réttindi, kostnað við samstarfið, mannafla og tekjur af því.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 139. og 140. löggjafarþingi.
    Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu hefur haft margvísleg áhrif á íslenskt samfélag, bæði jákvæð og neikvæð. Það fer ekki á milli mála að margir landsmenn óttast að neikvæðu áhrifin séu of mikil, opnunin óæskileg og kostnaðurinn mun meiri en tekjurnar. Minna má á að aðalkosturinn, sem kynntur var af stjórnvöldum á sínum tíma í aðdraganda samstarfsins, var sá að Íslendingar þyrftu ekki á vegabréfum að halda í ferðalögum milli Schengen-landa. Sá kostur vegur ekki þungt miðað við ýmislegt annað sem fylgir ferðamáta á Schengen-svæðum. Innanríkisáðuneytið hefur af og til svarað spurningum alþingismanna um einhver atriði þess sem hér er rætt um, en mikilvægt er að vinnuhópur, sem samanstæði af embættismönnum, talsmönnum í atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni, legði hönd á plóginn til þess að kryfja þetta mál til mergjar. Embættismannaskýrsla er ekki nóg til þess að eyða öllum vafa.