Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 92. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 462  —  92. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla
í greiðslukerfum (greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Hjálmar Brynjólfsson frá Fjármálaeftirlitinu, Guðmund Kr. Tómasson frá Seðlabanka Íslands, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Seðlabanka Íslands.
    Frumvarpið er samið í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, nú atvinnuvega- og viðskiptaráðuneyti, með aðstoð nefndar sem í sátu fulltrúar Samtaka fjármálafyrirtækja, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Eru þar lagðar til breytingar á ákvæðum laga um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum með það að markmiði að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB er breyttu tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/ 26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf. Tilgangur laganna er að tryggja heildstæða réttarvernd fyrir notendur gegn kerfisáhættu með því að koma í veg fyrir að riftunarreglum laga um gjaldþrotaskipti verði beitt við uppgjör. Til að kerfi njóti slíks réttarfarshagræðis þurfa þau að fullnægja ákvæðum laganna að mati Seðlabanka Íslands, sbr. athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins.
    Í II. kafla athugasemda frumvarpsins er vísað til þess að í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 27. mars 2006 hafi ekki komið í ljós neinir marktækir erfiðleikar við framkvæmd tilskipunar 98/26/EB en þó sé rétt að útskýra og skilgreina betur ýmis atriði sem þóttu óljós, skerpa á lagaskilareglum og laga tilskipunina að öðru leyti að breyttum aðstæðum á fjármálamarkaði. Verður að skilja framlagningu frumvarpsins í því ljósi.
    Í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins kemur fram að á Íslandi hafi tvö kerfi verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), þ.e. stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar. Seðlabanki Íslands hefur það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um kerfi sem fullnægja ákvæðum laganna en að fenginni viðurkenningu ráðherra skulu innlend kerfi tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA. Þá kemur fram í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til nefndarinnar frá 9. október 2012 að bankanum beri að aðstoða íslenskar fjármálastofnanir við að byggja upp og fara yfir fyrirkomulag erlendrar greiðslumiðlunar. Að fenginni reynslu af greiðslumiðlun í fjármálaáfalli skipti miklu máli að fjármálastofnanir velji af kostgæfni hvaða fjármálastofnanir þær eru í samstarfi við í greiðslumiðlun og hafi a.m.k. tvær með sama gjaldmiðil.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að breytingar frumvarpsins varði aðallega innlenda greiðslumiðlun sem fer öll í gegnum framangreind tvö kerfi sem Seðlabanki Íslands á og rekur. Í umsögn Seðlabankans er talið að breytingar frumvarpsins séu tímabærar einkum frá sjónarhóli verðbréfauppgjörskerfa en þó hefði verið æskilegra að endurskoða og endurútgefa lög um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum í heild sinni. Þá er í umsögninni áréttaður sá skilningur að verðbréfauppgjörskerfi hafi rúmast innan ramma gildandi laga frá setningu þeirra.
    Nefndin ræddi mikilvægi innlendrar og erlendrar greiðslumiðlunar í ljósi hruns fjármálakerfisins haustið 2008. Í minnisblaði Seðlabanka Íslands, sem nefndin fékk af þessu tilefni, kemur fram að við hrun bankanna hafi íslenskum stjórnvöldum tekist að viðhalda innlendri greiðslumiðlun og greiðslukortanotkun eðlilegri en að erlend greiðslumiðlun hafi orðið fyrir verulegri röskun sem hafi haft í för með sér umfangsmikinn samfélagslegan vanda. Innstreymi erlends gjaldeyris til landsins hafi stöðvast fyrir tilstilli erlendra banka sem áttu kröfur á hina föllnu banka auk þess sem beiting hryðjuverkalaga af hálfu breskra yfirvalda hafi orðið þess valdandi að enn erfiðara varð að koma erlendri greiðslumiðlun í eðlilegt horf. Erfiðleikarnir stöfuðu af vantrausti erlendra aðila á fjármálakerfinu sem íslensk stjórnvöld höfðu takmörkuð áhrif á til úrlausnar, ekki síst eftir að bresk stjórnvöld höfðu beitt hryðjuverkalögunum. Um greiðslumiðlun í fjármálaáfalli er fjallað í riti Seðlabanka Íslands Fjármálastöðugleika frá 2009.
    Að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og með hliðsjón af umsögn Seðlabanka Íslands leggur meiri hlutinn til eftirtaldar breytingar á frumvarpinu:
     1.      Að hugtakið „kerfi“ sem skilgreint er í a-lið 2. gr. verði notað sem yfirhugtak yfir greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi.
     2.      Að bein tilvísun til „rafeyrisfyrirtækja“ og „verðbréfamiðstöðva“ verði felld brott úr skilgreiningu hugtaksins „stofnun“ sem fram kemur í b-lið 2. gr. Eftir sem áður felur tilvísun ákvæðisins til fjármálafyrirtækja, sem hlotið hafa starfsleyfi skv. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, í sér að þar undir falla rafeyrisfyrirtæki en ekki verðbréfamiðstöðvar. Seðlabanki Íslands telur ekki samræmast tilskipuninni að fella allar tegundir fjármálafyrirtækja sem hlotið hafa starfsleyfi undir skilgreininguna en undir það tekur ráðuneytið ekki.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 2. gr.
              a.      Í stað orðanna „Formlegt fyrirkomulag“ í a-lið komi: Greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi.
              b.      B- og c-liður b-liðar falli brott.
              c.      Í stað orðanna „a- og c-lið“ í e-lið b-liðar komi: a-lið.
     2.      Í stað orðanna „Kerfisstjórum er skylt að upplýsa Seðlabanka Íslands um það hvaða lög gilda um þátttakendur í kerfum þeirra“ í 1. efnismgr. b-liðar 3. gr. komi: Kerfisstjóra hvers kerfis er skylt að upplýsa Seðlabanka Íslands um það hvaða lög gilda um þátttakendur í kerfi hans.
     3.      Í stað orðanna „formlegt fyrirkomulag“ í 2. mgr. a-liðar 4. gr. komi: greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi.

    Pétur H. Blöndal og Guðlaugur Þór Þórðarson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Eygló Harðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. nóvember 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.



Skúli Helgason.


Guðlaugur Þór Þórðarson, með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Björn Valur Gíslason.