Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 448. máls.

Þingskjal 562  —  448. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á búnaðarlögum og lögum um framleiðslu, verðlagningu
og sölu á búvörum (leiðbeiningarþjónusta, búvörusamningar o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




I. KAFLI

Breyting á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eins búnaðarsambands eða fleiri“ í 4. tölul. kemur: Bændasamtaka Íslands.
     b.      11. tölul. orðast svo: Landsráðunautur eða fagstjóri er ráðunautur sem hefur yfirumsjón með leiðbeiningum á sínu sviði á landsvísu.
     c.      12. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Í stað orðsins „leiðbeiningarmiðstöðvar“ í 8. gr. laganna kemur: leiðbeiningarmiðstöð.

3. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Allir bændur eiga rétt á leiðbeiningarþjónustu samkvæmt lögum þessum.

4. gr.

    18. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Leiðbeiningar.

    Hjá leiðbeiningarmiðstöð starfa ráðunautar sem sinna faglegum leiðbeiningum fyrir bændur undir faglegri umsjón Bændasamtaka Íslands. Þeir annast eftirlit með búfjárrækt og kynbótum í þeim greinum sem lög þessi taka til. Þeir annast einnig eftirlit með jarðabótum og úttekt jarðabóta eftir því sem við á, sbr. 8. gr.
    Ráðunautar skulu hafa lokið háskólaprófi í búvísindum eða öðrum fræðigreinum eftir því sem við getur átt eða hafa menntun og starfsreynslu sem stjórn Bændasamtaka Íslands metur jafngilda.
    Landsráðunautar eða fagstjórar skulu starfa í einstökum búgreinum eða fagsviðum eftir því sem um er samið skv. 1. mgr. 3. gr. og fjárveiting heimilar. Þeir hafa yfirumsjón með leiðbeiningum, kynbótum og ræktun í viðkomandi búgrein.
    Landsráðunautar eða fagstjórar skulu hafa lokið háskólaprófi í búfræðum og hafa lokið sérnámi á sínu starfssviði eða hafa menntun og starfsreynslu sem stjórn Bændasamtaka Íslands metur jafngilda.

II. KAFLI

Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum,
nr. 99/1993, með síðari breytingum.

5. gr.

    Í stað ártalsins „2015“ í 1. mgr. 37. gr., 1. mgr. 41. gr. og fyrirsögn IX. kafla laganna kemur: 2017.

6. gr.

    Í stað ártalsins „2014“ í 3. mgr. 53. gr. og fyrirsögn X. kafla laganna kemur: 2016.

7. gr.

    Í stað ártalsins „2011“ í fyrirsögn XI. kafla laganna kemur: 2015.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða T í lögunum:
     a.      Orðin „um tvö ár“ í 6. málsl. falla brott.
     b.      Í stað ártalsins „2015“ í 6. og 8. málsl. kemur: 2017.
     c.      Í stað ártalsins „2014“ í 7. málsl. kemur: 2016.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða W í lögunum:
     a.      Í stað ártalsins „2014“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 2016.
     b.      Á eftir orðunum „öskufalls eða jökulflóða“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: vegna óvenjulegs veðurfars.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða X í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2014“ í 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. kemur: 2014, 2015 og 2016.
     b.      Á eftir orðunum „öskufalls eða jökulflóða“ í 1. mgr. kemur: vegna óvenjulegs veðurfars.
     c.      Í stað ártalanna „2007–2010“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 2008–2011.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum búnaðarlaga er varða leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði og breytingar á ákvæðum laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum vegna breytinga á samningum um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, sauðfjárræktar og framleiðenda garðyrkjuafurða. Frumvarp þetta var unnið í samráði við Bændasamtök Íslands. Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á ákvæðum til bráðabirgða í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum til að bregðast við afleiðingum óveðurs á Norðurlandi nú á haustmánuðum. Lagt er til að heimilt verði að greiða beingreiðslur og álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu til bænda sem urðu fyrir fjárskaða vegna óveðursins með sama hætti og gildir og gilt hefur þegar um er að ræða niðurskurð vegna sjúkdóma eða afurðatjón af völdum náttúruhamfara.
    Samkvæmt búnaðarlögum veitir ríkissjóður árlega framlög til verkefna á sviði leiðbeiningarstarfsemi í landbúnaði. Bændasamtök Íslands hafa á hendi faglega og fjárhagslega umsjón með leiðbeiningarstarfseminni og annast framkvæmdina í samræmi við ákvæði laga og samning ráðherra við Bændasamtök Íslands skv. 3. gr. búnaðarlaga. Markmið þjónustunnar er að miðla upplýsingum til bænda og stuðla með því að bættum búskaparháttum og framförum í búskap, til hagsbóta og bættra lífskjara fyrir bændur og neytendur búvara.
    Kveðið er á um skipulag leiðbeiningarþjónustu í búnaðarlögum. Hjá búnaðarsamböndum og leiðbeiningarmiðstöðvum starfa héraðsráðunautar sem sinna faglegum leiðbeiningum fyrir bændur á ákveðnum svæðum eða landinu öllu undir faglegri umsjón Bændasamtaka Íslands. Leiðbeiningarmiðstöð er miðstöð á vegum eins búnaðarsambands eða fleiri þar sem starfa sérfróðir menn á ýmsum sviðum landbúnaðar við leiðbeiningar og önnur verkefni tengd framkvæmd búnaðarlaga. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að leiðbeiningarþjónusta skuli veitt á svæðisbundnum grundvelli. Bændasamtök Íslands hafa unnið að endurskipulagningu leiðbeiningarþjónustu í landinu í þeim tilgangi að mæta breyttum aðstæðum, efla og bæta þjónustuna og hagræða í rekstri. Endurskipulagning þessi byggist á stefnumótun búnaðarþinga 2011 og 2012. Lagt hefur verið til að sameina leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði á landsvísu. Öll ráðgjafarstarfsemi í landbúnaði verður þá sameinuð og til verður öflug miðlæg leiðbeiningarmiðstöð sem getur framfylgt markmiðum landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Meginmarkmið breytinganna eru að allir bændur landsins eigi kost á sambærilegri ráðgjöf af sömu gæðum, án tillits til búsetu eða búgreinar. Þá er ætlað að tryggja ráðgjöfum skilyrði og umhverfi til þess að stunda öfluga leiðbeiningarþjónustu við bændur og stuðla að virkri hagnýtingu á færni og þekkingu ráðgjafanna. Með breytingunum er einnig stefnt að því að tryggja hagkvæma nýtingu opinberra fjármuna.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að Bændasamtökum Íslands verði veitt ákveðið svigrúm í búnaðarlögum til að skipuleggja leiðbeiningarþjónustu með hliðsjón af fyrirliggjandi tillögum. Því verði ekki lengur kveðið á um það í búnaðarlögum að leiðbeiningarþjónusta skuli veitt á svæðisbundnum grundvelli. Breyting þessi mun leiða til hagræðingar í rekstri og samræmdrar leiðbeiningarþjónustu á landsvísu. Þjónustan mun áfram verða veitt í öllum landshlutum og munu allir bændur landsins eiga kost á ráðgjöf.
    Í september 2012 undirrituðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra breytingar á samningum um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, sauðfjárræktar og framleiðenda garðyrkjuafurða sem fela í sér framlengingu samninganna um tvö ár. Samningarnir eru framlengdir miðað við núverandi fjárhæðir samkvæmt fjárlögum en viss ákvæði í samningunum frá árinu 2009 taka ekki gildi. Breytingar þessar miða að því að eftirstöðvar verðbóta vegna fyrri ára komi ekki að fullu til framkvæmda. Framlög vegna búvörusamninga eru lækkuð um 1% en hækka síðan um sömu prósentutölu og verðlagsforsendur fjárlaga gera milli áranna 2012 og 2013. Breytingarnar fela þannig í sér ákveðna eftirgjöf af hálfu bænda af fullum fjárframlögum en á móti er bændum tryggður ákveðinn stöðugleiki í starfsemi sinni með framlengingu samninganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að gerðar verði viðeigandi breytingar á skilgreiningum í 1. gr. búnaðarlaga til að unnt sé að sameina leiðbeiningarþjónustu á landsvísu. Breytingar á skipulagi leiðbeiningarþjónustunnar gera ráð fyrir að til verði ein leiðbeiningarmiðstöð á vegum Bændasamtaka Íslands í stað svæðisbundinna leiðbeiningarmiðstöðva á vegum búnaðarsambanda. Í samræmi við breytingarnar er lagt til að gerðar verði breytingar á skilgreiningum á leiðbeiningarmiðstöð og landsráðunaut. Þá er lagt til að felld verði brott skilgreining á héraðsráðunaut vegna sameiningar leiðbeiningarþjónustu á landsvísu.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Um 3. gr.

    Með greininni er lagt til að í lögunum verði skýrt kveðið á um að allir bændur á landinu eigi rétt á leiðbeiningarþjónustu samkvæmt lögunum. Leiðbeiningarþjónusta sem veitt er samkvæmt búnaðarlögum er greidd úr ríkissjóði. Bændur eiga því allir að hafa greiðan aðgang að þjónustunni, óháð búsetu og félagsaðild. Framkvæmdin hefur verið sú að allir bændur hafa notið þjónustunnar en engu að síður þykir ástæða til að kveða skýrt á um það í lögum.


Um 4. gr.

    Í 18. gr. búnaðarlaga er meðal annars fjallað um hlutverk og menntun héraðsráðunauta. Héraðsráðunautar starfa í tilteknum landshluta á vegum búnaðarsambands eða leiðbeiningarmiðstöðvar samkvæmt núgildandi lögum. Með breytingum á skipulagi leiðbeiningarþjónustu munu ráðunautar sem starfa á vegum leiðbeiningarmiðstöðvar Bændasamtaka Íslands sinna hlutverki héraðsráðunauta. Landsráðunautar eða fagstjórar munu áfram hafa yfirumsjón með leiðbeiningum, kynbótum og ræktun í viðkomandi búgrein.

Um 5. og 6. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.

    Samkvæmt 3. mgr. 53. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er heimilt að leggja greiðslumark inn til geymslu hjá Matvælastofnun lengst til 31. desember 2014. Það er byggt á gr. 5.2 í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10. maí 2004 þar sem fram kemur að heimilt sé að leggja greiðslumark inn til geymslu út gildistíma samningsins. Í ljósi þess að samningurinn hefur verið framlengdur til 31. desember 2016 þykir rétt að gera tillögu um að lögunum verið breytt til samræmis við það.

Um 8. gr.

    Með ákvæði T til bráðabirgða í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er ráðherra heimilað að gera samninga við sauðfjárbændur á lögbýlum með greiðslumark, sem hafa náð eða ná 64 ára aldri á gildistíma samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar, um að eiga hvorki né halda sauðfé til loka samningstímans, en halda óskertum beingreiðslum á sama tíma meðan greiðslumark sauðfjár er í eigu hlutaðeigandi bænda og áfram skráð á lögbýli. Ákvæði þetta er byggt á gr. 4.6 í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007. Í ljósi þess að samningurinn hefur verið framlengdur til 31. desember 2017 þykir rétt að gera tillögu um að heimildin verði framlengd.

Um 9. gr.

    Samkvæmt ákvæði W til bráðabirgða í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er Matvælastofnun heimilt að ákveða að beingreiðslur til mjólkurbænda verði greiddar til lögbýlis samkvæmt greiðslumarki þess óháð framleiðslu ef framleiðsluskilyrði á lögbýlinu hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara eða vegna þess að afurðasala frá lögbýlinu hefur verið bönnuð af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild þessi nái einnig til þeirra tilfella þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna óvenjulegs veðurfars. Breytingin verður til þess að mögulegt er að bregðast við aðstæðum á við þær sem komu upp á Norðurlandi vegna óveðurs nú á haustmánuðum. Þá er lagt til að heimild þessi verði framlengd og gildistími miðaður við gildistíma búvörusamnings um mjólkurframleiðslu, þ.e. til ársloka 2016.

Um 10. gr.

    Í ákvæði til bráðabirgða X er ráðherra veitt heimild til að víkja frá ásetningshlutfalli sauðfjár á lögbýlum þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara eða vegna þess að afurðasala frá lögbýlinu hefur verið bönnuð af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á. Þá er Matvælastofnun heimilt að ákveða að sauðfjárframleiðendur geti notið óbreyttra greiðslna á grundvelli gæðastýringar þrátt fyrir að framleiðsla minnki eða falli niður um tíma á meðan framleiðsluskilyrði á býlum þeirra eru úr skorðum. Lagt er til að heimildir ráðherra og Matvælastofnunar samkvæmt ákvæðinu nái einnig til þeirra tilfella þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna óvenjulegs veðurfars. Þannig verður mögulegt að bregðast við aðstæðum eins og þeim sem uppi eru á Norðurlandi vegna óveðursins í september en margir bændur urðu þá fyrir talsverðum fjárskaða vegna óvenjulegs veðurfars. Jafnframt er lagt til að heimildir þessar verði framlengdar til ársloka 2016.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (leiðbeiningarþjónusta, búvörusamningar o.fl.).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á gildandi lagaákvæðum af tvennum toga. Annars vegar eru breytingar vegna endurnýjunar búvörusamninga og hins vegar eru breytingar vegna tjóns sem varð í óveðri sem olli þungum búsifjum á Norðurlandi í september síðastliðnum.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á búnaðarlögunum miða í fyrsta lagi að því að breyta umgjörð leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði í þá veru að í stað margra svæðisbundinna stöðva verði starfrækt ein leiðbeiningarmiðstöð fyrir allt landið á vegum Bændasamtaka Íslands. Þá eru lagðar til breytingar á ártölum í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum til samræmis við gildistíma nýrra samninga en skrifað var undir framlengingu á samningum ríkis og Bændasamtaka Íslands um búvöruframleiðslu í september sl. Samningarnir fela meðal annars í sér að eftirstöðvar verðbóta vegna fyrri ára sem ekki komu til greiðslu á árunum 2009–2012 og ættu samkvæmt samningi frá 2009 að óbreyttu að falla til á næsta ári koma ekki til útgreiðslu. Á móti þessu er bændum tryggt áframhaldandi öryggi í rekstri sinna búa með framlengingu samninga um tvö ár auk þess sem meira fé verður varið til tiltekinna þátta búvörulagasamninga. Í undirbúningi fjárlaga 2013 hefur verið tekið tillit til þessara breytinga sem samningarnir hafa í för með sér, bæði með framgangi aðhaldsaðgerða vegna niðurfellingar á eftirstöðvum verðbóta um 461 m.kr. og með hækkun framlaga til nokkurra verkefna sem falla undir þessa samninga, svo sem til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og til Bændasamtaka Íslands.
    Til að bæta bændum að hluta þann skaða sem óveðrið á Norðurlandi olli í september síðastliðnum er í frumvarpinu einnig lögð til breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Lagt er til að sett verði heimild í bráðabirgðaákvæði laganna um að leyfilegt verði að greiða beingreiðslur og álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu til bænda sem verða fyrir fjárskaða vegna óveðurs eins og gildir þegar um er að ræða niðurskurð vegna sjúkdóma eða afurðatjón af völdum náttúruhamfara á borð við eldgos. Heildarfjárhæð vegna gæðastýringar er samningsbundin og deilist út á það innlagða kjöt sem uppfyllir tilsettar kröfur. Magnbreyting hefur því eingöngu áhrif á greiðslur á hvert kíló og því verður ekki séð að ákvæðið hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
    Í þessu sambandi er rétt að benda á að verði þessi ákvæði frumvarpsins ekki lögfest gæti komið til greiðslna úr Bjargráðasjóði til viðkomandi bænda sem talið er að gætu þá numið um 15 m.kr. Hlutverk Bjargráðasjóðs er meðal annars að bæta meiri háttar tjón á búfé og afurðum búfjár vegna óvenjulegs veðurfars. Tekjur hans eru af búnaðargjaldi, framlag ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum hverju sinni og vaxtatekjur af fé sjóðsins auk annarra tekna og er sjóðurinn í jafnri eigu ríkisins og Bændasamtaka Íslands.
    Er ekki gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins leiði til meiri útgjalda en þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013.