Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 489. máls.

Þingskjal 630  —  489. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um miðlun vátrygginga (markaðssetning, stjórnarhættir og eftirlit).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.
1.     gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Orðin „og 2. málsl. 2. mgr.“ í 3. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Frumtryggingafélag, sem hyggst endurtryggja áhættu sína hjá endurtryggingafélagi frá þriðja ríki þar sem skilyrði 2. málsl. 2. mgr. eru ekki uppfyllt, getur sótt um undanþágu til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið veitir undanþágu frá banni skv. 2 málsl. 2. mgr. telji það að endurtryggingarvernd frumtryggingafélagsins sé ekki stefnt í hættu.

2. gr.

    Við 6. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Vátryggingafélögum ber að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Í því skyni skulu þau m.a. birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti félagsins í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu og gera grein fyrir stjórnarháttum sínum á vefsíðu fyrirtækisins og birta þar yfirlýsingu um stjórnarhætti sína.
    Vátryggingafélag skal tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í félaginu.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um hvað teljast góðir viðskiptahættir og venjur í vátryggingaviðskiptum.

3. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, sem orðast svo:
    Öll kynning og markaðssetning vátryggingafélags hér á landi skal vera óheimil öðrum en þeim sem hafa leyfi til að stunda vátryggingastarfsemi hér á landi.
    Einungis vátryggingafélögum sem hafa starfsleyfi hér á landi er heimilt að selja lögbundnar tryggingar.

4. gr.

    Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir sem verða 19. og 27. tölul. og orðast svo:
     19.      Lykilstarfsmaður: Einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu félagsins.
     27.      Útvistun: Fyrirkomulag sem komið er á milli vátryggingafélags annars vegar og þjónustuaðila hins vegar þar sem þjónustuaðilinn framkvæmir verkefni, veitir þjónustu eða stundar tiltekna starfsemi sem annars yrði gert af vátryggingafélaginu sjálfu.

5. gr.

    2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að starfsemi sem fellur undir 5. tölul. 1. mgr. skuli rekin af sjálfstæðu félagi. Starfsemi skv. 6. tölul. 1. mgr. er háð leyfi Fjármálaeftirlitsins.

6. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „3. mgr. 54. gr.“ í 3. mgr. 18. gr. laganna kemur: 6. mgr. 54. gr.

7. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, 28. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Útvistun.

    Vátryggingafélagi er heimilt að útvista verkefnum sínum. Vátryggingafélag skal tryggja að þjónustuaðili hafi hæfni, getu og öll leyfi, sem krafist er samkvæmt lögum, til að inna af hendi útvistuð verkefni af áreiðanleika og fagmennsku. Ábyrgð vátryggingafélags gagnvart viðskiptavinum sínum helst óbreytt þó það feli öðrum hluta af verkefnum sínum. Útvisti vátryggingafélag verkefnum sínum skal það senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu þess efnis eins fljótt og auðið er og eigi síðar en innan eins mánaðar.

8. gr.

    Á eftir orðinu „varastjórn“ í 6. tölul. 3. mgr. 30. gr. laganna kemur: framkvæmdastjóra.

9. gr.

    Á eftir 4. mgr. 32. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Fjárhæðir skv. 3. og 5. mgr. skulu taka breytingum 31. desember ár hvert í samræmi við breytingar frá 20. mars ár hvert á samræmdri vísitölu neysluverðs í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins frá gildinu 111,2 í september 2002. Fjárhæðir skulu þó ekki breytast nemi hækkunin frá síðustu breytingu lægra hlutfalli en 5%.

10. gr.

    Við 1. málsl. 4. mgr. 34. gr. laganna bætist: í september 2002.

11. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

    Við 2. mgr. 41. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar og birtir opinberlega.

13. gr.

    Í stað orðsins „daga“ í 4. málsl. 1. mgr. 42. gr. laganna kemur: starfsdaga.

14. gr.

    Við 44. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Aðili sem fer með virkan eignarhlut skal á hverjum tíma teljast hæfur til að fara með virkan eignarhlut í vátryggingafélagi. Verði breytingar á upplýsingum skv. 2. mgr. 41. gr., sem geta haft áhrif á mat Fjármálaeftirlitsins skv. 43. gr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að taka til endurskoðunar hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut í vátryggingafélagi.

15. gr.

    Í stað orðanna „þessari grein“ í 1. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna kemur: þessum kafla.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                      Stjórn vátryggingafélags skal ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð félagsins. Einstakir stjórnarmenn skulu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti.
                      Stjórnarmenn vátryggingafélags skulu ekki taka þátt í meðferð máls ef mál varðar:
                  1.      viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í, eða
                  2.      viðskipti samkeppnisaðila þeirra aðila sem ræðir um í 1. tölul.
             Hið sama skal gilda um viðskipti aðila sem eru tengdir stjórnarmönnum persónulega eða fjárhagslega.
                      Viðskiptaerindi stjórnarmanna, sem og fyrirtækja sem þeir eru í fyrirsvari fyrir, skulu lögð fyrir stjórn vátryggingafélags, eða stjórnarformann félags, til samþykktar eða synjunar. Stjórn vátryggingafélags er þó heimilt að setja almennar reglur um afgreiðslu slíkra mála þar sem fyrir fram er ákveðið hvaða viðskiptaerindi þurfi, og þurfi ekki, sérstaka umfjöllun stjórnar áður en til afgreiðslu þeirra kemur, sbr. 5. mgr.
     b.      5. og 6. mgr. orðast svo:
                      Stjórnarmenn í vátryggingafélagi mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða félags í nánum tengslum við það né vera starfsmenn, lögmenn, endurskoðendur eða tryggingastærðfræðingur annars eftirlitsskylds aðila eða tengdra félaga. Starfsmönnum vátryggingafélaga er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi vátryggingafélags.
                      Þrátt fyrir ákvæði 8. mgr. getur stjórnarmaður eða starfsmaður vátryggingafélags tekið sæti í stjórn annars vátryggingafélags eða fjármálafyrirtækis eða fjármálasamsteypu ef um er að ræða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu vátryggingafélagsins eða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu félags með yfirráð í vátryggingafélaginu. Stjórnarseta samkvæmt þessari grein skal háð því að hún skapi ekki hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði að mati Fjármálaeftirlitsins. Í þessu sambandi skal m.a. horft til eignarhalds aðila og tengsla félagsins sem um ræðir við aðra aðila á fjármálamarkaði svo og hvort tengslin geti skaðað heilbrigðan og traustan rekstur vátryggingafélagsins. Meiri hluti stjórnarmanna skal þó ávallt vera óháður félögum innan sömu félagasamstæðu.
     c.      12. mgr. orðast svo:
                  Stjórn og framkvæmdastjóri skulu án tafar gera Fjármálaeftirlitinu viðvart um málefni sem geta haft verulega þýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins.
     d.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Ákvæðið á einnig við um stjórnarmenn í eignarhaldsfélagi á sviði vátrygginga.

17. gr.

    Við 11. mgr. 94. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Vátryggingafélag skal ávallt geta sýnt fram á eignir í efnahagsreikningi sínum sem ganga upp í framangreindar kröfur.

18. gr.

    Á eftir 96. gr. laganna kemur ný grein, 96. a, sem orðast svo:
    Verði vátryggingafélag tekið til gjaldþrotaskipta án þess að hafa verið svipt starfsleyfi skal meðferð þess fara eftir ákvæðum 91.–96. gr.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 97. gr. laganna:
     a.      Á eftir 20. tölul. kemur nýr töluliður sem orðast svo: 2.–4. mgr. um viðskipti stjórnarmanna eða tengdra aðila við vátryggingafélagið.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „3.–5. mgr. 54. gr.“ í 21. tölul. kemur: 6.–8. mgr. 54. gr.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „6. mgr. 54. gr.“ í 22. tölul. kemur: 9. mgr. 54. gr.
     d.      Í stað tilvísunarinnar „7. mgr. 54. gr.“ í 23. tölul. kemur: 10. mgr. 54. gr.
     e.      Í stað tilvísunarinnar „9. mgr. 54. gr.“ í 24. tölul. kemur: 12. mgr. 54. gr.
     f.      Í stað tilvísunarinnar „10. mgr. 54. gr.“ í 25. tölul. kemur: 13. mgr. 54. gr.
     g.      Í stað tilvísunarinnar „11. mgr. 54. gr.“ í 26. tölul. kemur: 14. mgr. 54. gr.
     h.      Í stað tilvísunarinnar „12. mgr. 54. gr.“ í 27. tölul. kemur: 15. mgr. 54. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga.
20. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist nýr töluliður sem verður 4. tölul. og orðast svo: Upplýsingar um fyrirhugað starfsskipulag þar sem m.a. skal greina frá hvernig fyrirhugaðri starfsemi verður sinnt, starfsstöð, fyrirhuguðum fjölda starfsmanna, innra eftirliti og áhættustýringu.

21. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, 28. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Kvartanir.

    Vátryggingamiðlari skal, í samskiptum sínum við viðskiptavini, tryggja að fyrirspurnir, kvartanir og önnur sambærileg erindi fái skjóta, skilvirka og sanngjarna afgreiðslu.

22. gr.

    Við 61. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Verði vátryggingamiðlari, sem fengið hefur starfsleyfi í öðru aðildarríki, beittur viðurlögum skv. 62. gr. eða 62. gr. d, eða öðrum viðurlögum samkvæmt íslenskum lögum, skal Fjármálaeftirlitið tilkynna lögbærum eftirlitsaðila heimaríkis vátryggingamiðlarans ef slíkt brot gæti leitt til starfsleyfissviptingar.

23. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.     Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, og lögum nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga.

II.     Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að starfsemi vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara sé í samræmi við þau lög sem gilda um nefnda aðila. Eftirlitsstofnun EFTA hefur eftirlit með því að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn).
    Fjármálaeftirlitið hefur orðið vart við ákveðna vankanta á lögum um vátryggingastarfsemi í eftirliti sínu sem það hefur með rökstuddum hætti bent ráðuneytinu á.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur hafið formlega málsmeðferð gegn íslenska ríkinu sökum þess að talið er að innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB frá 19. mars 2001 um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 166/2002 frá 6. desember 2002 og innleidd með lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9 desember 2002 um miðlun vátrygginga, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2003 frá 26. september 2003, sé ábótavant.
    Ráðuneytinu þykir rétt að bregðast við þessum athugasemdum með framlagningu þessa frumvarps.

III.     Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpinu er skipt í tvo kafla og fjallar I. kafli um breytingar á lögum um nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, og II. kafli um breytingar á lögum nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga.
    Í I. kafla frumvarpsins er lagt til að rýmkaðar verði heimildir um það hvar megi endurtryggja frumáhættu þar sem ekki þykir nauðsynlegt að hafa jafnstrangar reglur í tilfellum þegar um er að ræða viðskiptavin við vátryggingafélag eða vátryggingafélag sem kaupir sér endurtryggingu. Einnig lagt til að vátryggingafélögum sem ekki hafa starfsleyfi hér á landi sé ekki heimilt að markaðssetja sig. Þá er einnig lagt til bann við því að önnur vátryggingafélög en þau sem hafa starfsleyfi á Íslandi geti boðið lögbundnar vátryggingar. Lagt er til að sett verði ákvæði þar sem kveðið er á um að útvistun á þáttum í starfsemi vátryggingafélags sé tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins og skýrt nánar að vátryggingafélag beri alltaf ábyrgðina gagnvart vátryggingartaka. Lagt er til að tilkynna skuli til vátryggingaskrár verði skipt um framkvæmdastjóra. Þá er lagt til að rýmkaðar verði heimildir Fjármálaeftirlitsins til að óska eftir upplýsingum þegar aðili sækir um að eignast virkan eignarhlut og að hæfi til að fara með virkan eignarhlut skuli vera viðvarandi. Lagt er til að settar verði skorður við þátttöku stjórnarmanna í meðferð eigin mála. Þá er í frumvarpinu lagt til að sett verði ákvæði um það að vátryggingafélög skuli eftir fremsta megni starfa eftir góðum viðskiptaháttum. Fjármálaeftirlitinu er svo gert að útfæra nánar hvað teljast góðir viðskiptahættir. Í XII. kafla laganna eru sérreglur um gjaldþrotaskipti vátryggingafélaga og í frumvarpinu eru lagðar til smávægilegar breytingar á þeim kafla til innleiðingar á tilskipun 2001/17/EB um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga. Lagt er til að skýrt verði tekið fram að komi til gjaldþrotaskipta á vátryggingafélagi þá skuli fara eftir sömu málsmeðferðarreglum og ef kæmi til slitameðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu. Þá er einnig lagt til að vátryggingafélag skuli alltaf geta sýnt fram á eignir í efnahagsreikningi sem koma á móti kröfum sem eru á undan vátryggingakröfum í skuldaröðinni.
    Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að lögaðili sem sækir um starfsleyfi til vátryggingamiðlunar skuli skila inn upplýsingum varðandi fyrirhugaða starfsemi. Sömu kröfur eru gerðar til einstaklinga sem sækja um starfsleyfi sem vátryggingamiðlarar og þykir því rétt að láta það gilda um lögaðila líka. Síðari tvö ákvæðin sem lagt er til að sett verði í lög nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga, eru til að innleiða réttilega tilskipun 2002/92/EB um miðlun vátrygginga. Lagt er til að í þeim tilfellum þegar vátryggingamiðlari, sem er undir eftirliti annars aðildarríkis, hefur gerst brotlegur við lög svo varðað geti réttindamissi þá skuli Fjármálaeftirlitið tilkynna það lögbærum eftirlitsaðila vátryggingamiðlarans. Þá er einnig að finna ákvæði sem leggur þá skyldu á vátryggingamiðlara að setja upp skipulegt innra ferli til að svara og bregðast við þeim kvörtunum sem berast.

IV.     Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins kallar ekki á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Starfsemi vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara byggist á EES-rétti og með samþykkt frumvarpsins er íslenska ríkið að uppfylla skuldbindingar sínar skv. 7. gr. EES-samningsins varðandi innleiðingu fyrrgreindra tilskipana.

V.     Samráð.
    Við vinnu á frumvarpinu var haft samráð við Fjármálaeftirlitið. Samráðið fór fram á þann hátt að fulltrúar frá ráðuneytinu og Fjármálaeftirlitinu hittust á fundi og kynnti Fjármálaeftirlitið athugasemdir sínar með rökstuddum hætti. Síðar voru drög að frumvarpinu send til Fjármálaeftirlitsins til yfirlestrar og voru þar einnig þau ákvæði sem komin eru til vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við drögin sem það fékk send og tók ráðuneytið mið af þeim í lokadrögum frumvarpsins.

VI.     Mat á áhrifum.
    Frumvarpið varðar afmarkaðan hluta af fjármálamarkaðinum, þ.e. vátryggingamarkaðinn, og tekur bæði til vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara, sem og eftirlits Fjármálaeftirlitsins.
    Regluverk á vátryggingasviðinu miðar að því að tryggja traustan og heilbrigðan rekstur vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara. Mikið fjármagn fer um hendur þessara aðila og er hluti viðskiptanna lögbundinn, þ.e. sala á lögbundnum tryggingum. Hlutverk vátryggingafélaga er að mörgu leyti félagslegt þar sem það miðar að því að bæta tjón sem þriðji aðili eða vátryggingartaki hefur orðið fyrir. Nauðsynlegt er að lagaramminn sé skýr og að Fjármálaeftirlitinu séu gefnar skýrar lagaheimildir til að rækja eftirlitshlutverk sitt. Verði frumvarp þetta að lögum mun það stuðla að heilbrigðari rekstri vátryggingafélaga og aukinni neytendavernd á sviði vátrygginga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr

    Meginreglan um það hvar vátryggingaráhætta skal vera frumtryggð kemur fram í 1. mgr. 5. gr. laganna sem kveður á um að vátryggingaráhætta skuli vera frumtryggð hjá vátryggingafélagi í aðildarríki (innan EES, í Sviss eða Færeyjum). Þannig er tryggt að vátryggingafélög sem bera frumtryggingaráhættuna uppfylli ákveðnar lagakröfur. Í sérstökum undantekningartilfellum getur Fjármálaeftirlitið gefið undanþágu frá þessari meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. mgr. 5. gr. Í núgildandi lögum eru aðeins rýmri heimildir um það hvar endurtryggja megi frumáhættu. Fjármálaeftirlitið getur einnig gefið undantekningu frá því í sérstökum tilfellum, sbr. 3. mgr. 5. gr. Ekki eru talin rök til þess að hafa alltaf jafnstrangt mat um það hvort undanþága sé heimil og því er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti heimilað vátryggingafélagi að endurtryggja frumáhættu sína hjá endurtryggingafélagi í þriðja ríki, enda þótt ekki liggi fyrir samstarfssamningur við eftirlitsstjórnvald þess ríkis, sé endurtryggingarvernd frumtryggingafélags ekki stefnt í hættu. Frumtryggingafélag sem sækir um slíka undanþágu þarf því að geta sýnt fram á að endurtryggingafélagið sé bært til að endurtryggja frumtryggingaráhættu félagsins.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að settar verði reglur um hvað telst til góðra viðskiptahátta og venja í vátryggingaviðskiptum. Þá er einnig lagt til að kveðið verði á um að vátryggingafélög skuli fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Þá er einnig lagt til að vátryggingafélögum sé gert að birta opinberlega á heimasíðu sinni nöfn hluthafa sem eiga 5% eða stærri hlut í félaginu. Sambærilegar reglur er að finna í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Reglur um góða viðskiptahætti vátryggingafélaga eru í undirbúningi hjá Fjármálaeftirlitinu.

Um 3. gr.

    Lagt er til að sett verði inn ákvæði sem banni vátryggingafélögum sem ekki eru með starfsleyfi hér á landi að markaðssetja sig hér á landi. Rökin fyrir þessari reglu eru að aðilum sé frjálst að leita til þessara aðila til að kaupa frjálsar vátryggingar en sé vátryggingafélag með virka markaðsherferð gæti það jafngilt því að það stundi vátryggingastarfsemi hér á landi án þess að hafa til þess tilskilin leyfi.
    Í 2. mgr. er lagt til að vátryggingafélagi sem ekki hefur starfsleyfi hér á landi sé bannað að selja lögbundnar vátryggingar. Þetta helgast af því að lögbundnar vátryggingar eru til verndar þriðja aðila í tilfellum þegar vátryggingartaki ber ábyrgð á tjóni. Hér má nefna ökutækjatryggingar, brunatryggingar og ýmiss konar starfsábyrgðartryggingar. Tryggingarvernd þriðja aðila færi fyrir lítið ef réttur hans væri torsóttur vegna þess að hann þyrfti að sækja rétt sinn til annars lands og jafnvel stefna vátryggingafélagi í öðru ríki. Hér er rétt að taka fram að slík regla verður ekki talin brjóta í bága við EES-samninginn þar sem vátryggingafélögum sem hafa starfsleyfi innan EES er heimilt að reka vátryggingastarfsemi hér á landi, sbr. 66. og 67. gr. laganna. Vátryggingafélög sem eru með starfsleyfi í öðru aðildarríki og stunda starfsemi á Íslandi eru með varnarþing á Íslandi í málum sem viðkemur þeirri starfsemi sem hér fer fram.

Um 4. gr

    Lagt er til að tveimur nýjum skilgreiningum verði bætt við 9. gr. laganna. Skilgreining fyrra hugtaksins, „lykilstarfsmaður“, er samhljóða skilgreiningu hugtaksins í lögum nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki. Uppbygging vátryggingafélaga er þó frábrugðin uppbyggingu fjármálafyrirtækja. Auk hefðbundinna stjórnenda vátryggingafélags teljast tryggingastærðfræðingur og aðallögfræðingur til lykilstarfsmanna vátryggingafélaga vegna þeirra áhrifa sem þeir geta haft á starfsemi félagsins. Líftryggingafélögum er skylt að tryggja sér þjónustu tryggingastærðfræðings og stöðu sinnar vegna getur hann haft mikil áhrif á ákvarðanatöku og starfsemi félagsins, sbr. 39. gr. laganna. Þegar meta á hvort lögfræðingur teljist aðallögfræðingur verður að líta til þess hvaða hlutverki hann gegnir innan vátryggingafélagsins og hvers konar ákvörðunum hann tekur þátt í. Séu ákvarðanirnar þess eðlis að þær hafa áhrif á áframhaldandi starfsemi félagsins þá er um aðallögfræðing í skilningi ákvæðisins að ræða. Þá er einnig lagt til að hugtakið „útvistun“ sé skilgreint þar sem 5. gr. frumvarpsins leggur til nýja 28. gr. a sem kveður á um skyldu vátryggingafélags til að tilkynna til Fjármálaeftirlitsins útvisti það hluta af starfsemi sinni.

Um 5. gr.

    Í 2. mgr. 13. gr. laganna er tilvísun til þess að starfsemi skv. 5. tölul. 1. mgr. sé háð leyfi Fjármálaeftirlitsins og að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að slík starfsemi sé rekin í sérstöku félagi. Nefnd tilvísun á að vera í 6. tölul. 1. mgr. og því er lagt til að það verði lagfært.

Um 6. gr.

         Vegna þeirra breytinga sem gerðar eru á 54. gr. laganna í 15. gr. frumvarpsins er hér gerð breyting á tilvísun í þá grein í 3. mgr. 18. gr. laganna.

Um 7. gr.

    Í núgildandi lögum er ekki kveðið á um tilkynningu eða samþykki Fjármálaeftirlitsins ef vátryggingafélag útivistar tilteknum þáttum í starfsemi sinni. Reynsla Fjármálaeftirlitsins sýnir að nauðsynlegt er að eftirlitið sé upplýst sérstaklega ef vátryggingafélög útvista hluta af starfsemi sinni. Þess vegna er lagt til að sett verði ákvæði um útvistun sem skýrir skyldur og ábyrgð vátryggingafélags ákveði það að fara þessa leið í starfsemi sinni.

Um 8. gr

    Í 30. gr. laga um vátryggingastarfsemi er upptalning á þeim atriðum sem vátryggingafélögum er skylt að tilkynna til vátryggingaskrár verði breytingar á þeim. Framkvæmdastjóri er ekki í þeirri upptalningu. Rétt þykir að slíkt gildi um framkvæmdastjóra þar sem hann gegnir mjög mikilvægu hlutverki í rekstri félagsins. Með vísan til framangreinds er lagt er til að vátryggingafélög skuli tilkynna til vátryggingafélagaskrár þegar skipti verða á framkvæmdastjóra.

Um 9. gr.

    Í 32. gr. laganna er fjallað um lágmarksgjaldþol skaðatryggingafélags. Lagt er til að fjárhæðir þær sem vísað er til greininni taki breytingum hvert ár í samræmi við vísitölu neysluverðs í aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Um 10. gr

    Lagt er til að tímasetningunni „í september 2002“ verði bætt við þar sem það er sú tímasetning sem vísitöluviðmið greinarinnar miðast við.

Um 11. gr

    Reglugerðin sem vísað er til í 2. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna hefur ekki verið sett. Lagt er til að tilvísunin verði felld brott þar sem hún er í ósamræmi við 56. gr. laganna sem kveður á um að ársreikningur skuli vera saminn í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Þá getur málsliðurinn einnig valdið vandkvæðum þegar ákvæði um mat á vátryggingaskuld verða komin inn í alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Um 12. gr

    Við gildistöku laga nr. 56/2010 féll niður 12. tölul. 39. gr. eldri laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, sem kvað á um að í tengslum við tilkynningu um virkan eignarhlut beri að senda Fjármálaeftirlitinu „aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið fer fram á að umsækjandi veiti og máli skipta við mat á hæfi eigenda virkra eignarhluta“. Í greininni er því lagt til að lögfest verði heimild fyrir Fjármálaeftirlitið, þó þrengri en sú sem var í lögum nr. 60/1994, til að óska eftir öðrum upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar og birtir opinberlega. Í gildandi lögum hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að óska eftir ítarlegri gögnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. Sú heimild á við eftir að Fjármálaeftirlitinu hefur borist tilkynning um að aðili hyggist eignast virkan eignarhlut eða auka við hlut sinn. Með því að bæta við heimild í 41. gr. til að afla annarra upplýsinga gæti upplýsingabeiðnum á grundvelli 42. gr. fækkað og málsmeðferð varðandi starfsleyfi orðið hraðari.

Um 13. gr.

    Lagt er til að orðinu „daga“ verði skipt út fyrir „starfsdaga“ til að gæta samræmis við 1. mgr. 42. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44/EB frá 5. september 2007 um breytingu á tilskipun ráðsins 92/49/EBE og tilskipunum 2002/83/EB, 2004/39/EB, 2005/68/EB og 2006/48/EB að því er varðar reglur um málsmeðferð og viðmiðanir vegna varfærnismats við yfirtökur og aukningu eignarhlutdeildar í fjármálageiranum.

Um 14. gr.

    Lagt er til að sett verði ákvæði sem kveður á um að hæfi til að fara með virkan eignarhlut skuli vera viðvarandi. Þetta verður að teljast eðlileg regla þar sem vissar kröfur eru gerðar til aðila sem fer með virkan eignarhlut. Þetta á að koma í veg fyrir að aðili sem eitt sinn uppfyllti hæfisskilyrði þess að fara með virkan eignarhlut en uppfyllir þau ekki lengur fari þó enn með virka eignarhlutinn.

Um 15. gr.

    Í greininni er lagt til að orðunum „þessari grein“ verði skipt út fyrir „þessum kafla“. Ekki er fjallað um hæfi eiganda virks eignarhlutar í ákvæðinu og því er réttara að vísa fremur í kaflann í heild sinni.

Um 16. gr.

    Lagt er til að þremur nýjum málsgreinum verði bætt við 54. gr. laganna sem fjallar um stjórn vátryggingafélaga. Í a-lið er gert ráð fyrir að stjórnarmönnum verði bannað að hlutast til um einstök viðskipti nema umfang þeirra sé mikið. Reynslan af því að stjórnarmenn skipti sér of mikið af daglegum rekstri vátryggingafélaga hefur ekki verið góð. Eitt af hlutverkum stjórnar er að hafa eftirlit með störfum félagsins og væri stjórnin þannig að hafa eftirlit með eigin störfum taki hún of mikinn þátt í daglegum rekstri og ákvarðanatöku um einstök viðskipti vátryggingafélagsins.
    Þá er einnig skýrt betur í hvaða tilfellum stjórnarmenn skuli ekki taka þátt í ákvörðunum um meðferð máls. Þau tilvik sem þar eru talin upp varða öll tengsl stjórnarmanns við viðskiptahagsmuni eða fyrirtæki sem hafa viðskiptahagsmuni. Telja verður að eðlilegt sé að slík hæfisregla sé í gildi. Við mat á hæfi stjórnarmanna til að taka þátt í einstökum málum er gott að hafa hæfisreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, til hliðsjónar.
    Í b- og c-lið eru lagðar til breytingar á greininni sem miða að því að koma í veg fyrir krossstjórnarsetu. Telja verður eðlilegt að sami einstaklingur sitji ekki í stjórn fleiri en eins eftirlitsskylds aðila. Í greininni er einnig fjallað um undanþágur frá banninu við krossstjórnarsetu.
    Lagt er til í d-lið að stjórn og framkvæmdastjóra verði gert að gera Fjármálaeftirlitinu viðvart um málefni sem geta haft veruleg áhrif fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins. Í núgildandi lögum er vísað til úrslitaáhrifa, en með því að leggja til hugtakið „verulega þýðingu“ er verið að árétta frekar að tilkynningarskylda samkvæmt ákvæðinu verður virk á þeim tímapunkti sem mikils háttar eða óvenjulegar ráðstafanir hafa farið fram sem geta haft veruleg áhrif á áframhaldandi starfsemi félagsins. Sem dæmi um atriði sem virkja tilkynningarskyldu samkvæmt ákvæðinu má nefna ef fyrirhugaðar eru afskriftir sem nema ákveðnu hlutfalli af eigin fé, ef lánveitingar til tengdra aðila fara umfram tiltekið hlutfall af eigin fé á 12 mánaða tímabili, afskipti virks eiganda eða stjórnarmanna, umfram beitingu áhrifa á hluthafa- eða stjórnarfundum, fyrirhugaðar arðgreiðslur o.s.frv. Ekki er hægt að setja neitt algilt viðmið í þessum efnum. Ef um er að ræða meira en 10% hlutfall af eigin fé hlýtur slík ráðstöfun að hafa veruleg áhrif á áframhaldandi starfsemi félagsins. Í sumum tilvikum geta málefni sem varða minna en 10% hlutfall af eigin fé einnig haft verulega þýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins allt eftir aðstæðum hverju sinni. Stjórn og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á því að meta hvaða málefni geta haft verulega þýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi vátryggingafélags að teknu tilliti til þess sem að framan segir.
    Eignarhaldsfélag á sviði vátrygginga er skilgreint í 9. tölul. 9. gr. laganna sem „Fyrirtæki þar sem meginstarfsemin er að eiga hluti í dótturfyrirtækjum sem eru annaðhvort eingöngu eða aðallega vátryggingafélög“. Með hliðsjón af þessu er lagt til að sömu reglur gildi um stjórnarmenn í slíkum fyrirtækjum og stjórnarmenn í vátryggingafélögum.

Um 17. gr.

    Lagt er til að ákvæði 12. gr. tilskipunar 2001/17/EB verði innleitt í 11. mgr. 94. gr. laganna. Meðal þeirra sérreglna sem gilda um slit á vátryggingafélögum er forgangsröðun krafna, en vátryggingaskuldin er krafa sem einungis á við í vátryggingafélögum og raðast á eftir þeim kröfum sem um getur í 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti og fleira, sbr. 11. mgr. 94. gr. laganna. Vátryggingaskuld er meðal forgangskrafna þegar vátryggingafélög eru tekin til gjaldþrotaskipta. Í ákvæðinu er lögð á sú skylda að vátryggingafélag geti alltaf sýnt fram á að til séu eignir á móti þeim kröfum sem hafa forgang fram yfir vátryggingaskuldina, komi til gjaldþrotaskipta félagsins.

Um 18. gr

    Lagt er til að ákvæði tilskipunar 2001/17/EB verði innleitt í nýja grein, 96. a. Strangar reglur eru um gjaldþol vátryggingafélaga og hefur Fjármálaeftirlitið heimildir til að svipta vátryggingafélög starfsleyfi og taka til slitameðferðar uppfylli þau ekki þær kröfur, sbr. 91.–96. gr. Þau ákvæði eru innleiðing á tilskipuninni. Hins vegar þykir einnig nauðsynlegt að taka fram í lögunum að fylgja eigi þeirri málsmeðferð komi til gjaldþrotaskipta vátryggingafélags án þess þó að það hafi verið svipt starfsleyfi. Meginrökin fyrir slíkri sérmeðferð er að tryggja hag vátryggingartaka og sjá til þess að vátryggingaskuld félagsins verði færð með viðeigandi hætti til annars félags.

Um 19. gr.

    Vegna þeirra breytinga sem gerðar eru á 54. gr. laganna í 15. gr. frumvarpsins er hér gerð breyting á tilvísunum í þá grein í 1. mgr. 97. gr. laganna.

Um 20. gr.

    Lagt er til að í umsókn varðandi lögaðila skuli fylgja þær upplýsingar sem taldar eru upp í 5. tölul. 7. gr. laganna, um umsókn einstaklings. Ákvæðið sækir fyrirmynd sína í lög um vátryggingastarfsemi þar sem gert er ráð fyrir að vátryggingafélag skuli leggja fram áætlun um fyrirhugaða starfsemi með umsókn um starfsleyfi. Helstu rök fyrir slíku ákvæði eru að umsækjanda sé ljóst strax í upphafi hvernig hann hyggst haga rekstrinum og að hann ætli raunverulega að hefja starfsemi. Ekki voru haldbær rök fyrir því að krefja einungis einstaklinga en ekki lögaðila um slíkar upplýsingar.

Um 21. gr.

    Lagt er til að 10. gr. tilskipunar 2002/92/EB verði innleidd í nýja 28. gr. a. Ákvæði tilskipunarinnar leggur þá skyldu á aðildarríkin að þau skuli tryggja að komið sé á málsmeðferð sem gerir viðskiptavinum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að leggja fram kvartanir gegn vátryggingamiðlurum. Þá er einnig gerð sú krafa að öllum kvörtunum skuli svarað. Við mat á því hvernig best væri að innleiða ákvæðið var haft samráð við Fjármálaeftirlitið og tekið mið af þróun í Evrópu. Þar sem tilskipunin kveður ekki á um að þetta eigi að vera opinber aðili sem taki við og vinni úr kvörtununum eða leysi ágreining milli vátryggingamiðlara og viðskiptavinar, var ákveðið að fara þá leið að láta vátryggingamiðlarann sjálfan taka á móti kvörtununum. Þetta er í samræmi við þróun innan Evrópu á vátryggingasviðinu. Fjármálaeftirlitið mun setja leiðbeinandi tilmæli um það hvernig móttöku og úrvinnslu kvartana skuli háttað.

Um 22. gr.

    Lagt er til að 2. mgr. 9. gr. tilskipunar 2002/92/EB verði innleidd í 2. mgr. 61. gr. laganna. 61. gr. fjallar um samvinnu milli eftirlitsstjórnvalda innan EES. Mikilvægt er að ef vátryggingamiðlari gerist brotlegur hér á landi sé lögbæru eftirlitsstjórnvaldi sem gefið hefur út starfsleyfi vátryggingamiðlara tilkynnt um það. Þrátt fyrir að ákvæðið tiltaki einungis 62. og 62. gr. d laganna verður Fjármálaeftirlitinu heimilt að tilkynna um hvers konar annað brot, enda er það þáttur í mikilvægu samstarfi lögbærra eftirlitsaðila innan EES.

Um 23. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um miðlun vátrygginga (markaðssetning, stjórnarhættir og eftirlit).

    Markmiðið með frumvarpi þessu er tvíþætt. Annars vegar að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem stofnunin telur innleiðingu tveggja tilskipana Evrópusambandsins er varða vátryggingafélög og miðlun vátrygginga vera ábótavant. Hins vegar er markmiðið að lagfæra ýmsa vankanta á lögum um vátryggingastarfsemi sem upp hafa komið við framkvæmd þeirra.
    Meðal helstu breytinga sem lagðar eru til á lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, er í fyrsta lagi breyting á heimild Fjármálaeftirlitsins til að veita undanþágu vegna endurtryggingar frumáhættu. Í öðru lagi er kveðið á um að vátryggingafélög verða að hafa starfsleyfi hér á landi til að geta markaðssett sig eða boðið lögbundnar vátryggingar. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar er varða eftirlit með vátryggingastarfsemi og samskipti við Fjármálaeftirlitið svo sem um tilkynningarskyldu á útvistun á þáttum í starfsemi vátryggingarfélags og breytingar á framkvæmdastjóra. Í fjórða lagi verður Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefjast upplýsinga þegar aðili sækir um að eignast virkan eignarhlut í vátryggingarfélagi auk þess sem krafa til slíkra aðila um hæfni til að fara með virkan eignarhlut er gerð viðvarandi. Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á reglum er varða gjaldþrotaskipti vátryggingarfélaga þannig að komi til gjaldþrotaskipta skuli fara eftir sömu málsmeðferðarreglum og ef kæmi til slitameðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu. Að lokum er lagt til að vátryggingafélag skuli alltaf geta sýnt fram á eignir í efnahagsreikningi sem koma á móti kröfum sem eru á undan vátryggingarkröfum í skuldaröðinni.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um miðlun vátrygginga varða aukna upplýsingaskyldu þeirra lögaðila sem sækja um starfsleyfi til vátryggingamiðlunar. Einnig er lagt til að í þeim tilfellum sem vátryggingamiðlari, sem er undir eftirliti annars aðildarríkis, hefur gerst brotlegur við lög svo varðað geti réttindamissi, skuli Fjármálaeftirlitið tilkynna það lögbærum eftirlitsaðila vátryggingamiðlarans. Þá er að finna ákvæði sem leggur þá skyldu á vátryggingarmiðlara að setja upp skipulegt innra ferli til að svara og bregðast við þeim kvörtunum sem berast.
    Frumvarpið varðar fyrst og fremst vátryggingafélög og -miðlara en áhrif frumvarpsins á eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins verða að teljast óveruleg. Því mun lögfesting frumvarpsins ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.