Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 501. máls.

Þingskjal 643  —  501. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki,
og lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.


(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




I. KAFLI

Breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. a laganna:
     a.      9. tölul. orðast svo: Yfirráð: tengsl milli móðurfélags og dótturfélags með eftirfarandi hætti:
                  1.      að félag (móðurfélag) ráði yfir meiri hluta atkvæða í öðru félagi, eða
                  2.      eigi eignarhluti í öðru félagi og hafi rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda, eða
                  3.      eigi eignarhluti í öðru félagi og hafi rétt til að hafa afgerandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta félagsins eða samninga við það, eða
                  4.      eigi eignarhluti í öðru félagi og ráði meiri hluta í félaginu á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða aðra eignaraðila, eða
                  5.      eigi eignarhlut í öðru félagi og hafi ákvörðunarvald um rekstur og fjárhagslega stjórn þess, eða
                  6.      hliðstæð tengsl einstaklinga eða lögaðila við félag sem Fjármálaeftirlitið metur að leiði til raunverulegra áhrifa á starfsemi þess.
     b.      Við bætast fimm nýir töluliðir, svohljóðandi:
              12.      Móðurfélag: Félag sem hefur yfirráð í öðru félagi.
              13.      Dótturfélag: Félag sem er undir yfirráðum annars félags; dótturfélag dótturfélags telst einnig dótturfélag móðurfélagsins.
              14.      Samstæða: Móðurfélag og dótturfélög þess.
              15.      Endurverðbréfun (e. re-securitisation): Verðbréfun þar sem áhætta tengd undirliggjandi safni áhættukrafna er lagskipt í hluta og að lágmarki ein undirliggjandi áhættukrafa er verðbréfuð staða.
              16.      Endurverðbréfuð staða: Áhætta vegna endurverðbréfunar.

2. gr.

    2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Sparisjóður skv. 1.–6. tölul. 1. mgr. 3. gr. Sparisjóður sem starfar á afmörkuðu staðbundnu starfssvæði skv. 3. mgr. 14. gr. getur fengið starfsleyfi skv. 1., 2. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. Sparisjóður skal þó ætíð hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr.

3. gr.

    4. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálafyrirtæki skal tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í fyrirtækinu á hverjum tíma. Sé viðkomandi lögaðili skal jafnframt koma fram hverjir séu raunverulegir eigendur viðkomandi lögaðila.

4. gr.

    Á eftir 1. mgr. 20. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsemi sparisjóða sem starfa á staðbundnum, afmörkuðum starfssvæðum skv. 3. mgr. 14. gr. getur tekið til 1.–6., 10., 13. og 14. tölul. 1. mgr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þremur mánuðum“ í 3. mgr. kemur: einum mánuði.
     b.      Á eftir 2. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaeftirlitið skal tilkynna lögbærum yfirvöldum þess ríkis þar sem fjármálafyrirtæki starfrækir útibú um breytingar á áður veittum upplýsingum.

6. gr.

    2. mgr. 51. gr. laganna orðast svo:
    Skipa skal varamenn í stjórn fjármálafyrirtækis. Varamenn í stjórn fjármálafyrirtækis skulu vera tveir hið minnsta.

7. gr.

    Í stað 2. málsl. 4. mgr. 52. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis mega ekki sinna lögmannsstörfum fyrir annað fjármálafyrirtæki nema að lögmannsstörfin séu vegna einfaldra mála er varða löginnheimtu á peningakröfum fyrir annað fjármálafyrirtæki og málið varðar ekki verulega hagsmuni fyrir fjármálafyrirtækið. Stjórnarmaður ber sönnunarbyrði um að lögmannsstarf sem hann tekur að sér fyrir annað fjármálafyrirtæki brjóti ekki gegn ákvæði þessu. Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá stjórnarmanni í því skyni að meta hvort brotið hafi verið gegn ákvæðinu.

8. gr.

    Á eftir orðunum „hagnaði liðins árs fyrir skatt“ í 1. málsl. 1. mgr. 63. gr. laganna kemur: að undanskildum þeim hagnaði sem skapast við niðurfellingu skulda við fjárhagslega endurskipulagningu.

9. gr.

    3. mgr. 87. gr. laganna orðast svo:
    Eftirfarandi upplýsingar skulu vera í ársreikningi:
     a.      Launagreiðslur og hvers konar greiðslur eða hlunnindi félagsins til hvers og eins stjórnarmanns og framkvæmdastjóra,
     b.      heildargreiðslur og hlunnindi lykilstarfsmanna auk upplýsinga um fjölda þeirra,
     c.      nöfn og heimilisföng allra þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í lok reikningsárs. Sé viðkomandi lögaðili skal jafnframt koma fram hver sé raunverulegur eigandi viðkomandi lögaðila.

10. gr.

    Við 99. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ef íslenskt fjármálafyrirtæki starfrækir útibú í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, geta lögbær yfirvöld þess ríkis lagt fram rökstudda beiðni til Fjármálaeftirlitsins um að útibúið teljist sérstaklega mikilvægt fyrir það ríki. Til að útibúið teljist sérstaklega mikilvægt skal horfa til þess hvort innlán í útibúinu séu að minnsta kosti 2% af markaðshlutdeild heildarinnlána í ríkinu, og hvort útibúið hafi mjög stóran hóp viðskiptavina og að tímabundin lokun eða stöðvun á starfsemi fjármálafyrirtækisins mundi hafa mjög alvarleg áhrif á greiðslukerfi í ríkinu. Ef Fjármálaeftirlitið telur að útibúið uppfylli ekki þau skilyrði sem fram koma í 2. málsl. skal Fjármálaeftirlitið synja beiðninni og senda lögbærum yfirvöldum í hinu ríkinu rökstuðning fyrir synjuninni. Ef Fjármálaeftirlitið fellst á beiðnina hefur það heimild til þess að veita lögbærum yfirvöldum í hinu ríkinu frekari upplýsingar um starfsemi útibúsins í því landi. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur sem mæla nánar fyrir um málsmeðferð slíkrar beiðni og hvaða upplýsingar Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita öðrum lögbærum yfirvöldum um starfsemi útibúsins.
    Ákvæði 5. mgr. gildir einnig um verðbréfafyrirtæki að breyttu breytanda, sem hefur starfsleyfi samkvæmt lögum þessum og starfrækir útibú í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

11. gr.

    Í stað orðanna „4. mgr. 52. gr.“ í 4. málsl. 4. mgr. 101. gr. laganna kemur: 4.–6. mgr. 52. gr.

12. gr.

    Á eftir orðunum „og hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði“ í 7. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna kemur: og 4. mgr. 19. gr. um að birta ekki eða uppfæra upplýsingar á vefsvæði um nöfn og heimilisföng þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í fyrirtækinu.

13. gr.

    Í stað orðanna „og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB“ í 117. gr. laganna kemur: tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/76/ESB.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.
14. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið skal við eftirlitsstörf sín, einkum í neyðartilfellum, taka tillit til mögulegra áhrifa ákvarðana og athafna eftirlitsins á fjármálastöðugleika á Íslandi sem og EES- svæðinu öllu.

15. gr.

    Á eftir 1. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þagnarskylda skv. 1. mgr. hvílir á öðrum yfirvöldum, einstaklingum eða lögaðilum en þeim sem 1. mgr. tekur til, ef þeir vegna starfa síns taka á móti eða komast að upplýsingum sem leynt skuli fara, þar með talið um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra. Óheimilt er að nýta sér í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu.

III. KAFLI
Gildistaka.
16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    
Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í kjölfar fjármálaáfallsins sem varð á haustdögum 2008 skipaði viðskiptaráðherra nefnd til þess að fara yfir lög á sviði fjármálamarkaðar. Markmiðið með þeirri vinnu var að komið yrði í veg fyrir að sambærilegir erfiðleikar endurtækju sig. Margar af þeim tillögum sem nefndin skilaði af sér leiddu til breytinga á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem gerð var með breytingalögum nr. 75/2010 og með lögum nr. 119/2011. Þá voru gerðar miklar breytingar á sparisjóðakafla laganna með lögum nr. 77/2012, í kjölfar endurskoðunar á sparisjóðakerfinu en starfshópur á vegum sparisjóðanna með aðkomu Bankasýslu ríkisins hefur að undanförnu unnið að mati á rekstrarhorfum sparisjóðanna og framtíðarsýn sparisjóðakerfisins. Heildarendurskoðun á lögum á sviði fjármálamarkaða er hvergi nærri lokið enda um viðamikið regluverk að ræða sem hefur áhrif á flesta ef ekki alla landsmenn. Nokkrar nefndir sem skipaðar hafa verið á undanförum árum eru ennþá að störfum við það að yfirfara ýmsa þætti þessarar löggjafar. Þá hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið nýlega sett af stað tvo starfshópa, annars vegar starfshóp sem fer yfir svonefndar Basel III reglur og hins vegar starfshóp sem endurskoðar reglur um slit fjármálafyrirtækja o.fl. Þá hefur ráðuneytið það einnig til skoðunar hvort setja eigi reglur sem kveða á um að skilja skuli á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi fjármálafyrirtækja. Mikið var rætt um eigendur og eignarhald á fjármálafyrirtækjum í kjölfar fjármálaáfallsins haustið 2008, m.a. hvort að þeir sem héldu virkum eignarhlutum í stærstu fjármálafyrirtækjum landsins hafi verið hæfir til þess að ráða svo stórum hlutum. Nú hefur umræða komið upp aftur en nú er rætt um eignarhald þeirra fjármálafyrirtækja sem urðu til í kjölfar hruns þeirra eldri. Með frumvarpi þessu eru lagðar til reglur um að fjármálafyrirtækin upplýsi um eignarhald þeirra raunverulegu eigenda sem eiga umfram 1% í fjármálafyrirtækjunum.
    Í kjölfar breytinga sem gerðar hafa verið á lögum um fjármálafyrirtæki á undanförnum árum hafa margar ábendingar borist um það sem betur mætti fara í löggjöf á sviði fjármálamarkaðar. Með frumvarpi þessu er leitast við að lagfæra ýmis ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Samhliða þessu er með frumvarpinu lagt til að þrjár tilskipanir Evrópusambandsins, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004, um markaði fyrir fjármálagerninga, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009, um breytingu á tilskipunum 2006/48/EB, um stofnun og rekstur lánastofnana, 2006/49/EB, um eigið fé fjármálafyrirtækja og 2007/64/EB, um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, að því er varðar tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringu og Evrópuþingsins og ráðsins 2010/76/ESB, frá 24. nóvember 2010, sem kveður á um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana og 2006/49/EB um eigið fé fjármálafyrirtækja, að því er varðar eiginfjárkröfur vegna veltubókar, endurverðbréfunar og eftirlits með starfskjarastefnu. verði innleiddar að fullu í íslenskan rétt.
    Helstu breytingar og nýmæli eru:
          Orðskýringum er breytt til hagræðingar og tvær nýjar orðskýringar koma inn í íslenskan rétt um endurverðbréfun.
          Tímafrestur vegna samskipta eftirlitsyfirvalda ríkja vegna stofnunar útibúa er styttur.
          Þagnarskylda þriðju aðila á upplýsingum sem þeir kunna að taka á móti eða komast að vegna starfa síns er áréttuð.
          Fjöldi varamanna í stjórnum fjármálafyrirtækja er lækkaður.
          Hæfisreglum um lögmenn sem jafnframt sitja í stjórnum fjármálafyrirtækja, bráðabirgðastjórn eða slitastjórn er breytt.
          Nokkrum ákvæðum varðandi sparisjóði er breytt.
          Þeir sem eiga yfir 1% af hlutafé eða stofnfé í fjármálafyrirtækjum skulu tilgreindir í ársreikningi félagsins og fjármálafyrirtæki skal einnig birta upplýsingar um þá á vefsíðu.
          Ákvæði um það hvenær útibú teljist sérstaklega mikilvægt er bætt við lögin.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við innleiðingu tilskipunar 2009/111/EB er í frumvarpi þessu lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í þeim tilgangi að innleiða tilskipunina að fullu í íslenskan rétt og uppfylla þannig skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/76/ESB (e. Directive 2010/76/EU of the European Parliament and of the Council of 24 November 2010 amending Directives 2006/48/EC and 2006/49/EC as regards capital requirements for the trading book and for re-securitisations, and the supervisory review of remuneration policies) kveður á um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana og 2006/49/EB um eigið fé fjármálafyrirtækja, að því er varðar eiginfjárkröfur vegna veltubókar, endurverðbréfunar og eftirlits með starfskjarastefnu. Með frumvarpi þessu verður tilskipunin innleidd í íslenskan rétt. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2010 hinn 10. febrúar 2012.
    Með breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem gerð var með lögum nr. 77/2012 voru gerðar breytingar á VIII. kafla laganna sem fjallar um sparisjóði ásamt því að fleiri breytingar voru gerðar á öðrum köflum laganna sem tengjast VIII. kafla. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru með lögum nr. 77/2012 fengið ábendingar um nánari útfærslu á ýmsum ákvæðum laganna sem tengjast sparisjóðum. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laganna sem tengjast sparisjóðum og starfsemi þeirra með hliðsjón af þeim ábendingum sem ráðuneytinu hafa borist.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hafa einnig borist nokkrar ábendingar frá aðilum á markaði um ýmsar breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þessar ábendingar hafa verið teknar til skoðunar í ráðuneytinu og með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæðum í VII. kafla um stjórn og starfsmenn, XI. kafla um ársreikning, endurskoðun og samstæðureikningsskil og XII. kafla um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja verði breytt til samræmis við þá vinnu.
    Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Með frumvarpi þessu er m.a. lagt til að nöfn þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í fjármálafyrirtækjum í lok reikningsárs verði tilgreind í ársreikningi fjármálafyrirtækisins og á vefsíðu þess. Sé um lögaðila að ræða skuli jafnframt koma fram hver sé raunverulegur eigandi viðkomandi lögaðila.
    Tilefni breytinga á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, varðar m.a. fulla innleiðingu á tilskipun 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga (MIFID).

III. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/76/ESB frá 24. nóvember 2010, sem lýtur að breytingum á tveimur tilskipunum Evrópuþingsins, nánar tiltekið tilskipun 2006/48/EB frá 14. júní 2006, um stofnun og rekstur lánastofnanna, og tilskipun 2006/49/EB frá 14. júní 2006, um eigið fé fjármálafyrirtækja, verði innleidd í íslenskan rétt. Breytingar þessar varða eiginfjárkröfur vegna veltubókar, endurverðbréfunar og eftirlit með starfskjarastefnu.
    Þá er með frumvarpi þessu lagðar til breytingar á lögum vegna innleiðingar tilskipunar 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga, sem einnig er þekkt sem MIFID-tilskipunin. Hún hefur þegar verið innleidd í íslenskan rétt en um er að ræða smávægilegar efnislegar lagfæringar, svo tryggt sé að efnisatriði tilskipunarinnar séu að fullu varin innan landsréttar. Samhliða framangreindum breytingum eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og tveimur breytingum á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og varðar önnur þessara breytinga innleiðingu tilskipunar 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009, um breytingu á tilskipunum 2006/48/EB, um stofnun og rekstur lánastofnana, 2006/49/EB, um eigið fé fjármálafyrirtækja og 2007/64/EB, um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, að því er varðar tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringu var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 119/2011, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þar voru innleidd í lög ýmis ákvæði um breytingu á reglum um eigið fé, lánveitingar, útlánaáhættur, birtingu athugana Fjármálaeftirlitsins og takmarkanir á stórum áhættum. Þá voru settar nýjar reglur um verðbréfun (e. securitisation) og einnig bættust við nýjar orðskýringar við lögin. Er í frumvarpi þessu lagt til að gerðar verði frekari breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í þeim tilgangi að innleiða tilskipunina að fullu í íslenskan rétt.
    
IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, til þess að uppfylla skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Tilskipun 2010/76/ESB var birt í Stjórnartíðindum EB hinn 14. desember 2010 og var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2012, frá 10. febrúar 2012, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992. Innleiðingu átti að vera lokið hinn 1. nóvember 2012. Þar sem talið var að innleiðing á ákvæðum tilskipunarinnar kallaði á lagabreytingu var stjórnskipulegur fyrirvari gerður við nefnda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við 103. gr. EES-samningsins. Með þingsályktun samþykkti Alþingi að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna ákvörðunarinnar (þskj. 959 á 140. löggjafarþingi). Verði frumvarpið að lögum mun íslenska ríkið hafa staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009, um breytingu á tilskipunum 2006/48/EB, um stofnun og rekstur lánastofnana, 2006/49/EB, um eigið fé fjármálafyrirtækja og 2007/64/EB, um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, að því er varðar tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringu var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 119/2011, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Lagt er til að gerðar verði frekari breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í þeim tilgangi að innleiða tilskipunina efnislega að fullu í íslenskan rétt.
    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á 4. mgr. 52. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu barst ábending um að núgildandi ákvæði gæti brotið gegn atvinnufrelsisákvæði 1. mgr. 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, þar sem ákvæðið fæli í sér óþarflega takmörkun á atvinnufrelsi lögmanna. Ákvæðið kom inn í lög um fjármálafyrirtæki með breytingalögum nr. 75/2010. Að baki ákvæðinu hvíldu þau sjónarmið, að á samkeppnismarkaði væri mikilvægt að eignarhald á fjármálafyrirtækjum og stjórnarseta skapaði ekki hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði. Það að lögmenn sætu í stjórn fjármálafyrirtækis og væru samhliða þeim störfum að vinna lögmannsstörf fyrir önnur fjármálafyrirtæki gæti valdið aukinni hættu á hagsmunaárekstrum og orðsporsáhættu. Þessa hagsmuni telur löggjafinn sérstaklega mikilvægt að vernda í uppbyggingu fjármálamarkaðarins á Íslandi, m.a. til þess að byggja upp traust almennings á fjármálamörkuðum hér á landi. Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er heimilt að takmarka atvinnufrelsi manna, sé það gert með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Á þeim uppbyggingartíma sem nú stendur yfir á fjármálamarkaði hér á landi er mikilvægt að hæft fólk með reynslu fáist til að sitja í stjórnum fjármálafyrirtækja. Með þeirri breytingu sem lögð er til í 6. gr. frumvarpsins, eru því rýmkaðir möguleikar lögmanna sem sitja í stjórn fjármálafyrirtækja á því að stunda minni háttar störf fyrir aðra eftirlitsskylda aðila þó þannig að áfram séu verndaðir þeir almannahagsmunir sem að ofan er getið.

V. Samráð.
    Frumvarpið var að mestu unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Lögð er til breyting á nokkrum ákvæðum í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, vegna ábendinga frá Fjármálaeftirlitinu sem fer með eftirlit á fjármálamarkaði og voru þær breytingar unnar í samráði við Fjármálaeftirlitið. Þá er einnig lagt til að nokkrum ákvæðum verði breytt vegna ábendinga frá aðilum á markaði og voru ákvæðin lagfærð í samráði við umrædda aðila ásamt því að Fjármálaeftirlitið kom með ábendingar um útfærslu ákvæðanna. Nokkur ákvæði frumvarpsins varða tilskipun 2009/111/EB en komið hefur í ljós að nokkur ákvæði tilskipunarinnar hafa ekki verið innleidd að fullu í íslenskan rétt. Þau ákvæði sem innleidd eru í íslenskan rétt með þessu frumvarpi voru útfærð í samræmi við tillögur starfshóps sem skilaði tillögum að innleiðingu tilskipunarinnar á sínum tíma. Starfshópurinn var skipaður af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og áttu Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, Samtök fjárfesta og Samtök fjármálafyrirtækja fulltrúa í umræddum starfshóp en starfsmaður efnahags- og viðskiptaráðuneytisins var starfsmaður hópsins. Ákvæði sem innleiða í íslenskan rétt efni tilskipunar 2010/76/ESB voru að hluta til unnin í samráði við Fjármálaeftirlitið.

VI. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið varðar helst afmarkaða hluti í starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlit með þeim og varðar því helst fjármálafyrirtæki. Hluti frumvarpsins varðar þó starfsemi stjórna fjármálafyrirtækja og stjórnarmenn þeirra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er annars vegar lögð til breyting og hins vegar viðbót við 1. gr. a laganna, sem inniheldur orðskýringar.
     Um a-lið.
    Lagt er til að skilgreiningu á orðinu „yfirráð“ í 9. tölul. 1. gr. a verði breytt en ákvæðið vísar nú til laga nr. 3/2006, um ársreikninga, um tengsl á milli móður- og dótturfélags. Til hagræðingar þykir æskilegt að hafa skilgreiningu á yfirráðum í 1. gr. a laganna sem inniheldur orðskýringar.
    Ekki er um efnislega breytingu að ræða frá því hvernig ákvæðin eru skilgreind í 5. og 6. tölul. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Hins vegar bætist við orðskýringuna nýr undirliður í 6. undirlið 9. tölul. 1. gr. a laganna, um hliðstæð tengsl einstaklinga eða lögaðila við félag, sem Fjármálaeftirlitið metur að leiði til raunverulega áhrifa á starfsemi félagsins. Fyrirmyndin að nýjum undirlið í 6. undirlið 9. tölul. kemur úr f-lið 29. tölul. 9. gr. laga nr. 56/2010, um vátryggingarstarfsemi, og ákvæði í b-lið 12. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt. Rétt þykir að sambærilegar reglur gildi um starfsemi fjármálafyrirtækja á vátryggingarsviði og um fjármálafyrirtæki á viðskipta- eða fjárfestingabankasviði.
     Um b-lið.
    Lagt er til að við 1. gr. a bætist við fimm nýjar orðskýringar. Fyrstu þrjár orðskýringarnar tengjast þeirri breytingu sem lagt er til að verði gerð í a-lið 1. gr. frumvarps þessa á orðskýringunni um „yfirráð“. Tvær seinni breytingarnar varða endurverðbréfun (e. re-securitisation).
    Með frumvarpi þessu er lagt til að skilgreiningar á orðunum „móðurfélag“, „dótturfélag“ og „samstæða“ verði bætt við orðskýringar í 1. gr. a laganna. Til hagræðingar þykir æskilegt að hafa skilgreiningu á þessum orðum í lögunum án tilvísunar til annarra laga. Ekki er um efnislega breytingu að ræða á skilgreiningu þessara orða eins og þau eru skilgreind nú í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eða hvernig þau eru skilgreind í lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, og í lögum nr. 56/2010, um vátryggingarstarfsemi, en fyrirmyndir orðskýringanna eru sóttar í umrædda lagabálka.
    Orðskýringarnar sem bætast við í 15. og 16. tölul. 1. gr. a koma úr a-lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2010/76/ESB en tilskipunin er innleidd í íslenskan rétt með þessu lagafrumvarpi. Tilskipunin bætir m.a. við nýjum orðskýringum í 40. lið a og 40. lið b 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB. Til nánari skýringar á því hvað endurverðbréfun felur í sér vísast til 2. gr. laga nr. 119/2011, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, um skýringu á verðbréfun.

Um 2. gr.

    Með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2012, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, var lögð til breyting á 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í þessari breytingu fólst að sparisjóðir gætu einungis stundað takmarkaða starfsemi. Frumvarpið var samþykkt með umræddri breytingartillögu.
    Í meðförum þingsins voru hins vegar gerðar nokkrar breytingar á öðrum ákvæðum frumvarpsins, m.a. á ákvæði frumvarpsins sem breytti 14. gr. laganna þannig að sparisjóðir með 5 milljón evra stofnfé/eiginfjárgrunn geti eins og áður haft sömu starfsheimildir og viðskiptabanki en sparisjóðir með 1 milljón evra í stofnfé/eiginfjárgrunn geti einungis stundað takmarkaða starfsemi. Sú breyting hefði átt að leiða til breytinga á ákvæði frumvarpsins sem breytti 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna en sú breyting fórst fyrir. Með 2. gr. frumvarpsins er framangreint lagfært og orðalagi 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. breytt þannig að það taki mið af þeim breytingum sem áttu sér stað á frumvarpinu í meðförum þingsins.

Um 3. gr.

    Ákvæði 49.–49. b gr. komu inn í lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með breytingalögum nr. 75/2010 og voru hluti af þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum vegna innleiðingar á tilskipun 2007/44/EB. Samkvæmt tilskipuninni hafa eftirlitsstjórnvöld takmarkaðan tíma til þess að meta hvort sá sem eignast virkan eignarhlut teljist hæfur til þess að fara með hlutinn, að öðrum kosti mælir tilskipunin svo fyrir að viðkomandi teljist hæfur. Í 49. gr. a er mælt fyrir um það að Fjármálaeftirlitinu sé skylt að hafna því að eigandi virks eignarhluta megi fara með hlutinn ef vafi leikur á því hver sé raunverulegur eigandi hlutans. Er það einkum í tilvikum eignarhaldsfélaga eða verðbréfasjóða, félaga um sameiginlega fjárfestingu þar sem gefin eru út hlutdeildarskírteini til þeirra sem falið hafa viðkomandi sjóði ávöxtun fjármuna, að reynir á þetta ákvæði.
    Með ákvæðinu er lagt til að á vefsíðu séu birtar upplýsingar um þá sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í fjármálafyrirtæki. Ákvæðið er í samræmi við þá breytingu sem lagt er til að gerð sé á 3. mgr. 87. gr. laganna. Ef fjármálafyrirtæki þyrfti einungis að gefa þessar upplýsingar upp í ársreikningi, mundi það einungis endurspegla eignarhaldið á einum degi ársins, t.d. 31. desember ár hvert. Þegar ársreikningur kemur út eru þessar upplýsingar jafnvel orðnar að hluta til úreltar. Eignarhald á fjármálafyrirtækjum er breytilegt frá degi til dags, sérstaklega í tilfellum fjármálafyrirtækja sem skráð eru á skipulega verðbréfamarkaði og því þykir æskilegt að gera skylduna til þess að upplýsa um eignarhald umfram 1% að viðvarandi skyldu þannig að almenningur eigi alltaf kost á því að fá nýjustu upplýsingarnar um eignarhaldið. Samkvæmt fyrrnefndum breytingum á 4. mgr. 19. gr. þarf fjármálafyrirtæki að greina frá öllum breytingum sem verða á eignarhaldi umfram 1% í kjölfar breytingar á hverjum tíma. Sé eigandi að eignarhlut yfir 1% lögaðili í skilningi ákvæðisins, skal jafnframt koma fram hverjir eða hver sé hinn raunverulegi eigandi að viðkomandi hlut. Um skilgreiningu á hugtakinu raunverulegur eigandi (e. beneficial owner) er átt við þá persónu (e. natural person) sem á eignarhlutinn eða stjórnar eignarhlutinum í gegnum lögaðilann.
    Í kjölfar fjármálakrísunnar sem reið yfir fjármálaheiminn haustið 2008 fór af stað umræða um mikilvægi gagnsæis eignarhalds í fjármálafyrirtækjum, bæði hér á landi sem og annars staðar. Gagnsæi eignarhalds er mikilvægt fyrir þá sem stunda viðskipti við félög, sérstaklega minni haghafa, bæði fjárfesta og kröfuhafa. Það að auðkenna raunverulega eigendur félags ætti að leiða til trausts og trúverðuleika félagsins, ásamt því að frekari gagnsæi ríkir um viðskipti félagsins, t.d. við tengda aðila. Upplýsingar um þá aðila sem raunverulega standa að baki fjármálafyrirtækinu gæti einnig leitt til betri stjórnarhátta og fjárhagsgæslu í fyrirtækinu og að reglum á markaði sé fylgt. Mikilvægt er að haghafar, fjárfestar, viðskiptamenn og aðrir hafi allir upplýsingar um breytingar á raunverulegu eignarhaldi félagsins, þannig að þeir geti metið stöðu sína út frá sinni stöðu, t.d. sem innstæðueigendur eða fjárfestar. Ásamt því að auðvelda Fjármálaeftirlitinu eftirlit með því hverjir fari með eignarhald yfir fjármálafyrirtækjum byggir ákvæðið einnig á sjónarmiðum um almannahagsmuni. Almenningur hefur hagsmuni af því að vita hverjir séu eigendur þeirra fyrirtækja sem hefur verið sýnt það traust að varðveita fjármuni almennings í formi innstæðna.
    Þá er ekki talið að 1% mörkin séu íþyngjandi gagnvart fjármálafyrirtækjunum og á það bent að 1% eignarhluti í Landsbankanum miðað við uppgefið hlutafé í ársreikningi bankans fyrir árið 2011 er að nafnvirði 240 milljónir.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er lagt til að í 2. mgr. 20. gr. verði tilgreind sérstaklega sú starfsemi sem sparisjóðum með 1 milljón evra í stofnfé/eiginfjárgrunn er heimilað að stunda. Er hér ekki um efnislega breytingu að ræða en talið skýrara að kveða á um starfsheimildir umræddra sparisjóða í 20. gr. en ekki einungis í 3. mgr. 14. gr. eins og gert var með lögum nr. 77/2012.

Um 5. gr.

    Lagt er til að tíminn sem Fjármálaeftirlitið hefur til að senda upplýsingar sem því hafa borist um stofnun útibús sem starfrækja á innan Evrópska efnahagssvæðisins verði styttur. Í stað þriggja mánaða tímafrests eftirlitsins, til að staðfesta við lögbær yfirvöld gistiríkis að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við starfsleyfi fyrirtækisins, komi einn mánuður líkt og mælt er fyrir um í 6. mgr. 31. gr. MIFID-tilskipunarinnar.
    Í     samræmi við efnislegt inntak tilskipunarinnar, nánar tiltekið 4. mgr. 31. gr. tilskipunarinnar, er gerð smávægileg breyting á 5. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt ákvæðinu ber Fjármálaeftirlitinu nú að tilkynna lögbærum yfirvöldum þess ríkis er fjármálafyrirtæki starfrækir útibú um breytingar á áður veittum upplýsingum í tengslum við stofnun útibúsins. Fjármálafyrirtæki er því ekki skylt að tilkynna bæði Fjármálaeftirlitinu og lögbærum yfirvöldum ríkisins þar sem fjármálafyrirtæki starfrækir útibú um breytingar á upplýsingum, heldur er nóg að tilkynna Fjármálaeftirlitinu sem kemur upplýsingunum áfram. Það er í takt við þá reglu sem kemur fram í 3. mgr. um tilkynningarskyldu Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið ber því að koma á framfæri þeim upplýsingum sem þeim er látið í té af hálfu fjármálafyrirtækis í tengslum við breytingar á áður veittum upplýsingum um starfrækslu útibús.

Um 6. gr.

    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á 2. mgr. 51. gr. núgildandi laga að áskilnaður um að skipa skuli jafn marga varamenn og aðalmenn í stjórnir fjármálafyrirtækja verði lagður niður og þess í stað verði einungis kveðið á um að varamenn í stjórnir fjármálafyrirtækja skuli að lágmarki vera tveir.
    Í lögum um fjármálafyrirtæki eru gerðar strangar hæfiskröfur til stjórnarmanna og hafa þær verið auknar á undanförnum missirum. Með lögum nr. 75/2010, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, voru kröfur til stjórnarmanna auknar og ábyrgð þeirra á eftirliti með rekstri fjármálafyrirtækisins aukin. Þá var Fjármálaeftirlitinu ætlað aukið hlutverk með eftirliti með starfi stjórna og hæfi stjórnarmanna. Ásamt auknum kröfum um hæfi stjórnarmanna fjármálafyrirtækja er nú gert ráð fyrir því að skipaðar séu sérstakar eftirlitsnefndir í fjármálafyrirtækjum, t.d. endurskoðendanefnd, áhættunefnd, lánanefnd o.fl. og skulu þessar nefndir m.a. vera stjórnarmönnum til aðstoðar við almennt eftirlit með starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis.
    Dæmin sína að mjög sjaldgæft er að varamenn taki sæti í stjórnum fjármálafyrirtækja. Þegar ráðuneytið tók umrætt ákvæði til skoðunar óskaði það eftir upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja um það hversu margir varamenn hefðu tekið sæti í stjórnum fjármálafyrirtækja undanfarin ár og hvaða tilfelli hefðu leitt til þess að þeir hefðu tekið þar sæti. Í svörum kom fram að í tilviki þriggja fjármálafyrirtækja hafði einungis einn varamaður tekið sæti í stjórn fjármálafyrirtækisins og var það annaðhvort út af langvarandi forföllum, m.a. veikindum, eða vegna þess að aðalmaður hafði sagt sig úr stjórn og tók því varamaður sæti fram að aðalfundi. Fjármálafyrirtækin bentu einnig á það, að með nútíma fjarskiptum í gegnum síma og tölvur væri mjög einfalt að láta stjórnarfundi fara fram án þess að allir aðilar væru saman komnir á sama stað. Þá væru fundartímar aðlagaðir þörfum stjórnarmanna til þess að allir ættu þess kost að mæta á fundina. Í svörum nokkurra fjármálafyrirtækja var jafnframt vísað til þess að það hafi valdið vandkvæðum að skipa jafn marga varamenn og aðalmenn í stjórnir fjármálafyrirtækjanna og ekki síst vegna aukinna krafna um hæfi stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum.
    Ef frumvarpið verður að lögum munu því ákvæði 1. og 2. mgr. 51. gr. laganna einungis kveða á um lágmark aðalmanna og varamanna í stjórnum fjármálafyrirtækja. Fjármálafyrirtækjum er hins vegar frjálst að kveða á um fleiri aðalmenn og varamenn í samþykktum sínum, eins og sum fjármálafyrirtæki gera nú þegar.

Um 7. gr.

    Með frumvarpi til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 75/2010, var skerpt á lagaákvæðum um hæfisskilyrði stjórnenda fjármálafyrirtækja, ásamt því að lagðar voru til breytingar á lögunum í þá átt að skilyrði til stjórnarsetu í fjármálafyrirtæki voru þrengd. Í frumvarpinu var víðast hvar að finna ákvæði þar sem lagðar voru til ríkari kröfur til stjórnarmanna fjármálafyrirtækja og að þeir gerðu sér fulla grein fyrir þeirri persónulegu ábyrgð sem þeir bæru á meðan á stjórnarsetu þeirra stæði. Meðal þeirra breytinga sem gerðar voru á ákvæði 52. gr. laganna með frumvarpi sem varð að lögum nr. 75/2010, var sú að stjórnarmaður mátti ekki vera lögmaður annars eftirlitsskylds aðila eða tengdra félaga. Þau sjónarmið sem hvíldu að baki breytingunni voru þau að á samkeppnismarkaði væri mikilvægt að eignarhald á fjármálafyrirtækjum og stjórnarseta sköpuðu ekki hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði. Það að lögmenn sætu í stjórn fjármálafyrirtækis og væru samhliða þeim störfum að vinna lögmannsstörf fyrir önnur fjármálafyrirtæki gæti valdið aukinni hættu á hagsmunaárekstrum og orðsporsáhættu. Samkvæmt orðanna hljóðan lagði umrætt ákvæði laganna fortakslaust bann við því að lögmenn sem sæti áttu í stjórn fjármálafyrirtækis sinntu lögmannsstörfum fyrir aðra eftirlitsskylda aðila.
    Í kjölfar breytinganna barst Fjármálaeftirlitinu fjöldi fyrirspurna varðandi störf lögmanna sem sátu í stjórnum fjármálafyrirtækja og var ákvæðið í kjölfarið því tekið til endurskoðunar hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Með lögum nr. 119/2011 var lögð til breyting á ákvæði 4. mgr. 52. gr. laganna sem varð að núgildandi ákvæði 2. málsl. 4. mgr. 52. gr. laganna. Í frumvarpi því sem varð að núgildandi 4. málsl. 4. mgr. 52. gr. kom fram, að ljóst þætti að ekki væri þörf á jafn víðtæku banni varðandi lögmenn sem sitja í stjórn fjármálafyrirtækis og gilti um starfsmenn og endurskoðendur fjármálafyrirtækja, þar sem hættan á hagsmunaárekstrum væri augljóslega minni varðandi lögmenn hvað varðar störf fyrir aðra eftirlitsskylda aðila. Með frumvarpinu var því lagt til að breytt ákvæði bannaði einungis lögmannsstörf fyrir annað fjármálafyrirtæki og samkvæmt því væri lögmanni sem sæti ætti í stjórn fjármálafyrirtækis einungis óheimilt að sinna hvers kyns störfum í þágu annars fjármálafyrirtækis. Sú breyting sem gerð var á ákvæðinu með lögum nr. 119/2011 leiddi því ekki til neinnar efnislegrar breytingar á ákvæðinu þrátt fyrir að markmiðið með breytingunni hefði verið að heimila lögmönnum sem sæti ættu í stjórn fjármálafyrirtækis, í það minnsta takmarkaðar heimildir til þess að vinna lögmannsstörf fyrir aðra eftirlitsskylda aðila.
    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á 4. mgr. 52. gr. laganna, að lögmönnum sem sæti eiga í stjórn fjármálafyrirtækis, verði heimilað að vinna ákveðin lögmannsstörf fyrir aðra eftirlitsskylda aðila.
    Samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 52. gr. laganna, mega stjórnarmenn vinna lögmannsstörf fyrir önnur fjármálafyrirtæki að því gefnu að um sé að ræða einföld mál er varða löginnheimtu á peningakröfum og störfin varði ekki verulega hagsmuni fyrir fjármálafyrirtækið sem unnið er fyrir. Samkvæmt þessu eru tvö skilyrði fyrir því að stjórnarmaður geti unnið lögmannsstörf fyrir annan eftirlitsskyldan aðila, þ.e. að um sé að ræða einföld mál er varði löginnheimtu á peningakröfum fyrir fjármálafyrirtækið en með því er átt við að um sé að ræða störf sem heyri undir daglega starfsemi fjármálafyrirtækja. Slík mál geta verið einföld löginnheimtumál vegna greiðslukortaskulda eða yfirdráttaskulda viðskiptavina fjármálafyrirtækisins eða ábyrgða vegna sömu skulda. Undir þetta heyra líka mál er varða innheimtu á lánasamningum til einstaklinga vegna húsnæðiskaupa eða annarra lausafjárkaupa og ábyrgða vegna þeirra. Seinna skilyrðið er að störfin varði ekki verulega hagsmuni fyrir fjármálafyrirtækið sem unnið er fyrir. Undir þetta skilyrði falla tilvik er varða rekstur fjármálafyrirtækisins sjálfs, ýmis ráðgjöf, t.d. félagaréttarleg eða skattaleg ráðgjöf, aðstoð við endurskipulagningu eða aðstoð við kaup og sölu á eignum fjármálafyrirtækisins. Ráðgjöf við útgáfu ýmissa verðbréfa eða annarra viðskiptabréfa, og ýmis mál er varða samkeppnislega hagsmuni. Upptalningin er ekki tæmandi og skal ákvæði túlkað þröngt við lögskýringu ákvæðisins. Markmið ákvæðisins er að heimila lögmönnum að vinna störf fyrir annað fjármálafyrirtæki þar sem engin hætta er á hagsmunaárekstrum eða að aðrir samkeppnislegir hagsmunir komi til álita.
    Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með því að stjórnarmenn brjóti ekki gegn ákvæðinu. Með breytingunni á ákvæðinu verður Fjármálaeftirlitið sett í þá stöðu að meta hvaða störf falli bæði innan og utan nýs ákvæðis. Til þess að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitsskyldu sinni er því til hægðarauka veitt heimild til þess að krefja bæði stjórnarmann og fjármálafyrirtækið sem unnið er fyrir um allar þær upplýsingar og gögn sem Fjármálaeftirlitið telur að það þurfi til þess að fylgjast með því að umrætt ákvæði laganna sé virt skv. 4. málsl. ákvæðisins. Að auki er sönnunarbyrði snúið við og ef Fjármálaeftirlitið telur að brotið sé gegn 4. mgr. 52. gr. laganna, er það stjórnarmannsins að sýna fram á að svo sé ekki.

Um 8. gr.

    Með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2012, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, voru gerðar allmargar breytingar á VIII. kafla laganna eða svonefndum sparisjóðakafla þeirra. Í 63. gr. laganna kom ákvæði sem mælti fyrir um það að lágmarki 5% af hagnaði liðins starfsárs fyrir skatt skyldi ráðstafað til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sparisjóðsins. Með frumvarpi þessu er lagt til að umræddu ákvæði verði breytt á þá leið að 5% hagnaður liðins árs fyrir skatt, sem ráðstafa á til samfélagslegra verkefna, taki ekki til hagnaðar sem verður til við niðurfellingu á skuldum sparisjóðsins við fjárhagslega endurskipulagningu hans.

Um 9. gr.

    Vísað er í skýringar með 3. gr. frumvarpsins varðandi breytingu á 4. mgr. 19. gr. laganna.

Um 10. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða ákvæði 4. mgr. 1. gr. og 7. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/ 111/EB. Með ákvæði 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/111/EB bætist við nýtt ákvæði í tilskipun 2006/48/EB í kaflann um varfærniseftirlit (e. prudential supervision) og valdmörk milli eftirlitsaðila þegar fjármálafyrirtæki hafa starfsemi í fleiri en einu ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæði 7. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/111/EB bætir við nýrri málsgrein í ákvæði 38. gr. tilskipunar 2006/49/EB en ákvæðið er í kafla tilskipunarinnar um eftirlit.
    Í tilskipun 2006/48/EB er m.a. fjallað um ábyrgð og framkvæmd eftirlits á fjármálafyrirtækjum sem starfrækja útibú í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Meginreglan samkvæmt Evrópulöggjöf er sú að eftirlitsaðili í því ríki þar sem höfuðstöðvar fjármálafyrirtækis eru staðsettar framkvæmi og beri ábyrgð á varfærniseftirliti fjármálafyrirtækisins og útibúum þess í öðrum löndum og að reglur þess ríkis þar sem höfuðstöðvar félagsins eru staðsettar gildi um eftirlitið, nema að kveðið sé sérstaklega á um það í lögum að ákveðnir þættir eftirlitsins séu í höndum eftirlitsaðila í gistiríki útibúsins.
    Í 42. gr. tilskipunar 2006/48/EB er kveðið á um samstarf eftirlitsaðila heimaríkis þar sem höfuðstöðvar fjármálafyrirtækis eru staðsettar og gistiríkis útibús. Ábyrgð eftirlitsaðila í heimaríki fjármálafyrirtækis tekur m.a. til stjórnarhátta félagsins, innri og ytri endurskoðunar og reglna um eigið fé, gjaldfærni, stórar áhættur og starfsemi félagsins sem fer út fyrir eiginlega bankastarfsemi o.fl. Meginreglan er sú að framangreint eftirlit nái einnig til útibúa fjármálafyrirtækisins í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
    Eftirlitsaðili í gistiríki útibúsins ber þó ábyrgð á nokkrum þáttum eftirlitsins sem snýr að útibúinu sjálfu og starfsemi þess í gistiríkinu. Eftirlitsaðili í gistiríkinu skal m.a. hafa eftirlit með gagnsæi í starfsemi útibúsins í gistiríki og viðskiptaháttum þess. Þá skal eftirlitsaðili í gistiríki einnig hafa eftirlit með peningamálastefnu útibúsins og eftirlit með lausafjárstöðu útibúsins í samstarfi við eftirlitsaðila í heimaríki þess. Hann getur m.a. krafist þess að útibúið uppfylli sömu kröfur hvað varðar lausafjárþörf og gildir um önnur fjármálafyrirtæki í gistiríkinu og hefur eftirlitsaðilinn rúmar heimildir til þess að sinna eftirliti sínu með lausafjárstöðu útibúsins. Þá þurfa útibú í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins að afhenda eftirlitsaðilum þar allar tölfræðilegar upplýsingar sem eru til tölfræðilegrar greiningar um starfsemi útibúsins þar í landi á sama hátt og önnur fjármálafyrirtæki þar í landi. Eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka fer einnig fram hjá eftirlitsaðila þar sem útibúið er staðsett ásamt því að eftirlit með öðrum reglum sem falla ekki undir samræmdar Evrópuréttarreglur eru á ábyrgð eftirlitsaðila í gistiríki, t.d. reglur er varða auglýsingar og reglur sem falla undir 31. gr. tilskipunar 2006/48/EB og varða heilindi fjármálamarkaðarins í gistiríki.
    Tilskipun 2009/111/EB bætir við nýjum ákvæðum 42. gr. a og 42. gr. b við tilskipun 2006/48/EB með 4. mgr. 1. gr. tilskipun 2009/111/EB. Samkvæmt nýju ákvæði 42. gr. a í tilskipun 2006/48/EB getur eftirlitsaðili í gistiríki útibús lagt fram beiðni til eftirlitsaðila í því ríki þar sem höfuðstöðvar viðkomandi fjármálafyrirtækis eru starfræktar, um að útibúið teljist sérstaklega mikilvægt fyrir gistiríkið. Það að útibú teljist sérstaklega mikilvægt (e. significant branch) í skilningi ákvæðisins felur í sér frekari samvinnu milli eftirlitsaðila í heimaríki höfuðstöðvanna og í gistiríki útibúsins. Eftirlitsaðili í heimaríki höfuðstöðvanna ber því að afhenda eftirlitsaðila í gistiríki rýmri upplýsingar um mikilvæg málefni höfuðstöðva fjármálafyrirtækisins eða starfsemi þess í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Með mikilvægum málefnum er átt við upplýsingar um sektir eða refsiaðgerðir gagnvart höfuðstöðvunum eða starfsemi hennar í öðrum löndum á EES-svæðinu eða önnur mikilvæg málefni sem áhrif getur haft á starfsemi útibúsins. Eftirlitsaðili í gistiríki hefur einnig rétt á því að sitja fundi í samráðshópi eftirlitsaðila (e. college of supervisors) þar sem málefni fjármálafyrirtækisins eru rædd.
    Með 7. mgr. 2. gr. í tilskipun 2009/111/EB bætist við ný 3. mgr. í 38. gr. tilskipunar 2006/49/EB. Reglan felur það í sér að ákvæði 42. gr. a í tilskipun 2006/48/EB gildir einnig að breyttum breytanda um útibú verðbréfafyrirtækja í öðrum aðildarríkjum á EES-svæðinu. Með 10. grein frumvarps þessa er lagt til að ákvæðin verði innleidd í íslenskan rétt.

Um 11. gr.

    Með breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem gerð var með lögum nr. 75/2011, bættist nýr málsliður við 4. mgr. 101. gr. laganna. Með breytingunni voru tilteknar hæfisreglur 52. gr. laganna látnar ná til þeirra manna sem sæti eiga í bráðabirgðastjórn eða slitastjórn fjármálafyrirtækja. Fyrir breytinguna giltu einungis ákvæði 75. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um hæfi þeirra manna sem tóku að sér sæti í bráðabirgðastjórn og slitastjórn fjármálafyrirtækis. Var talið rétt að auka kröfur til hæfis þeirra manna sem starfa við slit fjármálafyrirtækja vegna þeirra ríku og flóknu hagsmuna sem í húfi eru við slit eða endurskipulagningu slíkra fyrirtækja. Frá 4. mgr. 52. gr. laganna gildir undantekningarregla 5. og 6. mgr. sama ákvæðis um stjórnarmenn fjármálafyrirtækja. Rétt er að slíkar reglur gildi einnig um þá lögmenn sem eiga sæti í bráðabirgðastjórn eða slitastjórnum fjármálafyrirtækja. Að öðru leyti er vísað til skýringa í 7. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.

    Í samræmi við breytingu sem gerð er í frumvarpi þessu á ákvæði 4. mgr. 19. gr. laganna, þykir rétt að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til þess að beita fjármálafyrirtæki stjórnvaldssektum ef þau uppfæra ekki eða birta ekki upplýsingar um eignarhald umfram 1% í fyrirtækinu.

Um 13. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að tilskipun 2010/76/ESB verði innleidd í íslenskan rétt en hún kveður á um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana og 2006/49/EB um eigið fé fjármálafyrirtækja. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2010 hinn 10. febrúar 2012.

Um 14. gr.

    Ákvæði sem þetta er að finna í EES-löggjöf bæði varðandi banka og vátryggingafyrirtæki. Ákvæðið leggur þá skyldu á Fjármálaeftirlitið að byggja á þeim upplýsingum sem eru aðgengilegar og meta ástandið á fjármálamörkuðum. Samkvæmt orðalagi tilskipunarinnar verður að horfa til alls EES-svæðisins. Með þessu er reynt að koma í veg fyrir keðjuverkandi áhrif. Litið er á innri markað fjármálaþjónustu sem einn sameiginlegan markað og verða eftirlitsstjórnvöld að hugsa út frá honum í heild og reyna í lengstu lög að komast hjá því að taka ákvarðanir sem eru sveifluaukandi og geta haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika.

Um 15. gr.

    Í 3. mgr. 54. gr. MIFID-tilskipunarinnar er tryggð þagnarskylda þriðju aðila, þ.e. annarra aðila en lögbærra yfirvalda. Lagt er til að ákvæði þess efnis sé lögfest en 13. gr. laga um opinbert eftirlit tekur aðeins til þagnarskyldu stjórnar, forstjóra og starfsmanna Fjármálaeftirlitsins auk upptalinna sérfræðinga sem starfa fyrir Fjármálaeftirlitið t.d. að tilteknum málum. Þagnarskylda þriðju aðila er tryggð með ákvæðinu, þ.e. þeirra sem kunna að fá upplýsingarnar sem leynd hvílir á vegna starfa síns á grundvelli þessara laga eða annarra laga á sviði fjármálamarkaða. Hér er átt við önnur yfirvöld, einstaklinga eða lögaðila sem fá aðgang að slíkum upplýsingum í tengslum við almenn störf sín eða á annan hátt. Hafa skal í huga að brot á þagnarskyldu og óheimil notkun á upplýsingum gæti í einhverjum tilvikum varðað við XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um brot í opinberu starfi. Þriðju aðilar, sem komast að eða taka á móti upplýsingum sem leynt skulu fara á grundvelli þessara laga eða er tengjast starfsemi Fjármálaeftirlitsins að öðru leyti, skulu aðeins nota þær í tengslum við framkvæmd starfs sín. T.d. má nefna tilvik þar sem einkaaðilum yrði fengin rannsókn afmarkaðra tilvika er falla undir starfsemi Fjármálaeftirlitsins, en hér á landi hefur slíkt ekki tíðkast. Ákvæðið tekur jafnt til þess aðila sem lætur upplýsingar í té og þess sem tekur á móti þeim.

Um 16. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 87/1999, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Tilgangur frumvarps þessa er tvíþættur. Annars vegar er því ætlað að innleiða í íslenskan rétt eða breyta innleiðingu þriggja tilskipana Evrópusambandsins. Í fyrsta lagi er það tilskipun 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga, einnig þekkt sem MIFID-tilskipunin. Í öðru lagi er tilskipun 2009/111/EB sem lýtur að breytingum á eldri tilskipunum sem varða m.a. stofnun og rekstur lánastofnana, eigið fé fjármálafyrirtækja og greiðsluþjónustu á innri markaðinum, að því er varðar tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringu. Í þriðja lagi er tilskipun 2010/76/ESB, sem lýtur að breytingum á eldri tilskipunum sem varða m.a. stofnun og rekstur lánastofnanna, eigið fé fjármálafyrirtækja, að því er varðar eiginfjárkröfur vegna veltubókar, endurverðbréfunar og eftirlits með starfskjarastefnu. Hins vegar er ætlunin að lagfæra ýmis ákvæði laganna vegna fyrri breytinga á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, varðandi kaflann um sparisjóði ásamt því að koma á móts við ábendingar aðila á fjármálamarkaði sem varða framkvæmd laganna.
    Meðal nýmæla frumvarpsins er í fyrsta lagi að lagt er til að nöfn þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í fjármálafyrirtæki í lok reikningsárs verði tilgreind í ársreikningi fyrirtækisins. Sé um lögaðila að ræða skuli jafnframt koma fram hver sé forráðamaður viðkomandi lögaðila. Í öðru lagi er lagt til að tímafrestur vegna samskipta eftirlitsyfirvalda þjóðríkja vegna stofnunar útibúa verði styttur. Í þriðja lagi er lagt til að áskilinn fjöldi varamanna í stjórnum fjármálafyrirtækja verði lækkaður. Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á hæfisreglum um lögmenn sem jafnframt sitja í stjórn fjármálafyrirtækis, bráðabirgðastjórn eða slitastjórn. Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum varðandi sparisjóði. Í sjötta lagi er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði um hvenær útibú telst sérstaklega mikilvægt.
    Ákvæði frumvarpsins varða fyrst og fremst afmarkaða hluti í starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlit með þeim. Ekki verður séð að lögfesting þess hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.