Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 475. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 741  —  475. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (fjöldi dómara).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti, Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd og Dóru Sif Tynes frá Lögmannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimild til að skipa varadómara við Hæstarétt Íslands verði rýmkuð. Annars vegar mun 70 ára aldurshámark ekki taka til setningar varadómara í tiltekið mál eða til skemmri tíma allt að einu ári og hins vegar er lagt til að sett verði tímabundin heimild til að setja varadómara þótt sæti einskis dómara sé laust við réttinn. Einnig er í frumvarpinu lagt til að fjöldi héraðsdómara verði áfram 43 út árið 2013 en eftir þann tíma verði ekki skipað í þau embætti sem losna þar til fjöldi dómara er 38.
    Með lögum nr. 12/2011 var dómurum við Hæstarétt fjölgað tímabundið í 12 en sú fjölgun gengur til baka með því að skipa ekki í embætti dómara sem losna eftir 1. janúar 2013. Þungum og erfiðum málum hefur fjölgað síðastliðin þrjú ár og mikilvægt er að skera úr um fordæmisgefandi mál. Með fjölgun dómara hefur verið komið í veg fyrir að óafgreiddum málum fjölgi með óhjákvæmilegum drætti á málsmeðferð. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að gera megi ráð fyrir því að sú fjölgun dómara við Hæstarétt sem leiddi af lögum nr. 12/2011 gangi til baka á næstu árum og einnig eru uppi hugmyndir um að koma á fót millidómstigi. Jafnframt er líklegt að á næstu missirum dragi úr því álagi sem fylgdi fjármálahruninu. Af þessum sökum þykir ekki tilefni til að fresta því að dómurum við réttinn fækki frá 1. janúar 2013 eftir því sem þeir láta af embætti. Þess í stað er lagt til að lögfest verði tímabundin heimild til ársloka 2016 til að setja varadómara til að taka sæti í einstökum málum þótt ekkert sæti dómara sé autt vegna vanhæfis, leyfis eða forfalla. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið.
    Nefndin ræddi einnig þá breytingu að 70 ára aldurstakmark dómara gildi ekki um varadómara, sbr. 1. gr. frumvarpsins, og þá heimild að setja megi dómara vegna forfalla skipaðs dómara til skemmri tíma allt að einu ári þótt setti dómarinn hafi náð 70 ára aldri, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Nefndin bendir á að með þessari breytingu geti fyrrverandi hæstaréttardómarar tekið sæti í einstökum málum sem og hæstaréttarlögmenn eða prófessorar, svo lengi sem þeir fullnægja skilyrðum um embættisgengi, og miðlað af reynslu sinni en það ætti að stuðla að aukinni skilvirkni í dómskerfinu.
    Fjöldi ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta hefur tæplega tífaldast í kjölfarið á hruni gjaldmiðilsins og falli bankanna haustið 2008, en þau mál eru umfangsmikil og tímafrek í vinnslu. Af þeim sökum hefur álag á héraðsdómara aukist til muna. Það er álit nefndarinnar að leggja verði áherslu á nauðsyn þess að tryggja að dómstólarnir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki og tryggt verði að málarekstur fyrir dómstólum dragist ekki, sbr. ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar um að allir eigi rétt á að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Af þeim sökum telur nefndin mikilvægt að framlengja ákvæði laganna um að fjöldi héraðsdómara verði 43 um eitt ár, til 1. janúar 2014.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Fyrirvari Þorgerðar K. Gunnarsdóttur og Tryggva Þórs Herbertssonar lýtur að mikilvægi þess að varamenn við Hæstarétt Íslands verði ekki valdir handahófskennt heldur fari fram heildstætt mat í þeim efnum. Jafnframt skortir á samræmda stefnumörkun þvert yfir stjórnsýsluna hvað varðar atvinnuþátttöku þeirra sem hafa náð 70 ára aldri.
    Birgitta Jónsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. desember 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Þráinn Bertelsson.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir,           með fyrirvara.



Tryggvi Þór Herbertsson,

með fyrirvara.


Siv Friðleifsdóttir.