Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 407. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 743  —  407. mál.




Svar


velferðarráðherra við fyrirspurn Birnu Lárusdóttur
um fyrirhugaða uppbyggingu Landspítala.


     1.      Hver er áætlaður heildarkostnaður íslenska ríkisins við fyrirhugaða uppbyggingu Landspítala, sundurliðaður eftir:
              a.      stofnkostnaði vegna nýbyggingar,
              b.      kostnaði við endurbætur á eldra húsnæði,
              c.      kostnaði við tækjakaup?

    Forhönnun nýrra bygginga Landspítala við Hringbraut liggja nú fyrir. Kostnaðaráætlun vegna nýbyggingarinnar hefur verið uppfærð af SPITAL ráðgjafateyminu til samræmis við forhönnunina sem liggur fyrir til verðlags í október 2012. Þá hefur kostnaðaráætlun verið rýnd af VSÓ-ráðgjöf og danska ráðgjafarfyrirtækinu NIRÁS.
a.     Stofnkostnaður vegna nýbygginga meðferðarkjarna, rannsóknarhúss og sjúkrahótels, samtals um 77 þúsund fermetrar er um 41,1 milljarður kr. Kostnaður vegna bílastæðahúss, tæknihúss, tengiganga og tengibrúa ásamt kostnaði við gatnagerð, veitur, lóð og bílastæði er samtals um 3,2 milljarðar kr. Rekstur verkkaupa á hönnunar- og framkvæmdatíma, aðkeypt ráðgjöf á hönnunar- og framkvæmdatíma og framkvæmdaeftirlit er um 2,8 milljarðar kr. Samtals er áætlaður kostnaður við nýframkvæmdir um 47,1 miljarður kr. Áfallinn kostnaður frá 2010 við samkeppni og forhönnun er 1,4 mia.kr.
b.     Kostnaður við endurbætur á eldra húsnæði var áætlaður um 11 milljarðar kr. í apríl 2009. Framreiknað með byggingavísitölu til verðlags í október 2012 er áætlaður kostnaður við endurbætur um 12,9 milljarðar kr. Rétt er að benda á að endurbæturnar eru tímasettar í tveimur áföngum eftir að nýbyggingum er lokið.
c.     Kostnaður við lausar innréttingar, húsgögn og tækjabúnað er áætlaður um 12 milljarðar kr. Þessi upphæð fer mikið eftir því hvert ástand tækjabúnaðar verður þegar flutt verður í nýbyggingarnar þar sem hluti búnaðar verður fluttur yfir í þær nýju. Gert er ráð fyrir að búnaðurinn þurfi ekki að koma allur á sama tíma og er miðað við að um 7 milljarðar kr. þurfi í upphafi og það sem eftir verður dreifist á allt að sjö ár.

     2.      Hver er áfallinn kostnaður við undirbúning verkefnisins, á núgildandi verðlagi, sundurliðaður eftir helstu kostnaðarliðum?
    Áfallinn kostnaður við undirbúning verkefnisins á árunum 2010–2012 er um 1,36 milljarðar kr. og skiptist þannig:

Hönnunarkostnaður 991,4
Verkefnisstjórn 262,8
Fjármagnskostnaður 105,9
Samtals millj. kr. 1.360,1

     3.      Hefur farið fram mat á arðsemi verkefnisins með tilliti til fjárfestingar og reksturs? Ef svo er, hverjar eru helstu niðurstöður?
    Í mars 2012 var verkefnið kynnt fyrir fjárlaganefnd Alþingis. María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala, kynnti þar greiningu Hospitalitet AS um mat á hagkvæmni nýs Landspítala. Í skýrslunni eru bornir saman tveir valkostir, valkostur 0 og valkostur 2. Valkostur 0 byggir á því að vera áfram í Fossvogi og á Hringbraut og að byggja um 15.000 m² á Hringbraut. Valkostur 2 byggir á að leggja niður starfsemi í Fossvogi og byggja um 66.000 m² á Hringbraut. Helstu niðurstöður þeirrar greiningar eru að hagkvæmari kosturinn er valkostur 2, að sameina starfsemina á Hringbraut og að nettóábati á ári af valkosti 2 sé um 2,6 milljarðar kr.

     4.      Hefur verið lagt mat á kostnað við skipulagsvinnu og breytingar á umferðarmannvirkjum sem framkvæmdinni fylgja?
    Kostnaður við skipulagsvinnu vegna gerðar breytts deiliskipulags á lóð Landspítala við Hringbraut er innifalinn í áföllnum kostnaði samkvæmt lið 2 hér að ofan. Kostnaður vegna deiliskipulagsvinnu nemur um 120 millj. kr.
    Ekki er þörf á breytingum á gatnakerfinu vegna flutnings starfsemi landspítala úr Fossvogi á Hringbraut. Breytingar á álagi á götur verður einungis á götum sem liggja milli Fossvogs og Hringbrautar og umferðaraukningin verður hverfandi.
    Í skýrslu Vegagerðar og Reykjavíkurborgar um mat á umhverfisáhrifum vegna færslu Hringbrautar, Línuhönnun í mars 2003, segir m.a.:
    „Megintilgangur framkvæmdarinnar er að sameina Landspítalalóðina og færa megin strauma umferðar frá Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi. Þannig er leyst úr brýnni þörf á bættu aðgengi að Landspítalanum og gert kleift að byggja upp lóð Landspítalans beggja vegna eldri Hringbrautar. Bætt aðkoma að háskólasvæðinu frá Njarðargötu er forsenda frekari uppbyggingar þar. Gönguleiðir og öryggi gangandi vegfarenda er stórbætt. Með minnkun umferðar á eldri Hringbraut mun mengun og hávaði frá umferð minnka. Kostnaður við framkvæmdina verður um 1240 milljónir króna. Framkvæmdin mun spara sem nemur 100 milljónum í slysakostnað á ári.“

     5.      Hefur verið tekin ákvörðun um hvort verkefnið verði fjármagnað af fjárlögum eða í einkaframkvæmd og hver er þá líkleg ávöxtunarkrafa?
    Verkefnið fór af stað með stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík samkvæmt lögum nr. 64/2010 sem tóku gildi 24. júní 2010. Í 2. gr. laganna segir:
    „Tilgangur félagsins er að standa að undirbúningi og útboði á byggingu nýs Landspítala, háskólasjúkrahúss við Hringbraut í Reykjavík, með það að markmiði að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu þegar byggingaverktaki hefur lokið umsömdu verki.“
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi segir:
    „Einnig er unnið að áætlun um byggingu nýs Landspítala en samkvæmt drögum að henni er gert ráð fyrir að framkvæmdakostnaður verði um 45 mia.kr. og um 2.100 ársverk. Gert er ráð fyrir að áætlunin og áfangaskipting framkvæmdarinnar verði lokið fyrir afgreiðslu frumvarpsins.“
    Í sameiginlegu minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra til ríkisstjórnarinnar 30. nóvember sl. er lagt til að undirbúið verði frumvarp um breytingar á lögum sem geri opinberu hlutafélagi um byggingu nýs Landspítala (NLSH ohf.) kleift að halda utan um og annast byggingu nýs Landspítala sem fjármagnaður yrði sem opinber framkvæmd að mestu eða öllu leyti. Frumvarpið yrði lagt fram í janúar. Talið er að hinn innlendi verktakamarkaður hafi varla burði til að fjármagna stærstu verkþættina og bera á þeim fjárhagslega ábyrgð á grundvelli langtímaleigusamnings, en eitt frumskilyrði fyrir leiguleiðinni er að áhættan af kostnaði við byggingu og rekstur sé hjá þeim einkaaðila sem byggir og annast rekstur húsnæðisins. Jafnvel þótt fram kæmu tilboð í uppbyggingu og fjármögnun í samræmi við leiguleið séu miklar líkur á því að bókhaldsreglur ríkisins mæli svo fyrir um að heildarskuldbinding ríkisins færðist eftir sem áður á bækur ríkisins. Þegar svo er verði að ætla að eðlilegra og hagkvæmara sé að ríkið sjái þá sjálft um byggingu spítalans í hefðbundinni opinberri framkvæmd.
    Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við 3. umræðu fjárlaga 2013 kom fram að ekki eru gerðar tillögur um gjaldaheimildir núna, en við framvarpsgerðina verði jafnframt athugað hvort finna megi svigrúm í langtímaáætlun um ríkisfjármál á næstu árum með það að markmiði að hefja framkvæmdir við stærstu verkþættina sem opinbera ríkisframkvæmd. Við þá skoðun verði lögð áhersla á að halda jöfnuði í ríkisfjármálum auk þess sem tekið verði tillit til hagræðingar og hagrænna áhrifa framkvæmdanna.

     6.      Hefur nýlega farið fram mat á öðrum kostum við uppbygginguna og hugsanlega hentugri staðsetningu en þeirri sem nú er gengið út frá?
    Starfsnefnd Jóns Kristjánssonar, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, skilaði 30. janúar 2002 áliti um framtíðaruppbyggingu Landspítala. Í nefndinni voru Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Magnús Pétursson, þáverandi forstjóri Landspítala, og Páll Skúlason, þáverandi rektor Háskóla Íslands. Nefndinni var falið að fara yfir fyrirliggjandi gögn og hugmyndir um framtíðaruppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss og gera grein fyrir þeim möguleikum sem helst eru taldir koma til greina, greina kosti og galla og að síðustu leggja fram tillögur um staðsetningu og hvernig standa bæri að uppbyggingu spítalans.
    Nefndin skoðaði fyrst og fremst þrjá uppbyggingarkosti: Vífilsstaði, Fossvog og Hringbraut.
    Leitað var til innlendra og erlendra sérfræðinga og haldnir fjölmargir kynningar- og umræðufundir með þeim sem málið varða.
    Starfsnefndin lagði til að öll starfsemi Landspítalans verði á einum stað, við Hringbraut, og að nýbyggingar rísi aðallega sunnan þáverandi Hringbrautar.
    Meginrök fyrir þessari niðurstöðu eru að kostnaður við útfærsluna er minnstur, m.a. vegna bygginganna sem fyrir eru á lóðinni og nýta má til starfseminnar, nálægð við Háskóla Íslands tryggir nauðsynlega samvinnu tveggja mikilvægra stofnana, möguleikar til áframhaldandi uppbyggingar eru tryggðir og aðgengi þeirra sem nýta sér þjónustu spítalans og starfsmanna verður gott, þegar gatnakerfi hefur verið lagfært.
    Þegar öll starfsemi Landspítalans verður komin á sama stað mun skilvirkni í starfseminni aukast.
          Það kemur sjúklingum mjög til góða að geta gengið að allri þjónustu sjúkrahússins á einum stað.
          Samvinna innan sérgreina og milli þeirra eflist og þannig næst árangursríkara faglegt starf.
          Samþjöppun sérþekkingar leiðir jafnframt til betri þjónustu við sjúklinga, meiri virkni í vísindastarfi og markvissari kennslu heilbrigðisstétta.
          Með mikilli nálægð starfseininga og betur skipulögðu húsnæði næst hagræðing í rekstri sem ætla má að spari stofnkostnað vegna nauðsynlegra framkvæmda á nokkrum árum.
          Þá er hagræði fyrir starfsmenn mikið, að öðrum kosti þyrftu margir þeirra áfram að stunda störf sín á mörgum vinnustöðum. Jafnframt verður öll stjórnun og ýmiss konar samræming auðveldari. Slíkt er ótvírætt til þess fallið að bæta bæði rekstur og faglegt starf.
    Þetta eru rökin sem sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 byggðist á, en hún hefur þegar skilað mikilsverðum árangri. Fullur árangur næst þó ekki nema hægt verði að ljúka sameiningu sérgreina og skyldra starfseininga sem nú stendur yfir. Í mörgum tilvikum er það aðeins hægt með því að sameina alla starfsemi háskólasjúkrahúss á einum stað. Í skýrslu starfsnefndarinnar kemur fram að rísi nýbyggingar Landspítalans sunnan (þáverandi) Hringbrautar þýði það m.a. að:
          „Aðgengi sjúklinga, starfsmanna og gesta verður mjög gott að loknum fyrirhuguðum framkvæmdum við umferðarmannvirki í kringum Hringbraut. Lóð Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut liggur vel við almenningssamgöngum og fyrirhugað er að byggja nýja umferðarmiðstöð í nágrenni hennar.
          Nálægð við Háskóla Íslands, sem ætlar áfram að byggja við Læknagarð fyrir heilbrigðisvísindadeildir, þekkingarþorp og fleiri rannsóknarstofnanir, veitir kennslu- og fræðahlutverki Landspítala – háskólasjúkrahúss mikilvægan stuðning og eflir um leið þjónustu við sjúklinga.
          Miklir möguleikar eru taldir á áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu.“
    En fremur segir í skýrslunni:
    „Kostnaður við uppbyggingu við Hringbraut er minnstur af fyrirliggjandi valkostum, m.a. þar sem mest af nýtanlegum byggingum er þar. Ætla má að stystan tíma taki að sameina starfsemina á einni lóð við Hringbraut meðal annars vegna þess að þar er fyrir nýr barnaspítali, kvennadeild og geðdeild.“
    Árið 2007 skipaði þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, nefnd um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana. Formaður nefndarinnar var Inga Jóna Þórðardóttir. Nefndin endurmat m.a. staðarval nýbygginga Landspítala. Til viðbótar við þrjá áðurnefnda staði, ákvað nefndin að skoða möguleika á staðsetningu sjúkrahúss á landi Keldna. Nefndin skoðaði skipulagslegar forsendur fyrir staðsetningu, spár um umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu næstu áratugi, aðgengi að svæðinu vegna bráðamóttöku og fyrir almenning, tengingu svæðisins við almenningssamgangnakerfi, svo og starfsemi og starfsþætti nýs spítala. Niðurstaða nefndarinnar var að rökin fyrir staðsetningu nýs spítala við Hringbraut væru í fullu gildi og að staðsetning nýs sjúkrahúss við Hringbraut væri besti kosturinn.