Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 574. máls.

Þingskjal 973  —  574. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur
húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum (kyntar veitur).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „olíu“ tvívegis í 3. tölul. kemur: eldsneyti.
     b.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þegar íbúð er hituð með vatni frá kyntri hitaveitu sem notar grisjunarvið eða annað umhverfisvænt eldsneyti.

2. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, 4. tölul., svohljóðandi: Til kyntra hitaveitna sem tengjast íbúðarhúsnæði sem notið hefur niðurgreiðslna á rafhitun eða olíu.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 12. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „4. tölul.“ í 4. málsl. kemur: 5. tölul.
     b.      Á eftir 4. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Styrkur á grundvelli 4. tölul. 11. gr. getur numið allt að tólf ára áætluðum mismun á niðurgreiðslum á beinni rafhitun eða olíu og niðurgreiðslum kyntrar hitaveitu.

4. gr.

    Í stað orðanna „4. tölul.“ í 4. mgr. 14. gr. laganna kemur: 5. tölul.


5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði minni háttar breytingar á lögum nr. 78/ 2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.
    Markmið frumvarpsins er tvíþætt, annars vegar að hvetja til notkunar innlends eldsneytis til kyntra hitaveitna og hins vegar að lækka kostnað ríkisins vegna niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar til lengri tíma litið.
    Í tillögum starfshóps iðnaðarráðherra sem skipaður var til að gera tillögur um breytt fyrirkomulag á niðurgreiðslum húshitunarkostnaðar, og skilaði tillögum sínum í desember 2011, segir m.a.:
     „Einnig þarf að endurskoða skilgreiningu á kyntum hitaveitum. Í núverandi lögum er ákvæði um lágmarkshlutfall raforku í orkunotkun kyntra hitaveitna. Með þessu ákvæði eru aðrir umhverfisvænir orkugjafar útilokaðir frá niðurgreiðslum. Síðan lögin voru sett hefur risið kynt hitaveita á Hallormsstað sem nýtir eingöngu grisjunarvið. Núverandi lög koma í veg fyrir að hægt sé að tengja íbúðarhúsnæði við veituna sem nyti niðurgreiðslna líkt og aðrar kyntar hitaveitur. Starfshópurinn telur engin rök fyrir því að niðurgreiða aðeins eina ákveðna gerð innlendrar og umhverfisvænnar orku.“
    Þær tillögur sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru í samræmi við tillögur starfshópsins sem lýst er hér að framan.
    Frumvarpið felur í sér samræmingu á stuðningi við aðgerðir sem draga úr niðurgreiðsluþörf ríkissjóðs til framtíðar. Húshitun á Íslandi er í dag með þrennum hætti: Jarðvarmaveitur, kyntar hitaveitur og bein rafhitun. Þeir sem kynda með beinni rafhitun, eða nýta hita frá kyntum veitum, njóta í dag niðurgreiðslna samkvæmt núgildandi lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002. Samkvæmt lögunum er einnig heimilt að styrkja nýjar veitur og í fyrstu náðu stofnstyrkir aðeins til nýrra jarðvarmaveitna en heimild til styrkveitinga var rýmkuð með breytingum á lögunum árið 2009, þar sem hvatt var til frekari vistvænnar orkuöflunar og opnað fyrir stuðning við fjárfestingar einstaklinga til bættrar orkunýtingar, svo sem með uppsetningu varmadæla. Með þeim tillögum sem í frumvarpinu felast er þriðji húshitunarþátturinn, kyntar hitaveitur, felldur inn í sama fyrirkomulag um stofnstyrki þar sem áætlaður sparnaður á framtíðarniðurgreiðslum fæst greiddur út sem stofnstyrkur.
    Rafkyntar hitaveitur eru víða, t.d. á Ísafirði, Seyðisfirði, Höfn og Vestmannaeyjum. Þessar veitur njóta niðurgreiðslna sem þó eru mun lægri en niðurgreiðslur til beinnar rafhitunar. Stækkun slíkra veitna mundi því spara ríkissjóði niðurgreiðslur sem næmu þeim mismun.
    Hægt er að taka dæmi um möguleg áhrif fyrir Vestmannaeyjar, verði frumvarpið að lögum. Hluti íbúðarhúsnæðis í Vestmannaeyjum er ekki tengdur kyntu veitunni sem þar er, eða um 186 íbúðir. Þessar íbúðir fá í dag greiddar 3,34 kr. á hverja kWst í formi niðurgreiðslna en ef þær yrðu tengdar kyntu veitunni mundi niðurgreiðslan lækka í 1,88 kr. á hverja kWst. Sparnaður ríkissjóðs yrði um 7 millj. kr. á hverju ári en á móti kæmi að ríkið mundi borga einu sinni, í formi eingreiðslu, um 76 millj. kr. til að liðka fyrir framkvæmdinni. Með öðrum orðum mun eingreiðslan skila sér til baka sem framtíðarsparnaður á niðurgreiðslum.
    Hér á landi er nú starfandi ein kurlhitaveita, á Hallormsstað, og er eldsneyti hennar grisjunarviður úr Hallormsstaðarskógi. Vatn frá veitunni er nú nýtt til að kynda skólahúsnæði á Hallormsstað en áhugi er á að stækka veitusvæði veitunnar þannig að íbúðarhúsnæði á staðnum, sem nú er kynt með raforku og nýtur niðurgreiðslna samkvæmt lögum nr. 78/2002, geti tengst veitunni. Við núverandi aðstæður er verð veitunnar nokkru hærra en niðurgreidd raforka, en þó lægri en óniðurgreidd raforka. Því verður að teljast hagkvæmt að gefa svigrúm til þess að íbúar á svæðinu geti tengst veitunni og notið sambærilegra kjara og ef þeir nytu niðurgreiðslna á rafhitun þannig að ríkið greiði í niðurgreiðslu mismun á verði veitunnar og verði niðurgreiddrar raforku. Til lengri tíma skapar það sparnað fyrir ríkið.
    Áhrif þeirrar lagabreytingar sem hér er lögð til yrðu eftirfarandi varðandi stækkun veitunnar á Hallormsstað: Íbúðarhúsnæðið sem stefnt er á að tengja við kurlveituna í dag fær niðurgreiðslur upp á 5,19 kr./kWst ef það yrði tengt veitunni mundi niðurgreiðslan lækka niður í um 2,5 kr./kWst. Árlegur sparnaður ríkis yrði því um 1,5 millj. kr. fyrir þessar 22 íbúðir sem hugsanlega tengdust veitunni. Á móti kæmi um 17 millj. kr. eingreiðsla til stækkunar veitunnar og tenginga inn í hús.
    Þó svo að hér sé tekið dæmi af kurlhitaveitu á Hallormsstað gætu verið fleiri staðir á landinu þar sem hagkvæmt gæti verið að reisa slíkar veitur verði frumvarp þetta að lögum.
Við gerð frumvarps þessa var haft samráð við Orkustofnun. Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á rekstur kyntra hitaveitna, eins og þær eru skilgreindar í lögum nr. 78/2002.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 4. gr. laganna er fjallað um skilyrði til niðurgreiðslna. Lagt er til að gildissvið verði útvíkkað með því að nota frekar orðið eldsneyti en orðið olía í 3. tölul. Með þeirri breytingu er verið að aftengja bindingu niðurgreiðslna við olíu þannig að mögulegt verði að niðurgreiða umhverfisvænna eða hagkvæmara eldsneyti eins og gas eða við.
    Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. er skilgreining á kyntum veitum. Hér er lagt til að bætt verði við einum tölulið í upptalningu um skilyrði til niðurgreiðslna þannig að tekinn sé af allur vafi um að íbúðir sem njóta kyndingar frá kyntri veitu sem nýtir grisjunarvið eða annað vistvænt eldsneyti geti notið niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar.


Um 2. gr.

    Í 11. gr. laganna er fjallað um skilyrði til styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna, umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar. Með þessum tillögum er þriðji húshitunarþátturinn, kyntar hitaveitur, felldur inn í sama fyrirkomulag þar sem áætlaður sparnaður á framtíðarniðurgreiðslum fæst greiddur út sem stofnstyrkur.
    Rafkyntar hitaveitur eru víða, t.d. á Ísafirði, Seyðisfirði, Höfn og í Vestmannaeyjum. Þessar veitur njóta niðurgreiðslna sem þó eru mun lægri en niðurgreiðslur til beinnar rafhitunar. Stækkun slíkra veita mundi því spara ríkissjóði niðurgreiðslur sem næmu þeim mismun.


Um 3. gr.

    Í 12. gr. laganna er fjallað um fjárhæð styrkja til nýrra hitaveitna. Þegar stofnuð er ný jarðvarmaveita á rafhituðu svæði er stofnstyrkur reiknaður sem 12 ára framreiknaðar niðurgreiðslur notenda á svæðinu og er sú upphæð veitt til veitunnar, að skilyrðum laganna uppfylltum. Við tengingu falla notendur út úr niðurgreiðslukerfinu.
    Með þeirri tillögu sem hér er lögð fram er lagt til að þegar byggð er ný fjarvarmaveita á rafkyntu svæði eða veita stækkuð, þá megi greiða út þann mismun sem er á niðurgreiðslum notenda fyrir og eftir framkvæmdina til allt að 12 ára. Við tengingu halda notendur niðurgreiðslum sem þó eru mun lægri en áður.

Um 4. og 5. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002,
um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Markmið frumvarpsins er annars vegar að hvetja til notkunar innlends eldsneytis til kyntra hitaveitna og hins vegar að lækka kostnað ríkisins vegna niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar til lengri tíma litið.
    Húshitun á Íslandi er nú með þrennum hætti, þ.e. jarðvarmaveitur, kyntar hitaveitur og bein rafhitun. Samkvæmt núgildandi lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar njóta þeir aðilar niðurgreiðslna sem kynda hús sín með beinni rafhitun eða nýta hita frá kyntum veitum. Samkvæmt lögunum er einnig heimilt að styrkja nýjar jarðvarmaveitur auk þess sem gert er ráð fyrir stuðningi við fjárfestingar einstaklinga til bættrar orkunýtingar svo sem með uppsetningu varmadæla. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að kyntar veitur verði felldar inn í sama fyrirkomulag um stofnstyrki og er samkvæmt núgildandi lögum en þar er m.a. gert ráð fyrir að styrkir til nýrra hitaveitna megi ekki vera meiri en 20% af heildarfjárveitingu. Með þessum breytingum yrði kleift að styrkja hagkvæmar framkvæmdir sem hefðu það að markmiði að tengja svæði, sem nú eru kynt með raforku, kyntum veitum. Gert er ráð fyrir að með þessu verði hægt að draga úr niðurgreiðsluþörf ríkissjóðs til húshitunar til lengri tíma. Ekki liggur hins vegar fyrir áætlun frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um umfang þeirra framkvæmda sem frumvarp þetta kann að snúa að og áhrif þess á niðurgreiðslur til húshitunar til lengri tíma að öðru leyti en því sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu. Þar er m.a. vísað í kurlhitaveitu á Hallormsstað og lýst kostnaðaráhrifum þeirra lagabreytinga sem í frumvarpinu eru lagðar til á þetta tiltekna verkefni. Með því að stækka veituna og tengja hana við það íbúðarhúsnæði, sem nú er kynt með raforku, er gert ráð fyrir að niðurgreiðslurnar geti lækkað úr 5,19 kr./kWst niður í um 2,5 kr./kWst eða um helming. Niðurgreiðslur ríkisins til húshitunar gætu í þessu tilviki lækkað um 1,5 m.kr. á ári en á móti kæmi til 17 m.kr. eingreiðsla til stækkunar veitunnar. Gert er ráð fyrir að þær eingreiðslur sem kunna að koma til vegna styrkja til slíkra framkvæmda verði fjármagnaðar með núgildandi fjárheimild á fjárlagalið 04-583, Niðurgreiðslur á húshitun. Ekki þurfi því að koma til auknar fjárheimildir af þeim sökum. Í fjárlögum 2013 er gert ráð fyrir 1.418 m.kr. fjárveitingu til slíkra niðurgreiðslna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Hins vegar má gera ráð fyrir að til lengri tíma muni niðurgreiðslur ríkissjóðs á hitun íbúðarhúsnæðis fara lækkandi vegna áhrifa þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu.