Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 650. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1152  —  650. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald,
með síðari breytingum (starfsmenn sendiráða).

Flm.: Mörður Árnason, Margrét Tryggvadóttir, Guðmundur Steingrímsson.


1. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þeir sem taldir eru í 3. tölul. 1. mgr. eru þó ekki undanþegnir gjaldskyldu af launum sem þeir greiða vegna starfsmanna sinna sem skattskyldir eru hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 90/ 2003, um tekjuskatt. Því ráðuneyti sem fer með málefni sendiráða og ræðisskrifstofa erlendra ríkja á Íslandi er heimilt að endurgreiða gjaldið á grundvelli alþjóðasamninga um skattfrelsi erlendra ríkja ef umsókn gjaldanda um endurgreiðslu berst viðkomandi ráðuneyti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpinu er lagt til að erlend sendiráð á Íslandi greiði tryggingagjald vegna innlendra starfsmanna sinna og jafnframt utanríkisráðuneytinu, eða því ráðuneyti öðru sem fer með málefni sendiráða og ræðisskrifstofa erlendra ríkja á Íslandi, verði heimilt að endurgreiða gjaldið á grundvelli umsóknar og að uppfylltum skilyrðum alþjóðasamninga um skattfrelsi erlendra ríkja.
    Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um réttarstöðu starfsmanna sendiráða á þessu löggjafarþingi (þskj. 506 í 373. máli) kemur fram að kröfur stjórnarskrár um skattlagningarheimildir eigi við um gjaldskyldu tryggingagjalds. Gjaldskyldan samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, nær almennt til launagreiðenda en undanþegnir greiðslu gjaldsins eru meðal annarra sendiráð og sendiherrar erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlendir starfsmenn við sendiráð, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 5. gr.
    Af svari ráðherrans verður ekki að fullu ráðið hvort íslenska ríkið hafi skuldbundið sig að þjóðarétti til að undanþiggja sendiráðin skyldu til þess að greiða tryggingagjald af launum innlendra starfsmanna sinna en aftur á móti er því slegið föstu að lagaheimild skorti til álagningar gjaldsins. Mun algengt vera að sendiráð standi af þeirri ástæðu ekki skil á gjaldinu vegna umræddra starfsmanna með þeim réttaráhrifum að hinir síðarnefndu hafa átt á hættu að glata mikilsverðum réttindum í almannatryggingakerfinu, þ.m.t. rétti til sjúkratrygginga, atvinnuleysisbóta, fæðingarorlofs o.s.frv.
    Til að jafna réttarstöðu innlendra starfsmanna erlendra sendiráða hefur þeim verið boðið að standa sjálfir undir greiðslu gjaldsins til að tryggja sér framangreind réttindi. Við slíkar aðstæður virðist hins vegar mega jafna greiðslunni til ígildi skattheimtu þar sem hún kemur beint úr vasa launamannsins. Sami skilningur virðist koma fram í svari ráðherra þar sem tekið er fram að heimildir íslenskra stjórnvalda til þess að leggja gjaldið á aðra en launagreiðendur viðkomandi starfsmanna séu hæpnar.
    Ráðherra telur að skattfrelsi sendiráðanna vegna umræddra starfsmanna sinna gangi lengra en leiðir af ákvæði 3. mgr. 33. gr. laga um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, nr. 16/1971, en bendir á að ef gera eigi breytingu á 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. þurfi að gæta þess að hún fari ekki í bága við ákvæði alþjóðasamninga um skattfrelsi erlendra ríkja, sbr. 1. mgr. 23. gr. nefndra laga.
    Í ljósi réttaróvissu um hversu langt skattfrelsi sendiráðanna nær og vegna þeirra mikilsverðu réttinda sem tengd eru greiðslu tryggingagjalds er lagt til í frumvarpinu að sendiráðin standi skil á gjaldinu vegna innlendra starfsmanna sinna. Um leið verði fagráðuneytinu heimilt að endurgreiða sendiráðunum gjaldið á grundvelli alþjóðasamninga um skattfrelsi erlendra ríkja ef umsókn um endurgreiðslu berst viðkomandi stjórnvaldi.
    Sendiráðin eru einu launagreiðendurnir á landinu sem ekki standa skil á tryggingagjaldi í víðum skilnings þess hugtaks, en samkvæmt lögum um ívilnun vegna nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 99/2010, er stjórnvöldum heimilt að semja við fyrirtæki um að þau greiði aðeins 80% almenns tryggingagjalds, þess hluta sem meðal annars rennur til Fæðingarorlofssjóðs og Starfsendurhæfingarsjóðs. Í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um breytingar á þessum lögum (502. mál) er lagt til að heimildin verði færð í 50%, og í frumvarpi um stuðning við iðjuver á Bakka við Húsavík (632. mál) er gert ráð fyrir algerri niðurfellingu almenna tryggingagjaldsins. Fjármála- og efnahagsráðherra sagði í svari við fyrirspurn á Alþingi hinn 6. mars að í þessu fælist engin réttindaskerðing fyrir starfsmenn þessara fyrirtækja heldur tæki ríkissjóður á sig kostnað sem hér af hlýst.



Fylgiskjal I.


Svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar
um réttarstöðu starfsmanna sendiráða.

(Þingskjal 506, 373. mál.)


     1.      Undanþiggur 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, erlend sendiráð á Íslandi frá greiðslu tryggingagjalds vegna innlendra starfsmanna sem starfa á þeirra vegum?
    Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er lögð skylda á launagreiðendur að inna af hendi tryggingagjald af greiddum launum. Í 2. mgr. 4. gr. kemur fram að gjaldskyldan taki til allra launagreiðenda sem greiða laun eða þóknanir fyrir starf. Beina undanþágu fyrir erlend sendiráð er að finna í 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. fyrrgreindra laga, en samkvæmt þeim tölulið eru sendiráð og sendiherrar erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlendir starfsmenn við sendiráð undanþegnir gjaldskyldu. Erlend sendiráð sem greiða íslenskum aðilum laun eru því ekki tryggingagjaldsskyld af launum íslenskra starfsmanna sinna samkvæmt gildandi lögum.

     2.      Er ríkinu heimilt að taka við greiðslu tryggingagjalds úr hendi íslenskra starfsmanna erlendra sendiráða á Íslandi og er slíkt fyrirkomulag í samræmi við 3. mgr. 33. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband, sbr. lög nr. 16/1971?
    Tryggingagjald hefur verið skilgreint sem skattur sem leggst á launagreiðendur. Í því felst að kröfur stjórnarskrár um skattlagningarheimildir eiga við um gjaldskyldu tryggingagjalds. Með öðrum orðum eiga menn ekki val um það hvort þeir eru skattskyldir aðilar, heldur ræðst skattskyldan af ákvæðum laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, þannig að jafnvel þótt tiltekin réttindi séu tengd greiðslu tryggingagjalds er það gjald ekki lagt á neinn annan en þann sem fellur undir gjaldskyldu viðkomandi skattlagningarheimildar.
    Forsenda þess að launamaður haldi réttindum sínum til sjúkratrygginga, atvinnuleysisbóta, fæðingarorlofs o.s.frv. er að greitt sé tryggingagjald vegna hans. Vegna undanþágu sendiráða til greiðslu gjaldsins er starfsmanninum heimilt að standa skil á því vilji hann tryggja sér framangreind réttindi. Slíkt fyrirkomulag byggist á 2. mgr. 4. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, þar sem gjaldskyldan tekur til allra launagreiðenda, svo sem einstaklinga, félaga, sjóða og stofnana, sveitarfélaga og stofnana þeirra, ríkissjóðs, ríkisstofnana, erlendra verktaka og annarra þeirra aðila sem greiða laun eða hvers konar þóknanir fyrir starf. Enn fremur til allra þeirra sem vinna við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi. Íslenskir starfsmenn erlendra sendiráða á Íslandi, sem kjósa að greiða tryggingagjald, fá þá sérmerkingu sem leiðir til þess að þeir fá ekki áætlun vanræki þeir greiðslu gjaldsins.
    Undanþága sendiráða til greiðslu tryggingagjalds er byggð á almennum reglum sem gilda um skattskyldu sendiráða, m.a. Vínarsamningnum um stjórnmálasamband sem hefur lagagildi á Íslandi samkvæmt lögum nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband. Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laganna skal sendierindreki sem hefur í þjónustu sinni menn, er undanþágurnar samkvæmt 2. mgr. greinarinnar taka ekki til, bundinn þeim skyldum, sem almannatryggingaákvæði móttökuríkisins leggja vinnuveitendum á herðar. Ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er undanþiggur sendiráð og sendiherra erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlenda starfsmenn við sendiráð gjaldskyldu, gengur lengra en ákvæði 3. mgr. 33. gr. laga nr. 16/1971 í þá átt að veita þeim meiri ívilnun sem ekki getur talist andstætt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband.

     3.      Má líta á slíkt fyrirkomulag sem ígildi skattlagningar þar sem íslenskir starfsmenn erlendra sendiráða á Íslandi eiga ekki annars kost en að standa skil á tryggingagjaldi vilji þeir halda rétti sínum hér á landi til sjúkratrygginga, atvinnuleysisbóta, fæðingarorlofs o.s.frv.?
    Íslenskir starfsmenn erlendra sendiráða á Íslandi teljast vera á íslenskum vinnumarkaði. Af því leiðir að um launakjör þeirra skal fara samkvæmt gildandi lögum, reglum og kjarasamningum á Íslandi. Þrátt fyrir að sendiráðin njóti úrlendisréttar og njóti tiltekinna friðhelgis- og forréttinda samkvæmt ákvæðum Vínarsamningsins, er þeim að öðru leyti skylt að virða lög og reglur á Íslandi, sbr. 41. gr. samningsins. Svo virðist sem einhver sendiráð hafi samið við íslenska starfsmenn sína um að bæta þeim upp þá skerðingu á launum sem greiðslu tryggingagjaldsins nemur.

     4.      Á hvaða lagagrundvelli er ríkinu heimilt að taka við greiðslu tryggingagjalds úr hendi íslenskra starfsmanna erlendra sendiráða á Íslandi?
    Sjá svar við spurningu 2.

     5.      Kemur til greina að ríkið standi skil á greiðslu tryggingagjalds fyrir íslenska starfsmenn erlendra sendiráða á Íslandi eða mun ráðuneytið beita sér fyrir lagabreytingu sem gerir hlutaðeigandi sendiráðum skylt að greiða gjaldið?

    Þegar horft er til þess að um skatt er að ræða á launagreiðendur verður að telja heimildir íslenskra skattyfirvalda til álagningar tryggingagjalds á aðila sem ekki eru launagreiðendur viðkomandi starfsmanna eða falla ekki undir skattalögsögu Íslands samkvæmt 1.– 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hæpnar. Standi vilji stjórnvalda til að gera breytingar þar á, t.d. með niðurfellingu á 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, þarf að huga að því að sú breyting fari ekki í bága við ákvæði alþjóðasamninga um skattfrelsi erlendra ríkja en samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, skulu sendiríki og forstöðumaður sendiráðs undanþegin öllum sköttum og gjöldum til ríkis, sveitarfélaga og annarra umdæma að því er tekur til sendiráðssvæðisins. Ráðuneytið hefur hug á, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, að kannað verði til hlítar hvort sendiráðin geti engu að síður greitt tryggingagjaldið að eigin frumkvæði líkt og sendiráð Íslands gera í mörgum ríkjum.



Fylgiskjal II.


Svar utanríkisráðuneytis við beiðni Marðar Árnasonar, dags. 12. desember 2012,     
um upplýsingar um túlkun á 3. mgr. 33. gr. Vínarsamningsins
um stjórnmálasamband, sbr. lög nr. 16/1971,
og hvernig þessi regla er framkvæmd í nágrannalöndum Íslands.

    Að því er varðar túlkun á 3. mgr. 33. gr. tekur ráðuneytið eftirfarandi fram:
    Samkvæmt 23. gr. Vínarsamningsins eru sendiríkið og forstöðumaður sendiráðsins undanþegin öllum sköttum og gjöldum vegna sendiráðssvæðisins. Þá mælir ákvæði 33. gr. hans fyrir um að sendierindreki skuli vera undanþeginn ákvæðum laga í gistiríkinu um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. Hafi sendierindreki í þjónustu sinni starfsfólk sem er ríkisborgarar móttökuríkisins og njóta ekki almannatrygginga í sendiríkinu er hann hins vegar bundinn af þeim skyldum sem lög um almannatryggingar í sendiríkinu leggja vinnuveitendum á herðar, sbr. 3. mgr.
    Hafa verður hugfast að þrátt fyrir úrlendisréttinn og tiltekin friðhelgis- og forréttindi sem sendiráðin njóta samkvæmt ákvæðum Vínarsamningsins, er þeim að öðru leyti skylt að virða lög og reglur móttökuríkisins, sbr. 41. gr. samningsins. Vegna þess að sendiráðin eru fulltrúar sjálfstæðra og fullvaldra ríkja hér á landi geta yfirvöld í móttökuríki þó ekki beitt sér sérstaklega gagnvart sendiráðunum til að fá þau til þess að hlíta þarlendum lögum og reglum með öðrum hætti en að hvetja þau til þess með vísan til áðurnefndrar 41. gr.
    Samkvæmt 5. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, eru erlendir þjóðhöfðingjar, sendiráð og sendiherrar erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlendir starfsmenn við sendiráð undanþegnir skyldu til að greiða tryggingagjald. Erlend sendiráð sem greiða staðarráðnum starfsmönnum laun eru því ekki tryggingagjaldsskyld af launum þeirra samkvæmt gildandi lögum. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um tryggingagjald segir um ákvæði 5. gr. að undanþágan frá greiðslu þess sé í samræmi við þær reglur sem gilda almennt um skattskyldu framangreindra aðila. Þótt ekki sé vísað til Vínarsamningsins um stjórnmálasamband í greinargerðinni verður að telja að þarna sé m.a. átt við hann.
    Ríkisskattstjóri hefur gefið út sk. ákvarðandi bréf, nr. 005/2001 um launagreiðslur erlendra aðila til þeirra sem skattskyldir eru, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að heimild íslenskra skattyfirvalda til álagningar tryggingagjalds á sendiráð í Reykjavík sé hæpin, þar sem þau falla ekki undir skattalögsögu Íslands samkvæmt 1.–3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fjármálaráðuneytið hefur tekið undir þessa túlkun ríkisskattstjóra. Standi vilji til að breyta því, t.d. með breytingu á tryggingagjaldslögum, þarf að ganga úr skugga um að slíkt fari ekki í bága við ákvæði alþjóðasamninga, sem Ísland er bundið af, um skattfrelsi erlendra ríkja, þ.m.t. Vínarsamninginn. Miðað við ákvæði 3. mgr. 33. gr. samningsins verður að telja að það sé í höndum löggjafarvalds hvers ríkis að ákveða hvort sendiríki er undanþegið almannatryggingaákvæðum eða ekki. Hins vegar verður einnig að líta til þess í þessu samhengi hvernig skattalögsaga íslenskra skattyfirvalda er skilgreind samkvæmt 1.–3. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003. Verði breyting gerð á skyldu sendiráða til að greiða tryggingagjald og álagning skattsins heimiluð, verður engu að síður að telja að heimildir íslenskra skattyfirvalda til að innheimta tryggingagjaldið séu takmarkaðar af úrlendisréttinum sem Vínarsamningurinn tryggir, sbr. það sem áður var rakið.
    Það er mjög mikilvægt fyrir staðarráðna starfsmenn erlendra sendiráða í Reykjavík, eins og aðra íslenska launþega, að njóta þeirra réttinda sem lög mæla fyrir um, t.d. réttar til atvinnuleysisbóta og fæðingarorlofs. Það er jafn mikilvægt fyrir þá að iðgjöld til lífeyrissjóða séu innt af hendi til að tryggja þeim tekjur þegar eftirlaunaaldri er náð. Af ákvæðum Vínarsamningsins telur ráðuneytið ljóst að löggjafarvaldið hafi tiltekið svigrúm til að mæla fyrir um réttarstöðu staðarráðinna starfsmanna í sendiráðum erlendra ríkja á Íslandi. Eins og ráða má af þeim upplýsingum sem ráðuneytið aflaði frá nokkrum ríkjum í Evrópu og greint er frá hér á eftir eru mismunandi leiðir til þess. Annars vegar með því að taka fram í ráðningarsamningi sendiráðanna við staðarráðna starfsmenn sína að þeir skuli sjálfir gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að njóta réttindanna. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að tekið sé fullt tillit til þess við launaákvörðun starfsmanna og gert ráð fyrir að þeir greiði hluta af heildarlaunum sínum til yfirvalda í þessum tilgangi. Hins vegar mætti tryggja réttindi hinna staðarráðnu starfsmanna með því að sendiráð hljóti, þrátt fyrir undanþáguna í lögum um tryggingagjald og að heimild fyrir íslensk skattyfirvöld til álagningar þess sé álitin hæpin, sérstaka skráningu hjá skattyfirvöldum og greiði tryggingagjaldið að eigin frumkvæði til íslenskra yfirvalda.
    Eins og fram kemur í 41. gr. Vínarsamningsins og áður var nefnt ber sendiráðum að virða lög og reglur móttökuríkisins, en vegna úrlendisréttarins eru möguleikar þess til að beita sendiráðin eftirfylgni hvað þetta varðar takmarkaðir.
    Vegna fyrirspurnar þingmannsins voru sendiráð Íslands í Berlín, Helsinki, Kaupmannahöfn, London, Osló, París og Stokkhólmi auk fastanefndarinnar í Genf beðin að afla upplýsinga frá viðkomandi ríkjum um hvernig ákvæði 3. mgr. 33. gr. Vínarsamningsins frá 1961, sem fjallar um skyldu sendierindreka til að uppfylla þær skyldur er reglur um almannatryggingar í móttökuríki leggja honum á herðar, er framkvæmt. Svörin fara hér á eftir:

Sendiráðið í Berlín.
    
Sendiskrifstofur erlendra ríkja í Þýskalandi þurfa að uppfylla öll skilyrði og fylgja reglum um atvinnutengd réttindi staðarráðinna starfsmanna. Í tryggingagjöldum felst lögbundin sjúkratrygging, lífeyristrygging, atvinnuleysistrygging og umönnunartrygging. Sendiskrifstofur bera þannig ábyrgð á því að staðarráðið starfsfólk greiði tilskilda skatta og gjöld, starfsfólkið þarf sjálft að annast greiðslu skattanna og sendiskrifstofurnar ákveða hvort þær sjálfar eða starfsmaðurinn annast greiðslu félagslegra gjalda. Sendiskrifstofum ber að upplýsa reglulega um ráðningu staðarráðinna starfsmanna og jafnframt um það hvor aðilinn beri ábyrgð á að standa skil á greiðslum félagslegra gjalda. Þýska utanríkisráðuneytið gengur úr skugga um að þessu sé framfylgt við hlutaðeigandi yfirvöld með því að biðja staðarráðið starfsfólk að skila gögnum þar að lútandi.

Sendiráðið í Helsinki.
    
Samkvæmt upplýsingum frá finnska utanríkisráðuneytinu hafa ekki verið sett lög um framkvæmd á 3. mgr. 33 gr. Vínarsamningsins, en finnska utanríkisráðuneytið gefur leiðbeiningar um skyldur atvinnuveitenda í Finnlandi í bæklingi til erlendra sendiráða. Þar kemur fram að finnsk lög á sviði vinnuréttar og almannatrygginga eigi við um staðarráðna starfsmenn. Leiðbeiningarnar er að finna í meðf. hlekk, sjá kafla 1.11 um staðarráðna starfsmenn:
formin.finland.fi/Public/download.aspx?ID=13943&GUID={A811E070-2712-4E7E-81DB-F223DB58CC1E}
    Finnska utanríkisráðuneytið telur að þar sem Vínarsamningurinn veitir ekki sendiráðum undantekningu frá félagslegum skuldbindingum, leiði það til þess að það beri skyldur vinnuveitenda. Það fylgir því ekki eftir hvernig málum er háttað í sendiráðum í Finnlandi, en gengur út frá því að erlend sendiráð fylgi leiðbeiningum.

Sendiráðið í Kaupmannahöfn.
    Samkvæmt dönskum rétti hvíla almennar vinnuveitendaskyldur á erlendum sendiráðum gagnvart starfsfólki sem sendiráð ráða til starfa í Danmörku. Þetta felur í sér að starfsfólk skal njóta þeirra lágmarksréttinda sem danskar reglur um almannatryggingar (d. social sikring) kveða á um. Í þessu felst m.a. að sendiráðum sé skylt að greiða svokallað tryggingagjald (ATP – Arbejdsmarkedets Tillægspension) og ber einnig að tryggja starfsfólkið gegn vinnutjóni (d. arbejdsskadeforsikring).

Sendiráðið í London.
    
Lög um framkvæmd Vínarsamningsins eru frá árinu 1964, en samkvæmt upplýsingum breska utanríkisráðuneytisins hefur ekki reynt á ákvæði 33. gr. samningsins fyrir dómstólum og því liggur ekkert fyrir um túlkun þess. Aðrar upplýsingar um ákvæðið fengust ekki frá breska utanríkisráðuneytinu.

Sendiráðið í Osló.
    
Litið er á norska starfsmenn erlendra ríkja/sendiráða í Noregi sem hluta af norskum vinnumarkaði og þar af leiðandi ber vinnuveitanda skylda til að greiða tryggingagjald (n. arbeidsgiveravgift) og einnig að greiða fyrir hönd starfsmanna í eftirlaunasjóð. Reglur þessar gilda almennt um norska starfsmenn í vinnu hjá erlendum sendiráðum í Noregi. Samkvæmt handbók norska utanríkisráðuneytisins getur sendiráð fengið undanþágur frá þeirri almennu reglu að vinnuveitandi standi skil á greiðslum tryggingagjalds og gjaldi í lífeyrissjóð en sú undanþága er háð því skilyrði að lögð sé fram staðfesting á að viðkomandi starfsmaður njóti sambærilegra réttinda í heimalandi sínu. Ef starfsmaður nýtur slíkra réttinda þarf vinnuveitandinn ekki að borga tryggingagjald vegna starfsmannsins.
    Samkvæmt handbók norska utanríkisráðuneytisins, Diplomat in Norway, segir í málsgrein 13.2.1:
    „According to section 2-11 of the National Insurance Act, persons employed in Norway by a foreign State are exempt from membership of the National Insurance Scheme provided that they are not Norwegian nationals.“
    Þegar kemur að staðarráðnu starfsfólki er hins vegar almennt litið svo á að það sé hluti af norskum vinnumarkaði og lúti þar af leiðandi þeim reglum sem þar gilda, sbr. grein 12 úr sömu handbók: „Locally employed personnel, however, are generally subject to Norwegian taxation.“

Sendiráðið í París.
    
Staðarráðnir starfsmenn í erlendum sendiráðum í Frakklandi falla undir franska vinnuréttarlöggjöf. Það þýðir að þeir verða að greiða í lífeyrissjóð og greiða þarf gjald af launum þeirra, sem tryggir þeim m.a. rétt til atvinnuleysisbóta og sjúkratrygginga. Sendiráðin greiða þetta gjald til franskra yfirvalda.

Sendiráðið í Stokkhólmi.
    Meginreglan í Svíþjóð er að staðarráðnir starfsmenn sendiskrifstofa, sem eru sænskir ríkisborgarar eða hafa dvalarleyfi í Svíþjóð, eigi rétt á aðgangi að sænska félagslega kerfinu og njóti þar réttar í samræmi við sænska löggjöf. Í leiðbeiningum sænska utanríkisráðuneytisins til sendiráða er áréttað að úrlendisréttur sendiskrifstofa sé virtur en ítrekað að skv. 41. gr. Vínarsáttmálans beri sendiskrifstofum að virða lög og reglur gistiríkisins. Helstu atriði sem þar koma fram eru eftirfarandi:
    Meginreglan varðandi staðarráðna starfsmenn, sem eru sænskir ríkisborgarar eða með dvalarleyfi í Svíþjóð, er sú að sendiskrifstofa, sem atvinnuveitandi, eigi að greiða framlag atvinnurekanda (s. arbetsgivaravgifter) eða gera formlegt samkomulag við starfsmann um að hann sjái sjálfur um greiðslu opinberu gjaldanna (s. egenavgifter). Gjöldin eru reiknuð út frá heildarlaunum og skattskyldum hlunnindum. Erlendar sendiskrifstofur sem ráða staðarráðið starfsfólk (sænska ríkisborgara eða einstaklinga sem hafa dvalarleyfi í Svíþjóð) ber að skrá sig sem atvinnurekanda hjá skattyfirvöldum, nema sendiskrifstofan hafi samið við viðkomandi starfsmann um að hann sjái sjálfur um að greiða sín framlög, sbr. framangreint. Sé sendiskrifstofa skráð sem atvinnuveitandi og sjái um greiðslu gjalda (s. arbetsgivaravgifter) ber henni að skila skattyfirvöldum, á sérstöku eyðublaði, mánaðarlega eða einu sinni á ári upplýsingum um heildarlaun og framlag atvinnuveitanda (s. skattedeklarationer). Jafnframt ber sendiskrifstofum, hvort sem um er að ræða formlegt samkomulag eða að sendiskrifstofa sjái um greiðslu á framlagi atvinnuveitanda, að skila árlega skýrslu til skattyfirvalda þar sem fram kemur hverjum hafi verið greidd laun á árinu og hversu há þau voru (s. kontrolluppgifter).
    Meðfylgjandi eru leiðbeiningar þar sem reglurnar eru áréttaðar og útlistaðar:
     www.government.se/content/1/c6/07/31/87/d2f71170.pdf.

Fastanefndin í Genf.
    
Í Sviss gildir sú meginregla um staðarráðna starfsmenn fastanefnda sem hafa heimilisfesti í Sviss að þeim er skylt að greiða framlag af launum sínum til hins opinbera sem tryggir þeim lífeyri og greiðslur vegna örorku, tekjutaps og atvinnuleysis. Fastanefndum sem og vinnuveitendum er ekki skylt að greiða framlagið fyrir starfsmenn sína. Starfsmönnum er heimilt að greiða aukaframlag í lífeyrissjóð. Fastanefndirnar geta óskað eftir að starfsmenn þeirra séu slysatryggðir og hvílir greiðsluskylda vegna þess á fastanefndinni.