Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 569. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1156  —  569. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur
um verðtryggð lán íslenskra heimila og fyrirtækja.


    Frá 1. febrúar 2010 hefur neysluverðsvísitalan hækkað um 13,03%. Fastskattavísitalan hefur hækkað um 12,49% á sama tímabili, en það er sú vísitala sem sýnir breytingar á vísitölu neysluverðs að óbreyttum sköttum og gjöldum. Mismunurinn á þessum tveimur vísitölum eru því áhrif skatta og annarra opinberra gjalda ríkisins. Áhrif skatta og gjalda hafa hækkað neysluverðsvísitöluna um rúmt hálft prósentustig á tímabilinu 1. janúar til loka janúar 2013 (0,54%).

     1.      Hve mikið hafa verðtryggð lán íslenskra heimila hækkað síðan 1. febrúar 2010, í krónum annars vegar og prósentum hins vegar, vegna skattahækkana og annarra aukinna álagna af hálfu ríkisins sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs?
    Verðtryggðar skuldir heimilanna námu 95,8% af vergri landsframleiðslu á fyrsta fjórðungi 2010 samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands. Á verðlagi þess árs nema verðtryggðar skuldir heimilanna um það bil 1.430 milljörðum kr. Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa því hækkað sem nemur 6,7 milljörðum kr. eða 0,54% vegna áhrifa hækkunar skatta og gjalda frá 1. febrúar 2010 til loka janúar 2013 miðað við óbreyttan höfuðstól. Höfuðstóll verðtryggðra lána heimilanna hefur lækkað sem hlutfall af vergri landsframleiðslu úr 95,8 prósentustigum í 86,4 prósentustig miðað við ágúst 2012 og nema í þeim mánuði um 1.320 milljörðum kr. Þessi þróun hlýst af nokkrum mismunandi þáttum, m.a. niðurfellingum skulda vegna 110% leiðarinnar og vegna skuldbreytinga og uppgreiðslna heimila á verðtryggðum skuldum.

     2.      Hve mikið hafa verðtryggð lán íslenskra fyrirtækja hækkað síðan 1. febrúar 2010, í krónum annars vegar og prósentum hins vegar, vegna skattahækkana og annarra aukinna álagna af hálfu ríkisins sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs?
    Verðtryggðar skuldir fyrirtækja námu 30,9% af vergri landsframleiðslu á fyrsta fjórðungi 2010 samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands. Á verðlagi ársins 2010 nema skuldir þeirra um 470 milljörðum. kr. Verðtryggðar skuldir þeirra hækkuðu um 2,5 milljarða kr. vegna áhrifa hækkunar skatta og gjalda frá 1. febrúar 2010 til loka janúar 2013. Höfuðstóll verðtryggðra lána fyrirtækja hefur ekki breyst sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá fyrsta fjórðungi 2010 til og með öðrum ársfjórðungi 2012.
    Vísað er jafnframt til svars ráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um skattálögur og höfuðstól íbúðalána frá upphafi árs 2009 til og með ársins 2012 (þskj. 920, 426. mál, sjá: www.althingi.is/altext/141/s/0920.html). Þar er getið um mótaðgerðir ríkisstjórnarinnar meðal annars í gegnum vaxtabótakerfið til að vega á móti þessum áhrifum oglétta greiðslubyrði heimila.