Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 669. máls.

Þingskjal 1207  —  669. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum (rýmkun heimilda, aukið eftirlit, hækkun sekta o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. b laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir sem verða 2. og 3. málsl., svohljóðandi: Fjármagnshreyfingar milli landa vegna innflutnings á erlendum gjaldeyri á innlánsreikning hjá innlendri lánastofnun skulu undanþegnar takmörkunum 1. mgr. Undanþága 2. málsl. tekur þó ekki til fjármagnshreyfinga milli landa þegar greiðandi er innlendur aðili og viðtakandi er erlendur aðili.
     b.      Við 2. málsl. 2. mgr. bætist: hans erlendis.
     c.      Í stað fjárhæðanna „3.000.000 kr.“, „6.000.000 kr.“ og „2.000.000 kr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 6.000.000 kr.; 12.000.000 kr.; og: 4.000.000 kr.
     d.      Á eftir 3. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi erlendur aðili fullnýtt framfærsluheimild samkvæmt ákvæði þessu getur viðkomandi aðili sótt um undanþágu til Seðlabanka Íslands, sbr. 13. gr. o, vegna hækkunar á framfærsluheimild.
     e.      Á eftir orðunum „í eigu einstaklings“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: sem er erlendur aðili.
     f.      Á eftir orðunum „lögum þessum“ í 1. tölul. 3. mgr. kemur: aðrar en vegna vöru- og þjónustuviðskipta.
     g.      Á eftir orðunum „sem ekki“ í 2. tölul. 3. mgr. kemur: eiga að.
     h.      Í stað orðsins „gjaldmiðli“ í 2. tölul. 3. mgr. kemur: gjaldeyri, sbr. ákvæði til bráðabirgða II.
     i.      3. tölul. 3. mgr. fellur brott.
     j.      Á eftir 3. tölul. 3. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Fjármagnshreyfingar vegna greiðslu andvirðis tjónabóta eða arfs sem einstaklingi hefur tæmst við dánarbússkipti.
     k.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Reikningar erlendra fjármálafyrirtækja í innlendum gjaldeyri (Vostro-reikningar) teljast ekki til reikninga hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, sbr. skilyrði 1.–3. tölul. 3. mgr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. c laganna:
     a.      Í stað orðanna „samkvæmt ákvæðum“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: sem undanþegnar eru samkvæmt ákvæðum 13. gr. f.
     b.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: vegna slíkra greiðslna til erlendra aðila.
     c.      Á eftir orðunum „innlendra aðila“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: þar sem innlendur gjaldeyrir er hluti af viðskiptunum.
     d.      Á eftir orðinu „fjármagnshreyfinga“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: sem undanþegnar eru.
     e.      Á undan orðunum „2. mgr. 13. gr. k“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: sem undanþegnar eru skv.
     f.      Við 2. málsl. 3. mgr. bætist: hans erlendis.
     g.      Í stað fjárhæðanna „3.000.000 kr.“, „6.000.000 kr.“ og „2.000.000 kr.“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: 6.000.000 kr.; 12.000.000 kr.; og: 4.000.000 kr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. d laganna:
     a.      Orðin „innlendra aðila“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Á undan orðinu „gjaldeyri“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: erlendum.
     c.      Orðin „nema samkvæmt sérstakri heimild í lögum þessum“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     d.      Á eftir orðinu „úttektir“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: erlends gjaldeyris.
     e.      Á undan orðinu „gjaldeyririnn“ í 1. málsl. 1. tölul. 2. mgr. kemur: erlendi.
     f.      Í stað orðanna „upphæð sem samsvarar meira en“ í 2. tölul. 2. mgr. kemur: allt að jafnvirði.
     g.      Orðin „á kaup- eða úttektardegi“ í 2. tölul. 2. mgr. falla brott.
     h.      Á undan orðinu „gjaldeyrisins“ í 4. tölul. 2. mgr. kemur: erlenda.
     i.      Á undan orðinu „gjaldeyri“ í 3. mgr. kemur: erlendum.
     j.      Í stað orðsins „tveggja“ í 3. mgr. kemur: þriggja.
     k.      Á eftir orðunum „erlendan gjaldeyri“ í 4. mgr. kemur: fyrir allt að 350.000 kr.
     l.      Við 4. mgr. bætist: í þeim tilgangi að nýta þann erlenda gjaldeyri til vöru- og þjónustuviðskipta.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. e laganna:
     a.      Í stað orðanna „arð- og vaxtagreiðslna“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: arðgreiðslna og afborgana vaxta og höfuðstóls.
     b.      Í stað orðanna „tveggja vikna“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: sex mánaða.
     c.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Meðan frestur til að endurfjárfesta er að líða skulu fjármunir skv. 3. málsl. undanþegnir ákvæði 13. gr. l.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. f laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á grundvelli þessa ákvæðis eru háðar því skilyrði að tilkynning um fasteignakaupin hafi hlotið staðfestingu Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
     b.      Við bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
                      Þeim aðilum sem fjárfest hafa með erlendum gjaldeyri í fasteign, sem staðsett er erlendis, fyrir 28. nóvember 2008 er heimilt að endurfjárfesta. Nú eru fjármunir sem losna við sölu eða greiðslu tjónabóta slíkrar fasteignar nýttir í heild eða að hluta til að fjárfesta aftur í annarri fasteign innan sex mánaða og telst það þá endurfjárfesting í skilningi 1. málsl. Meðan frestur til að endurfjárfesta er að líða skulu fjármunir skv. 2. málsl. undanþegnir ákvæði 13. gr. l. Leigutekjur sem innlendur aðili fær af fasteign sinni erlendis er heimilt að nýta til að greiða fyrir rekstrarkostnað af þeirri fasteign þrátt fyrir 13. gr. l. Með rekstrarkostnaði er m.a. átt við greiðslur afborgana af láni sem hvílir á og/eða tekið var vegna kaupa á fasteigninni.
     c.      Við 3. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þeim aðilum sem fjárfest hafa með erlendum gjaldeyri í vélknúnu ökutæki, sem staðsett er erlendis, fyrir 28. nóvember 2008 er heimilt að endurfjárfesta. Nú eru fjármunir sem losna við sölu eða greiðslu tjónabóta slíks vélknúins ökutækis nýttir í heild eða að hluta til að fjárfesta í öðru vélknúnu ökutæki innan sex mánaða og telst það þá endurfjárfesting í skilningi 3. málsl. Meðan frestur til að endurfjárfesta er að líða skulu fjármunir skv. 4. málsl. undanþegnir ákvæði 13. gr. l.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. skal einstaklingum sem eru innlendir aðilar heimilt að kaupa og flytja inn eitt farartæki erlendis frá á almanaksári fyrir allt að jafnvirði 10.000.000 kr. enda sé farartækið ætlað til eigin nota innan lands. Gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á grundvelli þessa ákvæðis eru háðar því skilyrði að tilkynning um kaupin á farartækinu hafi hlotið staðfestingu Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. g laganna:
     a.      Orðin „lántökur og“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir orðinu „lánveitingar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: innlendra aðila til erlendra aðila.
     c.      Við bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu lántökur innlendra aðila hjá erlendum aðilum í erlendum gjaldeyri sem uppfylla eftirfarandi skilyrði vera heimilar:
                  1.      Lánstími sé eigi skemmri en tvö ár.
                  2.      Gjaldeyrisyfirfærslur vegna lánsins séu í samræmi við ákvæði 13. gr. l.
                  3.      Lánasamningar, þ.m.t. allir viðaukar og fylgiskjöl, séu sendir til þess fjármálafyrirtækis sem annast fjármagnshreyfingar, innan viku frá undirskrift slíkra samninga.
     d.      Orðin „lánveitingar og“ í 3. mgr. falla brott.
     e.      Í stað orðanna „til erlendra aðila“ í 3. mgr. kemur: hjá erlendum aðilum.
     f.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Allar skilmálabreytingar sem gerðar eru á lántökum og lánveitingum milli innlendra aðila og erlendra aðila, og aðilaskipti að slíkum kröfuréttindum, teljast ný lántaka og lánveiting í skilningi 1. mgr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. h laganna:
     a.      Í stað orðanna „á milli innlendra og“ í 1. mgr. kemur: til.
     b.      Við 2. mgr. bætist: eða um ábyrgðir sem veittar eru í tengslum við lántökur innlendra aðila hjá erlendum aðilum, sem ekki teljast til tengdra aðila, og uppfylla skilyrði 3. mgr. 13. gr. g.

8. gr.

    Við 13. gr. i laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur sem kveða á um undanþágur frá banni 1. mgr. sem m.a. fela í sér heimild til afleiðuviðskipta á sérstökum markaði. Seðlabankinn getur bundið undanþágur í reglunum skilyrðum sem m.a. lúta að uppruna fjármuna, eignarhaldi fjármuna, tilgangi einstakra fjármagnshreyfinga og eftirliti og upplýsingagjöf til Seðlabankans.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. j laganna:
     a.      Á eftir orðunum „Fjármagnshreyfingar á milli landa“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra.
     b.      Í stað orðsins „reglum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: lögum.
     c.      Í stað orðanna „1. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 2. mgr.
     d.      2. mgr. orðast svo:
                 Með vöxtum skv. 1. mgr. er aðeins átt við vexti af innstæðum í innlendum fjármálafyrirtækjum, áfallna vexti af skuldabréfum sem útgefin eru af innlendum aðilum og vexti af lánssamningum þar sem erlendur aðili er lánveitandi og innlendur aðili lántaki.
     e.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Eingreiðslur og greiðslur vegna gjaldfellinga eða gjaldþrotaskipta teljast ekki til samningsbundinna afborgana í skilningi 1. mgr.
                 Gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa vegna greiðslna samkvæmt ákvæði þessu skulu hafa hlotið staðfestingu Seðlabanka Íslands áður en þær eru framkvæmdar. Seðlabanki Íslands setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. k laganna:
     a.      Í stað orðsins „reglum“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: lögum.
     b.      Í stað orðanna „1. mgr.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 2. mgr.
     c.      Orðin „1. mgr.“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.

11. gr.

    Í stað orðanna „til fjármálafyrirtækis“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. l laganna kemur: á innlánsreikning í eigu þess innlenda aðila hjá fjármálafyrirtæki.

12. gr.

    Í stað orðanna „13. gr. m“ í 1. og 2. mgr. 13. gr. n laganna kemur: 13. gr. l.

13. gr.

    13. gr. p laganna orðast svo:
    Skylt er, að viðlögum dagsektum skv. 15. gr. h, að veita Seðlabanka Íslands allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar svo hann geti fylgst með því að starfsemi aðila sé í samræmi við ákvæði 13. gr. a – 13. gr. o, ákvæði til bráðabirgða II, ákvæði 1. mgr. 8. gr. og önnur ákvæði sem standa í tengslum við takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Seðlabankans. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.
    Þegar takmarkanir samkvæmt ákvæði 13. gr. a – 13. gr. o, ákvæði til bráðabirgða II, ákvæði 1. mgr. 8. gr. og öðrum ákvæðum sem standa í tengslum við takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum eru ekki lengur til staðar, skal Seðlabanki Íslands eyða þeim upplýsingum sem aflað er á grundvelli 1. mgr. þessarar greinar. Það á þó ekki við um gögn er varða meint brot gegn lögum um gjaldeyrismál og upplýsingar sem liggja til grundvallar niðurstöðum rannsókna á meintum brotum.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr., svo sem um skráningar- og tilkynningarskyldu vegna reikninga innlendra aðila í erlendum innlánsstofnunum, framlagningu gagna, almenna upplýsingagjöf og gerð eyðublaða.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. a laganna:
     a.      Við 3. tölul. 2. mgr. bætist: eða reglum sem settar eru á grundvelli hennar.
     b.      Við 7. tölul. 2. mgr. bætist: eða reglum sem settar eru á grundvelli þeirra.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „20 millj. kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 65 millj. kr.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „75 millj. kr.“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 250 millj. kr.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Við 3. tölul. bætist: eða reglum sem settar eru á grundvelli hennar.
     b.      Við 4. tölul. bætist: eða reglum sem settar eru á grundvelli þeirra.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarpið sem hér er lagt fram var einnig lagt fram á 140. löggjafarþingi (731. mál) en hlaut þá ekki endanlega afgreiðslu. Á þingskjali 1492, nefndaráliti með breytingartillögum frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, voru lagðar til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem tekið hefur verið tillit til og gerð er grein fyrir í frumvarpinu. Þá eru einnig lagðar til frekari breytingar en þar komu fram, en þær lúta að framkvæmd við losun takmarkana á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Reglur um gjaldeyrismál sem settar voru í kjölfar hrunsins, í fyrsta sinn 28. nóvember 2008, höfðu það að markmiði að takmarka tímabundið fjármagnshreyfingar á milli landa, sem valdið gætu óstöðugleika í gjaldeyrismálum, á meðan unnið væri að endurreisn íslensks efnahagslífs og fjármálakerfis. Gjaldeyrisviðskipti er tengdust almennum viðskiptum með vöru og þjónustu skyldu hins vegar vera frjáls, nema með örfáum undantekningum í tilfellum þar sem nauðsynlegt er að takmarka viðskipti í því skyni að stemma stigu við sniðgöngu.
    Ýmis fjármagnsviðskipti á milli landa eru hins vegar ekki þess eðlis eða svo stór í sniðum að líklegt sé að þau valdi óstöðugleika, auk þess sem takmörkunum á fjármagnshreyfingum á milli landa og gjaldeyrisviðskiptum fylgir míkróhagfræðilegur kostnaður og óþægindi fyrir borgarana sem ástæða er til að lágmarka. Því geta verið rök fyrir því að heimila fjármagnshreyfingar á milli landa af ákveðnu tagi, annaðhvort með almennri heimild eða með undanþágum. Við mat á beiðnum um undanþágu skal Seðlabankinn vega og meta hagsmuni viðkomandi aðila fyrir veitingu undanþágu annars vegar og þjóðhagsleg áhrif undanþágunnar hins vegar, bæði af hverri undanþágu fyrir sig og því fordæmi sem hún getur skapað. Undanþáguferlið getur verið nokkuð tafsamt og felur óhjákvæmilega í sér kostnað. Þá hefur undanþágubeiðnum fjölgað umtalsvert og málsmeðferðartími þeirra lengst samhliða því.
    Seðlabankinn og fjármála- og efnahagsráðuneytið (áður efnahags- og viðskiptaráðuneytið) hafa talið eðlilegt að endurmeta reglulega þörfina fyrir takmarkanir á einstökum tegundum fjármagnshreyfinga í ljósi reynslunnar af lögum um gjaldeyrismál og reglum Seðlabankans, sem settar voru á grundvelli þeirra uns regluverkið var fært inn í löggjöfina 30. september 2011. Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru árangur slíks endurmats. Þær eru einnig í samræmi við samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu sem gert var í tengslum við lögfestingu reglna um gjaldeyrismál vorið 2011, þess efnis að leitað skyldi leiða til þess að draga úr óþægindum er fylgja framkvæmd gjaldeyrishafta.
    Í frumvarpinu er m.a. tekið mið af veitingu undanþága sl. fjögur ár, eða allt frá setningu reglna nr. 1082/2008, 28. nóvember 2008. Umsóknir um undanþágur gefa vísbendingu um hvaða ákvæði þrengi helst að athafnafrelsi einstaklinga og fyrirtækja að ósekju. Jafnframt hefur verið litið til þeirra sniðgöngumöguleika sem gjaldeyriseftirlitið hefur orðið vart við við eftirlit sitt með framkvæmd laganna. Sniðgönguhættan er ávallt til staðar þegar takmarkanir á tilteknar tegundir fjármagnshreyfinga á milli landa eru rýmkaðar á undan öðrum. Rétt er að hafa í huga að þótt lögum um gjaldeyrismál sé einkum ætlað að takmarka stórar fjármagnshreyfingar getur sniðganga falist í því að safna mörgum smáum hreyfingum sem geta haft mikil áhrif. Jafnframt getur sniðganga, þótt hún sé ekki stór í sniðum, grafið undan virðingu fyrir lögum og reglum og ýtt þannig óbeint undir sniðgöngu þar sem um stærri fjárhæðir er að ræða.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og miða að rýmkun takmarkana eru hækkun framfærsluheimilda, rýmkun endurfjárfestingarheimilda, frekari heimildir til gjaldeyrisviðskipta í tengslum við atvinnustarfsemi og rýmkun á heimild til erlendrar lántöku. Þá er gert ráð fyrir heimild fyrir innlenda aðila til kaupa á farartæki til eigin nota innan lands. Er heimildin takmörkuð við eitt farartæki á almanaksári fyrir allt að jafnvirði 10 millj. kr. Til að koma í veg fyrir misnotkun eru viðskiptin jafnframt háð staðfestingu Seðlabankans. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar allt að jafnvirði 100.000.000 kr. vegna búferlaflutninga séu háð staðfestingu Seðlabanka Íslands.
    Þá er í frumvarpinu einnig lagt til að framkvæmd eftirlits með gjaldeyrisviðskiptum vegna greiðslna vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana verði hert og almenn heimild Seðlabankans til upplýsingaöflunar í þágu eftirlits rýmkuð til samræmis við heimild bankans til að afla upplýsinga í þágu rannsókna. Jafnframt er lagt til að fjárhæðarmörk vegna stjórnvaldssekta sem Seðlabanka Íslands er heimilt að leggja á vegna brota á ákvæðum laganna eða reglum settum á grundvelli þeirra verði hækkuð. Felur það í sér að hámarkssektir á einstaklinga hækka úr 20 millj. kr. í 65 millj. kr. og á fyrirtæki úr 75 millj. kr. í 250 millj. kr. Þá er Seðlabankanum einnig fengin heimild til að beita stjórnvaldssektum í þeim tilfellum þegar brotið er gegn skilyrðum sem sett eru fyrir veitingu undanþága frá takmörkunum laganna.
    Seðlabankinn hefur kannað leiðir til þess að losa um takmarkanir á beinar erlendar fjárfestingar, en samkvæmt áætlun um losun gjaldeyrishafta verður losað um höft á beina erlenda fjárfestingu áður en önnur fjármagnsviðskipti verða gefin frjáls, þegar annar áfangi áætlunarinnar hefst, verði ekki talið óhætt að losa um öll höft í einum áfanga. Ekki er þó lagt til að bein erlend fjárfesting verði heimiluð að þessu sinni. Hins vegar hafa undanþágur verið veittar tiltölulega greiðlega í þeim tilvikum þegar innlend útflutningsfyrirtæki geta rökstutt að aukin erlend starfsemi sé nauðsynleg til að styðja við útflutningsstarfsemi. Að auki kemur til álita að eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri til beinnar fjárfestingar verði beint inn í útboð Seðlabankans þegar fram líða stundir.

IV. Alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með lögum nr. 134/2008, er breyttu lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, var Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að setja reglur, með samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra, til að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/ 2008 er fjallað um hvernig þessi heimild samræmist alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), samþykktir Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) um afnám hafta á þjónustu og fjármagnshreyfingar (e. Codes of Liberalisation of Current Invisible Operations and Capital Movements) og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO).
    Allar breytingar á lögum um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra er varða gjaldeyrishöft hafa verið tilkynntar sameiginlegu EES-nefndinni í samræmi við 45. gr. EES- samningsins. Þá hefur fjárfestinganefnd OECD verið tilkynnt um breytingarnar í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Frumvarpið var upphaflega samið í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu (nú atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti) í samvinnu við Seðlabanka Íslands sem fer með framkvæmd laga um gjaldeyrismál. Það var lagt fram á 140. löggjafarþingi (731. mál), vorið 2012, en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var þá sem nú lagt fram sem liður í áætlun um losun gjaldeyrishafta sem Seðlabanki Íslands birti 25. mars 2011. Frumvarpið, sem hefur tekið nokkrum breytingum frá þeim tíma, var unnið í samvinnu fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Seðlabanka Íslands, að teknu tilliti til breytinga sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði fram á þingskjali 1492.

VI. Mat á áhrifum.
    Frumvarpinu er ætlað að losa um ákveðnar takmarkanir sem lög um gjaldeyrismál setja við fjármagnshreyfingum á milli landa og gjaldeyrisviðskiptum þeim tengdum. Er þar bæði horft til þess að losa um takmarkanir sem gilda um einstaklinga og lögaðila.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til nokkrar breytingar á 13. gr. b í lögunum.
    Í a-lið er lögð til sú rýmkun að fjármagnshreyfingar milli landa vegna innflutnings á erlendum gjaldeyri á innlánsreikning hjá innlendri lánastofnun skuli undanþegnar takmörkunum 1. mgr. Innflutningur á erlendum gjaldeyri, eins og breytingin gerir ráð fyrir, hefur jákvæð áhrif á greiðslujöfnuð. Áhættur fjármálakerfisins af slíku innflæði er eðlilegra að takmarka með öðrum hætti. Vegna sniðgönguhættu og neikvæðra áhrifa á greiðslujöfnuð skal sú rýmkun þó ekki taka til fjármagnshreyfinga milli landa þegar greiðandi er innlendur aðili og viðtakandi er erlendur aðili.
    B-lið er ætlað að taka af allan vafa um að heimildin í 2. málsl. 2. mgr., þar sem kveðið er á um að einstaklingi sem er erlendur aðili sé heimilt að flytja út erlendan gjaldeyri vegna framfærslu, takmarkist við það að fjármunir séu ætlaðir til þess að mæta framfærslu erlenda aðilans erlendis.
    Í c-lið er lagt til að heimild erlendra aðila til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi og flytja út þann erlenda gjaldeyri vegna framfærslu sinnar erlendis verði rýmkuð. Við framkvæmd laga um gjaldeyrismál hefur komið í ljós að fjöldi beiðna um undanþágur frá viðkomandi ákvæði er mikill, þannig að fjárhæð framfærsluheimildarinnar sem er í lögunum er full lág og er því lagt til að hún verði hækkuð.
    Í d-lið er áréttaður sá möguleiki erlendra aðila að hægt sé að sækja um undanþágu samkvæmt almennu undanþáguákvæði 13. gr. o, sbr. 7. gr. laganna, þegar framfærsluheimild hefur verið fullnýtt. Þarf umsækjandi þá að sýna fram á þörf fyrir aukna framfærsluheimild, en með framfærslu er átt við nauðsynleg og eðlileg útgjöld, t.d. kostnað vegna húsnæðis, samgangna, fæðis, fatnaðar, læknisþjónustu o.s.frv.
    Þá er e-lið, líkt og b-lið 1. gr., ætlað að taka af allan vafa um að 4. málsl. 2. mgr., þar sem kveðið er á um heimild einstaklings til að flytja út erlendan gjaldeyri sé um það að ræða að fjármunirnir séu andvirði slysabóta eða arfs sem tæmst hefur við dánarbússkipti, eigi aðeins við um erlenda aðila.
    Í f-lið eru lagðar til breytingar á ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 13. gr. b, en um er að ræða orðalagsbreytingar en ekki efnislegar breytingar á ákvæðinu sem slíku.
    G- og h-lið er ætlað að taka af allan vafa um að erlendir aðilar geti ekki greitt með innlendum gjaldeyri fyrir útflutningsviðskipti með vöru og þjónustu, enda kveður ákvæði til bráðabirgða II á um að útflutningur á vöru og þjónustu fari fram í erlendum gjaldeyri.
    Í i-lið er lagt til að 3. tölul. 3. mgr. 13. gr. b falli brott. Er tilgangur þessarar breytingar að samræma frekar þær heimildir sem erlendir aðilar hafi til að nýta innlendan gjaldeyri til fjárfestinga. Verður kveðið á um undanþágur frá takmörkunum á fjármagnshreyfingar vegna fjárfestinga með slíkan innlendan gjaldeyri í reglum Seðlabanka Íslands.
    Í j-lið er lagt til að bætt verði nýjum tölulið við 3. mgr. 13. gr. b sem verður 4. tölul. Í lögum nr. 127/2011, um breyting á lögum um gjaldeyrismál, tollalögum og lögum um Seðlabanka Íslands, var lögfest það nýmæli að heimilt væri að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir andvirði slysabóta eða arfs sem einstaklingi hefði tæmst við dánarbússkipti, sbr. b- og c-lið 3. gr. laganna. Í lagabreytingunni fólst heimild til handa erlendum aðila til að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir andvirði slysabóta eða arfs sem honum hafði tæmst við dánarbússkipti hér á landi og flutnings þess erlenda gjaldeyris úr landi. Hins vegar er ekki að finna heimild í núgildandi lögum um gjaldeyrismál til handa dánarbúi, tryggingafélagi eða Tryggingastofnun ríkisins, sem eru innlendir aðilar, til að flytja andvirði slysabóta eða arfs í innlendum gjaldeyri inn á reikning erlends bótaþega eða erlends erfingja hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Ákvæðum nýs 4. tölul. er því ætlað að bæta úr þessu og er hér um að ræða undantekningu frá banni 1. málsl. 3. mgr. 13. gr. b.
    Í k-lið er lagt til að við 13. gr. b verði bætt nýrri málsgrein, er verður 4. mgr., þess efnis að reikningar erlendra fjármálafyrirtækja í innlendum gjaldeyri (Vostro-reikningar) teljist ekki til reikninga hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, sbr. skilyrði undanþága 1.–3. tölul. 3. mgr. 13. gr. b. Þetta ákvæði er í samræmi við framkvæmd Seðlabankans á reglum um gjaldeyrismál og síðar lögum um gjaldeyrismál eftir að reglurnar voru lögfestar. Þessi skýring kom áður fram í leiðbeiningum við reglur um gjaldeyrismál og svo athugasemdum í frumvarpi til breytinga á lögunum. Er breytingunni ætlað að taka af allan vafa um þessa skýringu en í henni felst að millifærsla af Vostro-reikningi í innlendum gjaldeyri í eigu fjármálafyrirtækis, sem er erlendur aðili, og á reikning í eigu viðskiptavinar hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, hvort sem hann er innlendur eða erlendur aðili, telst ekki greiðsla sem fer fram með úttektum af reikningi í eigu kaupanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, sbr. skilyrði 1.–4. tölul. 3. mgr.

Um 2. gr.

    Með greininni eru lagðar til nokkrar breytingar á 13. gr. c.
    Með a-lið er lagt til að gjaldeyrisviðskipti, þar sem innlendur gjaldeyrir er hluti af viðskiptunum, vegna fjármagnshreyfinga sem uppfylla skilyrði 13. gr. f, séu heimiluð. Núgildandi lög gera ráð fyrir að einungis fjármagnshreyfingin sé heimil sem leiðir til þess að aðilar sem uppfylla skilyrði 13. gr. f hafa þurft að eiga erlendan gjaldeyri til þess að geta nýtt sér undanþáguna. Þá er b-lið ætlað að taka af allan vafa um að heimild innlendra aðila til kaupa á erlendum gjaldeyri á grundvelli 13. gr. j og 13. gr. k sé háð því skilyrði að gjaldeyrisviðskiptin séu gerð vegna slíkra greiðslna til erlendra aðila.
    C-lið er ætlað að taka af allan vafa um að gjaldeyrisviðskipti vegna vöru- og þjónustuviðskipta milli tveggja innlendra aðila, þar sem einum erlendum gjaldeyri er skipt fyrir annan erlendan gjaldeyri og innlendur gjaldeyrir er ekki hluti af viðskiptunum, séu heimil.
    Í d-lið eru lagðar til breytingar á orðalagi til áréttingar, en breytingarnar fela ekki í sér efnislegar breytingar.
    Með e-lið eru lagðar til breytingar á þeim fjárhæðarmörkum sem gilda um heimild til gjaldeyrisviðskipta vegna framfærslu erlendra aðila erlendis. Um frekari umfjöllun vísast til athugasemda við c-lið 1. gr. frumvarps þessa.

Um 3. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á ákvæði 13. gr. d sem fela í sér breytingar á orðalagi til skýringar og fela því ekki í sér efnislegar breytingar á ákvæðinu. Þó er í j-lið kveðið á um að frestur til að skila ferðamannagjaldeyri, verði ekki af fyrirhugaðri ferð, lengist úr tveimur vikum í þrjár. Þá er breytingu skv. k-lið ætlað að taka af allan vafa um það að heimild sú sem er að finna í 4. mgr. 13. gr. d, og heimilar innlendum aðila sem dvelst tímabundið erlendis, lengur en einn almanaksmánuð en þó ekki lengur en sex almanaksmánuði í senn, að kaupa erlendan gjaldeyri, takmarkist við 350.000 kr. í hverjum almanaksmánuði sem hann dvelur erlendis.

Um 4. gr.

    Í ákvæði 13. gr. e laganna er kveðið á um að aðilum sem fjárfest hafa í framseljanlegum fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri fyrir 28. nóvember 2008 sé heimilt að endurfjárfesta. Með endurfjárfestingu í skilningi ákvæðisins er átt við fjármuni sem losna við sölu eða uppgreiðslu eða falla til vegna arð- og vaxtagreiðslna af slíkum gerningum og nýttir eru í heild eða að hluta til að fjárfesta í hvers konar erlendri fjárfestingu innan tveggja vikna.
    Í a-lið er lagt til fjármunir sem falla til vegna afborgana höfuðstóls teljist endurfjárfesting í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. e líkt og fjármunir sem falla til vegna arð- og vaxtagreiðslna. Hefur ákvæðið ávallt verið skilgreint með þessum hætti, en talið er mikilvægt að taka af allan vafa um þetta.
    Í b-lið er lagt til að heimild 1. mgr. 13. gr. e til endurfjárfestingar verði lengd úr tveimur vikum í sex mánuði. Er því um að ræða töluverða rýmkun frá núgildandi 1. mgr. 13. gr. e. Rökin fyrir rýmkuninni eru einkum þau að gefa aðilum, sem heimild hafa til endurfjárfestingar samkvæmt ákvæðinu, lengri tíma til að ákveða hvort þeir nýti sér heimild ákvæðisins til að endurfjárfesta en ekki síður að gefa þeim aðilum tækifæri á að safna saman endurfjárfestanlegum fjármunum í skilningi ákvæðisins í allt að sex mánuði áður en endurfjárfest er. Þar sem breytingin gerir ráð fyrir því að frestur til endurfjárfestingar sé lengri en sá frestur sem skilaskylduákvæði 13. gr. l kveður á um er lagt til í b-lið að taka af allan vafa um það að fjármagnið sé undanþegið skilaskyldu meðan endurfjárfestingarfrestur er að líða.

Um 5. gr.

         Í a-lið er lagt til að gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á grundvelli 2. mgr. 13. gr. f séu háð því skilyrði að tilkynning um fasteignakaupin hafi hlotið staðfestingu Seðlabanka Íslands. Þá setur Seðlabankinn nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
    Heimild til endurfjárfestingar samkvæmt lögum um gjaldeyrismál hefur eingöngu verið bundin við fjármuni sem losna við sölu eða uppgreiðslu eða sem falla til vegna arð- eða vaxtagreiðslna af fjármálagerningum sem aðili hefur fjárfest í fyrir 28. nóvember 2008. Í b- lið er lagt til að heimild til endurfjárfestingar verði rýmkuð og að aðilum sem fjárfest hafa með erlendum gjaldeyri í fasteign sem staðsett er erlendis verði veitt heimild til að endurfjárfesta söluverðmæti eða tjónabótum af slíkri fasteign í annarri fasteign innan sex mánaða. Við rýmkun takmarkana um endurfjárfestingu þykir nú eðlilegt að láta svipaðar reglur gilda um fasteignir og um framseljanlega fjármálagerninga útgefna í erlendum gjaldeyri, enda sé í báðum tilvikum um að ræða eignir sem fjárfest var í fyrir 28. nóvember 2008.
    Í c-lið eru jafnframt lagðar til breytingar sem veita heimild til endurfjárfestingar á verðmæti sem til fellur vegna sölu eða greiðslu tjónabóta vegna vélknúins ökutækis sem staðsett er erlendis.
    Þá er í d-lið lagt til að einstaklingum sem eru innlendir aðilar verði heimilt að kaupa og flytja inn eitt farartæki erlendis frá á almanaksári fyrir allt að jafnvirði 10.000.000 kr. enda sé farartækið ætlað til eigin nota innan lands. Þá er lagt til að gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á grundvelli málsgreinarinnar séu háð því skilyrði að tilkynning um kaupin á farartækinu hafi hlotið staðfestingu Seðlabanka Íslands. Þá setur Seðlabankinn nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 13. gr. g. Ekki eru lagðar til breytingar á hinu almenna banni á lántökum og lánveitingum á milli innlendra og erlendra aðila, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. g. Hins vegar eru lagðar til breytingar á undantekningum frá því banni, þannig að greint verði á milli annars vegar lánveitinga innlendra aðila til erlendra aðila og hins vegar lántöku innlendra aðila hjá erlendum aðilum, sbr. þá breytingu sem gerð er með a-lið.
    Í b-lið er lagt til að undanþága 2. mgr. 13. gr. g verði einungis bundin við lánveitingar innlendra aðila til erlendra aðila, að uppfylltum fjórum skilyrðum, líkt og kveðið er á um í núgildandi lögum. Núgildandi 2. mgr. 13. gr. g tekur bæði til lánveitinga og lántöku en í frumvarpinu er lagt til að þessu verði skipt upp í tvær aðskildar málsgreinar. Fjallar þá 2. mgr. um lánveitingar en 3. mgr. um lántökur. Er með breytingunni verið að losa um takmarkanir innlendra aðila til að taka lán hjá erlendum aðilum líkt og nánar er lýst í athugasemdum við c-lið greinarinnar.
    Þá er í c-lið lagt til að innlendum aðilum verði veitt heimild til að taka lán hjá erlendum aðilum að uppfylltum þremur skilyrðum, í fyrsta lagi að lánstími sé eigi skemmri en tvö ár, í öðru lagi að gjaldeyrisyfirfærslur séu í samræmi við 13. gr. l og í þriðja lagi að lánasamningar, þ.m.t. allir viðaukar og fylgiskjöl, séu sendir til þess fjármálafyrirtækis sem annast fjármagnshreyfingar, innan viku frá undirskrift slíkra samninga. Í ljósi þess að innlendum aðilum hefur frá hruni reynst erfitt að sækja sér fjármögnun á erlenda lánsfjármarkaði er talið mikilvægt að opna leið fyrir þá innlendu aðila, sem geta fengið lán hjá erlendum aðilum, til að taka slík lán. Ekki er lagt til að neinar fjárhæðartakmarkanir verði á heimild innlendra aðila til að taka lán hjá erlendum aðilum enda fela slíkar lántökur í sér innflæði á erlendum gjaldeyri, en þó er gert að skilyrði að slíkar lántökur séu til a.m.k. tveggja ára.
    Þá eru í d- og e-lið lagðar til breytingar á orðalagi 4. mgr. 13. gr. g laganna. Í breytingunni felst að erlendum aðila er heimilt að fyrirframgreiða lán sem innlendur aðili hefur veitt honum, enda felst í slíkri fyrirframgreiðslu innflæði á erlendum gjaldeyri hingað til lands til skemmri tíma sem hefur jákvæð áhrif á greiðslujöfnuð.
    Með f-lið er verið að taka af allan vafa um að allar skilmálabreytingar, aðrar en framlenging, á lántökum og lánveitingum á milli innlendra aðila og erlendra aðila og aðilaskipti að slíkum kröfuréttindum, teljist ný lántaka og lánveiting í skilningi 1. mgr. 13. gr. g. Skilmálabreyting í skilningi ákvæðisins felur m.a. í sér breytingar á greiðslu afborgana höfuðstóls og vaxta samkvæmt áður umsömdu endurgreiðsluferli, sem og ýmsar aðrar breytingar er varða upphaflega skilmála láns eða lánasamnings. Með aðilaskiptum að kröfuréttindum er átt við kröfuhafaskipti og skuldaraskipti þar sem nýr skuldari kemur í stað þess eldri.

Um 7. gr.

    A-lið er ætlað að taka af allan vafa um það að takmörkun 13. gr. h eigi við um allar greiðslur til erlendra aðila, óháð því hvort gengist er í ábyrgð fyrir greiðslum frá innlendum eða erlendum aðila.
    Í ljósi þess að lagt er til í 6. gr. frumvarpsins að rýmka fyrir lántökum innlendra aðila hjá erlendum aðilum þykir eðlilegt að rýmka jafnframt möguleika innlendra lántakenda til að gangast í eða takast á hendur ábyrgð á endurgreiðslum slíkra lána og mælir b-liður 7. gr. fyrir um slíka undanþágu. Þessi undanþága á eingöngu við um lántökur innlendra aðila hjá erlendum aðilum, þeim ótengdum.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að Seðlabankanum verði veitt heimild til að setja reglur er kveða á um undanþágur frá banni 1. mgr. 13. gr. i við afleiðuviðskiptum þar sem innlendur gjaldeyrir er í samningi gagnvart erlendum gjaldeyri, hvort sem um er að ræða gjaldeyris- eða verðbréfasamning eða sambland gjaldeyris- og verðbréfasamnings eða sambærilegra fjármálagerninga. Mikilvægt er fyrir Seðlabankann að hafa heimild til að setja reglur um undanþágu frá framangreindu banni til afleiðuviðskipta þegar uppgjör þeirra fer t.a.m. fram í innlendum gjaldeyri enda telji bankinn að það ógni ekki stöðugleika í gengis- og peningamálum. Mikilvægt er að taka af allan vafa um að heimild til undanþágu frá banni við afleiðuviðskiptum, þar sem innlendur gjaldeyrir er hluti viðskiptanna, geti náð til þess að sérstakur markaður skapist fyrir slíkar afleiður þar sem þátttaka er háð ákveðnum skilyrðum.

Um 9. gr.

    A–c-liðir 9. gr. þarfnast ekki skýringa en þar er eingöngu um lagfæringar á lagatextanum að ræða.
    Í d-lið er lögð til breyting sem lýtur að skýringum á hugtakinu vextir í greininni. Í gildandi ákvæði 1. mgr. 13. gr. j er kveðið á um að m.a. vextir séu undanþegnir ákveðnum takmörkunum laga um gjaldeyrismál. Í 2. mgr. ákvæðisins segir svo hvað sé átt við með vöxtum skv. 1. mgr. og af orðalagi 2. mgr. má skilja það svo að ákvæði 1. mgr. taki ekki til vaxta af lánasamningum sem innlendur aðili hefur tekið frá erlendum aðila. Við framkvæmd gjaldeyrishafta hefur innlendum aðilum ávallt verið heimilt að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lánasamningum við erlenda aðila og hafa slíkar greiðslur farið fram á grundvelli samningsbundinna afborgana. Ljóst er þó að í allflestum tilvikum felur skuldbinding aðila samkvæmt lánasamningi einnig í sér greiðslu vaxta. Því er lagt til að taka af allan vafa um það að slíkar greiðslur séu heimilar.
    Í e-lið er lagt til að tveimur nýjum málsgreinum verði bætt við 13. gr. j. Fyrri málsgreinin lýtur að því hvað fellur undir samningsbundna afborgun í skilningi ákvæðisins, en reynt hefur á skýringu ákvæðisins í framkvæmd. Hefur ákvæðið ávallt verið skýrt svo að eingreiðsla, greiðsla vegna gjaldfellingar og greiðsla í tengslum við gjaldþrotaskipti falli ekki undir hugtakið samningsbundin afborgun, enda verður ekki séð að slíkar greiðslur rúmist innan hugtaksins afborgun. Það er þó mikilvægt að taka af allan vafa um þetta. Ákvæðið kemur þó ekki í veg fyrir að aðrar greiðslur en þær sem ákvæðið tiltekur falli ekki undir hugtakið samningsbundin afborgun. Þannig er heimildin til að standa við samningsbundnar afborganir fyrst og fremst hugsuð til þess að viðhalda eðlilegu og almennu samningssambandi milli aðila.
    Í síðari málsgreininni er lögð til sú breyting að gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa vegna greiðslna samkvæmt ákvæði 13. gr. j verði að hafa hlotið staðfestingu Seðlabanka Íslands áður en þær eru framkvæmdar. Ljóst er að tilkynningum til Seðlabanka Íslands vegna gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga í erlendum gjaldeyri vegna vaxta- og arðgreiðslna hefur verið ábótavant, þrátt fyrir tilmæli þar um. Þá hafa ákveðnir möguleikar verið til misnotkunar og sniðgöngu sem mikilvægt er að stemma stigu við. Þykir því nauðsynlegt að skilyrða slík viðskipti við staðfestingu Seðlabanka Íslands. Þar sem reynsla hefur skapast á staðfestingarferli Seðlabankans vegna nýfjárfestinga, sbr. 13. gr. m, er gert ráð fyrir að þetta staðfestingarferli verði með svipuðu sniði. Lagt er til að Seðlabanki Íslands setji reglur um framkvæmd ákvæðisins.

Um 10. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæðum 2. mgr. 13. gr. k en í a- og b-lið er um að ræða lagfæringar á lagatextanum en ekki efnislegar breytingar á ákvæðinu. Í c-lið er hins vegar lagt til að orðin „1. mgr.“ í 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. k falli brott. Tilvísun til ákvæðis 13. gr. c í heild er í meira samræmi við þá heimild 2. mgr. 13. gr. k að innlendum aðila sem búsettur er erlendis vegna starfs eða náms sé heimilt að flytja út gjaldeyri vegna launa sem hann hefur aflað hérlendis síðastliðna sex mánuði og eiga gjaldeyrisviðskipti vegna þeirrar fjármagnshreyfingar, sbr. einnig athugasemdir við ákvæði 13. gr. k í frumvarpi að lögum nr. 127/2011. Með þessari breytingu mun innlendur launagreiðandi jafnframt hafa heimild til að eiga gjaldeyrisviðskipti hjá fjármálafyrirtæki hér á landi til að greiða laun til erlends aðila, eða innlends aðila sem búsettur er erlendis vegna starfs eða náms.

Um 11. gr.

    Með lögum nr. 127/2011, um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, tollalögum og lögum um Seðlabanka Íslands, var lögfest skylda innlendra aðila til að skila öllum erlendum gjaldeyri sem þeir eignast, svo sem fyrir seldar vörur og þjónustu, eða með öðrum hætti, til fjármálafyrirtækis hér á landi innan þriggja vikna frá því að gjaldeyririnn komst eða gat komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans, sbr. l-lið 3. gr. laganna.
    Í greininni er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að innlendum aðila beri að skila öllum erlendum gjaldeyri sem hann eignast, svo sem fyrir seldar vörur og þjónustu, eða með öðrum hætti, inn á innlánsreikning í sinni eigu hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Skilaskyldan teldist þannig jafnframt uppfyllt ef innlendi eigandinn skiptir andvirði fjármunanna í innlendan gjaldeyri í gjaldeyrisviðskiptum við fjármálafyrirtæki sem veitir fjármununum viðtöku fyrir hans hönd. Er þetta mikilvægt með tilliti til eftirlits með skilaskyldunni en hún hefur verið hornsteinn þeirra reglna sem í gildi hafa verið og mjög mikilvæg þegar litið er til þess markmiðs sem upphaflega var stefnt að, þ.e. að tryggja stöðugleika gengis íslensku krónunnar og byggja upp gjaldeyrisforða.

Um 12. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á 1. og 2. mgr. 13. gr. n. Lagt er til að hinir tilgreindu aðilar í 1. og 2. mgr. ákvæðisins verði undanþegnir 13. gr. b – 13. gr. l laganna, en ekki einnig 13. gr. m eins og ákvæðið gerir nú ráð fyrir. Rökin fyrir breytingunni eru þau að ástæðulaust er að undanþiggja hina tilgreindu aðila nýfjárfestingarákvæði 13. gr. m þar sem ákvæðið felur í sér undanþágu frá takmörkunum laganna á fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að heimildir Seðlabanka Íslands til að afla upplýsinga vegna lögbundins eftirlits bankans með lögunum verði ekki eingöngu bundnar við upplýsingar er lúta að gjaldeyrisviðskiptum. Mikilvægt er fyrir Seðlabankann að geta óskað eftir annars konar upplýsingum til að bankanum sé unnt að framkvæma lögbundið eftirlit með fullnægjandi hætti. Þannig verða heimildir Seðlabankans til að afla upplýsinga vegna eftirlits þær sömu og að því er varðar rannsóknir vegna meintra brota á ákvæðum laganna.

Um 14. gr.

    Með a- og b-lið greinarinnar er lagt til að Seðlabanka Íslands sé heimilt að beita stjórnvaldssektum í þeim tilvikum þegar brotið er gegn reglum sem settar eru á grundvelli ákvæða 8. gr. og 13. gr. a – 13. gr. n. Liggur fyrir að Seðlabankanum verði veittar heimildir til þess að setja reglur sem veita undanþágur frá takmörkunum laganna og að binda þær undanþágur skilyrðum. Er þessum reglusetningarheimildum ætlað að tryggja framkvæmd með þeim takmörkunum sem lögin kveða á um. Eigi slíkar reglur að hafa varnaðaráhrif er mikilvægt að sekt liggi við brotum gegn þeim.
    Með c- og d-lið eru lagðar til breytingar á núgildandi ákvæði 2. mgr. 15. gr. a laganna um hækkun á þeim fjárhæðarmörkum stjórnvaldssekta sem Seðlabanka Íslands er heimilt að leggja á vegna brota á ákvæðum laganna eða reglum settum á grundvelli þeirra. Er lagt til að sektir á einstaklinga geti nú numið frá 10 þús. kr. til 65 millj. kr. og þá er jafnframt lagt til að sektir sem lagðar eru á lögaðila geti numið frá 50 þús. kr. til 250 millj. kr. Í núgildandi ákvæði er hámark á stjórnvaldssektum einstaklinga 20 millj. kr. en 75 millj. kr. hjá lögaðilum.
    Í lögunum er gert ráð fyrir að hægt sé að ljúka minni brotum með beitingu stjórnvaldssekta en að meiri háttar brot verði kærð til lögreglu. Markmið með beitingu stjórnvaldssekta er að skilvirkni er meiri og kostnaður minni og að slík mál taka oftast styttri tíma en mál sem kærð eru til lögreglu og fara í farveg sakamálarannsókna. Þá er ljóst að til að stjórnvaldssektir nái tilgangi sínum og hafi varnaðaráhrif þurfa þær að vera nægilega háar.
    Með lögum nr. 78/2010 var Seðlabanka Íslands fengið það hlutverk sem Fjármálaeftirlitið hafði áður, þ.e. að rannsaka ætluð brot á lögunum og leggja eftir atvikum á stjórnvaldssektir vegna slíkra brota og tóku fjárhæðir stjórnvaldssekta mið af þeim heimildum sem Fjármálaeftirlitið hefur. Ljóst er að með lögum um gjaldeyrismál hafa verið settar nokkuð víðtækar takmarkanir sem ætlað er að tryggja stöðugleika í gengis- og peningamálum og er Seðlabanka Íslands fengið það hlutverk sem sérfræðistjórnvaldi á því sviði að hafa eftirlit með að slíkar takmarkanir séu virtar. Við eftirlit og rannsóknir Seðlabanka Íslands á meintum brotum gegn lögum um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra hefur komið í ljós að þær fjárhæðir sem hin meintu brot lúta að eru í mörgum tilfellum verulegar og kunna oft og tíðum að skipta hundruðum milljóna króna. Í þessu sambandi verður að líta til þess að eðli og áhrif brota á lögum um gjaldeyrismál er nokkuð annað en eðli og áhrif þeirra brota sem heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að leggja á stjórnvaldssektir fela í sér og upphaflegu fjárhæðarmörkin tóku mið af. Við ákvörðun á fjárhæðum stjórnvaldssekta vegna brota á lögum um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra verður að líta til hins sérstæða eðlis og þeirra almennu áhrifa sem brot á lögum um gjaldeyrismál kunna að hafa fyrir þjóðarbúið. Slík brot geta valdið alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum sem leitt getur til gengislækkunar íslensku krónunnar og dregið á gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Slík áhrif grafa jafnframt undan og tefla í tvísýnu áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem Seðlabanki Íslands birti 25. mars 2011.
    Eins og áður greinir hefur reynsla við rannsókn brota á lögum um gjaldeyrismál leitt það í ljós að fjárhæðir eru oft og tíðum það háar, með tilliti til sektarheimilda laga um gjaldeyrismál, að Seðlabankinn á þess ekki annan kost en að skilgreina brot sem meiri háttar og kæra þau til lögreglu. Slík staða vinnur gegn fyrrgreindum tilgangi laganna um að meiri háttar brot fari til lögreglu en Seðlabankinn ljúki minni háttar málum með beitingu stjórnvaldssekta. Slík staða leiðir einnig til þess að málafjöldi og álag hjá sérstökum saksóknara verður meira en eðlilegt er með tilliti til brotanna. Hækkun sektarheimilda leiðir því til þess að fleiri málum vegna brota á lögunum verður lokið með álagningu stjórnvaldssekta.

Um 15. gr.

    Með greininni er lagt til að brot gegn reglum settum á grundvelli 8. gr. og 13. gr. b – 13. gr. n laganna verði refsiverð skv. 16. gr. laganna. Liggur fyrir að Seðlabankanum verði veittar heimildir til þess að setja reglur sem veita undanþágur frá takmörkunum laganna og að binda þær undanþágur skilyrðum. Er þessum reglusetningarheimildum ætlað að tryggja framkvæmd með þeim takmörkunum sem lögin kveða á um. Eigi slíkar reglur að hafa varnaðaráhrif er mikilvægt að brot gegn þeim séu refsiverð.

Um 16. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum (rýmkun heimilda, aukið eftirlit, hækkun sekta o.fl.).

    Meginmarkmið frumvarpsins er að losa um ákveðnar takmarkanir á fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum milli landa sem komið var á haustið 2008 í kjölfar bankahrunsins. Snýr það einkum að fjármagnsviðskiptum milli landa sem eru ekki þess eðlis eða ekki í þeim mæli að geta valdið óstöðugleika í gjaldeyrismálum landsins. Þá eru í frumvarpinu tillögur um herta framkvæmd eftirlits með gjaldeyrisviðskiptum og um rýmkaðar heimildir Seðlabankans til upplýsingaöflunar í þágu eftirlitsins.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru af fernum toga. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar til rýmkunar á ýmsum ákvæðum er varða heimildir til gjaldeyrisviðskipta, svo sem vegna framfærslu, endurfjárfestinga, erlendrar lántöku og gjaldeyrisviðskipta í tengslum við atvinnustarfsemi. Þá verður innlendum aðilum heimilt að kaupa gjaldeyri til að kaupa farartæki beint frá öðrum löndum til eigin nota innan lands. Er heimildin takmörkuð við eitt farartæki á almanaksári fyrir allt að 10 m.kr. Til að koma í veg fyrir misnotkun eru viðskiptin jafnframt háð staðfestingu Seðlabankans. Í öðru lagi eru lögð til ákvæði sem veita Seðlabankanum heimild til þess að setja reglur um undanþágur frá ákveðnum takmörkunum laganna. Þannig verði Seðlabankanum mögulegt að losa um ákveðnar takmarkanir eins og aðstæður leyfa hverju sinni, en einnig að bregðast við með skjótum hætti komi í ljós að þær undanþágur opni á sniðgöngumöguleika eða misnotkun. Í þriðja lagi er lagt til að eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum vegna greiðslna vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana verði hert og almenn heimild Seðlabankans til upplýsingaöflunar í þágu eftirlits rýmkuð til samræmis við heimild bankans til að afla upplýsinga í þágu rannsókna. Í fjórða lagi eru breytingar er varða sektarákvæði laganna en lagt er til að fjárhæðarmörk vegna stjórnvaldssekta sem Seðlabanka Íslands er heimilt að leggja á vegna brota á ákvæðum laganna eða reglum settum á grundvelli þeirra verði hækkuð. Felur það í sér að hámarkssektir á einstaklinga hækka úr 20 m.kr. í 65 m.kr. og á fyrirtæki úr 75 m.kr. í 250 m.kr. Þá er Seðlabankanum einnig fengin heimild til að beita stjórnvaldssektum í þeim tilfellum sem brotið er gegn skilyrðum sem sett eru fyrir veitingu undanþágu frá takmörkunum laganna.
    Tillögur frumvarpsins varða framkvæmd gjaldeyriseftirlitsins sem er í höndum Seðlabanka Íslands og má gera ráð fyrir að breytingarnar muni létta undir með bankanum í þeirri vinnu og geti þar með lækkað kostnað hans. Sektargreiðslur vegna brota á reglunum renna í ríkissjóð en engar forsendur eru til að meta umfang þeirra í þessu sambandi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð en tekjur af sektargreiðslum gætu hugsanlega orðið hærri.