Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 642. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1267  —  642. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um tillögu til þingsályktunar um að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar
verði lokið á sjötíu ára afmæli lýðveldisins.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið samhliða frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (641. máli).
    Nefndin fékk á fund sinn Ragnhildi Helgadóttur, Hafstein Þór Hauksson, Sigurð Líndal, Skúla Magnússon, Gunnar Helga Kristinsson og Ólaf Þ. Harðarson.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að mikilvægt sé að leiða til lykta það ferli stjórnskipunarumbóta sem hófst í aðdraganda kosninga 2009. Lagt er til að Alþingi kjósi á yfirstandandi þingi fimm manna stjórnarskrárnefnd sem fái það hlutverk að vinna að farsælli niðurstöðu málsins á næsta kjörtímabili sem grundvallist á tillögum stjórnlagaráðs og miði að því að útfæra nánar það frumvarp sem liggur fyrir þinginu með hliðsjón af þeim breytingum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram, athugasemdum Feneyjanefndarinnar og umsögnum sem Alþingi hafa borist við frumvarpið. Lagt er til að nefndin skili stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tillögum sínum fyrir 1. október 2013 og að stefnt verði að því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á sjötíu ára afmæli lýðveldisins árið 2014.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að um málið náist sem breiðust samstaða og leggur því til þá breytingu á tillögugreininni að formaður nefndarinnar verði kjörinn sérstaklega á Alþingi eftir samþykkt tillögunnar og að hann stýri starfi hennar til loka starfstímans.
    Meiri hlutinn leggur til að stjórnarskrárnefndin verði skipuð fulltrúum þeirra þingflokka sem sitja á Alþingi á starfstíma nefndarinnar. Þannig verði nefndin skipuð fulltrúum þeirra fimm þingflokka sem nú eiga sæti á Alþingi. Verði breytingar á þingflokkum eða fjölda þeirra eftir alþingiskosningar 27. apríl nk. hverfi fulltrúar úr nefndinni og nýir taki sæti eftir atvikum. Af þessu leiðir að í upphafi verði kosin sex manna nefnd, þ.e. formaður og fimm nefndarmenn, en fjöldi nefndarmanna eftir kosningar mun ráðast af fjölda þingflokka sem þá verða á Alþingi.
    Meiri hlutinn telur að kjör slíkrar nefndar hafi mikið gildi og sé hluti af því að ná sem víðtækastri sátt um það ferli stjórnarskrárbreytinga sem unnið hefur verið að síðustu ár. Meiri hlutinn telur einnig að með þessari tilhögun sé unnt að mynda brú milli yfirstandandi þings og þess næsta. Stjórnarskrárnefndin fái það mikilvæga hlutverk að vinna að farsælli niðurstöðu málsins á næsta kjörtímabili.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „fimm manna“ í 1. málsl. 2. mgr. falli brott.
     2.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Formaður nefndarinnar skal kosinn sérstaklega út starfstímann og hver þingflokkur á Alþingi skal eiga einn fulltrúa í nefndinni á starfstíma hennar.

Alþingi, 14. mars 2013.



Álfheiður Ingadóttir,


1. varaform.


Magnús Orri Schram,


frsm.



Róbert Marshall.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Oddný G. Harðardóttir.