Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1288  —  239. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um tillögu til þingsályktunar um aðskilnað peningamyndunar
og útlánastarfsemi bankakerfisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásgeir Daníelsson og Lúðvík Elíasson frá Seðlabanka Íslands, Ben Dyson, Richard Werner og Frosta Sigurjónsson.
    Umsagnir hafa borist frá Ben Dyson, Betty Luks, Frosta Sigurjónssyni, fyrir hönd átaksins Betra peningakerfi, Gunnari Tómassyni hagfræðingi, Joseph Huber, Mark Joób, Ólafi Margeirssyni, Peningamálafélagi Íslands, Richard Werner, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og Stephan Zarlenga, fyrir hönd American Monetary Institute.
    Í þingsályktunartillögu þeirri sem hér er til umfjöllunar er lagt til að skipuð verði nefnd sérfræðinga sem kanni hvernig hægt sé að tryggja aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins með því að afnema heimildir banka til útlána umfram lausar innstæður. Í tillögunni kemur fram að í núverandi peningakerfi er innlánsstofnunum heimilt að búa til ígildi peninga með útlánum umfram innstæður. Í raun sé megnið af þeim peningum sem notaðir eru í almennum viðskiptum rafræn innlán sem einkabankar hafa búið til með útlánum umfram innstæður. Mikilvægt sé að gera ráðstafanir á þann veg að Seðlabankanum einum sé heimilt að búa til peninga, hvort heldur þeir séu úr pappír, málmi eða á rafrænu formi.
    Nefndinni hafa borist umsagnir um málið úr ýmsum áttum. Margir umsagnaraðilar telja að framgangur málsins gæti haft jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf en aðrir umsagnaraðilar telja umrædda þingsályktun ekki til þess fallna. Í umsögn frá Seðlabankanum um málið segir m.a.: „Með því að gera slíka grundvallarbreytingu á fjármálakerfinu eins og lýst er í tillögunni er hætt við að margt glatist af efnahagslegum tækifærum sem nú eru í boði fyrir tilstilli fjármálastofnana sem sérhæfa sig í að takast á við grundvallarvandamál lánastarfsemi, þ.e. ýmis vandamál sem felast í ósamhverfum upplýsingum og kostnaðarsömu eftirliti með lántökum.“ Einnig er vakin athygli á því að erfitt geti reynst að gera slíkar breytingar án þess að það sé í alþjóðlegu samstarfi nema því fylgi frekari efnahagsleg einangrun þjóðarinnar. Samtök fjármálafyrirtækja vekja athygli á því í umsögn sinni að skipan fjármálakerfisins hér á landi eigi að taka mið af því sem er að gerast á Evrópska efnahagssvæðinu „bæði vegna skuldbindinga okkar vegna EES og til þess að tryggja sambærilega fjármálaþjónustu hér á landi eins og gengur og gerist á EES svæðinu.“ Því er varað við því að fara af stað með kostnaðarsamar athuganir á kostum og göllum þessara hugmynda.
    Fram hefur komið í umsögnum að núverandi peningakerfi sé rót þess vanda sem leiddi til hrunsins 2008. Óhjákvæmilegar afleiðingar þess að viðskiptabönkum er heimilt að búa til grunnféð í landinu eru sívaxandi skuldsetning hins opinbera, fyrirtækja og almennings, verðbólga og óstöðugleiki. Mat nokkurra umsagnaraðila er að lausn vandans kunni að felast í því að banna viðskiptabönkum að búa til ígildi peninga í formi innstæðna. Slíkur aðskilnaður gæti mögulega lækkað ríkisskuldir um hundruð milljarða og sparað þjóðarbúinu vaxtabyrði upp á tugi milljarða árlega. Einnig var bent á að mikilvægt væri að ráðast í slíka úttekt til að hægt sé að veita svör við því hvers vegna frekar eigi að styðjast við núverandi kerfi í stað annarra möguleika þar sem núverandi kerfi virðist hafa ýmsar óheppilegar afleiðingar eins og fram kemur hjá ýmsum umsagnaraðilum.
    Nefndin hefur farið yfir málið og telur meiri hlutinn rétt að þær hugmyndir sem hér eru kynntar verði skoðaðar frekar af sérfræðingum með því að stofnuð verði sérstök nefnd til að fara yfir málið. Mikilvægt er að sérfræðingar leggi mat sitt á hvort umræddar hugmyndir geti gengið eftir og séu raunhæfar hér á landi, auk þess að staðfesta hvort með aðskilnaði peningamyndunar og útlánastarfsemi sé hægt að ná fram þeim markmiðum sem lagt er upp með í tillögunni. Meiri hlutinn telur einnig mikilvægt að sérfræðingar meti ólíkar útfærslur á aðskilnaði peningamyndunar og útlánastarfsemi viðskiptabankanna (t.d. Chicago Plan og Positive Money) og nýti eins og kostur er þá rannsóknarvinnu og sérfræðiþekkingu sem er þegar til staðar á efninu.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að hér er um að ræða grundvallarbreytingu á skipulagi fjármála- og peningakerfisins og framkvæmd peningastefnunnar og því ólíklegt að af slíku verði í framkvæmd nema að undangengnum ítarlegum fræðilegum rannsóknum og úttektum á framkvæmd breytinganna þar sem miklir hagsmunir eru í húfi og mikilvægt að varlega sé stigið til jarðar í þessum efnum. Í umsögnum hagsmunaaðila um málið hafa einnig komið fram óskir um að gefinn verði lengri tími til að vinna umrædda úttekt. Í ljósi þess hversu viðamikið málið er, eins og rakið hefur verið hér að framan, leggur meiri hlutinn til að sérfræðingahópurinn hafi rýmri starfstíma til að skila niðurstöðum sínum og gerir breytingartillögu á þann veg að felld er út tilgreind lokadagsetning fyrir vinnu nefndarinnar og orðunum „eins fljótt og kostur er“ bætt við.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    
    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd sérfræðinga til að kanna kosti og galla þess að færa peningamyndun frá viðskiptabönkum til Seðlabanka Íslands. Nefndin ljúki störfum eins fljótt og kostur er og ráðherra skili skýrslu til Alþingis um niðurstöður nefndarinnar innan mánaðar frá því að hún lýkur störfum.

Alþingi, 18. mars 2013.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Árni Þór Sigurðsson.



Skúli Helgason.


Eygló Harðardóttir.


Lilja Mósesdóttir.