Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 694. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1294  —  694. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins.


Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



    Alþingi ályktar að samhliða alþingiskosningum 27. apríl 2013, þó aldrei síðar en samhliða sveitarstjórnarkosningum árið 2014, fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort haldið skuli áfram aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Svohljóðandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
    „Vilt þú að Ísland haldi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið og að aðildarsamningur verði borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
    ❏    Já.
    ❏    Nei.“

Greinargerð.


    Formlegar aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins hafa nú staðið yfir frá því í júní 2010. Þær hafa gengið hægar en áætlað var í upphafi. Núverandi ríkisstjórn hefur hægt á viðræðunum fram yfir kosningar hinn 27. apríl næstkomandi. Þær verða vart hafnar af fullum krafti nema skýrt umboð fáist til þess. Ekki hefur komið fram nein efnisleg gagnrýni á niðurstöður í þeim samningsköflum sem þegar liggja fyrir. Skoðanakannanir benda til þess að meiri hluti Íslendinga vilji ljúka viðræðunum en mikilvægt er að þeir sem myndi komandi ríkisstjórn hafi skýrt umboð. Best er að það umboð komi milliliðalaust frá þjóðinni, enda hafa jafnvel landsfundir eða flokksþing flokka sem ekki styðja aðild lýst því yfir að þjóðaratkvæðagreiðslu sé þörf um málið.
    Þótt flutningsmaður telji eindregið að hagsmunum Íslendinga sé best borgið með því að ljúka aðildarviðræðunum á næsta kjörtímabili, m.a. til að fjölga valkostum landsins til framtíðar í gjaldmiðilsmálum, er ljóst að skiptar skoðanir eru innan flestra stjórnmálaflokka um málið. Innan Evrópusambandsins hafa komið upp mikilvæg ný atriði sem valda því að mjög áríðandi er fyrir Íslendinga að loka ekki dyrum á þessari stundu. Nægir þar að nefna nýja sjávarútvegsstefnu sambandsins sem samþykkt verður í ár, viðræður um viðamikinn fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna og yfirlýsingu Camerons um að hann vilji efna til viðræðna um um breytingar á aðildarsamningi Breta. Öll þessi mál geta skipt Íslendinga miklu um langa framtíð.
    Allir flokkar hafa annaðhvort lýst því yfir að viðræðum skuli lokið eða að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um málið. Því er mikilvægt að tímasetja slíka atkvæðagreiðslu og að sem flestir taki þátt í henni til þess að vilji þjóðarinnar birtist á sem skýrastan hátt. Áframhald málsins mun því liggja fyrir á næsta kjörtímabili og draga úr langvarandi deilum um aðildarviðræðurnar meðal stjórnmálamanna og almennings.
    Innan allra stjórnmálaflokka eru skiptar skoðanir um umsóknarferlið. Það hefur sést á yfirstandandi kjörtímabili þegar stjórnarflokkarnir hafa ekki verið samstíga í málinu. Því er eðlilegt að þjóðin ákveði framhaldið í þessu mikilsverða máli og útrými óvissu í stað þess að stjórnmálaflokkarnir semji um það sín á milli í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar. Með þessum hætti væri einnig tryggt að stjórnmálaflokkarnir hefðu meiri tíma til að útskýra vel helstu baráttumál sín í alþingiskosningunum í apríl 2013 og útfærslur þeirra. Evrópumálin væru með þessum hætti tekin út fyrir sviga þannig að kjósendur fengju raunverulegt vald yfir framhaldi málsins. Þá geta kjósendur krafið forustu flokkanna um skýr svör í öðrum mikilvægum málum sem þannig fengju aukið vægi.