Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 25  —  11. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (val stjórnarmanna).


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Lárus Ými Óskarsson, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Ragnar Bragason frá Bandalagi íslenskra listamanna, Viðar Hreinsson frá Hollvinum Ríkisútvarpsins, Björgu Evu Erlendsdóttur og Magnús Geir Þórðarson frá stjórn Ríkisútvarpsins, Björn Malmquist frá starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins og Stefán B. Sigurðsson frá samstarfsnefnd háskólastigsins. Umsagnir bárust frá Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði, Bandalagi íslenskra listamanna, Birni Davíðssyni, Hollvinum Ríkisútvarpsins, Ríkisútvarpinu og starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi fyrirkomulagi tilnefninga í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. Samkvæmt gildandi lögum skipar ráðherra fimm menn og jafnmarga til vara í sérstaka valnefnd til tveggja ára í senn, allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis tilnefnir þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara, Bandalag íslenskra listamanna tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara og samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara. Hlutverk valnefndar er að tilnefna fimm fulltrúa í stjórn félagsins og fimm til vara. Í frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar að í stað þess að stjórn Ríkisútvarpsins sé tilnefnd af valnefndinni tilnefni Alþingi stjórnarmenn í hlutbundinni kosningu.
    Meiri hlutinn bendir á að við upphaf sumarþings hefur ný stjórn ekki verið skipuð í samræmi við lög nr. 23/2013, en samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögunum ber að halda hluthafafund vegna skipunar nýrrar stjórnar innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna, þ.e. fyrir 21. júní nk.
    Ákvæði 9. gr. gildandi laga var sett fram til að stuðla að auknu lýðræði innan stofnunarinnar og lýðræðislegum starfsháttum innan Ríkisútvarpsins. Meiri hlutinn bendir á að valnefndin ber enga ábyrgð gagnvart kjósendum og engin trygging er fyrir því að nýtt fyrirkomulag, sem 9. gr. laganna felur í sér, stuðli að markmiðum laganna eins og þeim er lýst í 3. gr. laganna, þ.e. stuðli að því að félagið þjóni lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum íslensks samfélags. Það er álit meiri hlutans að það fyrirkomulag að fela valnefnd að tilnefna fimm af sjö mönnum í stjórn Ríkisútvarpsins sé ólýðræðislegt og ógagnsætt. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem frumvarpið felur í sér að kjörnir fulltrúar kjósenda á Alþingi séu best til þess fallnir að tilnefna sjö menn í hlutfallskosningu sem verða kosnir í stjórn Ríkisútvarpsins á hluthafafundi. Meiri hlutinn bendir á að við þá tilnefningu verði litið til þekkingar á þeim sviðum er lúta að rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins sem og þekkingar á fjölmiðlum og menningarmálum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 20. júní 2013.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Líneik Anna Sævarsdóttir.


Jóhanna María Sigmundsdóttir.



Vilhjálmur Árnason.


Elsa Lára Arnardóttir.