Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 15. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 73  —  15. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld (innheimta veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju. Þá barst nefndinni umsögn frá Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga.
    Við umfjöllun málsins kom fram að í frumvarpinu voru tekjur vanáætlaðar um 400 millj. kr., þ.e. lækkun vegna skulda vegna kaupa á aflahlutdeild var áætluð 1.800 millj. kr. í stað 1.400 millj. kr. Áætlaðar heildartekjur ríkissjóðs af veiðigjöldunum munu jafnframt lækka um 459 millj. kr. verði ekki tekið sérstakt veiðigjald af kolmunnaafla. Áhrif boðaðs sérstaks veiðigjalds á kolmunna sérstaklega eru alvarleg miðað við afrakstur af kolmunnaveiðum. Við núverandi markaðsaðstæður og boðað sérstakt veiðigjald er ljóst að aflaverðmæti dugar ekki fyrir kostnaði við veiðar og vinnslu á kolmunna. Meiri hlutinn leggur því til að kolmunnaafli verði undanþeginn sérstöku veiðigjaldi samkvæmt lögunum á fiskveiðiárinu 2013/2014.
    Nefndinni bárust upplýsingar um að við samningu frumvarpsins hefðu verið gerð mistök í 2. gr. þess. Þannig væri frádráttur vegna útflutningskostnaðar skv. 7. málsl. 2. efnismgr. b-liðar 2. gr. látinn ná til alls óunnins fisks. Fram kom að frádráttarreglan ætti í raun aðeins að miðast við slægðan botnfisk. Í ljósi þessara upplýsinga leggur meiri hlutinn til breytingu á 7. málsl. 2. efnismgr. b-liðar 2. gr.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr.
     a.      Við 1. efnismgr. b-liðar bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kolmunnaafli er undanþeginn sérstöku veiðigjaldi samkvæmt lögum þessum.
     b.      7. málsl. 2. efnismgr. b-liðar orðist svo: Þegar botnfiskur er seldur ferskur erlendis skal draga frá verði hans 85 kr. á hvert kíló af slægðum fiski vegna kostnaðar við útflutning.

    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. júlí 2013.



Jón Gunnarsson,


form., frsm.


Haraldur Benediktsson.


Ásmundur Friðriksson.



Páll Jóhann Pálsson.


Þorsteinn Sæmundsson.


Þórunn Egilsdóttir.