Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 89, 142. löggjafarþing 20. mál: Seðlabanki Íslands (varúðarreglur, aðgangur að upplýsingum o.fl.).
Lög nr. 92 16. júlí 2013.

Lög um breytingu á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum (varúðarreglur, aðgangur að upplýsingum o.fl.).


1. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
     Seðlabanki Íslands skal stuðla að fjármálastöðugleika.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „lánastofnana“ í 1. málsl. kemur: í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um lágmark stöðugrar fjármögnunar lánastofnana í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum, sbr. 4. gr. Í þeim má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lánastofnana.


3. gr.

     Í stað 2. málsl. 13. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Seðlabankinn skilgreinir hvaða eignir og skuldir skuli telja til gjaldeyrisjafnaðar, sundurliðun þeirra og vægi. Til slíks jafnaðar er heimilt að telja skuldbindingar og kröfur sem tengdar eru erlendum gjaldmiðlum utan efnahags, svo sem framvirka samninga og valréttarsamninga. Í reglum um gjaldeyrisjöfnuð má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lánastofnana.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „skv. 3. og 4. gr.“ í 1. mgr. kemur: og fullnægja eftirliti með reglum sem settar eru samkvæmt lögum þessum.
  2. Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skylt er, að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr., að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Seðlabanka Íslands er heimilt að beita lánastofnanir og verðbréfasjóði viðurlögum í formi dagsekta sem ákveðnar eru samkvæmt reglum sem settar eru af seðlabankastjóra og staðfestar af bankaráði, sbr. 28. gr., hlíti þær ekki reglum bankans um bindiskyldu, laust fé og gjaldeyrisjöfnuð.
  3. Við 2. málsl. 3. mgr. bætist: sbr. 28. gr.
  4. Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  5.      Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðun skv. 2. og 3. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðun leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
         Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum Seðlabankans nema seðlabankastjóri ákveði það sérstaklega.
         Dagsektir sem ákveðnar eru samkvæmt þessari grein má innheimta með aðför, án undangengins dóms. Innheimtar dagsektir samkvæmt þessari grein skulu renna að 3/ 4 hlutum til ríkissjóðs og skulu þær greiddar 1. júní ár hvert fyrir næstliðið ár.


6. gr.

     Orðin „fram til 31. desember 2013“ í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum falla brott.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. júlí 2013.