Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 29. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 98  —  29. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar um ferjusiglingar í Landeyjahöfn.


     1.      Hver er staða útboðs á hönnun og smíði nýrrar ferju til siglingar í Landeyjahöfn?
    Undirbúningur á útboði hönnunar hefur reynst tímafrekari en ráð var fyrir gert, en er nú á lokastigi. Þar sem reiknað er með að ný ferja þjóni samgöngum við Vestmannaeyjar næstu áratugina er til mikils að vinna að ferjan henti aðstæðum við Landeyjahöfn sem best og því nauðsynlegt að vandað sé til verka.

     2.      Hvernig á að bregðast við þeim vanda sem fyrirsjáanlegt er að skapist yfir vetrartímann miðað við núverandi aðstæður?
    Sú staða sem skapast hefur í vetrarsiglingum milli lands og Vestmannaeyja er þekkt. Í samstarfi bæjarstjórnar Vestmannaeyja, Samgöngustofu og innanríkisráðuneytisins er sú staða í stöðugri vöktun. Nefnt hefur verið hvort hægt væri að fá hentugra skip til siglinga yfir veturinn en niðurstaða virðist sú sama og áður; hentug skip liggja ekki á lausu. Þó má nefna að Eimskip, sem sér um siglingar Herjólfs, gerði nýlega tímabundinn samning við ferðaþjónustufyrirtækið Viking Tours um siglingar farþegabáts milli Landeyjahafnar og Eyja. Hér er um nokkra viðbótarþjónustu að ræða í samgöngum milli lands og Eyja og því ber að fagna.

     3.      Hefur verið mætt óskum heimamanna um að Herjólfur sigli í Þorlákshöfn á sumrin þegar ekki gefur til siglinga í Landeyjahöfn?
    Ef útlit er fyrir að nokkrar ferðir í röð falli niður á Landeyjahöfn verður miðað við að siglt verði til Þorlákshafnar.